Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúfrelsi á stjórnlagaþingi

Sem frambjóðandi til stjórnlagaþings sker ég mig nokkuð úr með því að leggja fyrst og fremst áherslu á aðskilnað ríkis og kirkju og mannréttindamál. Vissulega nefna ýmsir þessi mál til sögunnar - sem betur fer - en leggja ekki sömu áherslu á málið og ég. Fleiri setja mál eins og sjálfstæði hinna þriggja greina ríkisvaldsins í efsta sætið. Ég geri ekki lítið úr vægi slíkra mála en ég tel þau ekki jafn mikilvæg og til dæmis aðskilnaður ríkis og kirkju.

Ákvæðið í stjórnarskránni sem fjallar um Þjóðkirkjuna, ríkiskirkjuna, segir okkur fyrst og fremst eitt um þessi grundvallarlög okkar: Það eru ekki allir jafnir. Slík skilaboð eru ótæk og eitra út frá sér. Við búum í samfélagi þar sem forréttindi eins hóps er tryggður í stjórnarskrá.

Þeir sem aðhyllast ríkiskirkjufyrirkomulagið telja að trúfrelsi okkar hinna sé nægilega tryggt með því einu að við megum vera trúlaus, búddistar eða hvaðeina. Jafnrétti virðist - í þeirra augum - vera aukaatriði eða einfaldlega eitthvað sem á ekki við í þessu samhengi.

Jafnrétti er ekki aukaatriði. Ef stjórnlagaþing afnemur ekki sérstöðu Þjóðkirkjunnar í tillögum sínum þá hefur það fallið á prófinu. Tilgangur stjórnlagaþings er að laga þá vankanta stjórnarskrárinnar sem hið flokkspólitíska kerfi hefur ekki ráðið við. Ef stjórnlagaþingi tekst ekki að skilja að ríki og kirkju - þrátt fyrir mikinn og langvarandi stuðning þjóðarinnar og - þrátt fyrir að hér sé um grundvallarmannréttindamál að ræða þá verður ekkert að marka niðurstöðu þess í öðrum málum.

Ég bið um stuðning við mig og aðra þá frambjóðendur sem ekki munu hvika frá kröfunni um trúfrelsi á Íslandi. Það er ekkert aukaatriði.


Höfundur er fyrrverandi formaður Vantrúar og frambjóðandi til stjórnlagaþings.
[Heimasíða] | [Stuðningssíða á Facebook]

Óli Gneisti Sóleyjarson 10.11.2010
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú , Tilkynning )

Viðbrögð


Ólafur Jón Jónsson - 10/11/10 11:25 #

Sæll

Þú átt minn stuðning vísan!

- Óli


Einar (meðlimur í Vantrú) - 10/11/10 11:47 #

Þetta er brýnt málefni sem þarf að eiga talsmenn á stjórnlagaþingi.

Þú færð mitt atkvæði, m.a út af þessu.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 10/11/10 12:25 #

Gott mál, og svo það fari ekki á milli mála, þá er þetta eitthvað sem ég gef ekki afslátt af þó ég nefni önnur mál sem líka eru mikilvæg.


Sigurlaug - 10/11/10 13:50 #

Skv. DV þá hefur Biskupsstofa sent öllum frambjóðendum til stjórnlagaþings tölvupóst þar sem óskað er eftir að þeir svari tveim spurningum. http://www.dv.is/frettir/2010/11/10/biskupsstofa-vill-svor-fra-frambjodendum/


Gunnar Örn Stefánssson - 10/11/10 16:19 #

Sæl. Ég er í framboði til stjórnlagaþings. Ég sendi starfsmanni biskupstofu, Árna Svani, svar mitt rétt í þessu:

Sæll Árni Svanur,

Ljóst er af stefnumálum margra frambjóðenda til stjórnlagaþings, niðurstöðu þjóðfundar síðustu helgi, og þjóðfélagsumræðunni að nokkur mál hafi sterkan meðbyr meðal þjóðarinnar á komandi stjórnlagaþingi. Meðal þeirra eru einstaklingskosningar, þjóðareign á náttúruauðlindum og aðskilnaður ríkis og kirkju.

Af þessari ástæðu er ljóst að nokkur hagsmunasamtök munu að öllum líkindum berjast gegn stjórnlagaþinginu og þeirra á meðal eru núverandi stjórnmálaflokkar, LÍÚ og Þjóðkirkjan.

Af þeirri ástæði mun ég ekki taka þátt í samstarfi við þessa aðila til að varðveita hæfi mitt til að sitja á þinginu og kýs að svara spurningum þínum ekki.

Ég bið þig um að birta svar mitt í heild sinni eins og svör annarra frambjóðenda á kirkjan.is.

Með kveðju,

Gunnar Örn


Gunnar Örn Stefánssson - 10/11/10 16:23 #

Hins vegar tek ég það hér fram að ég styð aðskilnað ríkis og kirkju heilshugar og mun berjast fyrir því að ný stjórnarksrá hylli á engan hátt einu trú- eða lífsskoðunarfélagi umfram önnur.


Sverrir Ari - 11/11/10 00:02 #

Óli Gneisti og Gunnar Örn, þið fáið báðir atkvæði frá mér. Auðvitað er þetta mikilvægt mál í ljósi mannréttinda á Íslandi. Mér finnst óendanlega ótrúlegt hversu hægt miðar í rétta átt að skilja að trúarbrögð og stjórnmál. Ykkar framtak og fleiri skynsamra manna mun leggja lóð sín á vogaskálanar, gott mál.


Nonni - 13/11/10 00:52 #

Vil benda á adskilnadur.is þar sem haldið er utan um frambjóðendur sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju, og eins þá sem taka fram að þeir séu á móti aðskilnaði.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.