Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guð er ekki hér (né annarsstaðar)

Barnsaugu

Ég hef áður rætt um þá augljósu staðreynd að guð sé ekki til, og ef hann er til þá er hann asni. Flestir þeir sem á annað borð þakka guði fyrir allt gott sem gerist virðast einfaldlega snúa blindu auga að öllu því slæma sem gerist í heiminum. Sumir reyndar eru tilbúnir að túlka slæma hluti sem órannsakanlega vegi guðs, og ég veit satt best að segja ekki hvor túlkunin mér þykir verri.

Það er endalaust hægt að benda á dæmi um hræðilega hluti sem algóður guð hefði með réttu áttu að koma í veg fyrir. Á dögunum rakst ég þó á mjög persónulegt dæmi. Lestur þess gerði mig bæði reiðan og pirraðan. Eftirfarandi texti er tekin úr bókinni Verndum þau, bls. 32:

12 ára gömul stúlka sagði frá því að hún væri alveg hætt að trúa á guð og ætlaði ekki að láta ferma sig, hún hataði guð. Þetta sagði hún í skólanum í umræðu um fermingar. Þegar rætt var við stúlkuna einslega og hún beðin að útskýra betur hvað hún hefði átt við með tali sínu sagði hún: „Ég hætti að trúa á guð fyrir nokkrum árum. Þegar ég var lítil bað ég guð alltaf um að stjúpi minn kæmi ekki inn til mín á nóttunni en guð hjálpaði mér aldrei því hann kom alltaf. Ég bað og bað um að fá að sofa eina rólega nótt þegar mamma var að vinna en guð hjálpaði mér aldrei. Þá hætti ég að biðja bænirnar mínar því það þýddi ekki neitt. Guð er ekki til, ég hef sönnun fyrir því,“ sagði stúlkan og bætti við: „Ef guð hefði raunverulega verið til hefði hann hjálpað stelpu eins og mér sem bað svona fallega.“

Ofbeldi gegn börnum snertir viðkvæma taug hjá flestum heilbrigðum einstaklingum, og þá sérstaklega þeim sem eiga sjálfir börn eins og ég. Það sem stakk mig þó mest við lestur þessarar harmsögu, er hið innbyggða hjálparleysi sem börnum er innrætt með trúnni. Börnum er kennt að Jesú sé vinur þeirra sem er alltaf hægt að tala við. Ef einhver vill mótmæla og segja að slíkt tal eigi ekki að taka bókstaflega, hvet ég þann hinn sama til að heimsækja kirkju með barninu sínu næst þegar leikskólinn fer þangað.

Í þessu tilfelli setti stúlkan allt sitt traust á uppskáldaða veru sem getur engum hjálpað, en hún trúði því í einlægni að guð myndi hjálpa henni. Það er stundum sagt að trúarbrögð séu mönnum andleg hækja og jafnvel nauðsynleg sem slík, en þarna var trúin augljóslega orðin fjötur um fót og það er hrikalegt til þess að hugsa að stúlkan skyldi ekki segja neinum frá misnotkuninni því hún var alltaf að bíða eftir því að guð myndi grípa inní. Börn eiga flest mjög erfitt með að segja frá því þegar þau eru misnotuð, en vinir þeirra eru oftast þeir sem fyrstir heyra af því. En þegar vinurinn er ekki til í raunveruleikanum eru litlar líkur á að einhver sem raunverulega getur hjálpað muni nokkurn tíman heyra af vandamálinu.


Greinin birtist upprunalega á bloggi höfundarins

Siggeir F. Ævarsson 27.01.2011
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Árni - 27/01/11 19:26 #

Ég er hjartanlega sammála þessum pistli þínum. Varðandi hins vegar þessa margumtöluðu “von” þess efnis að það sé eitthvað eftirlíf þá er það tvíeggjað sverð í mínum huga. Ég t.d. hvorki trúi né vona að það sé eftirlíf, einfaldlega vegna þess að mig langar ekkert til að lifa að eilífu, og svo á hinn bóginn þá þekki ég mjög marga sem eru mér mjög kærir sem mundu aldrei fara á “réttan” stað í eftirlífinu, og hvernig á ég þá að geta notið þess að lifa í einhverri skýjaborg vitandi af ættingjum og vinum kveljast í svokölluðu helvíti ?

