Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um Guð eftir Jonas Gardell

Forsíða

Í jól komu út tvær bækur sem gagnrýndu trúarbrögð, Ranghugmyndin um guð og Þú sem ert á himnum, en eins og venjulega komu nokkrar bækur þar sem trúmenn skrifa um ágæti eigin trúar. Ein þeirra var íslensk þýðing á Um Guð eftir Jonas Gardell.

Ég hef séð tvo presta ríkiskirkjunnar mæla með þessari bók, annar þeirra fullyrti meira að segja að í henni sé svarað „árásum þeirra vantrúarmanna sem lesa Biblíuna með augum bókstafstrúarmannsins og neita að horfast í augu við hið sögulega samhengi hlutanna#. Auk þess hefur höfundurinn víst fengið heiðursdoktorsnafnbót í guðfræði hjá háskólanum í Lund fyrir þessa bók. Þannig að það mætti ætla að það væri eitthvað vit í þessum Jonasi, en hver er hann eiginlega?

Jonas Gardell

Í bókinni fær maður nokkra innsýn í bakgrunn Jonasar, hann segist hafa alist upp í íhaldssamri baptistakirkju [1]. Hann talar oft um það þegar mamma hans var að segja honum frá því hvað guð væri frábær náungi. Jonas er líka samkynhneigður og einhvern tímann virðist honum hafa verið meinaður aðgangur að einhverri kirkju vegna þessa.

Um Guð

Bókin sjálf er alls ekki löng, 230 bls. og ekki mjög mikið á hverri síðu. Í bókinni fer Jonas í gegnum Gamla testamentið og segir frá öllum helstu hugmyndum um guð sem þar er að finna auk þess sem hann kryddar þetta með sínum eigin trúarskoðunum.

Það er ágæt hugmynd (og hefur áður verið framkvæmd), en útkoman er svolítið ruglingsleg. Hann fer stundum fram og aftur í Gamla testamentinu í staðinn fyrir að klára bara ákveðnar hugmyndir eða bækur og ég fékk það oft á tilfinninguna að hann væri einfaldlega að endurtaka sama efnið. Einstaka sinnum er líka óljóst hvort hann sé að lýsa eigin skoðunum á efninu (sem byggjast oftast á því sem hann hefur lesið hjá fræðimönnum) eða þá bara að endursegja sögur úr biblíunni.

Góða hliðin

Góða hlið bókarinnar er sú að Gardell hefur lesið eitthvað eftir alvöru fræðimenn á þessu sviði [2] og endurtekur ýmislegt sem fólki þykir eflaust áhugavert og er ekki líklegt að prestar upplýsi fólk um. Sem dæmi má nefna umfjöllun um uppruna Jahve sem einn af mörgum guðum og alls ekki æðsti guðinn, sköpunarsögur sem snúast um að bardaga Jahve við ófreskjur, að innrásin í Kanaan gerðist ekki og fleira í þeim dúr.

Jonas er líka heiðarlegur þegar það kemur að ljótu hliðum biblíunnar. Hann viðurkennir að guð Gamla testamentisins er oft viðbjóðslegur. Maður á seint eftir að heyra fólk sem fær borgað fyrir að dásama guð biblíunnar viðurkenna að hann sé „guð tortímingar, morða og þjóðarmorða“ og „guð þjóðernishreinsana“ (bls. 88). Ólíkt íslenskum atvinnutrúmönnum viðurkennir Jonas að innrásin í Kanaan er lýst sem heilögu landvinningastríði (bls 87).

Í þau örfáu skipti sem hann minnist á Jesú er hann líka mjög heiðarlegur, hann viðurkennir að Jesús hafi líklega trúað að heimsendir hafi verið í nánd og að í Markúsarguðspjalli verður Jesús sonur guðs við skírnina.

