Það hefur áður verið minnst á það hérna á Vantrú hversu óheiðarleg ríkiskirkjan er í umræðunni um tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkur. Málflutningur ríkiskirkjuprestsins Arnar Bárðar Jónssonar í viðtali á Bylgjunni er frábært dæmi um þennan óheiðarleika:
Fyrsti hluti
Annar hluti
Snemma í þessum umræðum er Örn Bárður spurður að því hvort það sé ekki eðlilegt að slíta á milli kirkju og skóla. Örn segir þá þetta:
Það er mikill misskilningur þarna á ferðinni. Nú hlýtur maður að tala um þetta út frá sjálfum sér og reynslu sinni, ég er prestur í stórri sókn í vesturbæ Reykjavíkur. Ég kem afar sjaldan í skólana. Það hefur verið kallað á mig út af slysum og dauðsföllum og eitthvað af því tagi.
Nú er þetta eflaust satt og rétt, en ef maður kíkir bara á vefsíðu kirkjunnar hans, Neskirkju, þá blasir þetta við:
Undanfarinn ár höfum við í Neskirkju boðið upp á heimsóknir í leikskóla hverfisins. Farið er einu sinni í mánuði í þá leikskóla sem þess óska. Kynntu þér hvort leikskólinn sem þitt barn er í fær heimsókn frá okkur.
Örn Bárður fer ekki reglulega í leikskóla hverfisins, það eru aðrir starfsmenn kirkjunnar. Að Örn Bárður leggi áherslu á það að hann persónulega fari ekki í skóla, og gefa þannig til kynna að kirkjan sé ekki að sækja í skólana, þegar hann veit það vel að samstarfsfólk hans er að fara reglulega í leikskóla er mjög óheiðarlegt.
Á heimasíðunni eru einnig tvær ársskýrslur barna- og unglingastarfs Neskirkju, og þar er hægt að fræðast meira um þessar leikskólaheimsóknir. Til að byrja með er tilgangurinn klárlega sá að fá krakkana í kirkjuna:
Starf með börnum á forskólaaldri er mjög mikilvægt en það er greinilegt í upphafi hvers vetrar að þau börn sem tengst hafa kirkjunni gegnum leikskólaheimsóknir eða sunnudagaskóla eiga mun auðveldar með að komast inn í barnastarfið í fyrsta bekk og hafa jákvæðara viðhorf til kirkjunnar.
Síðan er tekið fram að það hefur verið „yfirlýst markmið kirkjunnar að sem flestir [leikskólanna í hverfinu] þiggi reglulega heimsókn frá kirkjunni.“ Það gengur samt ekki mjög vel, þar sem „hlutfall leikskóla sem þiggja heimsóknir frá Neskirkju er með lægsta móti miðað við önnur hverfi á höfuðborgarsvæðinu.“ Sem segir okkur auðvitað að kirkjan er að sækja í leikskólana á fleiri stöðum.
Í annarri skýrslunni er sagt að ástæðan fyrir þessari dræmu þátttöku í nessókn sé sú að flestir leikskólastjórnarnir telja að „trúarlegt starf eigi ekki heima innan leikskólans“ og tekið er fram að einn leikskólastjórinn vísaði í skýrslu starfshóp Reykjavíkurborgar um Samstarf skóla og trúar- og lífsskoðunarhópa frá 2007.
En er þetta „trúarlegt starf“ sem á ekki heima inn á opinberum leikskólum?
Í annarri skýrslunni er þessi lýsing gefin á heimsóknunum:
Grandaborg er stærri leikskóli með 63 börn á þremur deildum og hann er rekinn af Reykjarvíkurborg. Þar er einnig mikill samstarfsvilji við kirkjuna en á leikskólanum er mjög blandaður hópur af íslenskum börnum og börnum með erlendan uppruna og því er bænahaldi sleppt við leikskólaheimsóknir. Fræðslan er þó með sama móti á báðum leikskólum, ég kenni Biblíusögur, syng með þeim söngva og læt brúðurnar mína fjalla um gildi á borð við vináttu og virðingu á hátt sem börnin hafa gaman að. Í lok hverrrar stundar syng ég fyrir þau sígildan sálm og fræði þau aðeins um uppruna þeirra og inntak.
Höfundurinn virðist telja að bænahald væri eðlilegt ef það væru ekki börn af erlendum uppruna þarna. Bænahald væri sem sagt stundað ef að einungis „innfædd“ ókristin börn væru á staðnum. Og við höfum auðvitað dæmi af því að það sé gert.
En auk þess er verið að kenna biblíusögur, syngja söngva (örugglega ekki bara söngva eins og „Allt sem er gult, gult“) og loks er sunginn fyrir þau sálmur og börnin „frædd“ um inntak þeirra. Mig grunar að það sé ansi lítill munur á þessu og bara sunnudagaskólanum. Þetta á klárlega ekki heima í leikskólum sem að eiga að vera fyrir alla, ekki bara börn kristinna foreldra.
En gleymum því ekki að það er alger misskilningur að kirkjan sé að sækja í skólana! Örn Bárður er prestur í stórri sókn og hann fullvissar okkur um að hann komi afar sjaldan í skóla!
Seinna í umræðunum lét Örn Bárður falla ummæli sem að ég þurfti að hlusta nokkrum sinnum á til að sannfærast um að það væru ekki eyrun mín, heldur Örn, að blekkja mig:
Fólk áttar sig ekki á því að kirkjan er ekki baggi á ríkinu. Kirkjan þiggur ekki krónu frá ríkinu.
