Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Áskorun

auga

Á forsíðu Allt í Fréttablaðinu 6. júlí sl. var viðtal við Lindu Líf Margrétardóttur undir fyrirsögninni „Augun eru kort líkamans“. Viðtalið var tekið af því tilefni að fyrsti árgangur nemenda útskrifaðist úr Heilsumeistaraskólanum, sem var stofnaður 2007 af Lilju Oddsdóttur „lithimnufræðingi“ og Anne Birgitte Larsen „þerapista og lífsþjálfara“. Í skólanum telur Linda Líf sig hafa lært „ýmislegt sem viðkemur náttúrulækningum, svo sem um blómadropa, kjarnaolíur, alþýðugrasalækningar, sjálfsrækt og augnfræði“.

Eftir þriggja ára nám segir Linda Líf: „Þetta er alveg frábær tilfinning, þrjú yndisleg ár sem eru að baki.“ „Mér fannst bara svolítið skrítið að uppgötva að augun væri hægt að lesa eins og kort sem veita innsýn inn í ástand líkamans og líffæri hans. Svona eftir á að hyggja er það í raun bara frekar rökrétt.“

Ekki vitum við hvaða rök liggja þarna að baki en okkur í Vantrú finnast þessar yfirlýsingar bæði órökréttar og ámælisverðar. Við erum hins vegar tilbúin að láta sannfærast og bjóðum Lindu Líf og/eða lærimeistara hennar að sýna fram á að öðlast megi innsýn í ástand líkamans og líffæri hans með því að „lesa“ augu fólks. Takist það erum við fús að launa það með 100.000 kr.

Til að sýna fram á að lesturinn hafi tekist þarf „augnfræðingurinn“ aðeins að lesa augu (og bara augu) tíu manns og í kjölfarið þarf annar aðili (sem Linda Líf eða Lilja mega tilnefna) að geta parað lestur augnfræðingsins við læknaskýrslur þessara tíu manna. Takist að para saman 7 af 10 lithimnulestrum og læknaskýrslum telst lesturinn hafa tekist.

Við skorum á Lindu Líf og Lilju að sýna fram á að þær fari ekki með staðlausa stafi og Fréttablaðið að birta þessa áskorun til að vega upp á móti því gagnrýnisleysi sem kemur fram í blaðinu.

Eldri umfjöllun okkar um lithimnulestur má lesa hér.

Mynd Sarah Cartwright

Ritstjórn 08.07.2010
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin , Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Eiki - 08/07/10 14:53 #

Hvernig skal greina skerta sjón út frá lithimnu:

Bendið löngutöng upp (handarbak snýr að sjúklingi) fyrir framan lithimnu sjúklings og bíðið eftir löðrungi.

Ef enginn löðrungur berst er sjúklingur líkast til blindur.


Árni Árnason - 08/07/10 16:03 #

Ja hérna. Fór í smá leiðangur inn á heimasíðu Bandalags Íslenskra Græðara, og hvað sé ég ?

Hvorki meira né minna en 65 segi og skrifa sextíuogfimm manns ( meira að segja ein frænka mín) gefa sig út fyrir að vera höfuðbeina og spjaldhryggjarmeðferðaraðilar eða höfuðbeina og spjaldhryggsjafnarar( hver sem munurinn á því tvennu er)

Þetta er greinilega big business. Eitthvað virðist vera minna svigrúm til að græða á lithimnulestri því að slíkir eru aðeins fjórir í gróðapunga...fyrirgefið græðarafélaginu.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 08/07/10 17:06 #

Í viðtali á Harmageddon áðan kom fram að þáttastjórnendurnir höfðu haft samband við Lindu Líf og Lilju en þær vilja ekki verða við áskoruninni. Lilja er svo önnum kafin að græða, með "sjúklingum" og "nemendum" að hún má hreinlega ekki vera að því að auglýsa "skólann" sinn svona.

Segir þetta ekki allt sem segja þarf um þessi "fræði"?


