Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vopnin kvödd?

Ógisslega krúttlegur kettlingur og dúllulegur hvolpur

Þriðjudaginn 21. sept. brá ég mér á fund um aðskilnað ríkis og kirkju. Þar voru framsögumenn þeir Hjalti Hugason prófessor, Örn Bárður Jónsson prestur og Bjarni Jónsson frá Siðmennt. Fundurinn fór ágætlega fram og var hinn ágætasti en þó var það sem gerðist eftir fundinn áhugaverðara í mínum huga. Ég settist nefnilega á spjall við Hjalta og Örn kom nokkru síðar inn í umræðurnar. Þær snerust fyrst og fremst um gagnkvæma fordóma Vantrúarmanna og Þjóðkirkjumanna, um ríkjandi skotgrafahernað og hvernig mætti hugsanlega vinda ofan af honum.

Þegar tvær fylkingar eru hjartanlega ósammála en hittast aldrei að máli, heyra fyrst og fremst álit jábræðra og samherja, er eðlilegt að hvor um sig fái bjagaða mynd af andskota sínum. Á innra spjalli Vantrúar (aðeins ætlað innmúruðum og óvígðum) eru líflegar samræður á hverjum degi og þótt við fárumst þar mikið yfir alls konar gervivísindum og kukli er því ekki að leyna að kirkjunnar menn eru þar oft ofarlega á blaði. Betur sjá augu en auga og hin mörgu augu Vantrúarmanna sjá marga vitleysuna sem frá trúuðum kemur - og flest er það dregið inn á spjallið og menn kjamsa á því fram og til baka. Þegar við fáum sífellt og einhliða neyðarlegar og neikvæðar fréttir af málflutningi trúaðra er afleiðingin auðvitað sú að það myndast afar neikvæð mynd af þeim í hugum okkar, jafnvel þótt við vitum að upp til hópa eru trúaðir menn hið ágætasta fólk, og jafnvel eru til vígðir menn sem ekki er alls varnað.

Nú get ég auðvitað ekkert fullyrt um stöðuna í hinum herbúðunum. Mig grunar að áhugi á trúmálaumræðu sé heldur minni þar en ég þori að hengja mig upp á að þegar Vantrú ber á góma er þar fyrst og fremst um gagnrýni á okkur að ræða og smjatt á því hvað við höfum nú verið slæm hér eða þar. Þetta köllum við í Vantrú svo fordóma í okkar garð, jafnvel andúð og vanvirðingu. Á móti saka trúmenn okkur um hatur, ofstæki, niðurrif og einelti.

Er einhver leið til að vinda ofan af þessu, stöðva þennan vítahring? Er ekki hægt að bera klæði á vopnin þótt þau verði kannski seint kvödd? Það varð niðurstaða okkar Hjalta og Arnar Bárðar að reynandi væri að smíða örlitla brú á milli þessara stríðandi fylkinga, koma á fundi til að ræða málin. Ég held að sá fundur gæti verið mikils virði, ekki bara til að "afgrýla" andstæðinginn heldur líka til að reyna að koma sjónarmiðum okkar óbrjáluðum til skila, á báða bóga. Sennilega er það barnsleg bjartsýni, sem stríðir gegn allri reynslu, að möguleiki sé að koma kirkjunnar mönnum í skilning um að trúboð í leik- og grunnskólum má auðveldlega leggja niður án þess að íslensk menning og siðgæði (slíkt sem það er) glatist að eilífu... en það má reyna.

Hvað um það? Örn Bárður og Hjalti tóku að sér að koma þessum fundi á koppinn og við í Vantrú bíðum hæfilega bjartsýn og þolinmóð. Verði af þessum fundi verða það sjálfsagt engin vatnaskil í trúmálaumræðu á Íslandi, en kannski vísir að örlítið meiri skilningi og bættum samskiptum.

Reynir Harðarson 03.10.2010
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Reputo (meðlimur í Vantrú) - 03/10/10 11:31 #

Það er sennilega eftir töluverðu að slægjast hjá kirkjunnar mönnum með þessari slíðrun vopna. Meðlimum kirkjunnar fækkar stöðugt og því er þeim sennilega í mun að setja tappa lekana. Vantrú eru einu félagasamtökin sem hjálpa fólki við leiðréttingu á trúfélagaskráningu, ásamt því að stunda harða gagnríni á kirkjuna, og því liggur beinast við að reyna að friðþægja okkur á einhvern hátt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 03/10/10 11:45 #

Ég er skeptískur á þetta.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 03/10/10 11:46 #

Ætli þetta sé ekki mest fyrir þá greyin - ég sé ekki hvaða markmið ætti að vera með slíkum fundi, málflutningur Vantrúar beinist ekki að Þjóðkirkjunni og öfugt.


Gunnar J Briem - 03/10/10 15:40 #

Dawkins láti gott á vita... :-)


Jon Steinar - 03/10/10 20:58 #

Sýnist þeir þurfa að ná sáttum við einhverja fleiri en nokkra kjaftháka hjá Vantrú samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Gallup. Þar eru 73% með aðskilnaði ríkis og kirkju og 24% sátt við Biskup. (30% hvorki né og restin hundóánægð) Það er talandi fyrir króniska afneitun þessarar stéttar á allan raunveruleika að halda að klúbburinn Vantrú sé meinið. Það þurfi bara að setjast yfir bolla af kamilluteii eina kveldstund til að koma vitinu fyrir þessa 30 dóna og níðinga og þá verði allt dandý hjá blessaðri kirkjunni á ný.

Afsakið meðan ég rifna ofan í rassgat af hlátri.


Þorgeir Tryggvason - 03/10/10 21:19 #

Góðar fréttir.


