Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Bréf til Mannréttindaráðs Reykjavíkur

Vegna árása kirkjunnar manna á Mannréttindaráð Reykjavíkur sendi Vantrú fulltrúum ráðsins eftirfarandi bréf:

Við lýsum yfir mikilli ánægju með hugmyndir ykkar í Mannréttindaráði Reykjavíkur um samskipti leik- og grunnskóla við trúfélög. Vantrú hefur í mörg ár reynt að benda á mikilvægi hlutleysis skóla í trúmálum og fyrir vikið höfum við fengið á okkur ásakanir og árásir líkar þeim sem þið megið nú þola.

Séra Þórhallur Heimisson kallar ykkur til dæmis “bókstafstrúaða öfgasinna” á bloggi sínu. #

Og séra Bjarni Karlsson sakar ykkur um “andúð á Þjóðkirkjunni”, óskynsemi og vanþekkingu á eðli samfélagsins og segir ykkur ganga gegn “félagslegum hagsmunum þúsunda barna”. #

Svo eru það auðvitað þeir sem vísa í hefðarökin, telja ykkur vera að rífa niður íslenska menningu og jafnvel brjóta mannréttindi á meintum meirihluta o.s.frv.

En allt þetta sýnir aðeins hvað kirkjunni er í raun mikið í mun að fá aðgang að börnum áður en þau þroska með sér gagnrýna hugsun. Ef þið efist þó eitthvað um það viljum við benda ykkur á eftirfarandi ályktanir úr kirkjunnar ranni og byrjum á starfshópi sem séra Halldór Reynisson fræðslufulltrúi á biskupsstofu skipaði 2003:

“Eins og það eru námsráðgjafar og sálfræðingar tengdir skólunum, sé ég fyrir mér djákna eða prest í hvern framhaldsskóla.” #

Lokaorð þessa starfshóps voru: "Síðustu orð Jesú til lærisveinanna voru: „Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum...“ Hlutverk kirkjunnar er skýrt, að fara með boðskap Jesú og fara að fordæmi Jesú. " # En samt sem áður vísar þessi sami Halldór því á bug núna að trúboð sé stundað í skólum og "furðar sig á tillögu Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um að takmarka aðgang trúfélaga að skólastarfi í borginni." #

Tillaga til þingsályktunar um námskrá fyrir fræðslu þjóðkirkjunnar á Kirkjuþingi 2010: “Æskilegt er því að auka samstarf kirkjunnar og leikskólans.” “Auka þarf samstarf skólans og kirkjunnar enda nær skólinn til flestra barna sem skírð eru.” #

Og að lokum ályktun Prestastefnu 2010: “Prestastefnan áréttar mikilvægi heimila og skóla í uppeldi og menntun ungrar kynslóðar til heilbrigðra lífshátta og tileinkunar kristinna lífsgilda.” #

Allir prestar hafa upp á vasann vígslubréf frá biskupi þar sem segir að þeim „beri að boða Guðs orð rétt og hreint samkvæmt heilagri ritningu og í anda evengelísk-lúterskrar kirkju". Um anda evangelískrar-lúterskrar kirkju segir í stefnumótun Lúterska heimssambandsins: „Boðun er hið eiginlega eðli kirkjunnar. Boðun er ekki valkostur kirkjunnar. Boðun er grundvöllur veru hennar sem „ein, heilög, almenn og postulleg“ kirkja (Níkeujátningin).“Í siðareglum presta segir að þeim beri að „boða Krist og útbreiða ríki hans“. Um boðun kirkjunnar segir Karl Sigurbjörnsson biskup: „Orðið mission er margrætt og hlaðið. Í kirkjulegu samhengi er það gjarna þýtt kristniboð.“ „Kirkjan er send með boðskap. Það er hlutverk hennar og verkefni hennar öll eru með einum eða öðrum hætti liður í þeirri sendiför.“

Kirkjunnar menn sverja auðvitað af sér að um trúboð sé að ræða en “þetta er náttúrulega trúboð. Það er ekki hægt að kalla þetta annað," segir Halldóra Guðmundsdóttir, formaður Reykjavíkurdeildar Félags leikskólakennara. #

Við í Vantrú vitum sem er að tillögur ykkar miðast við stefnumótun Menntasviðs Reykjavíkur frá 2007 sem unnin var með faglegum hætti og tekur mið af stjórnarskránni, landslögum og ákvæðum mannréttindasáttmála. Við treystum að þið standið undir nafni sem Mannréttindaráð og látið ekki slá ykkur út af laginu.

Ritstjórn 20.10.2010
Flokkað undir: ( Tilkynning , Vísun )

Viðbrögð


Guðjón - 20/10/10 13:41 #

Frábær pistill. Ég legg til að hann verði sendur sem opið bréf í Fréttatímann (fyrst Fbl. birtir ekki óhentuga pistla) Það er langt síðan ég hef lesið svona ferskan og málefnalegan pistil um þetta annars einfalda mál.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 20/10/10 14:47 #

Kirkjunnar menn börðust gegn afnámi þrælahalds (enda hefð fyrir því og blessun lögð yfir það í Biblíunni), gegn kvenréttindum (enda á maðurinn að vera höfuð konunnar o.s.frv, skv. Biblíunni) og réttindum samkynhneigðra (enda athæfi þeirra viðurstyggð skv. Biblíunni).