Slæma hliðin

Slæma hlið bókarinnar birtist að mínu mati þegar Jonas hættir að vera milliliður fyrir það sem hann hefur lesið hjá fræðimönnum og fer að segja frá sínum eigin trúarskoðunum. Það má eiginlega endursegja aðalpunkt Jonasar svona:

Í biblíunni eru margs konar myndir af guði. Þær eru mjög mótsagnakenndar. Sums staðar er hann viðbjóðslegur hrotti, annars staðar góður. Staðirnir þar sem guð er góður eru réttir af því að þannig sagði mamma mín mér að guð væri.

Jonas bendir réttilega á að það er ákveðin mótsögn á milli hugmynda manna um guð í ýmsum ritum spámanna og hins vegar Mósebókunum. Í þeim fyrrnefndu er lögð áhersla á siðlega breytni en ekki fórnarathafnir, þvert á það síðarnefnda. En Jonas seilist allt of langt þegar hann segir að hjá spámönnunum hafi verið einhver krúttlegur guð eins og mamma hans sagði honum frá:

Herskái, bráði, stríðselskandi guðinn er víðs fjarri [hjá spámönnunum] og í hans stað stígur fram guð sem vill félagslegt réttlæti og samhug. (bls 155)

Hann virðist reyndar segja það síðar í bókinni að þetta sé rangt:

Spámennirnir sem aðra stundina prédika um eilífan frið, náungakærleika og baráttuna gegn félagslegu ranglæti, geta í næstu andrá velt sér upp úr blóðugri hefnd.(bls 226)

Það er mjög vafasamt að segja að guð sem vill „félagslegt réttlæti og samhug“ en ekki dýrafórnir skuli ekki líka geta verið mjög sáttur við heilög stríð og þjóðarhreinsanir, sjálfur segir Gardell að hjá aðalspámanninum hafi guð einmitt beitt því meðali:

Herskáu stórveldin sem tortímdu, brenndu og réðust aftur og aftur á ríkin tvö voru kylfurnar sem Jahve beitti til að refsa, aga og ala upp þjóð sína.(bls 150)

Guð spámannanna virðist bara vera „herskár, bráður og stríðselskandi guð“ sem vill líka félagslegt réttlæti og samhug. Því miður fyrir Jonas, þá eru spámennirnir ekki að boða eitthvað sem við myndum kalla góðan guð, sú hugmynd kemur ekki frá Gamla testamentinu heldur frá öðrum stað.

Hroki hins frjálslynda trúmanns

Jonas minnist oft á það hvernig mamma hans talaði um guð, og þar er aðal mótsögnin. Hún er ekki á milli hugmyndum manna um guð í Mósebókunum, Jósúabók og Dómarabókinni annars vegar og hugmyndum spámannanna um guð hins vegar. Mótsögnin er á milli þeirra hugmynda sem biblían birtir af guði og þeirri sem Jonas lærði um sem barn. Þessi guðsmynd er klárlega í mótsögn við Gamla testamentið (og reyndar líka það nýja):

Elsku litli Jonas, ormurinn þinn, litla bjallan þín: Guð er alltaf hjá þér, hann mun alltaf elska þig hvað sem gerist og hvað sem þú gerir – hann mun aldrei yfirgefa þig. (bls 230)

Jonas virðist gera sér grein fyrir því að hugmyndir manna af guð í biblíunni voru algerlega tilbúningur manna, guð sá ekkert athugavert við þjóðarmorð af því að þeir sáu ekkert athugavert við þjóðarmorð. Þess vegna er það ótrúlega undarlegt að Jonas virðist ekki gera sér grein fyrir því að hugmyndir hans um ofurgóðan krúttguð er algerlega afsprengi hugmynda nútímans. Það er í sjálfu sér ekkert voðalega slæmt, bara dæmigerð sjálfsblekking innan trúarbragða, að skapa guð í sinni eigin mynd. Það sem er hins vegar verra er hrokinn sem Gardell sýnir öðrum sem hafa aðrar hugmyndir um guð. Hann segir að þeir séu „fávísir“ (bls 224) og hann segist „vita“ að þeir hafi rangt fyrir sér. Hann væri ef til vill skilningsríkari ef þeir myndu segja honum að mamma þeirra hefðu sagt þeim að guð væri vondur þegar þeir voru litlir.

