Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ríkistrú og rasismi

Gunnlaugur Stefánsson

Aðskilnaður ríkis og kirkju hefur hlotið mikinn hljómgrunn hjá þjóðinni í langan tíma. Herfræði ríkiskirkjunnar virðist hingað til hafa verið sú að hunsa hinn mikla stuðning sem aðskilnaðurinn hefur notið meðal þjóðarinnar en sparka þess í stað öðru hverju í hina siðlausu trúleysingja sem þeir telja mikla ógn við samfélag kristinna manna.

En upp á síðkastið hefur kirkjan staðið í því að banka mesta skítinn úr teppum sínum, sem eru reyndar aðallega skítug að neðan, hvernig sem á því stendur. Þar hafa menn gripið tækifærið og reynt að tengja mikinn stuðning við aðskilnað við þau óþrifnaðarmál sem hafa verið að koma upp á yfirborðið undanfarnar vikur og byggja nú nýja taktík í umræðunni á því að benda á að kirkjan sé nú þrátt fyrir allan viðbjóðinn ekki svo slæm. Þetta er auðvitað frekar fúlmannleg herkænska en kirkjunnar menn telja sér hana samboðna.

Eitt af því sem spunameistarar ríkiskirkjunnar hafa greinilega ákveðið að setja á oddinn er að siðferði okkar byggist á biblíulegum gildum og að það sé bráðnauðsynlegt að ríkið haldi áfram að reka eitt trúfélag svo að hér verði ekki siðrof. Þessum fullyrðingum fylgja sjaldnast rök en prestur einn reyndi þó að tengja saman kynþáttahyggju og ríkistrú. Séra Ólafur Jóhannson hafði þetta að segja í predikun sem hann flutti 19. september:

Krafist er frekari aðskilnaðar ríkis og kirkju sem í hugum sumra felur í sér að þrýsta trúnni út úr opinberu lífi. Er reynsla annarra af því góð og jákvæð?

Í Frakklandi varð fullur aðskilnaður ríkis og kirkju fyrir langalöngu. Þar er nú áberandi öfgafull kynþáttahyggja og umburðarlyndið gagnvart minnihlutahópum með því minnsta sem gerist í Evrópu. Þess gjalda bæði múslímar og sígaunar. #

En er einhver tenging á milli rasisma og stöðu trúfélaga? Svo virðist ekki vera(.pdf). Á meðal þeirra þjóða sem skora hæst hjá Eurobarometer eru bæði ríkiskirkjuþjóðir og þjóðir sem borið hafa gæfu til þess að rífa trúfélög af spenanum. Það er hins vegar áhugavert að þær þjóðir sem koma best út úr könnuninni (Spánn, Írland, Portúgal, Lúxemborg, Svíþjóð) hafa allar aðskilið ríki og kirkju þó að áhrif trúfélaga séu vissulega sterk í sumum þeirra.

En hvernig hafa Íslendingar komið fram við múslima og sígauna? Hafa viðbrögðin við áformum um byggingu Mosku almennt verið jákvæð? Og hvernig var þetta nú aftur með múslimana sem vildu fá að biðjast fyrir í kapellu guðfræðideildar í Háskóla Íslands? Hafa sígaunar sem hingað hafa villst á síðustu árum fengið kurteislegar og yfirvegaðar móttökur frá íslenskum yfirvöldum?

Þegar nánar er að gáð virðist augljóst að presturinn hefur ekkert fyrir sér í því að auknir fordómar séu fylgifiskur þess að ríkið hætti að reka trúfélög. Hann mætti auk þess hafa í huga að það er yfirleitt betra að vera viss um að málin séu í lagi heimafyrir áður en bent er á vankanta sem menn þykjast hafa komið auga á hjá nágrannanum.

Egill Óskarsson 06.10.2010
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 06/10/10 11:05 #

Karl Sigurbjörnsson biskup skilgreinir ógnir samtímans í Kompási í febrúar 2008:

Og það er sótt að kristninni. Það er sótt að kristninni í vestrænum samfélögum í dag, mjög eindregið. Það er sótt að henni frá herskárri guðsafneitun, og and-trú … og það er sótt að henni frá islam.

Sami herra hefur líka sagt:

Af rótum kristninnar sprettur frelsi, já og mannréttindi og allt það besta sem vestræn menning hefur fram að færa. ... Og þegar Guði er úthýst úr lífi manns og mannhyggjan er sett á stall, þá verða það ekki frelsið og friðurinn og lífið sem við tekur, heldur helsið og hatrið og dauðinn. Það staðfestir öll reynsla. #

Myndskreyting þessarar greinar sýnir ávexti kristninnar í mannréttindamálum og við munum baráttu kirkjunnar hér gegn réttindum samkynhneigðra.

En þeir sem hrópa "Mikill er guð" (Allahu Akbar) hafa væntanlega ekki úthýst guði úr lífi sínu og þá hlýtur að vera óhætt að treysta að frá þeim komi gott eitt, sér í lagi ef það er sami guð og Karl er svo skotinn í.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 06/10/10 21:51 #

Staðreyndin er sú að hingað komu fyrir ekki alls löngu nokkrar sígaunafjölskyldur með Norrænu. Fjölmiðlar fylgdu þessu fólki í hvert fótmál með stöðugum fréttafluttningi. Þolimæði hins kristna Íslands var sú að fólkið var smalað saman í hasti og sent heim með fyrstu flugvél úr landi. Amen.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.