Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þrándur í götu fjárfestingar ríkiskirkjunnar?

Karl Pétur Jónsson

Karl Pétur Jónsson skrifar grein á Pressunni og í henni spyr hann hvort það verði "engin jól í skókassa?" og hún hefst á Seltjarnarnesi.

Að undirlagi Mýrarhúsaskóla hér á Seltjarnarnesi hefur fjölskyldan sameinast í undirbúningi á tveimur afar mikilvægum jólagjöfum.

Greinin fjallar um átak sem felst í að safna og gefa gjafir til munaðarlausra, veikra og fátækra barna í Úkraínu. Þetta átak hefur fengið titillinn Jól í skókassa. Greinin endar á þessum orðum:

Þess vegna þykir okkur svo einstaklega vænt um þetta verkefni, Jól í skókassa, en frá 2004 hafa íslensk börn gefið úkraínskum jafnöldrum sínum yfir 20.000 gjafir. KFUM og KFUK eiga heiður skilinn fyrir þetta og ég ætla að vona að hið velmeinandi Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar muni ekki verða þrándur í götu þeirra í framtíðinni, en verkefnið byggist einmitt á samstarfi trúarhóps, skóla og heimila.

Mannréttindaráð Reykjavíkur mun eflaust ekki láta detta sér í hug að gera athugasemdir við þetta átak, þau hafa líklegast mun meira vit en sumir. Auk þess hefur Mannréttindaráð Reykjavíkur nákvæmlega ekkert með starf Mýrahúsaskóla á Seltjarnanesi að gera.

En einhverjir gætu spurt hvort virkilega sé ástæða til að lauma biblíumynd í hvern kassa, aðrir gætu mögulega gert athugasemd við kostnaðinn sem felst í að senda íslendinga út til að fylgja kössunum, en sennilega verður lítið sem ekkert rætt um það. Ekki var nú gert mikið mál úr ABC-barnahjálpinni í fjölmiðlum, þrátt fyrir trúarlegu tengslin.

Allir hafa nú rétt á sínum skoðunum og sumir hafa alveg vel efni á sínum skoðunum. Hvað ætli þessi Pressu-grein hafi kostað? Ætli þessum 900.000 kalli hefði ekki verið betur varið í þetta tiltekna átak? Eða ætli fjárfesting ríkiskirkjunnar sé strax farin að borga sig?

Ritstjórn 02.11.2010
Flokkað undir: ( Vísun )

Viðbrögð


Sveinn Þórhallsson - 02/11/10 13:21 #

Er þetta samstarfsverkefni kirkju, heimilis og skóla?

Ég veit ekki betur en að hér í Keflavík koma skólarnir ekkert að þessu, afhverju þurfa þeir að gera það á Nesinu?


GH - 02/11/10 13:25 #

Það er alltaf fallega gert að reyna að gleðja náungann, hvað þá fátæk börn. En það er ekki fallega gert af almannatengslafulltrúanum að nota skó-verkefnið til að lauma að áróðri fyrir kirkjuna þótt hann hafi fengið borgað fyrir það.


Carlos - 02/11/10 14:00 #

Merkilegt að hér er ráðist á manninn (fyrir að vera "atvinnubloggari" og starfsmaður KOM) í stað þess að taka á eðlilegri spurningu hans, sem er að samstarfsverkefni sem kallar skóla, kirkju og KFUM/K að sama borði (og er ekki trúboðstól), getur dottið út af borði vegna nýrra staðla sem Mannréttindaráð Rvk setur.


Halla Sverrisdóttir - 02/11/10 14:02 #

Skókassaverkefnið er alla jafna einstaklingsverkefni, en Mýrarhúsaskóli hefur verið með heilu bekkina í þessu í nokkur ár.

