Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Lithimnulestur

eyeball.jpgLithimnulestur snýst um að nota lithimnu augans við sjúkdómsgreiningar. Lithimnulestur byggist á þeirri vafasömu fullyrðingu að sérhvert líffæri mannslíkamans hafi sitt sérstaka svæði á lithimnunni og hægt sé að kanna heilbrigði líffæranna með því að athuga lithimnuna frekar en sjálft líffærið. Haft er eftir kanadískri stofnun í lithimnufræði (Canadian Institute of Iridology) að: „Lithimnufræði er sú grein innan óhefðbundinna lækninga í Kanada sem hefur vaxið hvað örast undanfarið.“

Læknar líta á lithimnuna sem þann hluta augans sem gefur því lit sinn og stjórnar ljósmagninu sem berst inn í miðju þess, sjáaldrið. Augasteinninn sveigir ljósgeislana þannig að þeir falli rétt að sjónu og framkalli þar skýra mynd þegar að ljósið fellur á stafina og keilurnar, við það örvast sjóntaugin og hún sendir sjónmyndir til heilans. Læknar vita einnig að hægt að sjá ákveðin einkenni nokkurra sjúkdóma, sem ekki eru beinlínis augnsjúkdómar, með því að athuga augun. Augnlæknar og sjóntækjafræðingar geta séð einkenni annarra heilsufarskvilla en augnsjúkdóma með augnskoðun. Ef grunsemdir vakna um að mögulegt vandamál sé á ferðinni geta þeir vísað sjúklingum á viðeigandi sérfræðing til frekari rannsókna. Að þekkja sjúkdómseinkenni með augnskoðun er þó ekki það sem lithimnulestur snýst um. Staðreyndin er reyndar sú að þegar að lithimnufræðingar hafa verið prófaðir til að sjá hvort þeir séu færir um að greina á milli heilbrigða og veikra einstaklinga, með því að skoða myndir af augum þeirra, þá hafa þeir ekki getað gert það. Í rannsókn sem birt var í fræðiritinu Journal of the American Medical Association (1979, vol. 242, 1385-1387) gátu þrír lithimnufræðingar ekki greint myndir af lithimnum rétt, sem voru alls 143 talsins, jafnt af heilbrigðum og veikum einstaklingum. „Reyndar lásu þeir oft lithimnur veikasta fólksins sem heilbrigðar væru og svo öfugt. Meira að segja voru þeir ekki sammála sín á milli.“ Svipaðar niðurstöður um prófanir á fimm hollenskum lithimnufræðingum hafa verið birtar í British Medical Journal (1988, vol. 297, 1578-1581) (Lisa Niebergall, M.D.)

Lithimnulestur gengur mun lengra heldur en að segja að hægt sé að finna viss sjúkdómseinkenni í augum manna. Lithimnufræðingar halda því fram að sérhvert líffæri eigi sér ákveðið svæði í augunum og hægt er að ákvarða ástand líffæranna með því að athuga þessi svæði í augunum. Þessi trú er ekki byggð á vísindarannsóknum heldur á hugarflugi manns nokkurs.

Ignatz von Péczely var ungverskur læknir sem var uppi á 19. öld og hann fann upp lithimnufræði. Hugmyndin að þessu nýstárlega greiningartæki kviknaði þegar hann sá dökka rák í augum manns sem hann var að sinna vegna fótbrots og hún minnti hann á svipaða rák sem hann sá í augum uglu sem hafði fótbrotnað nokkrum árum fyrr. Eftir þetta byrjaði Von Péczely að halda skrá yfir mynstrin í augum sjúklinga sinna ásamt sjúkdómum þeirra. Aðrir luku svo við að kortleggja augun. Á dæmigerðu korti er auganu skipt upp í svæði og klukka er notuð til viðmiðunar. Ef þú vilt til dæmis kanna ástand skjaldkirtilsins í sjúklingi þá er óþarfi að þreifa á sjúklingnum til að athuga hvort hann hafi stækkað. Einnig er óþarfi að gera einhver próf á kirtlinum sjálfum. Það eina sem þarf að gera er að líta á lithimnu hægra augans um kl. 2.30 og lithimnu vinstra augans kringum kl. 9.30. Upplitun, doppur, rákir o.s.frv. á þessum svæðum augans er allt sem maður þarf að vita, ef það er ástand skjaldkirtilsins sem um ræðir. Fyrir kvilla sem tengjast leggöngunum eða getnaðarlimnum þá skaltu skoða kl. 5 í hægra auganu. Þannig gengur þetta fyrir sig. Lithimnufræðingur getur gert skoðanir eingöngu með því að nota lithimnukort, stækkunargler og vasaljós.

