Sem frambjóðandi til stjórnlagaþings sker ég mig nokkuð úr með því að leggja fyrst og fremst áherslu á aðskilnað ríkis og kirkju og mannréttindamál. Vissulega nefna ýmsir þessi mál til sögunnar - sem betur fer - en leggja ekki sömu áherslu á málið og ég. Fleiri setja mál eins og sjálfstæði hinna þriggja greina ríkisvaldsins í efsta sætið. Ég geri ekki lítið úr vægi slíkra mála en ég tel þau ekki jafn mikilvæg og til dæmis aðskilnaður ríkis og kirkju.
Ákvæðið í stjórnarskránni sem fjallar um Þjóðkirkjuna, ríkiskirkjuna, segir okkur fyrst og fremst eitt um þessi grundvallarlög okkar: Það eru ekki allir jafnir. Slík skilaboð eru ótæk og eitra út frá sér. Við búum í samfélagi þar sem forréttindi eins hóps er tryggður í stjórnarskrá.
Þeir sem aðhyllast ríkiskirkjufyrirkomulagið telja að trúfrelsi okkar hinna sé nægilega tryggt með því einu að við megum vera trúlaus, búddistar eða hvaðeina. Jafnrétti virðist - í þeirra augum - vera aukaatriði eða einfaldlega eitthvað sem á ekki við í þessu samhengi.
Jafnrétti er ekki aukaatriði. Ef stjórnlagaþing afnemur ekki sérstöðu Þjóðkirkjunnar í tillögum sínum þá hefur það fallið á prófinu. Tilgangur stjórnlagaþings er að laga þá vankanta stjórnarskrárinnar sem hið flokkspólitíska kerfi hefur ekki ráðið við. Ef stjórnlagaþingi tekst ekki að skilja að ríki og kirkju - þrátt fyrir mikinn og langvarandi stuðning þjóðarinnar og - þrátt fyrir að hér sé um grundvallarmannréttindamál að ræða þá verður ekkert að marka niðurstöðu þess í öðrum málum.
Ég bið um stuðning við mig og aðra þá frambjóðendur sem ekki munu hvika frá kröfunni um trúfrelsi á Íslandi. Það er ekkert aukaatriði.
Höfundur er fyrrverandi formaður Vantrúar og frambjóðandi til stjórnlagaþings.
[Heimasíða] | [Stuðningssíða á Facebook]
Þetta er brýnt málefni sem þarf að eiga talsmenn á stjórnlagaþingi.
Þú færð mitt atkvæði, m.a út af þessu.
Gott mál, og svo það fari ekki á milli mála, þá er þetta eitthvað sem ég gef ekki afslátt af þó ég nefni önnur mál sem líka eru mikilvæg.
Skv. DV þá hefur Biskupsstofa sent öllum frambjóðendum til stjórnlagaþings tölvupóst þar sem óskað er eftir að þeir svari tveim spurningum. http://www.dv.is/frettir/2010/11/10/biskupsstofa-vill-svor-fra-frambjodendum/
Sæl. Ég er í framboði til stjórnlagaþings. Ég sendi starfsmanni biskupstofu, Árna Svani, svar mitt rétt í þessu:
Sæll Árni Svanur,
Ljóst er af stefnumálum margra frambjóðenda til stjórnlagaþings, niðurstöðu þjóðfundar síðustu helgi, og þjóðfélagsumræðunni að nokkur mál hafi sterkan meðbyr meðal þjóðarinnar á komandi stjórnlagaþingi. Meðal þeirra eru einstaklingskosningar, þjóðareign á náttúruauðlindum og aðskilnaður ríkis og kirkju.
Af þessari ástæðu er ljóst að nokkur hagsmunasamtök munu að öllum líkindum berjast gegn stjórnlagaþinginu og þeirra á meðal eru núverandi stjórnmálaflokkar, LÍÚ og Þjóðkirkjan.
Af þeirri ástæði mun ég ekki taka þátt í samstarfi við þessa aðila til að varðveita hæfi mitt til að sitja á þinginu og kýs að svara spurningum þínum ekki.
Ég bið þig um að birta svar mitt í heild sinni eins og svör annarra frambjóðenda á kirkjan.is.
Með kveðju,
Gunnar Örn
Hins vegar tek ég það hér fram að ég styð aðskilnað ríkis og kirkju heilshugar og mun berjast fyrir því að ný stjórnarksrá hylli á engan hátt einu trú- eða lífsskoðunarfélagi umfram önnur.
Óli Gneisti og Gunnar Örn, þið fáið báðir atkvæði frá mér. Auðvitað er þetta mikilvægt mál í ljósi mannréttinda á Íslandi. Mér finnst óendanlega ótrúlegt hversu hægt miðar í rétta átt að skilja að trúarbrögð og stjórnmál. Ykkar framtak og fleiri skynsamra manna mun leggja lóð sín á vogaskálanar, gott mál.
Vil benda á adskilnadur.is þar sem haldið er utan um frambjóðendur sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju, og eins þá sem taka fram að þeir séu á móti aðskilnaði.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Ólafur Jón Jónsson - 10/11/10 11:25 #
Sæll
Þú átt minn stuðning vísan!
- Óli