Svo er eitt annað sem kemur fram í athugasemd #1, það er að segja að fólk fer að kenna sjálfu sér um ef bænum er ekki svarað, hugsanlega sé beðið vitlaust eða eitthvað álíka. Í mínum huga er þetta bara rugl, ef guð er til og er alvitur þá þarf ekki að orða bænina á einhvern hárréttan máta til að hún skiljist.

(setti þessa athugasemd einnig á upprunalegu grein höfundar á síðu hans)


Árni - 27/01/11 19:27 #

Þessi athugasemd #1 sem ég vísa í er af upprunalegu síðunni, það væri kannski best að henda út þessum kommentum mínum tveim og ég kæmi með nýtt?


Siggeir F. Ævarsson (meðlimur í Vantrú) - 27/01/11 19:46 #

Tja, ég svaraði þér þeim megin amk til að halda samhenginu.


Halldór Carlsson - 06/02/11 12:46 #

hef sjaldan séð barnalegri þversögn:

,,þá augljósu staðreynd að guð sé ekki til, og ef hann er til þá er hann asni .."

1) þú veist ekkert hvort guð er til 2) það er hæpið ,,staðreynd" að guð sé til og kannski til, á sama tíma.

ég efast um tilvist guðs.

en þetta er bara smákrakkalegt


Siggeir F. Ævarsson (meðlimur í Vantrú) - 06/02/11 16:06 #

Sæll Halldór.

Ég kem ekki auga á þessa meintu þversögn í stílbragði mínu þar sem ég geri lítið úr meintri tilvist guðs. Að auki er þessi setning einnig linkur á gamlan pistil eftir sjálfan mig þar sem ég útskýri mjög nákvæmlega hvað ég er að fara með þessari fullyrðingu.


Halldór Carlsson - 07/02/11 00:34 #

þversögnin er sú sama og Sykurmolarnir notuðu - í háði - í laginu Deus:

,Deus does not exist/ but IF he does ..' osfrv :)

ég er trúlaus. eða: trúheftur - mér er fyrirmunað að trúa. get það ekki (þó ég hafi meir að segja reynt þegar ég var yngri - af því að AA-samtökin sögðu mér að það væri voða, voða mikilvægt .. )

en mér dettur ekki í hug að tala um þá ,,staðreynd " að guð sé ekki til, bara vegna þess að margt illt fyrirfinnst í heiminum.

það veit enginn hvort guð er til. kannski erum við bara míkrófruma í rassinum á maur, sem höldum að við skiljum meir en við gerum --


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 07/02/11 10:01 #

Þetta er engin þversögn. Skilyrðissetning getur verið sönn, þó að forliður hennar sé ósannur.

„Ef Guð væri til, þá væri hann asni“ getur vel verið sönn setning þó að Guð sé ekki til.


Hc - 07/02/11 10:21 #

Guð er ekki til? en samt kannski? rugl


gös - 07/02/11 11:38 #

Halldór, gullfiskar ráðast ekki á fólk, en ef þeir gerðu það væri ekki hægt að hafa þá sem gæludýr.


Ásgeir - 08/02/11 08:22 #

Ég hef bara aldrei áður hitt á mann sem ekki skilur orðið „ef“.


Halldór Carlsson - 09/02/11 12:48 #

hm - ég hef aldrei áður skrifast á við fólk sem sér ekki mun á ,,ef hann er" og ,,ef hann væri".