Morten Lange - 03/10/10 22:29 #

Finnst þetta vera góð viðleitni. En auðvitað er maður pínu tortrygginn, hafandi upplífað hegðun sem amk jaðrar við óheiðarleika (ef ég reyni að orða þetta hofsamlega) af hálfu kirkjunnar menn. En það ávinnist lítið, nema láta reyna á þessu.

Margir fylgjast mun betur með kirkjuna og presta en ég, en snögg vefleit, geri það að verki að maður sé pinu tortrygginn út í þessum presti.

Sjá til dæmis :

Örn Bárður Jónsson prestur fer með rangt mál úr prdikunarstóli

Aftenging skóla og jóla


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 03/10/10 22:46 #

Greinin hans Örns - Aftenging skóla og jóla - er ekkert smásmíði af gjörsamlega sturluðum hugsunarhætti!


Jon Steinar - 04/10/10 00:46 #

Mér sýnist Örn Bárður skrifa heilar greinar, sem bara innihalda spurningar, sem aldrei er gerð tilraun til að svara, nema ef vera skyldi með annarri spurningu. Fullt af orðum en ekkert innihald, eins og regla er með allt sem frá prestlingum. Það er vinnan þeirra að tala og skrifa og þeir virðast hafa einhvern kvóta að uppfylla þar. Þess vegna er þetta nú ekki burðugra en það er. Merkingarlaust og innihaldslaust þvaður. Við hverju er að búast með jafn rakalausan þvætting til grunns, eins og Biblíuna? Þetta er tragikómískt að lesa þetta. Maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða æla.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 04/10/10 01:07 #

Maður verður bara gáttaður á svona sturluðu spurningaflóði sem allar vísa í einhverja dómsdagsþvælu um að heimur versnandi fer og allt gæti farið til helvítis ef reglur varðandi skóla yrðu gerðar almennari og skýrari - og endar svo á að hvetja fólk að hugsa um dauða og djöfull yfir jólahátíðirnar. "Gleðileg jól!" Indeed.

Klikkun.


Kristján - 04/10/10 01:35 #

Burtséð frá hvaða skoðanir Örn hefur á hlutverki trúarbragða í samfélaginu, hlýtur það að teljast jákvætt að það skuli vera prestur þarna sem er tilbúinn í umræður um aðskilnað kirkju og ríkis. Mér fyndist frekar skuggalegt ef maðurinn héldi ekki sannfæringu sinni í þessum málum. En punkturinn sem ég vill koma með, er sá að ég persónulega lít á viðræður trúaðra og trúlausra um aðskilnað kirkjunnar sem mjög góðan hlut. Ef þetta heldur áfram með góðu móti geta jafnvel báðar hliðar komist að þeirri niðurstöðu að það sé út í hött að hafa ríki og kirkju í sama apparati. Hvað varðar aðskilnað ríkis og kirkju tel ég ekki skipta máli hvort fólk trúi eða ekki, heldur sé þetta mál sem varðar stjórnsýsluna. Annað hvort er þetta ríkisapparat (með þeim kröfum sem á að fylgja því) eða ekki. Höldum markmiðinu hreinu segi ég.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 06/10/10 18:15 #

Séra Örn Bárður Jónsson heggur í kunnuglegan knérunn í nýrri prédikun:

Já, kannski eru allt of margir í dag sem hæða sinn herra og hugsa ekki um það sem er heilagt og gott. Og ég óttast það að vissu leyti að hér sé að vaxa upp kynslóð sem vill allt hið góða í burtu, hin góðu gildi, kirkju og kristindóm...

Hverjir hæða sinn herra? Er herrann skoffínið í Biblíunni?

Hvað er heilagt? Er það bullið í Biblíunni?

Hvað er gott? Sérréttindi kirkjunnar?

Og hver er það sem vill allt hið góða í burtu? (Er manninum sjálfrátt?)

Er kirkjan og kristindómurinn þetta góða? (Hefur Örn Bárðu ekki lesið sögu kirkju og kristindóms eða fylgst með fréttum síðustu vikna?)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/11/10 13:58 #

Komið hefur fram að Örn Bárður skoðar Vantrú.is aldrei og neitar því að svara fyrir sig í athugasemdum.

Er þetta ekki hámark hræsninnar? Eigum við að bera virðingu fyrir fólki sem neitar að skoða skrif okkar?

Ég les trú.is reglulega, ekki vegna þess að ég sé sammála því sem þar er skrifað, heldur þvert á móti, vegna þess að ég er ósammála því.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 10/11/10 14:34 #

Það er lítið mál að virða menn sem neita að skoða skrif okkar. Hins vegar setur þá niður ef þeir eru jafnframt að tjá sig, jafnvel fjálglega, um afstöðu okkar. Slíkir menn eru margir í ranni kirkjunnar.

Við getum ekki gert betur en að bjóða mönnum til viðræðna. Boðið stendur en annað hvort skortir þá vilja eða getu til að auka gagnkvæman skilning.

Það er þeirra tap því við þekkjum málflutning þeirra ágætlega, enda lesum við heldur sorgleg skrif þeirra reglulega.

En við hverju er svo sem að búast af presti og guðfræðiprófessor þegar formaður starfshóps Þjóðkirkjunnar um samskipti við önnur trúarbrögð skilgreinir okkur sem trúfélag en þorir ekki fyrir sitt litla líf að hafa nokkur samskipti við okkur og starfar jafnframt sem stundakennari við háskóla Íslands og kennir þar að við gröfum undan allsherjarreglu samfélagsins, almennu siðferði o.s.frv. o.s.frv.? Sjá hér

Það má vorkenna mönnum sem vita ekki betur en geti menn hvorki skýlt sér á bak við fáfræði eða heimsku verður að eigna þeim aðra eiginleika og hvatir til að útskýra málflutning þeirra.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.