Svenni - 08/07/10 20:02 #

Af hverju ekki að hækka boðið í hálfa milljón? Ekki séns að þeim takist þetta anyway og vel hægt að safna í púkk ef svo illa færi að þær grísuðu á þetta.

Nema...verðlaunaféð ætti ekki að vera stílað á þær. Það ætti að sjálfsögðu að renna óskipt til krabbameinssjúkra barna. Hvaða skepna myndi neita að nota menntun sína og innsæi til að hjálpa krabbameinssjúkum börnum?

"With great powers comes great responsibility" :)


Vinur - 08/07/10 22:39 #

Tjah, ég myndi ekki alveg fara svona hratt í að segja staðhæfinguna:

„Mér fannst bara svolítið skrítið að uppgötva að augun væri hægt að lesa eins og kort sem veita innsýn inn í ástand líkamans og líffæri hans. Svona eftir á að hyggja er það í raun bara frekar rökrétt.“

órökrétta, þrátt fyrir að að þessi lithimnulestur sé að sjálfsögðu algjör vitleysa þá er ekkert rangt við þessa staðhæfingu, augun sem og húð og önnur líffæri sem við sjáum geta oft gefið góðar vísbendingar um ástand líkamans, þó aðallega með tilliti til alvarlegra vandamála. Allir sem hafa horft á dr.House vita að ef augun eru gul er það merki um nýrnavandamál og ef lithimnurnar eru misstórar er það seinkomið merki um aukinn innankúpuþrýsting. :)

Imho mætti hafa orðað þessa áskorun örlítið betur.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 09/07/10 00:18 #

Í Pressunni er þetta haft eftir Lindu Líf:

Þetta eru 1000 ára gömul vísindi, mér finnst skrýtið að þurfa að koma fram og sanna þetta, ég veit að þetta er rétt og hef lært þetta í skóla.

Aldur "fræðanna" hefur greinilega snaraukist. Væri það ekki gustukaverk að sanna hæfileika sína og gildi þriggja ára náms, og fá bæði auglýsingu og 100.000 kr. í kaupbæti?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 09/07/10 16:31 #

Vá, ef þetta eru þúsund ára gömul vísindi, þá hlýtur þetta að vera merkilegra en flest nútíma vísindi, sem gjarnan eiga sér frekar fárra alda sögu í núverandi mynd, ef þá það. Þetta er þá kannski svipað merkilegt og gullgerðarlist, andasæringar, sálfarir og mið-amerískir fiðurdrekar, en nær því þó ekki að vera eins merkilegt og hindúismi, kristni, tilbeiðsla á svíni frjóseminnar eða neysla ofskynjunarsveppa. Ég legg til að þær velji sjálfar góðgerðarsamtökin sem verðlaunaféð rennur til, og skal persónulega hækka verðlaunaféð um 20.000 krónur ef þær stöllur sanna að eitthvað sé að marka þessi miklu vísindi. Um leið hvet ég fleiri til að leggja fram áheit. Í versta falli gerist ekkert annað en að þær geta ekkert sannað, en í besta falli njóta góðgerðarsamtök veglegs styrks um leið og læknisfræðinni er bylt til hins betra.


TSR - 09/07/10 16:44 #

Eftir að hafa lesið þessa setningu hennar langar mig persónulega að tvöfalda upphæðina ykkar og bjóða fram til hennar, hafið samband við mig á veffanginu ef þið hafið áhuga á því að koma því inn í næstu áskorun, svona rugl á ekki heima í mínum heimi.

Skilmálar: Fáránlegir útúrsnúningar eins og það að risastórir augasteinar þýði að það sé dimmt eru ekki tengdir líkamsstarfsemi og þ.a.l. moot. Kveðja, TSR


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 10/07/10 10:23 #

Hvet alla til að lesa blogg Kristins um lithimnugreiningu og titlagræðgi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/07/10 02:00 #

Ef sjúkdómseinkenni og annað líkamlegt ásigkomulag skilaði sér út í lithimnuna væri vísindasamfélagið fyrir lifandis löngu búið að staðfesta það. Fyrst svo er ekki er ástæðan einfaldlega sú að þetta á sér ekki stoð.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 11/07/10 22:30 #

Takk fyrir vísunina, Reynir.