það stendur: ,,staðreynd að guð sé ekki til, og ef hann er til þá er hann asni."

ergó: gullfiskar ráðast ekki á fólk, en ef þeir gerA það .. "

meiri vantrúðarnir


Ásgeir - 09/02/11 13:46 #

Halldór, smávægileg málfarsvilla er ekki þversögn.

Meiri hrokagikkurinn.


Siggeir F. Ævarsson (meðlimur í Vantrú) - 09/02/11 15:39 #

Sjaldan eða aldrei hef séð jafn smásmugulegar hártoganir og þessar, og hef ég séð margt á internetunum.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 10/02/11 19:03 #

Tók síðustu fjórar athugasemdirnar út, þar sem þær vörðuðu efni greinarinnar ekki neitt.


Hc - 12/02/11 23:29 #

bíddu: af hverju hentirðu aths. sem varðaði efni greinarinnar beint:

ef hann ER, þýðir ekki það sama og ef hann VÆRI.

sérstaklega ekki þegar það er í þessu samhengi:

,,Guð er ekki til, en ef hann er til, þá .." bla bla bla

mikill munur á, og hefur EKKERT með ,,smávægilega málfarsvillu" að gera, heldur dilemmu. mótsögn í sjálfu sér.

ekki ritskoða burt það sem hentar þér ekki


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/02/11 23:42 #

Gerði ekkert slíkt. Skoðaðu athugasemdahalan betur.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 13/02/11 13:20 #

Þetta er ekki það sama, það er rétt. En merkingu textans mátti augljóslega skilja af samhenginu, nema lesskilningi manns sé verulega ábótavant eða viðkomandi sé troll.

Af hverju ertu að gera svona mikið úr smáatriði sem skiptir engu máli? Það er augljóslega engin þversögn, heldur smávægileg villa sem breytir næstum engu.


Aldís B - 05/02/12 13:06 #

Guð er hér (og alls staðar) Ég skora á þig, Siggeir, að gera á þessu vísindalega könnun og biddu(eins og ég, gerði 31 árs - nær andvana af harmi): “Guð, fyrirgefðu frekjuna, en sannaðu að þú ert til.” Fáeinum dögum síðar tjáði Guðrún Ás, leikkona, mér að Örn nokkur Ómar,Íslandsmeistari í glímu, hefði hringt í sig frá Noregi til að segja henni (GÁ)frá því að þegar hann hefði legið á bæn deginum áður hefði Guð lagt honum á hjarta að biðja fyrir einhverri “Aldísi” svona: “Bið þú fyrir hjarta Aldísar að það læknist” og síðan, að bæn sinni lokinni, sagðist Örn Ómar hafa séð í sýn hvernig hjarta umræddrar Aldísar (sem er ég), er var klofið í tvennt, varð heilt. Hvernig gat ég þá annað en trúað, Siggeir, þá þar með var komin óræk sönnun? Svo ég endurtek, gerðu slíkt hið sama og vittu hvað gerist! PS.: Og hvað varðar stúlkuna tá arna, ef þú skyldir vita hvað hún heitir, þá vildi ég svo gjarnan fá að tala við hana og segja henni mína sögu, alla – sem fyrir löngu hefur fengið hamingjusamlegan endi, henni til hughreystingar sem og sönnunar um að Guð elskar hana og hjálpar henni, alveg eins og mér forðum.


Siggeir F. Ævarsson (meðlimur í Vantrú) - 05/02/12 14:11 #

Aldís, þú ert sem sagt að segja mér að guð sé til en hann hjálpi bara sumum og bara stundum? Auðvitað veit ég ekki nafnið á þessari veslings stúlku, en ef guð elskar hana og hjálpar henni eins og þú segir, þá er þessi guð meira en lítið skrítinn.


Halldór L. - 05/02/12 17:31 #

Svo að þú hafðir samband við guð svo að hann gæti haft samband við Örn svo að hann gæti haft samband við Guðrúnu svo að hún gæti haft samband við þig um að Örn hafi haft samband við guð?

Afar vísindaleg könnun að tarna.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.