Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þetta var bara misskilningur!

Fyrir Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar liggur nú tillaga um starfsreglur í samskiptum trúfélaga og skóla. Tillögu þessari er ætlað að leiðbeina skólum um hvernig þeir geti betur framfylgt stefnu borgarinnar í mannréttindamálum. Þar kemur fram að í skólastarfi á vegum borgarinnar sé mikilvægt að ekki sé gengið út frá því að allir aðhyllist sömu trú. Í ljósi þessa telur meirihluti mannréttindaráðs því nauðsynlegt að setja leikreglur um beina aðkomu trúfélaga að skólastarfi og iðkun trúarbragða innan veggja skólans á skólatíma. Um þessa tillögu hefur verið mikill úlfaþytur þar sem einkar dapurlegt hefur verið að horfa upp á málsmetandi menn og konur fara mikinn í umræðu sem virðist að mestu á misskilningi byggð.

Helstu þættir misskilningsins hafa verið:

1. Verið er að grafa undan kristnu siðgæði í skólum

Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskólanna eru þeir þættir kristins siðgæðis sem skólum ber að innræta nemendum: ábyrgð, umhyggja og sáttfýsi. Séu háskólagengnir grunnskólakennarar ekki færir um að kenna þessa þrjá grundvallarþætti þess sem í Aðalnámsskrá er kallað kristið siðgæði án þess að kirkjan hafi þar aðkomu má ljóst vera að skólar landsins standa virkilega höllum fæti og vafalítið ástæða til að endurskoða skólastarf og kennaramenntun í landinu frá grunni.

2. Verið er að grafa undan kennslu í trúarbrögðum í skólum

Kennsla í trúarbrögðum, þ.á.m. kristnum fræðum, er lögboðin og skólum ber því að kenna greinina. Tilgangur tillögunnar er ekki að gera reykvískum skólum að fara á svig við landslög heldur skerpa á mörkum trúarbragðakennslu og trúboðs og iðkun trúarbragða. Í Aðalnámsskrá kemur fram að trúboð eigi ekki að fara fram í skólum landsins heldur sé hlutverk skólans að stuðla að auknum skilningi og umburðarlyndi gagnvart ólíkum trúarbrögðum. Mörkin milli trúarbragðakennslu og trúboðs hafa oft verið óljós og er tillaga mannréttindaráðs virðingarverð tilraun þess að skýra þau.

3. Verið er að svipta nemendur möguleikanum á að njóta menningararfs okkar

Menningararfur okkar er dýrmætur og mikilvægt fyrir alla að kynnast honum vel. Þar kemur kristin trú vissulega við sögu og því að mörgu leyti mikilvægt að þekkja vel til hennar til að vera fær um að njóta arfsins. Að sama skapi er mikilvægt að þekkja til heiðins siðar til að geta notið fornbókmenntanna til hlítar, kommúnisma til að geta fengið botn í skáldskap Rauðu pennanna og svo mætti lengi telja. Það er því ljóst að til að geta notið menningararfs þjóðarinnar og okkar heimshluta er mikilvægt að kennslu í samfélagsfræðum, bókmenntum, myndlist, tónlist sem og trúarbragðafræðum og öðrum tengdum námsgreinum sé sinnt með fjölbreyttum og metnaðarfullum hætti. Þannig hefur það víðast hvar verið og er engin ástæða til að ætla að þar verði breyting á. Í tillögum meirihlutans kemur hvergi fram að nemendum verði meinað að heimsækja kirkjur eða skoða trúarleg listaverk í kennslufræðilegum tilgangi. Þeim er hins vegar ekki ætlað að gera það í trúarlegum tilgangi. Á þessu tvennu er grundvallarmunur en virðist engu að síður hafa valdið misskilningi hjá fjölda fólks.

Einn stærsti misskilningur sem komið hefur fram í þessu máli kom þó fram í ræðu biskups síðastliðinn sunnudag. Þá fór eldklerkurinn á svig við kristna umburðarlyndið og lýsti yfir vantrausti á alla starfandi kennara í Reykjavík með því að segja að nemendur myndu ekkert öðlast annað en "fáfræði, fordóma og andlega örbirgð" fengi kirkjan ekki að koma að starfi skólanna. Úr þessum orðum biskups get ég fátt annað lesið en hans eigin fáfræði, fordóma og andlegu örbirgð.

Þjóðkirkjan er, eins og biskup sagði sjálfur, sjálfstætt trúfélag og það er einmitt þar sem hundurinn liggur grafinn. Trúfélög eru hagsmunasamtök sem byggja á ákveðnum hugmyndafræðum og lífsskoðunum og skólum ber að sjá til þess að áhrif slíkra félaga á starf skólans sé eins takmarkað og mögulegt er. Gildir þar einu hvort um er að ræða trúfélög eða önnur hagsmunasamtök. Gaman væri að sjá upplitið á formælendum tillögu meirihlusta mannréttindaráðs ef stjórnmálaflokkar fengju að starfa undir verndarvæng skóla. Þætti einhverjum eðlilegt ef skólar á Seltjarnarnesi hleyptu Sjálfstæðisflokknum að nemendum sínum á þeim forsendum að meirihluti Seltirninga kjósi flokkinn? Ættu hafnfirsk ungmenni að syngja Internationalinn á morgnana því þar hefur meirihluti bæjarbúa kosið sér vinstri flokka í stjórn í árafjöld?

Þær tillögur sem nú liggja fyrir mannréttindaráði eru ekki árás á kristna trú, kristið siðgæði eða kennslu í kristnum fræðum. Þær eru ekki persónuleg árás á biskup eða Þjóðkirkjuna. Tillögurnar eru ósköp einfaldlega ágæt útlistun á því hvernig æskilegt er að samskipti trúfélaga og skóla fari fram og skýr lína um hvernig ber að framfylgja mannréttindastefnu borgarinnar. Því ber að fagna.


Höfundur er ekki í Vantrú

Greinin birtist upphaflega á feisbúkk-síðu höfundars þann 29. október og er birt hér með hans góðfúslegu leyfi

Björn Kristjánsson 03.11.2010
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Vísun )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 03/11/10 21:51 #

Skora á menn að kynna sér endurbættar tillögur Mannréttindaráðs (pdf).

Æskilegt væri að fleiri bæjarfélög reyndu nú að sýna sömu fagmennsku og Reykjavíkurborg. Kannski er líka að rofa til í Hafnarfirði en grunnurinn að þessu öllu er Stefna Menntasviðs Reykjavíkur (pdf).

Ég sendi Menntasviði Garðabæjar erindi í dag og hvatti menn þar til að vera ekki eftirbátar höfuðborgarinnar. Kannski eru metnaðarfullir bæjarfulltrúar víðar, ef við þeim er ýtt.


Sigurlaug - 03/11/10 23:39 #

Þú ert bjartsýnn.. eru ekki sjálfstæðismenn við völd í Garðabæ?? Þessir hérna:


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 03/11/10 23:47 #

Ég á voðalega bágt með að trúa að þetta mál sé pólitískt og veit að margir ágætir sjálfstæðismenn styðja hlutleysi skóla í trúmálum og aðskilnað ríkis og kirkju.

En vilji sjálfstæðismenn fylkja sér á bak við kirkjuna í andstöðu við mannréttindi er það auðvitað þeirra val. Við fylgjumst með.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.