Ef marka má röksemdafærslu von Péczelys getum við getið okkur til um það að hann og aðrir lithimnufræðingar hafi blekkt sjálfa sig þegar þeir fundu samband á milli augnmynstra og heilsufarskvilla (staðfestingartilhneigingin). Skilgreiningar þeirra á „mynstrum“ og „kvillum“ voru óljósar. Greiningar á sjúkdómum gætu hafa verið rangar eða ónákvæmar í mörgum tilfellum. Þeir sannfærðust um ágæti lithimnulesturs með því að horfa á fylgni ákveðinna þátta þó að orsakasambönd þar á milli hafi aldrei fundist í nákvæmum samanburðarrannsóknum. Sumar ályktanir þeirra gætu verið réttar en á móti kemur að margar þeirra eru rangar vegna mjög víðtækra skilgreininga á „mynstrum“ og „kvillum“. Þeir fundu samsvaranir þegar þær voru í raun ekki til staðar. Þeir mistúlkuðu gögnin og gáfu öllum staðfestingum mikið vægi, en hunsuðu allt það sem stemmdi ekki eða leituðu ekki að því. Margt af því sem þeir álitu vera staðfestingu hefur e.t.v. verið hlutlægt mat þeirra. Við vitum ekki hvernig sannfæringarkraftur lithimnufræðinganna spilaði inn í veikindi sjúklinga þeirra. Margar sjúkdómsgreiningar voru líklega rangar, en engin óháð próf voru gerð til að kanna hvort greiningarnar voru réttar. Sumar sjúkdómsgreiningarnar gætu hafa reynst sannar en lithimnufræðingarnir hafa e.t.v. stuðst við önnur einkenni við greiningarnar, heldur en þau sem finnast í augunum.

Það sem er eftirtektarverðast við lithimnunna er að hver þeirra er einstök og þær breytast ekki með tímanum. Margir hafa af þeim sökum haldið því fram að lithimnur henti betur til að bera kennsl á fólk heldur en fingraför.

Skeptic's Dictionary: iridology

Lárus Viðar 17.10.2006
Flokkað undir: ( Efahyggjuorðabókin )

Viðbrögð


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 17/10/06 15:59 #

Því má svo bæta við að hér á landi er starfandi Félag Lithimnufræðinga sem er hluti af Bandalagi íslenskra græðara.

Græðarar er kannski réttnefni á þessum félagsskap þar sem þeir græða örugglega eitthvað á þessum skottulækningum.


jonfr - 17/10/06 16:48 #

Enn ein vitleysan sem á uppruna sinn í 19 öldina.


khomeni - 17/10/06 20:43 #

Ég vil nú nota tækifærið og auglýsa Gong-ti sem ég lærði á 3 daga námskeiði i Oslo. Gong-ti er ævaforn litgreining og árustillingaraðferð sem byggð er á hugmyndinni um "qui-badong", en það eru forn austurlensk samstillingarfræði lífkrafts og anda.

Tíminn hjá mér kostar 4500 (sem er ódýrara en flestir samkeppnisaðilar mínir) og tekur um 35 mínútur.

ps ég er líka að selja orkustillandi te.

upplýsingar á gong_ti.is


Guðmundur D. Haraldsson - 18/10/06 02:20 #

khomeni náði helvíti góðri stælingu þarna! Verulega góður punktur.


Sverrir Guðmundsson (meðlimur í Vantrú) - 18/10/06 09:38 #

Ég hafði ekki séð orðið „græðari“ í þessu ljósi áður :-)


Svanur Sigurbjörnsson - 18/10/06 11:27 #

Takk fyrir þetta yfirlit Lárus Viðar.

Það var aumkunarvert að sjá greinina í Fbl. s.l. laugardag þar sem lithimnulesarinn taldi þessa iðkun "rosaleg vísindi" vegna þess að "30 þúsund taugar liggi úr augunum í líkamann". Það að nota einhvers konar tilvísun í líffærafræði virðist vera nýjasta aðferð yfirkuklara í USA að ljúga að lærisveinum sínum. Ég sá einnig líffærafræðibull í námsefni höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnara. Fólk sem hefur engan grunn í lífeðlisfræði og lífefnafræði virðist vera auðveld bráð. Þegar það hefur svo einnig sterkan vilja til að finna sér eitthvað heilsutengt starf, virðist nánast formsatriði fyrir gúrúana að kenna því hvaða bull sem er fyrir dágóðar fjárupphæðir. Eftir því sem kuklið breiðir úr sér verður það enn meira sannfærandi í hugum margra, líkt og trúarbrögðin.

Það má oft finna trúarlegar tengingar í kuklinu. Hjónin sem þykjast hreinsa árur fólks sögðu í Fbl 14.10.06 að fólk ætti að leita að "guðsjálfinu" í þeim. Eitt kukl "styður" annað.
Baráttukveðjur - SS

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.