Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Heilög stríðsafneitun

Góður málstaður einkennist ekki af afneitun augljósra staðreynda. Þjóðkirkjupresturinn Kristján Björnsson hélt ræðu um daginn vegna þess að það voru 380 ár liðin frá Tyrkjaráninu. Þar sagði hann að hið „biblíulega heilaga stríð“ væri „ófrávíkjanlega einskorðað við varnir landanna gegn innrásarliði og háð því að Guð væri með í verki á einhvern áþreyfanlegan hátt eða að Guð hefði sýnilegan áhuga á því að verja líf fólksins eða landið þeirra." Nú spyrja eflaust margir lesendur sig að því hvort presturinn hafi aldrei lesið nokkrar bækur biblíunnar.

Frægasta stríðið í biblíunni er nefnilega að öllum líkindum innrás Ísraelsmanna í Kanaansland sem sagt er frá í Jósúabók. Kristján trúir því sjálfur ekki að þessi innrás hafi raunverulega átt sér stað, en það breytir því ekki að frásögnin af þessu stríði er í biblíunni.

Við skulum fyrst skoða hvort guðinn hans Kristjáns hafi verið „með í verki á einhvern áþreyfanlegan hátt“ í Jósúabók. Ef svo er þá er þetta réttnefnt „heilagt stríð“. Samkvæmt biblíunni hefst innrásin á því að guð klýfur Jórdanánna svo að Ísraelsmenn geti komist í landið sem guð ætlar að gefa þeim. Í fyrstu orrustunni, þá fellir guð múra Jeríkóborgar fyrir Ísraelsmenn svo þeir geti drepið „allt, sem í borginni var, bæði karla og konur, unga og gamla, naut og sauði og asna“ (Jós 6:21).

Ef þetta er ekki nógu áþreifanlegt fyrir Kristján, þá virtist guð hafa mikinn sýnilegan áhuga á því að Ísreaelsmenn hertækju landið af fólkinu sem lifði í Aí. Svo mikinn áhuga að hann sjálfur skipuleggur árásina, guð Kristjáns mælti með „launsátri að baki borgarinnar“ (Jós 8:1-2).

Það er hægt að nefna fleiri dæmi (sjá Legóbiblíuna), en þetta ætti að nægja til þess að sýna fram á að Jósúabók boðar það að guð „væri með í verki á einhvern áþreyfanlegan hátt eða að Guð hefði sýnilegan áhuga“ á þessu.

Ég efast um að Kristján neiti því að þarna hafi guð verið í liði með innrásarhernum. Þetta var heilagt landvinningastríð, ekki landvarnarstríð. Þannig að það er augljóslega rangt að hið „biblíulega heilaga stríð“ sé „ófrávíkjanlega einskorðar við varnir landanna gegn innrásarliði“, nema auðvitað að Kristján skilgreini „biblíulegt“ ekki sem það sem biblían boðar, heldur sem það sem Kristjáni Björnssyni finnst.

Þegar ég benti Kristjáni á þetta, þá var svarið:

Það er ekki að sjá að það geti flokkast undir heilagt stríð. Guð er einfaldlega að gefa þessu fólki sínu tiltekið land samkvæmt því sem hann hét þeim. Hann er að sanna fyrir þeim að hann hefur líf þeirra í hendi sér og Hebrearnir eiga að fylgja Guði sínum.

Þarna viðurkennir Kristján að vísu að samkvæmt Jósúabók sé guð að gefa Ísralesmönnum („fólkinu sínu“) tiltekið land. Hann gleymir að nefna það að það bjó annað fólk á þessu landi. Það að guð sé að gefa einhverjum land breytir engan veginn þeirri staðreynd að um heilagt landvinningastríð sé að ræða, enda er ekkert mótsagnakennt við setningarnar: „Guð er einfaldlega að gefa okkur þetta land samkvæmt fyrirheiti sínu. Þess vegna erum við að ráðast inn í það og útrýma þeim þjóðum sem eru þar fyrir.“ Það er reyndar heilmikið samræmi á milli fyrri og seinni setninganna.

Næst segir Kristján að þetta hafi í raun og veru ekki gerst:

Það er eiginlega ekki heldur nein innrás því engar heimildir eða minjar styðja þá ýktu frásögn að þeir hafi farið með vopnagný inn í landið. Leitt að skemma mýtuna en það eru engar minjar um fall múranna í Jeríkó á þessum tíma. Sögulega bendir flest til að Hebrearnir hafi einfaldlega sest að í þessu landi eins og títt var um hirðingja en frásögnin er mun yngri eins og þú veist ef til vill og verður að skoðast í samhengi fimmbókaritanna í útgáfunni frá því um herleiðinguna á 6. öld fyrir Krist.

En þegar við erum að athuga hvort einhver breytni samrýmist boðskap bókar þá skiptir ekki máli hvort atburðirnir sem hún lýsir séu sannir eða ekki. Málið er að Jósúabók lýsir þessu sem raunverulegum atburðum. Þó svo að þetta væri einfaldlega skáldskapur, þá myndi það ekki breyta því að þarna er verið að lýsa heilögu landvinningastríði.

Loks segir Kristján að hann hafi „ekki [verið] að tala um stríð eða frið fyrir Davíð.“ Þannig að með orðinu „biblíulegt heilagt stríð“ átti hann ekki við biblíuna sem heild, heldur bara þá hluta biblíunnar sem passa við hans skilgreiningu á heilögu stríði.

Í stað þess að reyna að búa til einhverja ímyndaða glansmynd að „biblíulegu heilögu stríði“ ætti Kristján að sætta sig við það að biblían var skrifuð af fornaldarmönnum sem höfðu hugmyndir sem teljast ansi nöturlegar á mælikvarða nútímasiðferðis . Því miður eru ekki miklar líkur á því að Kristján geri það, því rekstur stofnunarinnar sem Kristján vinnur hjá byggir á því að fólk telji biblíuna vera „bókina góðu“.

Hjalti Rúnar Ómarsson 28.08.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Kristján Hrannar Pálsson - 28/08/07 08:25 #

Eða eins og hann svarar þér sjálfur í umræðunni á blogginu, "Gaman að sjá hvað þú ert biblíufastur og bókstafstrúar."


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 28/08/07 11:56 #

Engar heimildir styðja heldur þá "ýktu frásögn" að Jesú hafi risið upp frá dauðum. Ætli hinn hámenntaði guðfræðingur trúi því þá?


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 28/08/07 12:50 #

Það er fyndið hvernig krysslingarnir nota "bókstafstrúar" alltaf sem skammaryrði.

Þeir fást yfirleitt ekki til að tjá sig um hverju af hinum heilaga boðskap þeir beinlínis "trúa" og hvað þeir líta á sem dæmisögur og fabúleringar. Þess vegna neyðast vantrúaðir til að leita beint í bókina til að finna fáránlegar lygisögur.

Í stuttu máli virðast íslenskir krysslingar trúa biblíunni nema öllu sem gæti skoðast sem trúarbrögð af einhverju tagi, öllu yfirnáttúrulegu, ýktu og ótrúlegu.

Svona eins og við öfgavantrúarseggirnir.


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 28/08/07 21:44 #

Ég skrifaði grein um þessa hegðun þjóðkirkjupresta.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.