Samt segir Karl Sigurbjörnsson:

Af rótum kristninnar sprettur frelsi, já og mannréttindi og allt það besta sem vestræn menning hefur fram að færa. #

Hvernig stendur á því að kirkjan er svona á móti mannréttindum ef þau spretta af rótum kristninnar. Af hverju er Mannréttindaráð Reykjavíkur orðinn helsti skotspónn kirkjunnar manna?


Siggeir F. Ævarsson - 20/10/10 17:17 #

Karl er popúlisti af verstu sort.


Baldur B - 21/10/10 11:40 #

Mikið rosalega eru þið barnaleg eruð eins og börn vælandi yfir þessu og hinu,hann skvetti á mig hann byrjaði, ég skal segja mömmu, frá þessu .þú ert asni.Vona að þið séu ekki ala börn sjálf því að manvonskan er svo mikil hjá ykkur og engin virðing borin fyrir öðrum og bágt á ég með að trúa að þið séu svona mörg í trúfélaginu Vantrú, gaman væri að vita hvað þið eruð mörg miðað við þjóðkirkjuna ég giska 2-3 þúsund hjá ykkur.Á meðan 80% er í öðrum kirkjum.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 21/10/10 12:23 #

Ég vona bara innilega að þú sért barn, enda alveg verulega óþroskuð og illa rökstudd athugasemd.


Vilberg Tryggvason - 21/10/10 13:23 #

Mér þætti afskaplega vænt um að þið hélduð ykkur við þá grundvallarstaðreynd að þið búið á Íslandi og við höfum þjóðkirkju. Þorri íslendinga sýnir þá umburðarlyndi að virða skoðanir og þá lífssýn sem Vantrú hefur. Að hafna "trúboði" þjóðkirjunar í íslenskum mennta- og uppeldisstofnunum, er skortur á umburðarlyndi gagnavart trúarskoðunum megin þorra þjóarinnar. Ég krefst þess að þið sýnið hinum trúuðu íslendingum sömur umburðarlyndi og þið eruð að krefjast af þeim. Mér finnst,því miður, framkoma ykkar þessa dagana, minna á baráttu ákveðins hóp fyrir því að banna útgáfu á " Tíu litlir negrastrákar"


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 21/10/10 13:41 #

Það er ekki Vantrú sem samdi þessa ályktun, svo ég skil ekki hvers vegna þú ert að beina orðum þínum til okkar hér, Vilberg.

Að hafna trúboði í ríkisskólum er ekki skortur á umburðarlyndi, heldur beiðni um trúfrelsi. Land þar sem ein trúarbrögð njóta sérstakrar verndar ríkisins er einfaldlega ekki trúfrjálst.


Finnur - 21/10/10 14:00 #

Flottur pistill. Það eina sem mér finnst gleymast í þessari umræðu er að hinir trúuðu Íslendingar sem eru svona rosalega sárir yfir því að börn þeirra fara nú á mis við kristnifærðslu í leikskólanum geta alltaf farið með blessuð börnin í kirkju... t.d. í sunndagsskólann og/eða messu...


Andrés Valgarðsson - 21/10/10 20:45 #

Það er bara einfaldlega mannréttindamál að það sé ekki gert upp á milli þegnanna á grundvelli trúarskoðana. Ríkið á ekki að gera einum trúarbrögðum hærra undir höfði en öðrum. En það er algjör lágmarkskrafa að það sé ekki verið að kenna öllum börnum óháð trúarskoðunum ein tiltekin trúarbrögð. Og það er engin lausn að þau börn sem ekki vilja (eða eiga foreldra sem ekki vilja) að þau taki þátt sitji frammi á meðan. Þá verða þau sjálfkrafa utangarðsmenn í sínum skóla og það er mismunun.

Mannréttindamál eru eitt mál þarsem meirihlutaræði einfaldlega gildir ekki.

Trúboð á ekki heima í skólum. Trúarinnræting ekki heldur.


Sigurður J. Haraldsson - 22/10/10 07:23 #

Frábær pistill sem er birtur hérna. Ótrúlegt hvað kristið fólk vill hafa rétt til að kukla í börnum annara með sýna trú. Er ekki nóg fyrir kristið fólk að kukla í sýnum eigin börnum utan skóla. Allt trúaruppeldi á heima inn á heimilum og utan skóla annars er ekki tekið tillit til trúfrelsis.


Friðrik - 01/11/10 15:00 #

Hvar er þessa ályktun mannréttindaráðs Rvk. að finna? Hef verið að leita að frumheimildinni nokkuð lengi á netinu og virðist bara finna skoðanna skipti. Veit einhver hvar þessa raunverulegu ályktun er að finna?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/11/10 15:10 #

Egill Helgason birti bókunina um daginn.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.