Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúboð úr skólum

„Í skólum fer fram fræðsla um mismunandi lífsskoðanir og trúarbrögð en þar er ekki stunduð boðun trúar. Í engum tilfellum er skólastarfi og starfi trúar- og lífsskoðunarhópa blandað saman," segir í stefnumótun Menntasviðs Reykjavíkur frá árinu 2008. Þar segir jafnframt að börnum skuli ekki „mismunað vegna trúar eða lífsskoðunar þeirra eða foreldra þeirra. Forðast skal aðstæður þar sem börn eru tekin út úr hópnum eða skylduð til að taka þátt í atburðum sem ekki samræmast trúar- eða lífsskoðunum þeirra."

Þetta er greinilega flóknara en margir prestar geta skilið eða ósanngjarnt að þeirra mati. Þessi stefna miðast samt sem áður við landslög, ákvæði mannréttindasáttmála og dómafordæmi fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Þessi sjálfsögðu viðmið vildi Mannréttindaráð Reykjavíkur tryggja í framkvæmd en það vill Þjóðkirkjan greinilega koma í veg fyrir. Af hverju?

„Boðun er hið eiginlega eðli kirkjunnar. Boðun er ekki valkostur kirkjunnar. Boðun er grundvöllur veru hennar," segir kirkjan sjálf. Um það segir Karl Sigurbjörnsson biskup: „Kirkjan er send með boðskap. Það er hlutverk hennar og verkefni hennar öll eru með einum eða öðrum hætti liður í þeirri sendiför." Samt reynir fræðslufulltrúi Biskupsstofu ítrekað að halda því fram að engin boðun felist í aðkomu presta að skólum. En það verður ekki bæði haldið og sleppt.

Séra Örn Bárður Jónsson viðurkennir hins vegar hlutverk sitt sem trúboði en til að afsaka það vill hann klína trúboði á alla aðra líka. Í blaðagrein í Fréttablaðinu 29. október minnir hann á að auðvitað eigi að fræða börn um kristna trú og önnur trúarbrögð í skólum. En um það standa engar deilur. Sjálfsagt er að kennsla miðist meira við kristna trú en Shinto-trú o.s.frv. En Örn Bárður sér ekkert að því að Gídeon-menn mæti í tíma hjá 10 ára börnum, gefi þeim Nýja-testamentið og leiði þau í bæn. Markmið Gídeon-manna er að „ávinna menn og konur fyrir Drottinn Jesú Krist. Dreifing Heilagrar ritningar og einstakra hluta hennar er aðferð til að ná því marki". Þarna er því um að ræða blygðunarlaust trúboð, blöndun skólastarfs og trúarhóps.

Séranum finnst þessi staða bara allt í lagi af því að meirihluti barna kemur frá kristnum heimilum, óhreinu börnin má bara fjarlægja rétt á meðan. Svo segir presturinn: „Börnin þín þurfa ekki að verða fyrir neinni mismunun í skóla þótt skólasystkini þeirra fari í kirkjuheimsókn á aðventunni." „Það er ekki mismunun í mínum augum." Hvað væri þá mismunun í augum prestsins? Ef börn eru leidd til messu á vegum skólans er skólinn að fara út fyrir hlutverk sitt og grípa inn í trúarlegt uppeldi foreldranna. Það er hins vegar ekkert að því að skólabörn fari með kennara í kirkju til að skoða húsið og munina eins og þau fara á Þjóðminjasafnið eða Náttúrugripasafnið. Æskilegt væri að börn gætu kynnst sem flestum trúarbrögðum og samkunduhúsum sér til fróðleiks. En þar á ekki að fara fram iðkun trúar (eins og í messu) eða innræting (eins og í messu). Messa er annað en heimsókn. Þetta er ekki flókið. Örn Bárður sakar Mannréttindaráð um að vilja miðstýra skólum í þessum málum en hann sér væntanlega ekkert athugavert við þá miðstýringu ríkisvaldsins í trúmálum að halda úti einu trúfélagi og kosta til þess fimm þúsund milljónum árlega. Og varla er neitt athugavert við að ríkið haldi skrá um trúfélagaaðild borgaranna, skrái börn þeirra meira að segja við fæðingu í trúfélag móður. Það hlýtur að teljast afar undarleg tilhögun og þótt það brjóti í bága við jafnréttislög að mati Jafnréttisstofu bólar ekkert á leiðréttingu.