Hvorki mjög gott né mjög slæmt

Það er erfitt að mæla með þessari bók, ég myndi miklu vilja mæla með bók sem það væri einfaldlega almennileg og hnitmiðuð kynning á aðalatriðum þeirra trúarhugmynda sem birtast í Gamla testamentinu. Ég veit bara ekki til þess að það sé neitt svona rit til á íslensku. Ef maður vill endilega lesa á íslensku þá er þetta ef til vill besta (og hugsanlega eina) bókin sem fjallar um þetta, en ef maður getur sætt sig við ensku þá eru til betri bækur.


[1] Hann er á einum stað kallaður „fríkirkjustrákur“, sem hljómar mjög undarlega miðað við íslenskar aðstæður.
[2] Í heimildakaflanum eru þó bara 35 bækur og ~10 þeirra fjalla um Jesús og eða Nýja testamentið og ekki um Gamla testamentið.

Hjalti Rúnar Ómarsson 02.01.2011
Flokkað undir: ( Bókadómur )

Viðbrögð


Asta Norrman - 02/01/11 11:48 #

Jonas Gardell hefur fengið mikla gagnrýni á sína bók, bæði vrá trúuðum og frá vantrúuðum. Jonas er standop komiker og almenn skoðun fólks eftir útkomu þessarar bókar er að hann ætti að halda sig við það. Hefur mikið verið gagnrýndur fyrir að kynna sinn eiginn heimatilbúna jesu.


Þórhallur Heimisson - 02/01/11 15:27 #

Sæll Hjalti og gleðilegt nýtt ár. Og þakka þér fyrir bókadóminn - þó ég sé auðvitað ekki sammála þér í öllu, en það vissir þú nú fyrir. Enda ég einn af þeim sem hef hrósað bókinn. Eins og ég segi, þetta er ágætur dómur, þó ég held að þú skjótir aðeins framhjá kjarnanum hjá Jónasi þegar þú segir:

"Það má eiginlega endursegja aðalpunkt Jonasar svona: Í biblíunni eru margs konar myndir af guði. Þær eru mjög mótsagnakenndar. Sums staðar er hann viðbjóðslegur hrotti, annars staðar góður. Staðirnir þar sem guð er góður eru réttir af því að þannig sagði mamma mín mér að guð væri."

Réttara er að segja þetta svona : "Það má eiginlega endursegja aðalpunkt Jonasar svona: Í Biblíunni eru margs konar myndir af Guði. Þær eru mjög mótsagnakenndar. Sums staðar er hann viðbjóðslegur hrotti, annars staðar góður. HVER MAÐUR VERÐUR SJÁLFUR AÐ TAKA AFSTÖÐU TIL ÞESSARA MYNDA, OG LIFA SÍÐAN LÍFI SÍNU Í LJÓSI ÞEIRRAR AFSTÖÐU. EINS OG JESÚS GERÐI".

Ég varð reyndar fyrir vonbrigðum með hversu lítið hefur verið fjallað um bókina - líka innan kirkjunnar - því í Svíþjóð olli hún mikilli umræðu með og á móti. Og ég trúi því að umræðan sé góð fyrir alla.

Vonandi text að koma framhaldinu "Um Jesú" út - ef Guð lofar.

Hafðu það annars gott á nýja árinu og þið öll hjá Vantrú.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 02/01/11 16:04 #

HVER MAÐUR VERÐUR SJÁLFUR AÐ TAKA AFSTÖÐU TIL ÞESSARA MYNDA, OG LIFA SÍÐAN LÍFI SÍNU Í LJÓSI ÞEIRRAR AFSTÖÐU. EINS OG JESÚS GERÐI".