Hvað það kemur ályktun Mannréttindaráðs við er mér óljóst, kannski Karl Pétur sé að prísa sig sælan að vera frjáls undan þeim skrímslum úti á tanganum sínum? Ég veit ekki um neina skóla í Rvík sem hafa gert þetta að bekkjarátaki en raunar þarf ályktun M.ráðs í sjálfu sér ekki að hamla því að skólabekkir taki þátt í svona verkefnum, en það þyrfti þá að kynna það verkefni vel fyrir foreldrum fyrirfram og forðast alla pressu á börn sem foreldra að vera með, eða lenda í hlutverki "vonda fólksins sem ekki vill gleðja börnin" ella.

Sjálf fer ég með skókassa niður í KFUM/K vegna þess að mér finnst þetta traustvekjandi verkefni (og læt mér þá í léttu rúmi liggja þótt það sé stungið biblíumynd í kassann, það er áreiðanlega dælt guðsorði í blessuð börnin á þessum munaðarleysingjahælum hvort eð er) og vegna þess að þetta er nokkuð sem við dóttir mín höfum gaman af að gera saman og sem vekur hana til umhugsunar um það hvað stelpa í öðru landi sem er eins og hún, en býr samt við allt aðrar kringumstæður, gæti hugsað sér að fá í jólagjöf og hvað hún er sjálf aflögufær um, t.d. af nánast óslitnum fötum eða leikföngum sem lítið hafa verið notuð og fara með í kassann. Hún teiknar líka mynd til stelpunnar.

En ég er ekki viss um að ég væri sátt við þetta sem bekkjarprójekt.

Hvað Herrans almannatengill er að fara með þessum pistli er semsagt ekki alveg ljóst. Hann hefur amk mætt snemma í vinnuna :)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/11/10 14:05 #

Carlos, þykir þér ekkert merkilegt að maðurinn starfar fyrir ríkiskirkjuna? Maðurinn er starfsmaður almannatengslafyrirtækis sem ríkiskirkjan er nýbúin að semja við.

Skrif hans verðum við að skoða í því ljósi.

...í stað þess að taka á eðlilegri spurningu hans

"Í stað"? Við tökum einnig á spurningu hans í þessari færslu.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 02/11/10 14:10 #

@Carlos

Þetta kemur fram í þessum pistli:

Mannréttindaráð Reykjavíkur mun eflaust ekki láta detta sér í hug að gera athugasemdir við þetta átak, þau hafa líklegast mun meira vit en sumir. Auk þess hefur Mannréttindaráð Reykjavíkur nákvæmlega ekkert með starf Mýrahúsaskóla á Seltjarnanesi að gera.

Og hvaða staðla? Það er ekki búið að samþykkja eitt né neitt, þessi svokallaða "samvinna" kirkju og skóla er enn við lýði í mörgum skólum.

Og hefur einhver verið að hnýta í þetta átak í ár eða undanfarin ár? Neibb. Ætlar kirkjan að gera þennan tittlíngaskít að einhverju furðulegu þrætuepli og blása þetta upp á líkt og þeir gerðu með tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkur?

Örugglega.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 02/11/10 16:36 #

Einhver hefði nú kallað það högg fyrir neðan beltisstað, að beita fátækum börnum í Úkraínu fyrir sig í baráttunni fyrir að fá að innræta íslenskum börnum lútherstrú á skólatíma.


Mummi - 02/11/10 16:53 #

Hérna á Akureyri tengist þetta ekki skólunum heldur. Auglýst var um daginn í bæjarsneplinum að KFUM/K tæki við skókössum á Glerártorgi um síðustu helgi.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 02/11/10 17:07 #

Á heimasíðu Jól í skókassa er einmitt hægt að finna upplýsingar um móttökustaði við þessum skókössum. Engin skóli kemur fram á þeim lista. Svo virðist ekkert tekið sérstaklega fram að þetta sé eitthvað sérstakt samvinnuverkefni trúarhóps, skóla og heimila. Þetta er á vegum KFUM og KFUK. Öllum er sjálfsvald sett - stofnanir sem og heimili - hvort þau taka þátt í þessu eða ekki.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/11/10 17:10 #

Eruð þið að reyna að segja mér að almannatengill sem þjónar ríkiskirkjunni sé að reyna að þyrla upp ryki í umræðunni um trúboð í skólum.