Hvernig stendur á því að helsti Þrándur í Götu mannréttinda og jafnréttis hér á landi er ríkisrekið trúfélag? Eitt er að verja forréttindi sín en annað að úthrópa jafnréttissinna í sömu andrá sem siðleysingja og ógn við menningu og sögu þjóðarinnar. Við könnumst við það herbragð gegn réttindum samkynhneigðra en ég er hissa á kirkjunnar mönnum að leggja enn einu sinni til atlögu gegn sjálfsögðum mannréttindum einmitt þegar trúverðugleiki þeirra er eflaust í sögulegu lágmarki.


Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag, 5. nóvember 2010

Reynir Harðarson 05.11.2010
Flokkað undir: ( Gídeon , Kristindómurinn , Skólinn )

Viðbrögð


Robert - 05/11/10 12:44 #

Þegar börnin vildu koma til Jesú, og hinir fullorðnu hófu að aftra þeim það, sagði Jesú við fólkið. Leyfið börnunum að koma til mín, bannið þeim það eigi, því að þeirra er guðsríki.

Ég held að menn eigi að reyna að skilja hvað þetta þýðir, brjóta odd af oflæti sínu og fá botn í það hvað þetta þýðir. Þetta þýðir nefnilega það sama á öllum tímum. þessar setningar innihalda í eifaldleika sínum, hreinleika og styrk demants. Eins og reyndar allt sem hann sagði.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 05/11/10 13:06 #

Er allt sem Jésú sagði merki um hreinleika og styrk demants, hvað sem það þýðir nú? Hann sagði t.d. þetta:

"Ég kom ekki til að færa frið heldur sverð."


gös - 05/11/10 13:07 #

Líka það sem hann sagði við fíkjutréð?


odie - 05/11/10 13:07 #

Já hann á að hafa sagt "Leyfið börnunum að koma til mín ...".

En hann sagði ekki leyfið mér að koma til barnanna.

Þannig að foreldrum er leyft að velja hvort þau sendi börnin til trúfélaga.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 05/11/10 13:20 #

Það má heldur ekki gleyma því hvað hann sagði við kanversku konuna þegar hún vildi að hann læknaði dóttur sína en hann líkti henni við hund áður en hann aumkaði sig yfir hana og læknaði dótturina.


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 05/11/10 14:55 #

Ég er hjartanlega sammála Roberti.

Það á að leyfa börnunum að koma til Jésú. Sá möguleiki er opin í kirkjum, barnastarfi kirkjunnar og sunnudagaskólum um allt land þar sem börnin geta komið.

Jésú talaði hinsvegar lítið um rétt presta til að koma til barnanna á meðan þau eru í skólanum á Íslandi til að þurfa að hlýða á skrumskælt trúboð þeirra.


Trúlaus - 05/11/10 16:56 #

"Það má heldur ekki gleyma því hvað hann sagði við kanversku konuna þegar hún vildi að hann læknaði dóttur sína en hann líkti henni við hund áður en hann aumkaði sig yfir hana og læknaði dótturina."

Þú heldur greinilega Jón Magnús að þetta hafi gerst í alvörunni. Þú ert sem sagt bókstafstrúaður. Hvað ertu að gera í Vantrú?


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 05/11/10 17:09 #

Hahahahaha!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/11/10 17:45 #

Kæri "trúlaus" (sem er alls ekkert trúlaus). Notaðu vinsamlegast rétt nafn eða gilt póstfang.


Trúlaus - 05/11/10 19:20 #

Af hverju þarf ég að gefa upp nafn? Má fólk ekki skrifa nafnlaust hér? Það er gefið í skyn í reglunum hér fyrir neðan. Ég gaf upp rétt netfang í þetta sinn en treysti því að það birtist hvergi og verði ekki notað. En spurningu minni er ósvarað. Af hverju trúir Vantrúarmaðurinn Jón Magnús það sem stendur í Biblíunni hafa gerst í alvörunni eins og haNN gerir greinilega hér fyrir ofan? Ég hélt AÐ maður þyrfti að vera trúlaus til að geta verið í Vantrú???????


