Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þú ert það sjálfur ef þú segir það!

Börn í sandkassa

Eftir að ég áttaði mig á eigin trúleysi hef ég öðru hverju tekið eftir ansi einkennilegu hátterni trúaðara í trúarumræðum, bæði á netinu og í raunheimum. Þetta hátterni lýsir sér í því að fullyrða að sá sem segist vera trúlaus sé það í raun ekki.

Svona fullyrðingum fylgja oft gríðalega flóknar merkingafræðilegar fimleikaæfingar þar sem trúmaðurinn sýnir fram á að allt sé í raun ekkert, allir litir geti í sjálfu sér talist svartir og að í orðinu trú felist svo víð merking að munurinn á Krossinum og Bútasaumsfélagi Raufarhafnar sé aðallega sá að fyrri hópurinn innheimti sóknargjöld og sá seinni hafi harðari viðurlög við fjarvistum frá reglubundnum fundum. Það að hin víða skilgreining á orðinu „trú“ geri það jafn merkingarlaust í umræðunni og orðið „naglbítur“ truflar menn yfirleitt lítið við þessa iðju.

En það hefur svosem nóg verið fjallað um hversu kjánalegar þessar Müllersæfingar með auðskilin hugtök eru í rauninni. Mig fýsir frekar að vita hvaðan þessi þörf trúaðra til þess að snara okkur trúleysingjana inn í sitt gerði kemur. Mér detta nokkrar ástæður í hug.

Sú fyrsta, sem er jafnframt frekar einföld, er sú að þeir trúi því í rauninni að það hafi einhvern tilgang í rökræðum að teygja þau skilgreiningarhugtök sem hópar fólks nota um sjálfa sig þannig að þau gildi um alla. Að þeir séu í rauninni bara að benda okkur góðfúslega á að við séum að misskilja eitthvað. Fyrir utan það að vera ansi einföld er þessi ástæða líka ansi ólíkleg eins og þeir sem hafa fylgst með trúarumræðum sjá.

Önnur ástæða sem mér dettur í hug er sú að menn telji þetta góða leið til þess að vera með leiðindi. Þeir vita af reynslunni að það fer svolítið í taugarnar á trúleysingjum þegar svona brögðum er beitt (þó að ég reyndar efist um að þeir viti af hverju þetta er pirrandi) og eru þess vegna óþreytandi að slengja þessu fram í tíma og ótíma. Ekki veit ég af hverju sumir trúmenn ættu að kjósa að vera með leiðindi við trúleysingja en engu að síður finnst mér þessi ástæða mun líklegri en sú fyrsta.

Þriðju ástæðunni skaut upp í huga mér í vinnunni dag einn ekki fyrir löngu. Það vill svo til að ég er verðandi leikskólakennari og starfa í leikskóla. Þar heyrir maður oftar en ekki þann sem verður fyrir leiðinlegu orðbragði snúa því upp á viðmælanda sinn með orðunum „Þú ert það sjálfur ef þú segir það!“. Nú er ég ekki að halda því fram að trúmenn telji það skammaryrði að klína trú upp á viðmælendur sína. En ég held að þeir hafi einhverjar ranghugmyndir um að trúleysingjar almennt séu þeirrar skoðunnar og að þessi kjánalega umræða sem alltaf skýtur upp kollinum öðru hverju séu kannski einhverskonar varnarviðbrögð þeirra sem vita ekki alveg hvernig þeir eiga að glíma við vondu trúleysingjana.

Ég veit svosem ekkert um það hversu líklegt er að einhver þessara þriggja ástæðna sé réttari en önnur, þó að ég hafi mínar hugmyndir þar að lútandi. En eitt er nokkuð ljóst; á meðan að menn þræta um hvort að trúleysi sé trú og hvor sé kaþólskari, páfinn eða Richard Dawkins, þá er ekki verið að ræða um sjálf hindurvitnin á meðan. Og þar liggur hundurinn ef til vill grafinn.

Egill Óskarsson 24.09.2010
Flokkað undir: ( Hugvekja , Klassík )

Viðbrögð


Sigurður Karl Lúðvíksson - 24/09/10 11:27 #

Ég hef hingað til helst hallast á að það sé þriðja ástæðan. Ég held að í umræðunni finni kristnir óneitanlega fyrir því að rökstuðningur þeirra er verulega ábótavant, ruglingslegur og handahófskenndur í besta falli, og þeir sjái hreinlega trúleysingja svífa á hærra plani í umræðunni og geri því allt til að reyna "draga" okkur niður á sitt plan með því að kalla okkur "bara" trúaða eins og þeir. Ég hef margoft spurt þá hversvegna þeir beri svona litla virðingu fyrir eigin málstað og hvers vegna þeir reyni að gera lítið úr trúleysingjum með því að kalla trúleysi þeirra trú. Hvar er stoltið og sjálfsöryggið? Ég held einmitt að í þessari tilraun trúaðra, að kalla trúleysi trú, skín í gegn hversu örvinglaðir þeir eru í rökræðunni, vilja ekki sleppa guðasnuðinu, logandi hræddir við að þurfa að viðurkenna fyrir sjálfum sér að þeir hafi lifað í blekkingu alla sína ævi. Lái þeim hver sem vill, þetta er ekki auðveld staða að vera í.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 24/09/10 14:07 #