Ég er búinn að bæta aðeins við, fyrir áhugasama: Bulla lithimnufræðingar um Forn-Egypta?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 12/07/10 09:32 #

Flott samantekt, Kristinn. Í grein okkar um lithimnufræði kemur fram að rekja megi hana til átjándu aldar.

Linda segir "fræðin" þúsund ára gömul en Kristinn hefur grafið upp síðu með eftirfarandi tengingu fræðanna við Tut-ankh-amun (sem dó fyrir 3.333 árum):

In 1922, G. Carter discovered pictures of the iris on these silver plates when he explored Tutankhamen’s tomb (1400-1392 B.C.). El Ax, the pharaoh’s priest, was an ancient iridologist who popularized the art. Thanks to his work, diagnosis of the eye spread from Egypt to Babylon, Tibet, China and other regions (E. Velkhover).

Ég er mikill áhugamaður um forn-Egypta og hef farið þrisvar til Egyptalands, nú síðast í nóvember. Ég hef komið í gröf Tutankhamuns og lesið mér mikið til um hann og fjársjóð hans auk þess að virða hann fyrir mér margítrekað.

Samkvæmt mínum heimildum lést Tutankhamun 1323 f.o.t., en það er aukaatriði. Ég hef ekki séð neitt minnst á "El Ax", frekar en Kristinn. Kristinn getur sér til að kannski sé átt við Akh en mér finnst líklegt að átt sé við Ay, sem tók við af Tutankhamon. Mynd af honum prýðir vegg grafar Tutankhamons. Ay er stundum skrifað Eye og líklega er það besta og eina "tengingin" við lithimnufræði.

Sá sem getur bent á þessa silfurdiska El Ax úr fjársjóði Tutankhamons með myndum af lithimnu augans fær bílinn minn skuldlausan að launum.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 12/07/10 10:04 #

Ég var að skoða þessa síðu betur og er hálfflökurt. Þarna er líka fullyrt:

More than 300 diseases, diagnostic methods, treatment and prophylactics can be found. One of the factors that prove the ancient Egyptian’s intense interest in the structure of the iris is the statues of pharaohs and priests in the Cairo national museum. Their eyes are composed of very precise color mosaics and it is impossible to find two similar eyes from one statue to the other.

Langflestar stytturnar eru úr steini, aðrar skornar í tré og ekkert má lesa úr þeim augum þori ég að fullyrða, jafnvel þótt augun séu máluð á styttuna. Hins vegar eru örfá dæmi um undurfögur augu í styttum, til dæmis af Rahotep og konu hans Nofret. En þótt þau séu fögur á að líta fer því fjarri að um eitthvað fíngert mósaíkverk sé að ræða. Ég á nærmyndir af þessu til staðfestingar á myndbandi.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 13/07/10 14:44 #

Mér þætti gaman að hitta þann handverksmann sem gæti búið til tvö eða fleiri augu úr tré eða steini, sem ekki væri hægt að sjá mun á.


Sveinn Þórhallsson - 14/07/10 13:38 #

Hvernig útskýra lithimnufræðingar það að óbreytanleiki lithimnunnar er svo sjálfsögð staðreynd að hægt er að nota lithimnuskanna sem öryggistæki og lithimnuna sem aðgangskort?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 15/07/10 14:56 #

Ég sendi Lilju tölvupóst á netfang hennar í "Heilsumeistaraskólanum" og hún svaraði mér. Hér er hluti af svarinu:

Mig langar samt núna að benda þér á að í mörgum löndum (t.d. í Þýskalandi) eiga lithimnufræðin - IRIS DIAGNOSE / IRIDOLOGY sér langa sögu og hafa þar notið viðurkenningar og virðingar sem tæki til að meta veikleika og styrkleika í heilsu. Bæði læknar og fræðimenn hafa unnið að rannsóknum sem staðfesta vísindalegar niðurstöður. Þessi fræði eru mjög ný á Íslandi og það er jú alþekkt að nýjungum er oft mætt með tortryggni eða með fordómum.