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/11/10 19:27 #

Ég vitna í sjálfan mig en feitletra nú lykilatriði

Notaðu vinsamlegast rétt nafn eða gilt póstfang.

Í reglunum sem þú bendir á er þess krafist að póstfang sé gilt. Þú slepptir því. Af hverju?

Af hverju trúir Vantrúarmaðurinn Jón Magnús það sem stendur í Biblíunni hafa gerst í alvörunni eins og haNN gerir greinilega hér fyrir ofan?

Hann gerir það ekki.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/11/10 19:51 #

Ástæða þess að þú þarft að gefa upp annað hvort rétt nafn eða gilt póstfang er til að koma í veg fyrir að nafnlausir "stríðnispúkar" komi hingað og skemmi umræður, t.d. með því að þykjast vera trúleysingjar þegar þeir eru það augljóslega ekki eða með útúrsnúningum.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 05/11/10 19:54 #

Er Trúlaus svo bókstafstrúaður að hann skilur það ekki þegar menn taka dæmi án þess að trúa þeim sjálfir?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 05/11/10 20:00 #

Ég held hann sé bara svona vitlaus.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 05/11/10 21:18 #

Þetta er nú ekki ýkja málefnalegt Þórður. Og algjörlega óþarfi.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 05/11/10 21:25 #

Oft var þörf, en nú er það algjört möst.


Trúlaus - 05/11/10 21:26 #

Hva getur þessi Jón ekki svarað fyrir sjálfan sig?

Ef hann træuir ekki að þetta hafi gerst í alvörunni hvers vegna er hann þá að vísa í þessa lygasögu? Á það að vera máli vantrúar til framdráttar eða ...???

"Í reglunum sem þú bendir á er þess krafist að póstfang sé gilt. Þú slepptir því. Af hverju?"

Ég las eki reglurnar strax. Nota gilt og rétt netfang núna.

"Er Trúlaus svo bókstafstrúaður að hann skilur það ekki þegar menn taka dæmi án þess að trúa þeim sjálfir?"

Nei, ég skil ekki út af hverju menn vísa í lygar eins og um sannleik sé að ræða. Hvað á það að fyrirstilla?

"Ég held hann sé bara svona vitlaus."

Glæsilega sagt. Bjóstu þetta til sjálfur eða þurftir þú að fá aðstoð hjá lækninum?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 05/11/10 21:40 #

Trúlaus, flestir sjá í hendi sér að orðum Jóns Magnúsar er beint til Roberts, því það er Robert sem trúir sögum Nýja testamentisins eins og nýju neti?

Ég vona að þessar útskýringar geti aukið skilning þinn á málflutningi okkar. (Og vertu óhræddur.)


JR - 05/11/10 22:42 #

Er trúlaus maður trúlaus ?

Hvers vegna hafa trúlausir svona mikin áhuga á trú, ef þeir eru trúlausir ?

Ekki snúa út úr þessum orðum !!!


Halla Sverrisdóttir - 05/11/10 23:21 #

Ágæti JR, þar sem "trúlausir" eru ekki hjörð get ég aðeins svarað spurningu þinni fyrir mína hönd:

Trúlausir eru af ýmsum stærðum og gerðum og hreint ekki allir með neinn sérstakan áhuga á trúmálum. Sum okkar hafa hins vegar áhuga á trúmálum vegna þess að trúarbrögð og iðkun þeirra hafa mikil og víðtæk áhrif á samfélagið sem við búum í og nánast öll samfélög annars staðar í heiminum og til að skilja samfélag okkar og annarra og þá orðræðu sem notuð er, bæði þegar rætt er um trúmál og um önnur mál, er eiginlega nauðsynlegt að skilja trúarbrögð bæði í sögulegu samhengi og samtímalegu og þekkja helstu áherslur í hugmyndafræði ýmissa trúarbragða. Sum okkar eiga auk þess börn og er (eins og þú kannski og kannski ekki skilur) annt um að þeim sé ekki innrætt eitthvað sem við teljum að mestu leyti dellu og þau sé ekki sett til hliðar eða flokkuð sem jaðarfyrirbæri vegna þess að þau eru frá trúlausu heimili. Þess vegna höfum við mörg hver heilmiklar skoðanir á t.d. samskiptum kirkju og skóla. Og þannig má lengi telja. Auk þess er eiginlega varla verjandi að taka skýra afstöðu gegn einhverju nema þekkja það sem maður er á móti almennilega. Skýrir þetta eitthvað?