Ég held að þetta sé rétt hjá þér Sigurður.

Ég hef sagt það einhverstaðar áður en mér finnst þetta nefninlega vera svona "come-back" frá trúmönnum:

Já er það? Ja þú ert bara líka trúaður!

En það er alveg ömurlegt come-back ekki satt. Svolítið eins og að vera kallaður fífl og segja þá:

Já er það? Ja þú ert bara líka fífl!

Það er eins og að innst inni (jafnvel ekkert voðalega djúpt) þá skammist trúmenn sig fyrir að vera trúaðir. Þe þessu að trúa einhverju í blindni.


Sigurður - 24/09/10 15:27 #

Ég hef alltaf skilið orðið trú þannig að það þýði í raun það sama og orðið held. T.d. að ég trúi að Breiðablik vinni Stjörnuna á morgun og verði Íslandsmeistarar. Þá er ég að segja að ég er sannfærður um að Blikar vinni en get þó ekki verið alveg viss því það á eftir að spila leikinn og maður getur ekki séð fram í tímann. Það sem magnar aðeins þessa trú mína er að ég er sjálfur harður Bliki og trú mín á þeirra sigri verður enn meiri þess vegna. Þannig er þessi guðstrú einnig. Manni var innprentað í æsku að trúa á þetta fyrirbrigði, biðja bænir oþh en þegar maður fann að þær skiptu engu máli í sínu fór maður verulega að efast. Síðan hefur mín trú dofnað hægt og rólega með árunum og nú er hún endanlega horfin. Punkturinn er að þegar Gunnar í Krossinum segir að hann trúi á guð þá meini hann að með 99% vissu haldi hann að guð sé til, venjulegur pokaprestur heldur það með ca 75% vissu en við sannfærðir trúleysingjar höldum með 99,99% vissu að ekkert yfirnáttúrulegt fyrirbæri hafi nokkuð með okkar líf að gera.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 24/09/10 17:47 #

Held, trú, von ofl.

Þetta eru allt skyld hugtök það er alveg satt.

En eins og Egill benti á í möguleika númer eitt þá sé ég ekki tilgang í að vera að teygja skilgreiningar þessara hugtaka svo vítt að þau nái yfir allt og þar af leiðandi ekkert.

Það er smá blæbrigðamunur á þessum hugtökum. Það eykur kraft tungumálsins og gerir okkur kleift að tjá okkur með nákvæmari hætti.

Eins og ég hef sagt og Sigurður sagði líka, þá grunar mig að prestar viti alveg að þeir hafa ekki mikið á bak við sig í rökræðum við trúleysingja. Taktíkin minnir þannig helst á slím-álinn sem myndar óhemju mikið magn af slími ef á hann er ráðist (til að sleppa undan).

Trúmaðurinn kemst undan með því að flækja og gelda tungumálið.


Jórunn - 25/09/10 08:46 #

Á minni, nú löngu ævi, hef ég oft fengið það framan í mig - þegar ég lýsi yfir eigin trúleysi - að ég sé nú VÍST trúuð. Og síðan er því gjarnan bætt við að ég sé "svo góð" og sé "alltaf að hjálpa öðrum".

Þetta er ein sortin af "rökum" þeirra sem klína trú á trúlausa.

Ég hef velt því fyrir mér af hverju þessi árátta stafar, eins og þú, Egill, en hef ekki komist að neinni afgerandi niðurstöðu. Kannski er þetta bara merki um öryggisleysi þess sem segist vera trúaður - efast þau að sjálfsögðu í hjarta sínu - en vill engu að síður halda í trú sína. Þá er styrkur að því að ALLIR trúi.

Það er munur á því, Sigurður, að "trúa einhverju" og að "trúa á eitthvað". Ég trúi því að maðurinn minn komi heim á miðvikudaginn af því að hann segir það og hefur ævinlega reynst sannsögull. Hins vegar trúi á ekki á neina yfirnáttúrleg öfl - eins og guð eða guði eða heilun eða kaffibollaspár - eða spjall við framliðna eða...


