Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Leikmannaráð vill Jesú í skólana

Marinó Þorsteinsson

Um helgina var Leikmannastefna hjá ríkiskirkjunni. Eitt af því sem kom út úr þessari samkomu var ályktun gegn tillögum Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar. Til að sjá hugsunarháttinn á bak við ályktunina nægir að skoða ótrúlega predikun sem formaður leikmannaráðs flutti á þessari samkomu:

Það er þessi boðskapur um eilíft líf, kærleika, óeigingirni og elsku til náungans sem kirkjan leitast við að flytja öllum sem á hann vilja hlýða. Ekkert má koma í veg fyrir að því verði fram haldið um alla tíð. Það eru samt hindranir á veginum. Til eru þeir sem vilja með öllu mögulegu og ómögulegu móti koma í veg fyrir að þetta takist. Þeir vilja gera boðskapinn tortryggilegan. Vinna gegn þeim sem hann flytja í orði og gjörðum. Það er ekki nóg með það að þeir vilji ekki kenna börnum sínum bænir eða fræða þau um Jesú Krist heldur er líka reynt að koma í veg fyrir að aðrir geri það . - Þetta skynjum við svo vel, sem börn urðum þess aðnjótandi að fá að læra sálma og bænir. Gafst kostur á að kynnast Jesú og eiga hann sem fylginaut upp frá því.

Á vef trúleysingja er stöðugt verið að lasta þjóðkirkjuna og leiðbeina fólki við að segja sig úr henni. Þar hefur meira að segja verið reynt að afflytja kenningar biblíunnar fyrir fermingarbörnin. Í þeim tilgangi að takast megi að sá fræjum efans í huga þeirra. Koma með því í veg fyrir að þau velji það að staðfesta skírnarheit sitt við Jesú Krist. – Já, það er auðvelt að slá um sig með sleggjudómum um kirkju og trú. Sérstaklega vegna þess að trúin á Jesú Krist er persónuleg. Hún byggir á trúarsannfæringu hvers og eins, sem gjarnan byrjar með barnatrúnni, einlægu og sönnu. Hjá sumum heldur trúin áfram að þroskast, en hjá öðrum dofnar hún og blundar um sinn. Það er svo eðlilegt að efast og gleyma í hverflyndi lífsins. Svo varð til að mynda reynsla mín. En seinna á ævinni vaknaði eg til trúar á ný. Það varð ekki einungis til að bjarga mér sjálfum úr bráðum háska og leiða mig úr myrkrinu í ljósið, heldur gaf þessi einlæga trú á Guð mér og mínum nánustu nýtt og innihaldsríkt líf, sem aldrei verður fullþakkað.

Það eru þó ekki skoðanir þessara vantrúarmanna sem mestu máli skipta. Enda er þeim að sjálfsögðu frjálst að hafa þær fyrir sig sjálfa. - Heldur eru það þau neikvæðu áhrif sem þær kunna að hafa á aðra í okkar litla og viðkvæma þjóðfélagi. Ekki síst núna þar sem tortryggnin ræður ríkjum í kjölfar hrunsins. Sérstaklega á þetta við um þá sem af einhverjum ástæðum eru ekki á varðbergi eða eru ekki staðfastir í trúnni. Þessar skoðanir kunna að leiða til þess að það gleymist hvernig við eigum að lifa sem ábyrgar manneskjur, sem í anda kristinnar trúar feta í fótspor Krists og hafa hann sem fyrirmynd. Þær kunna líka að leiða til þess að við gleymum kærleikanum, sem skilur allt og umvefur allt. Gleymum náunga okkar og látum raunir hans okkur í léttu rúmi liggja. Hér er enginn undanskilinn, hvar í þjóðfélagsstiganum sem hann stendur.

Kristið fólk verður ávallt að halda vöku sinni. Við verðum að taka til varnar þegar þess er þörf. Vera óþreytandi í því að leiðrétta rangfærslur. Leiðbeina og upplýsa með kærleika, umburðarlyndi og vináttu. Í þessu er hlutverk leikmanna við hlið prestanna mikilvægt. - Það er svo oft, bæði í mæltu og rituðu máli, skírskotað til hins þögla meirihluta í þjóðfélaginu. Við erum vissulega í meirihluta og eigum að njóta þess, en þessi meirihluti má aldrei vera þögull.

Það er ljóst að í augum formanns leikmannaráðs ríkiskirkjunnar, Marinós Þorsteinssonar, snýst aðsókn kirkjunnar að skólum um að leyfa börnunum að kynnast Jesú. Hann er eflaust ekki eini fylgismaður trúboðs í skólum sem hefur það ruglaða sýn á þau mál að telja það kúgun og aðför að trúfrelsi ef kristni er ekki boðuð í opinberum skólum.

Fólkið sem styður þessa meintu kúgun er síðan bara einhver vondur minnihluti sem lætur það ekki nægja sér að segja börnunum sínum ekki frá Jesú, heldur vill það koma í veg fyrir að önnur börn fái að heyra um Jesú. Marinó virðist ekki skilja að kristið fólk má alveg kenna börnum sínum að fara með bænir og boða þeim kristna trú, opinberir skólar eru bara ekki rétti staðurinn fyrir það, því að börn vondu minnihlutahópanna eru þar líka.

