Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hégómi í páfagarði

Stundum er gaman að fylgjast með því sem gerist í páfagarði. Við munum þegar Limbó var lagt niður og nýlega ákvað páfi að smokkurinn væri ekki alslæmur. Nú er það líka orðinn siður hjá páfa að höggva tré í skógi og prýða það alls konar glingri á Péturstorgi jafnvel þótt Jeremía hafi greinilega verið alfarið á móti jólatrjám og jólaskrauti:

Siðir þjóðanna eru hégómi. Menn höggva tré í skógi, og trésmiðurinn lagar það til með öxinni, hann prýðir það silfri og gulli, hann festir það með nöglum og hömrum, svo að það riði ekki. Skurðgoðin eru eins og hræða í melónugarði og geta ekki talað, bera verður þau, því að gengið geta þau ekki.

Sérhver maður stendur undrandi og skilur þetta ekki, sérhver gullsmiður hlýtur að skammast sín fyrir líkneski sitt, því að hin steyptu líkneski hans eru tál og í þeim er enginn andi. Hégómi eru þau, háðungar-smíði. Þegar hegningartími þeirra kemur er úti um þau.

Auðvitað er þetta hárrétt hjá Jeremía. Það er hégómi að höggva tré og skreyta það með andalausu glingri enda er allt hégómi samkvæmt Prédikaranum, aumasti hégómi:

Því að örlög mannanna og örlög skepnunnar _ örlög þeirra eru hin sömu: Eins og skepnan deyr, svo deyr og maðurinn, og allt hefir sama andann, og yfirburði hefir maðurinn enga fram yfir skepnuna, því að allt er hégómi.

En það er ekkert að því að gera sér glaðan dag og fagna rækilega eftir svona þrjá daga þegar það er orðið ljóst að sól er farin að hækka á lofti enn á ný. Jólaljósin minna okkur á þetta og grænt jólatréð lofar nýju sumri.

Vonandi misstu sem fæstir af undurfögrum tunglmyrkva þennan stysta dag ársins og þeim sem eiga eftir að kaupa glaðning handa sínum nánustu er góðfúslega bent á tvær frábærar og nýútkomnar bækur: Ranghugmyndina um guð og Þú sem ert á himnum.

Sígild hugleiðing: Vetrarsólstöður 2008

Reynir Harðarson 21.12.2010
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Arnar Magnússon - 21/12/10 16:12 #

QI - Vatican City Has the Lowest Age of Consent and the Highest Crime Rate in Europe
http://www.youtube.com/watch?v=TNIpIud9_F8


Jón Grétar - 21/12/10 17:18 #

@Arnar:Ekki alveg sönn fyrri staðhæfingin hjá þeim. Hin seinni telst varla sanngjörn.

Tæknilega séð er "age of concent" í vatíkaninu 14. Fólk ruglar því saman með að Vatíkanið tók upp lög Ítalíu 1929 og þá var aldurinn 12. En öll lög sett á ítalíu eru sjálfkrafa gild í Vatíkaninu líka. Og ég held ég fari rétt með það að það séu engin börn í Vatíkaninu þannig að þetta skiptir kanski ekki öllu máli.

Og með 826 íbúa og 4 milljón túrista á ári þá mundi maður halda að "crime rate" sé margfalt annara staða. 0.02% túrista þarf að brjóta af sér til að vera með 100% crime rate samkvæmt því hvernig þetta er mælt.

Ég er harður adstæðingur Vatíkansins. En þegar maður telur upp svona púnkta þá er maður búinn að koma sér í að eiga í rökræðum sem maður mun tapa fyrir víst. Og af hverju að setja sig í þá stöðu þegar að það er milljón önnur sönn skotfæri varðandi voðaverk Vatíkansins sem má nota gegn þeim.


Jóhann - 21/12/10 23:19 #

Það má teljast undarlegt þegar menn sækja í biflíuna til að árétta andstæða skoðun sína.

Sbr.: "Auðvitað er þetta hárrétt hjá Jeremía."

Spurningin er einfaldlega þessi, Reynir:

Af hverju ert þú til?

"En það er ekkert að því að gera sér glaðan dag og fagna rækilega..."

Alveg rétt.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/12/10 00:35 #

Jóhann, hvaðan kemur þér sú hugmynd að ég sé að "árétta andstæða skoðun" mína? Ég get vel tekið undir með Jeremía og Prédikaranum.

"Af hverju ert þú til?" er kannski spurningin í þínum huga. Það má skrifa margar bækur um hvað leiddi til þess að þú ert til en ég geri ráð fyrir að þú sért ekki að fiska eftir svari sem byggir á alheimsfræði, stjörnufræði, eðlisfræði, efnaræði, líffræði, mannfræði, sögu o.s.frv. heldur einhverju ævintýri sem upphefur sjálfan þig (í fullri auðmýkt auðvitað) og beintengir þig við einhverja ofurhetjuna (í goðsögum Miðausturlanda) eða eitthvað álíka.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.