Kári - 26/09/10 07:01 #

Hætta bara að nota trúleysingi og nota guðleysingi í staðinn.


Egill (meðlimur í Vantrú) - 26/09/10 15:45 #

Nei Kári, það dettur mér ekki í hug að gera. Ég er nefnilega ekki bara guðleysingi, ég er líka trúleysingi. Það seinasta sem ég myndi gera væri að breyta því hvernig ég skilgreini sjálfan mig til þess að þóknast þrætulistamönnum.


Kári - 26/09/10 18:30 #

Ef við værum að gera þetta á ensku myndir þú nota non-believer frekar en athiest? Trúleysingi er verri þýðing á athiest en guðleysingi. Ætla annars ekki að fara út í rökræður um misvísandi meiningu orða eftir því hvernig þau eru skrifuð eða hver menningarleg meining þeirra er orðin. Mér finnst þetta sjálfum frekar skrítin hegðun.


Egill (meðlimur í Vantrú) - 26/09/10 19:09 #

Við erum bara ekki að tala saman á ensku og mér finnst ekkert rökréttara að miða við enska þýðingu orðanna en íslenska merkingu þeirra.


Kári - 26/09/10 21:38 #

En það er akkúrat með því að nota bara orðið sem hefur sömu meiningu sem veldur megininntakinu í greininni. Annars finnst mér þetta ódýr afgreiðsla hjá þér. Við vitum báðir að það vantar margt í málið og margt mætti lagfæra. Hvað bætist við með því að nota trúleysingi yfir guðleysingi?


Egill (meðlimur í Vantrú) - 27/09/10 00:04 #

Ég er einfaldlega ósammála því að það sé í alvörunni einhver merkingafræðilegur ágreiningur í gangi. Þetta snýst um eitthvað allt annað.

Fólk í mínum sporum á Íslandi skilgreinir sig alla jafna sem trúleysingja. Það vita allir við hvað er átt. Lang einfaldasta leiðin til að sleppa við þessar þrætur er einfaldlega að hætta að rökræða þetta þegar fólk byrjar á þessu.


Kári - 27/09/10 01:06 #

Ég skilgreini sjálfan mig ekki sem neitt sérstakt, nema kannski sem hálf misheppnaðan. Ef ég er ynntur eftir mínum skoðunum og fólk vill flokka mig eftir þeim er þeim það velkomið, ég skipti mér ekki af því. Takk annars fyrir spjallið, góðar stundir.


Jon Steinar - 28/09/10 01:05 #

Stórskemmtileg grein og kemst sennilega að kjarna málsins. Við hinir trúlitlu látum líka eiinatt draga okkur á asnaeyrunum, en oftar er það svo að þessi rauða síld er notuð frekar en að svara ekki spurningum, sem gerist svo næst oftast.

Hugtakið trú er nú orðið svo útvatnað hja séra Þórhalli að það hefur enga merkingu né skilgreiningu. Ætli sé ekki best að viðurkenna að maður sé trúaður í einhverjum skilningi og sjá svo hvort það er í raun argumentið.

Ég fellst á það að vera trúaður ef það er í merkingunni að finnast, telja, halda eða vita samkvæmt nýjustu upplýsingum að eitthvað sé einhvernvegin. Ok það argument úr sögunni....hvað vorum við aftur að tala um séra minn?

Trúmenn eru hreinlega fastir í því formi að þrátta við aðra trúhópa um áherslur og trú þeirra að þeir kunna bara ekki að ræða við einhvern sem er ekki að ræða eitthvað liggaliggalá útan tíma og rúms og handan við daglát og deleríum.


Jon Steinar - 28/09/10 01:09 #

Það er annars besta sönnunin fyrir tilveruleysi guðs að þetta skuli vera málsvarar hans á jörðu. Ef guð væri til, þá væri engin kirkja, prestar, theo"lógía" né neitt af því tagi. Það segir sig einfaldlega sjálft.


Jón Steinar - 28/09/10 01:16 #

Kári: Tillaga þín er gagnslaus í þessu samhengi. Þórhallur notar bara orðið ofsatrúarguðleysingi eða eitthvað álíka. Hann er mesti sandkassakallinn af þeim öllum. Hann er raunar, eins og komið hefur fram, að forðast að ræða nokkuð af þeim fullyrðingum sem hann setur fram í pistlum sinum og svarar aldrei spurningumm. Hann er góður í því að hoppa inn á blogg annarra og henda inn fullyrðingum og svara síðan ekki þegar það er rekið ofan í hann.

Sennilega of upptekinn við næsta hjónabndsnámskeið. Ég ætla rétt að vona að þau byggi ekki á að miðla þessari taktík til hjóna.:D

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.