Óþarfi að öskra, Þórhallur. :) Og VERÐUR maður að taka afstöðu til mynda Biblíunnar af Guði? Verður maður þá ekki líka að taka afstöðu til mynda Mormónsbókar af guði, Kóransins, Bhagavad Gita, Þrymskviðu o.s.frv.? Kannski er með öllu óþarft að elta ólar við hugmyndir manna í fornöld um ofurhetjur eða stóra-pabba uppi í skýjunum.

Að vísu tökum við auðvitað undir með þér að umræðan er góð, enda er hún hvergi líflegri en einmitt á Vantrú.

Og kærar þakkir fyrir góðar óskir. Vantrúarmenn óska þér og þínum, trúmönnum og trúleysingjum nær og fjær árs og friðar. Því miður er þó ekki friðvænlegt á sumum vígstöðvum við þessi áramót, en meira um það síðar.


Valtýr Kári - 03/01/11 04:10 #

"Vonandi text að koma framhaldinu "Um Jesú" út - ef Guð lofar."

Ég skil ekki þessa setningu. Hvað þýðir þetta?


Jón Steinar - 03/01/11 06:13 #

Svo Guð er bara svona alskonar fyrir aumingja Þórhallur?

Svona MacGuffin eins og Hitchcock talaði um og Kristinn skrifaði um fyrir skömmu?

Ég botna hreint ekki í þér kallinn minn. Hvað áttu við með: HVER MAÐUR VERÐUR SJÁLFUR AÐ TAKA AFSTÖÐU TIL ÞESSARA MYNDA, OG LIFA SÍÐAN LÍFI SÍNU Í LJÓSI ÞEIRRAR AFSTÖÐU. EINS OG JESÚS GERÐI".

Hvernig gerði Jesú þetta? Var hann með sömu hugmydir og Páll eða t.d. hver einstakur höfundur guðspjallanna, sem hafði hver sina sýn?

Er tr´æuin þá bara svona kakófónía hugmynda út frá galopnum og óræðum text, seg getur þýtt allt og ekki neitt?

Ef svo er, er þá einhvern sannleik að boða? Er þá bara hipsum haps og liggaliggalá hvers og eins það se gildir?

Einhver furða þótt suir segi pass við þessu dómadags bulli í þér?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 03/01/11 07:06 #

Sæll Þórhallur

Þér finnst réttara að skipta vísuninni til mömmu Jonasar út og hafa síðan staðinn að allir verði að taka afstöðu til þessara mynda. Allt í lagi, en það er ljóst að það sem ræður því hvaða afstöðu Jonas tekur er hvernig mamma hans talaði um guð. Og þeir sem eru ekki sammála mömmu hans eru "fávísir".

Valtýr, Jonas Gardell hefur skrifað aðra bók sem heitir Um Jesú, Þórhallur er líklega að vona að hún komi út á íslensku.


Gunnlaugur - 12/01/11 12:19 #

Fríkirkjustrákur er líklega bein thýding (óstadfaerd) af saenska hugtakinu frikyrklig úr einhverju samhengi. Their söfnudir sem falla undir "Frikyrkliga samlingar" í Svíthjód eru yfirleitt einhversskona hvitasunnusöfnudir á bord vid Krossinn, Filadelfíu, Betel eda ámóta og geta verid ansi mismunandi hvad vardar "trúarhitann". Livets ord utan vid Uppsala, sem var mikid í fréttum fyrir nokkrum árum tilheyrir til daemis thessum flokki. Thad er ad segja annad en á íslandi thar sem fríkirkjan skilur sig helst frá thjódkirkjunni en med thví ad heyra ekki undir biskup.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/11/11 09:00 #

Í Fréttatímanum í dag er sagt frá því að öll fermingarbörn í Hafnafirði fá þessa bók að gjöf á næstunni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.