Ég er svo aldeilis hissa.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 02/11/10 17:42 #

Já. Ég er það sko aldeilis líka. :|


ET - 02/11/10 19:08 #

Ekki var lengi að bíða eftir að eitthvað svona kæmi frá þeim. 900.000 kr. greiðslan án efa komin til skila og það er ekkert verið að fara fínt í hlutina neitt.

dapurlegt.


Halla Sverrisdóttir - 02/11/10 23:07 #

PS: á fyrirsögnin ekki að vera "Þrándur í götu fjárfestingAR ríkiskirkjunnar?"?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/11/10 23:43 #

Auðvitað. Takk fyrir að benda á þetta klúður.


Jón Steinar - 03/11/10 04:13 #

Ádrepa um spuna. http://hvalfjord.blog.is/blog/hvalfjord/entry/1112579/#comments


thork - 03/11/10 17:54 #

Karl Pétur þyrfti að upplýsa hvort þessi grein er hluti af allmannatengslavinnu hans fyrir ríkiskirkjuna. Það er dapurlegt fyrir trúlausa skattgreiðendur að þurfa að borga sjálfir fyrir áróðurinn gegn sér.


Björgvin - 04/11/10 10:36 #

Sem einn aðstandenda þessa verkefnis þá vil ég biðja ykkur um að vera ekki að blanda því saman við deilur ykkar við Þjóðkirkjuna. Þetta verkefni er unnið að slíkum heilindum þar sem þeir sem að því standa hafa fylgt því eftir með heimsóknum til Úkraínu en á eigin kostnað. Þeir peningar sem fylgja kössunum fara eingöngu til að greiða útlagðan kostnað við verkefnið sem er að lang mestu leyti flutningsgjald frá Íslandi til Úkraínu. Þar greiðir verkefnið líka fyrir dreifingu. Öll vinna við verkefnið bæði hér heima og við dreifingu er unnin í sjálfboðavinnu. Ég bið ykkur því um að vera ekki að draga þetta verkefni inn í einhverja tortryggilega umræðu. Það eru fjölmargar fjölskyldur sem eiga sömu sögu að segja og þessi maður sem lýsir upphafi að sínum jólaundirbúningi og það er bara ekkert tvírætt eða torkennilegt við það.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 04/11/10 10:37 #

Sem einn aðstandenda þessa verkefnis þá vil ég biðja ykkur um að vera ekki að blanda því saman við deilur ykkar við Þjóðkirkjuna

Björgvin, við vorum alls ekki að blanda þessu verkefni við nokkrar deilur. Það gerði almannatengill sem starfar fyrir ríkiskirkjuna. Hafðu samband við hann og kirkjuna, ekki okkur. Það er glórulaust að halda því fram að við höfum verið að blanda þessu saman við deilur okkar við ríkiskirkjuna.


Björgvin - 04/11/10 10:58 #

Matti, það er ykkar túlkun á greininni sem hann skrifaði. Þó hann sé að starfa að verkefni fyrir Þjóðkirkjuna þarf ekki endilega að setja það í þetta samhengi. Ég þekki ekkert til þessa manns en það gladdi mig að heyra hans upplifun af þessu góða verkefni og ég veit að hann er ekki einn um hana. Því finnst mér óþarfi að draga verkefnið inn í einhverja neikvæða umræðu. Þetta verkefni er langt yfir slíka umræðu hafið.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 04/11/10 11:00 #

Matti, það er ykkar túlkun á greininni sem hann skrifaði

Fyrirgefðu Björgvin, en hann tengdi þetta við umræðuna með þessum orðum sínum:

ég ætla að vona að hið velmeinandi Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar muni ekki verða þrándur í götu þeirra í framtíðinni, en verkefnið byggist einmitt á samstarfi trúarhóps, skóla og heimila

Við túlkuðum ekki neitt. Almannatengill ríkiskirkjunnar sá um að tengja verkefni ykkar við umræðuna um "samstarf trúarhóps, skóla og heimila".

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.