Guðmundur Ingi Markússon - 05/11/10 23:33 #

Mjög flott grein, Reynir


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 05/11/10 23:34 #

Voðalega er hann stressaður þessi Trúlaus. Var bara að sjá þetta - heldur hann að maður sé fyrir framan tölvuna 24/7?

En svarið er "for argument sake"


Trúlaus - 06/11/10 05:54 #

Ég er ekkert stressaður. Mér þykir bara óviðeigandi og skemmandi fyrir málstað trúlausra, og í raun málefnaleg fátækt, að vera stöðugt að vitna í biblíuna máli okkar til stuðnings.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 06/11/10 09:49 #

Þú ert svolítið að misskilja, Vantrú vitnar í biblíuna vegna þess að við stundum gagnrýni á trúarbrögð - þú greinilega stundar hana ekki og vilt að fólk sem er trúlaust hafi eitt standard svar við öllu trúartilvísunum trúaðs fólks þ.e. "Það er ekkert að marka biblíuna".


Sindri G - 06/11/10 15:25 #

Trúlaus, Jón var að benda á að það sé ekki rétt sem Robert segir að allt sem Jesús á að hafa sagt sé alveg frábært. Róbert, ef ég vitna í Bjart í sumarhúsum í rökræðum, þýðir það þá að ég trúi bókstaflega á tilvist hans og hann hafi sagt það sem Laxnes lét hann segja?


Birgir Hrafn Sigurðsson - 06/11/10 16:48 #

"Hvers vegna hafa trúlausir svona mikin áhuga á trú, ef þeir eru trúlausir ?"

Þetta er ein vitlausasta spurning sem ég hef heyrt. Jafn vitlaus og þessi hérna :

Hversvegna hefur fólk svona mikinn áhuga á pólitík, ef það er ekki í pólitík ?

EKKI SNÚA ÚT ÚR ÞESSUM ORÐUM !!!


Jon Steinar - 06/11/10 17:56 #

Merkilegt að hvað eftir annað tekst trúarnöttum að sabotera umræðurnar hérna og beina þeim gersamlega af teinunum, svo alls ekki þurfi að ræða efnisatriði greinanna.

Fyrir þessu fallið þið Vantrúarmenn í hvert skipti eins og hálfvitar og stökkvið á sama naggið um ekkert. Rauðar síldar eru greinilega uppáhaldsmaturinn.

Er hugsanlegt að PR snillarnir séu að vinna fyrir launum sínum hérna? Segi bara svona... Allavega tekst afar illa gefnu og misþroska fólki að eiga við ykkur gáfumennina.

Ykkur er ekki við bjargandi, svei mér þá. Ég held þið getið alveg hugleitt að loka síðunni í stað þess að halda þessum bjánaskap við.

Hysjið upp um ykkur andskotans brækurnar, for crying out loud!!


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 06/11/10 18:05 #

Ef þetta eru viðbrögðin, þá þarf nú ekki að hafa miklar áhyggjur. Greinin hefur ekkert verið gagnrýnd, ekki hefur verið hnýtt í neitt í henni. Svo virðist sem allir sem hafa lesið hafa séu bara meira og minna sammála innihaldinu: Trúboð úr skólum.

Jón Steinar! Vertu ekki með þessi læti, prakkarinn þinn! ;)


glópur - 07/11/10 20:49 #

Ég fæ ekki betur séð, en að Vantrú/Siðmennt séu að koma í veg fyrir að Þjóðkirkjan haldi áfram að rotna innan frá. Þið vitið ekkert hvað þið eruð að gera!! Sjáið að ykkur áður en þið berjið meiri efa inná sviðið. Þið virkið eins og "salt jarðar". Þið eruð að verða blessun þessa "hagsmunahóps"


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/11/10 21:17 #

Varstu að lesa prédikun Bjarna Karlssonar :-) Ekki falla fyrir öllum ríkiskirkjuáróðri.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?