Gúrúinn Sathya Sai Baba er allur, 84 ára að aldri, en hann hafði fyrir löngu tilkynnt að hann yrði 96 ára. Sai Baba lést í gær á páskadag, en hann er Íslendingum ekki síst kunnur vegna þess að dr. Erlendur Haraldsson reyndi um hríð að rannsaka manninn og svo hefur bók um hann verið þýdd og gefin út á íslensku. Raunar er vitnað í Erlend í Wikipedia-greininni um Sai Baba.
Ótalinn fjöldi manna, þúsundir á þúsundir ofan, töldu að Sai Baba væri lifandi guð - Avatar - og hann óð í peningum og aðdáendum. Hann lét margt gott af sér leiða, kom á fót skólum og sjúkrahúsum o.s.frv. En svo eru þeir sem bentu á aðra hlið á Sai Baba, efasemdarraddirnar og niðurrifsseggirnir.
Þeir sögðu að kraftaverk hans væru greinilega bara ómerkilegar sjónhverfingar en öllu alvarlegri voru þó ásakanir um kynferðislega misnotkun lærisveina hans og barna þeirra! En alvarlegustu ásakanirnar á Sai Baba voru líklega þær að hann hefði látið myrða nokkra af nánustu aðstoðarmönnum sínum 1993, en það mál var aldrei rannsakað!
Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur málið og horfa á umfjöllun BBC, The Secret Swami eða nálgun frænda okkar á Danmarks Radio, Seduced by Sai Baba.
Vantrú stefnir á að halda fyrirlestur með Erlendi Haraldssyni á næstunni og hugsanlega segir hann okkur þá nánar frá kynnum sínum af Sai Baba.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Kristján (meðlimur vantrú) - 28/04/11 00:43 #
Spenntur að sjá þennan fyrirlestur! Leit snögglega yfir hvað hann Erlendur og félagi hans hefðu skrifað margar greinar um umræddann "lifandi guð", þannig að þetta ætti að vera áhugavert.