Ekkert rit er líklegra til að grafa undan kristinni trú en Biblían, þ.e.a.s. ef menn lesa hana. Hins vegar er Biblían svo drepleiðinleg að líklega hafa fáir menn lesið hana frá upphafi til enda. Einn þeirra er Úlfar Þormóðsson og hann punktaði hjá sér það helsta við lesturinn jafnóðum auk athugasemda stíluðum á guð almáttugan. Úlfar hlaut dóm fyrir guðlast á sínum tíma og auðvitað geta lesendur Vantrúar lesið sér til um þann hræðilega glæp hérna (Ath. alls ekki fyrir viðkvæma guðfræðinema.)
Sjálfur er ég einn þeirra sem hafa gert heiðarlega tilraun til að blaða í gegnum þetta ömurlega torf og stagl, Biblíuna, en ólíkt Úlfari hefur mér aldrei tekist að klára verkið. Ég hef þó lesið megnið af henni og miklu meira en nóg til að átta mig á því um hvers konar rit er að ræða og hve hugmyndir manna um hana eru undarlegar (sér í lagi á meðal fulltrúa kirkjunnar og einstakra þingmanna). Þess vegna er mér mikill fengur í bókinni „Þú sem ert á himnum“.
Ég er viss um að margir verða forviða við lestur bókar Úlfars á því sem hann finnur í biblíunni (hann skrifar hana alltaf með litlum staf) en allt er þetta þó þarna, í bók bóka. En þótt ekkert í texta Biblíunnar hafi komið mér í opna skjöldu kom mér verulega á óvart hvað ég hafði gaman af hugleiðingum Úlfars, bæði út frá texta Biblíunnar og þó enn frekar hugleiðingum hans um atburði líðandi stundar, sem hann fléttar á afar skemmtilegan hátt inn í frásögnina. Þú sem ert á himnum er nefnilega ekki bara skoðun á Biblíunni heldur líka nútímanum á Íslandi og stöðu kirkjunnar.
Við lesturinn skellti ég ítrekað upp úr og skemmti mér konunglega, jafnvel guðdómlega. Stíll Úlfars er látlaus, einlægur en afar lúmskur og kíminn. Hvorki sperrir hann sig né reigir, bugtar né beygir, heldur líður manni eins og maður sé að hlera einlægt samtal velviljaðs og hreinskiptins manns í eldhúskróknum sínum við drottinn allsherjar. Samtal er kannski ekki rétta orðið því sá almáttugi tjáir sig aðeins úr ritningunni og svarar í engu ótal spurningum Úlfars.
Bókinni er skipt í sömu kafla og í Biblíunni en hver kafli skiptist í fjölda undirkafla, sem eru allt frá einni línu og upp í örfáar blaðsíður að lengd, sennilega um þriðjungur af blaðsíðu að meðaltali. Fyrir vikið er bókin ekki ólík ljóðabók því það má glugga í hana hér og þar, fara fram og aftur, lesa tvö þrjú kaflabrot eða lengri romsur, allt eftir áhuga og aðstæðum. Úlfar er góður stílisti og greinilega með gott vald á íslenskri tungu. Hann gerir líka óspart grín að nýju þýðingu Biblíunnar (sem hann kallar rauðu bókina). Í fyrsta kafla bókarinnar, Fyrstu Mósebók, er t.d. að finna undirkafla sem heitir „Holdótti“ og hljóðar svo:
Ég hafði ekki hugsað mér að þreyta þig með þýðingarmun á svörtu og rauðu bókunum, guð; það væri bara til að ergja okkur. En af því að ég er af anda þínum stenst ég ekki mátið og bendi þér á að þýðingarnefndin virðist vera haldin holdótta; þetta er nýyrði. Þannig var að hér um árið tóku menn upp á því að gera grín að orðinu hold í leppnum „upprisa holdsins og eilíft líf“. Þetta virtist ósköp saklaust en barst inn á biskupsstofu og varð að klámfengnum vanda. Þetta var reyndar um sama leyti og biskupinn yfir Íslandi, frímúrari, hélt til Perú og sótti „Limaráðstefnu“, eins og hann nefndi samkomuna. Eftir að þetta allt var skeð var holdið fjarlægt úr slagorðinu. Því er ég að nefna þetta hér að í svörtu Mósebók segir: „Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.“ Í rauðu bókinni lýkur setningunni svona: „[...] og býr með eiginkonu sinni og þau verða eitt.“ Ekki eitt hold heldur eitt. Orðinu eitt fylgir tilvísun í neðanmálsgrein: „Orðrétt: eitt hold.“ Með smærra letri.
Síðar í sama kafla er undirkafli sem kallast „Fávitringur“ og hljóðar svo:
Þegar ég stóð upp frá glósunum í gær asnaðist ég til þess að hlusta á sóknarprest flytja erindi um guðdóminn í útvarpið. Þá áttaði ég mig á því að andi Fimm mínútna Biblíunnar hefur tekið sér bólfestu í postulum þínum; það hafa orðið til fimm mínútna prestar. Þetta voru orð hans: „Guð er til. Skynsemin segir það enda bendir flest til þess! Að velta því fyrir sér að guð sé ekki til sannar að hann sé til! Sá sem efast um að guð sé til er að segja að hann sé til! Tilviljun er ekki til; hún er ekki neitt! Það sem er til í sjálfu sér er eilíft! Sjálfstilvist er skynsemi! Alheimurinn á upphaf og þarf af leiðandi orsök. Vísindin tala um stórahvell. Hver orsakaði stórahvell? Sá sem í upphafi skapaði himin og jörð! Eitthvað sem er utan við alheiminn skapaði hann, eitthvað sem óumflýjanlega er til, eilíft; almáttugur, persónulegur skapari!“
Um næstu helgi verður hugsanlega örlítil kynning í Súfistanum á bók Úlfars og jafnframt á bók Richard Dawkins, Ranghugmyndinni um guð. En ég mæli hiklaust með því að menn fjárfesti í bók Úlfars sér til andlegrar upplyftingar og fróðleiks. Menn geta þá líka sparað sér lestur svörtu og rauðu bókarinnar.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Brynjar Örn Ellertsson (meðlimur í Vantrú) - 07/10/10 15:16 #
Vill bara benda á að bókin fæst í Bókasölustúdenta á 10% staðgreiðslu afslætti: http://www.boksala.is/DesktopDefault.aspx/tabid-8/prodid-64162/