Verstur þessara minnihlutahópa eru síðan trúleysingjarnir, enda mun gagnrýni þeirra valda því að fólk muni breytast í illmenni sem hugsa ekkert um annað fólk.

Ljósmynd Árni Svanur Daníelsson, tekin af flickr síðu kirkjunnar og notuð skv. CC leyfi.

Ritstjórn 06.04.2011
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/04/11 16:21 #

Það er ekki nóg með það að þeir vilji ekki kenna börnum sínum bænir eða fræða þau um Jesú Krist heldur er líka reynt að koma í veg fyrir að aðrir geri það .

Þetta er bæði rétt og rangt hjá Marinó. Ég vil svo sannarlega koma í veg fyrir að aðrir kenni mínum börnum bænir og fræði þau um Jesús ef sú fræðsla er í formi boðunar.

Ég vil ekki koma í veg fyrir að annað fólk kenni sínum börnum bænir eða boði þeim trú.

Því vil ég ekki að boðun trúar fari fram í leik- og grunnskólum. Hún á heima í kirkjum og á heimilum. Jafnvel þó mér hugnist hún ekki get ég hvorki né vil koma í veg fyrir slíkt.

Ég velti stundum fyrir mér hvort Marinó og hitt ríkiskirkjufólkið gerir sér grein fyrir muninum á þessu.


Halla Sverrisdóttir - 06/04/11 16:24 #

Hlekkurinn á ályktunina virkar ekki.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/04/11 16:26 #

Takk fyrir ábendinguna. Hlekkurinn virkar núna.


Halla Sverrisdóttir - 06/04/11 16:30 #

Af ályktuninni mætti ætla að ályktun Mannréttindaráðs snúist fyrst og fremst og nánast eingöngu um fermingarfræðsluferðirnar og leikmannaráðið sér enga ástæðu til að taka afstöðu til hugmyndafræðilegra þátta ályktunar Mannréttindaráðs, um hlutverk skóla og heimilis. Afar selektív afstaða, svo ekki sé meira sagt.


Arnar - 06/04/11 17:09 #

Það er ekki nóg með það að þeir vilji ekki kenna börnum sínum bænir eða fræða þau um Jesú Krist heldur er líka reynt að koma í veg fyrir að aðrir geri það .

Ég skil þetta þannig að þeir vilji fá að 'fræða' börnin mín um það sem ég sjálfur vill ekki 'fræða' þau um. Eða er ég eitthvað að misskylja?


Þórður Grétarsson - 06/04/11 17:15 #

Tilvitnun: "Á vef trúleysingja er stöðugt verið að lasta þjóðkirkjuna og leiðbeina fólki við að segja sig úr henni. Þar hefur meira að segja verið reynt að afflytja kenningar biblíunnar fyrir fermingarbörnin. Í þeim tilgangi að takast megi að sá fræjum efans í huga þeirra." Tilvitnun lýkur

Ég hætti seint að undrast það hversu ofboðslega kirkjunar menn óttast þessa pínulitlu hópa sem félög eins og Siðmennt og Vantrú eru.

En hafi menn slæman málstað að verja ....


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 06/04/11 17:33 #

Arnar, ég skildi þetta þannig að hann sé að segja að það sé verið að koma í veg fyrir að aðrir "fræði" börnin sín um Jesú, en túlkunin þín gæti vel verið rétt.

Að hugsa sér, þetta vonda fólk vill koma í veg fyrir að börnin þeirra fái að heyra um Jesú frá öðrum!


Halldór L. - 06/04/11 20:35 #

Þeir vilja gera boðskapinn tortryggilegan.

Hah, einhver var rúmum tvöþúsund árum fyrri til.

Það er ekki nóg með það að þeir vilji ekki kenna börnum sínum bænir eða fræða þau um Jesú Krist heldur er líka reynt að koma í veg fyrir að aðrir geri það .

Það er sem sagt regla að það þurfi að bera fram einhver svona ósannindi, hvort sem það er undir rós eða ekki, varðandi tillögur mannréttindaráðs?

Þar hefur meira að segja verið reynt að afflytja kenningar biblíunnar fyrir fermingarbörnin.

Ætli sé verið að meina þessa grein?

Já, það er auðvelt að slá um sig með sleggjudómum um kirkju og trú.

Þarna hló ég næstum upp hátt, eftir því sem ég hef lesið af greinum presta og því sem ég man úr kristinfræðinni og fermingarfræðslunni virðist kirkjan taka grynnst á Biblíu og co.

Vera óþreytandi í því að leiðrétta rangfærslur.

Bwahaha! Þarna skellti ég í alvörunni upp úr.

Við erum vissulega í meirihluta og eigum að njóta þess,

Ógeðfellt, og einungis nokkrum setningum áður hafði verið skrifað um kærleika og umburðarlyndi.


Ferdínando - 12/04/11 14:48 #

Djöfulsins nasistar eru þetta!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/04/11 15:03 #

Æi, förum sparlega með n-orðið!


Ferdínando - 13/04/11 00:44 #

Satt og rétt, við viljum nú ekki fara að móðga trúað fólk, það er nú einu sinni svo kurteist við okkkur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.