Það sem er ef til vill að rugla þig (og er algengur miskilningur) er að hægt sé að nota lithimnugreiningu til að greina sjúkdóma. Það er alls ekki hægt að gera. Það sem lithimnugreining snýst hins vegar um er að sýna meðfædda veikleika og álagssvæði í líkamanum.

Linda Líf hlýtur að vera lélegur nemandi eða rangt eftir henni haft þegar hún segir "augun væri hægt að lesa eins og kort sem veita innsýn inn í ástand líkamans og líffæri hans" ef staðreyndin er sú að þau segi aðeins fyrir um "veikleika og styrkleika í heilsu" eða "meðfædda veikleika og álagssvæði í líkamanum".

Berið þetta saman við það höfuðrit lithimnufræðinnar (pdf-skjal) sem Kristinn hefur grafið upp, sem heitir: "Iridology, a complete guide to diagnosing through the iris and to related forms of treatment."

Í Morgunblaðsviðtali sagði Lilja hins vegar:

Meðal annars má sjá tengsl líkamskerfa, ástand líffæra, uppsöfnun eiturefna, sýrustig líkamans og bólgumyndanir. Oft má sjá samband tilfinninga, huga og líkama í lithimnunni og hvar jafnvægi ríkir og hvar ójafnvægi ríkir á ákveðnum sviðum hjá einstaklingi. Lithimnan sýnir hvaða líffæri eða líkamskerfi eru viðkvæmust fyrir hrörnun. Út frá þessum upplýsingum getur lithimnufræðingurinn ráðlagt um mataræði og lífstíl sem fyrirbyggjandi aðgerðir og til að bæta heilsuna. Lithimnan getur kennt manni margt um ástand líkamans og styrkleika og veikleika persónunnar.

Og gúrúinn hennar segir:

My first experience with Iridology was when I was told my eyes had turned blue!!! I later learned the cleansing that had healed the cause of the breast cancer had also released the yellow and brown pigments from my iris, and I no longer needed to wear glasses!

Hugsið ykkur mátt þessa lesturs! En lesturinn er greinilega ekki aðalatriði heldur "ráðleggingar um mataræði og lífstíl". Þá er því ósvarað hvernig þessir "fræðingar" tengja saman lesturinn annars vegar og ráðleggingarnar hins vegar. Lestur bókarinnar sem ég benti á gefur ágæta innsýn í þann þvætting allan.


Innkaup - 16/07/10 12:37 #

[ athugasemd færð á spjall ]


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 16/07/10 12:48 #

Innkaup...

Vantrú telur sig fást eingöngu við rannsókn og skilgreiningu þess sem skynfærin greina

Hvaðan hefurðu þessa skilgreiningu? Mig minnir endilega að Vantrú fjalli oft um trú á hina og þessa guði, draugagang og spámiðla. En ég er auðvitað bara búinn að vera í Vantrú í fá ár..

Og, gengur ekki lithimnufræði út á að lithimnufræðingurinn noti eigin skynfæri til að greina sjúkdóma út frá augum sjúklinga?

Ertu að reyna að setja met fjölda rangfærslna í sem fæstum orðum?


Innkaup - 16/07/10 23:26 #

Kettir hafa mörg afar nákvæm skynfæri og reiða sig á þau við veiðar

En ekki Vantrúar liðar. Þeir vita ekki einu sinni hvað veiðar eru. Í staðinn nota heimsku sýna og rökbull sem þeir fá sjálfan sig til að trúa á

Svo má geta þess að ég er ekki þessi Þráinn


Innkaup - 16/07/10 23:27 #

Annars er mér sama


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 16/07/10 23:57 #

OK innkaup, hvaða útgáfa sem þú ert..

Þú vinnur keppnina um samhengislaust rugl..

Húrra, húrra, húrra....

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.