Rétt á eftir þessu talar hann um að ríkiskirkjan hafi „samstarfssamning“ við ríkið. Vissulega er hluti af framlögum ríkisins til Þjóðkirkjunnar vegna alræmds samnings frá 1997. En þess fyrir utan eru all nokkrar krónur sem kirkjan þiggur frá ríkinu. Árið 2009 fékk hún næstum því tvo milljarða í sóknargjöld, sem að eru framlög ríkisins en ekki félagsgjöld. Auk þess höfum við framlög til sjóða eins og Kirkjumálasjóðs og Jöfnunarsjóð sókna, litlar sex hundruð milljónir.
Það má ef til vill reyna að finna afsakanir fyrir hann Örn. Í peningamálunum er Örn Bárður eflaust bara fórnarlamb áróðurs frá ríkiskirkjunni. En þegar kemur að ásókn kirkjunnar í skóla, þá var hann líklega í besta falli einungis að ljúga með því að sleppa út því mikilvæga, svona svipað og eiginmaðurinn sem segir konu sinni að hann hafi farið út í búð eftir vinnu (en sleppir því að segja henni að stoppaði við hjá hjákonunni). Hann segir ekki beint neitt ósatt, en hann veit vel að hann er óheiðarlegur.
Ég er alveg sammála því að þessi mynd er vafasöm. En þegar kirkjunnar menn neita því opinberlega að svona hlutir fari fram í heimsóknum þeirra, þá finnst mér nauðsynlegt að birta svona "sönnungargögn".
Já, svo er svara ekki að vænta frá Erni Bárði. Ég benti honum á greinina en hann mun líklega ekki lesa hana þar sem að hann segist ekki fara inn á vantru.is.
Mér sýnist seinni linkurinn vera vitlaus, hann ætti að vera : www.vantru.is/mp3/ornbardurbylgjanp2.mp3
Upptökurnar ættu að vera í lagi núna. Smá klúður.
Ég skil hugsunina hjá þér, Hjalti. Mér finnst myndin samt sem áður hafa á sér "tabloid"yfirbragð sem ég kann ekki að meta þar sem hún er af börnum. Ef myndin á að vera e.k. sönnunargagn um það sem fram fer í leikskólaheimsóknum presta eða kirkjuheimsóknum barna þyrfti eiginlega að fylgja henni hvar hún var tekin og hvenær.
Myndin er upphaflega tekin af heimasíðu Seljakirkju og sýnir heimsókn leikskólaprests á Jöklaborg, líklega árið 2006.
Já, ég hefði kannski mátt láta það fylgja með. Hérna eru upplýsingar um hvaðan myndin er.
skv. DV þá er nú hafin undirskriftasöfnun þar sem "mótmælt er aðför að kristinni trú í landinu" http://www.dv.is/frettir/2010/11/9/motmaela-adfor-ad-kristinni-tru-i-landinu/
Er ekki öfug röð? Fyrsti hluti er eftir auglýsingahlé, en annar hluti er fyrir auglýsingahlé. Ætti þetta ekki að vera öfugt?
Hvur þremillinn... dæs ...þetta er komið í lag. :#
Hvernig stendur á því að Örn Bárður svarar ekki? Hefur enginn bent honum á þessa grein?
Já, svo er svara ekki að vænta frá Erni Bárði. Ég benti honum á greinina en hann mun líklega ekki lesa hana þar sem að hann segist ekki fara inn á vantru.is.
Ég sá þetta ekki. Þetta er furðulegt, var þessi sami Örn Bárður ekki að lýsa því yfir um daginn að hann vildi bæta samtalið?
Ætti kannski að minna hann á hvoru megin hrokinn og fordómarnir standa?
Bendi á nýjustu skrifar Arnar Bárðar.
Það hefur alltaf haft kostnað í för með sér að tilheyra minnihlutahópi. Þessi nálgun, „vesalings ég og börnin mín", virkar ekki sannfærandi. Þú verður bara að kyngja því að börnin þín uppgötvi að þau tilheyri minnihlutahópi ef þú hefur valið sjálfum þér og þeim lífsskoðanir minnihlutans. Kristnir menn um allan heim verða að þola hið sama.
Boðorð Arnar Bárðar: "Elskaðu sjálfan þig meira en aðra". Amen!
Krakkar! Syngjum svo saman "Jesús er besti vinur meirihlutans" heyrist úr einum leikskóla vesturbæjar.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Halla Sverrisdóttir - 09/11/10 09:39 #
Kæri Hjalti, ég veit ekki hvaðan myndin sem fylgir greininn er en mér finnst hún ekki smekkleg. Myndir af börnum á ekki að birta nema með fengnu leyfi foreldra þeirra; ef þú hefur fengið það leyfi er engin ástæða til að "fela" andlit þeirra með frekar slökum árangri. Hver sá sem þekkir til einhvers þessara barna myndi þekkja þau á þessum myndum. Ef þetta eru ekki íslensk börn er engin ástæða til að fela andlit þeirra - eins og þessi mynd er núna kemur það mér fyrir sjónir eins og þetta séu börn sem þurfi að blygðast sín fyrir eitthvað. Það kemur ónotalega við mig. Annars er greinin ágæt :)
Kveðja, Halla