Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúrækt í skólum

Trúboð er óþolandi og því veigra prestar sér vísvitandi við að nota það orð, fólki leiðast boð og bönn. Ræktun er hins vegar jákvæð og því stunda menn mannrækt, skógrækt og nú á að stunda "trúrækt" í skólum.

Sumir geta hreinlega ekki skilið að trú manna er einkamál og á ekki að ota að börnum í skólum frekar en stjórnmálaskoðunum. Einn þessara sauða sr. Ólafur Þ. Hallgrímsson. Hann hefur átt í blaðadeildu við Kristinn Theódórsson sem sjá má hér. Í Morgunblaðinu 9. júní sl. sagði Ólafur:

Kristinn telur að ég viðurkenni að "bænakennsla og Jesúsöngvar" í skólum, eins og hann orðar það, sé ekkert annað en trúboð. Mín vegna má hann nefna það trúboð, ef hann kýs svo. Ég vil hins vegar ekki nota það orð, heldur að rækta trúna, viðhalda trúararfinum í landi, sem kallar sig kristið. Að kenna ungum börnum bænir og vers og að biðja er einhver þýðingarmesti liður í því ræktunarstarfi.

Á Íslandi ríkir trúfrelsi. En varla þýðir það að í kristnu landi eigum við að leggja af alla kristilega tilbeiðslu í leik- og grunnskólum, vegna þess að þar séu einstaklingar, sem fæddir eru inn í annað trúarsamfélag. Jesús gerði engan mun á fólki, hann spurði ekki hvaða trú það játaði. Hann sagði: Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi… Þar var ekkert barn undanskilið. Geta ung börn, sama hvaða trúfélagi þau tilheyra, haft eitthvað slæmt af því að syngja og biðja til Jesú, barnavinarins mesta?

"Kristileg tilbeiðsla" á auðvitað ekki heima í skólum, né nokkur önnur tilbeiðsla. Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun, eins og stendur í aðalnámskrá leik- og grunnskóla. Vilji fólk rækta sína trú eða viðhalda einhverjum trúararfi er skólinn ekki rétti vettvangurinn heldur söfnuður, kirkja, hof, samkunduhús, moska, lundur eða heimili.

Kristinn svarar þessu ágætlega í Morgunblaðinu í dag og á bloggi sínu og litlu við það að bæta en ég hvet fólk eindregið til að lesa það.

Í lok greinar sinnar 9. júní segir Ólafur:

Ekki viljum við kasta burt skynseminni, en mannlegri skynsemi eru takmörk sett og maðurinn verður ætíð ófullkominn. Það sýnir sagan. Við verðum sjálf að hafa siðferðisgrundvöll til að standa á ef við ætlum að betrumbæta samfélagið. Þessi grundvöllur er Jesús Kristur og heilög boð hans. Annan grundvöll getur enginn lagt en þann sem lagður er.

Þótt mannlegri skynsemi séu takmörk sett og maðurinn ófullkominn er fráleitt að af því leiði að við eigum að leita til fjarstæðukenndra trúarbragða eftir svörum eða leiðsögn.

Auðvitað eru það við sem leggjum okkar siðferðisgrundvöll. Í byrjun þessarar viku gátu samkynhneigðir t.d. loksins gengið í hjónaband, eins og annað fólk, þrátt fyrir andstöðu ríkiskirkjunnar og tafir. Okkur miðar fram á veginn þrátt fyrir kristnina, ekki vegna hennar.

Og hvað þýða orðin "Annan grundvöll getur enginn lagt en þann sem lagður er"? Þetta er auðvitað argasta þvæla, rugl og bull. Við vitum hverjir láta svona þvætting út úr sér en hver gleypir við þessu?

Siðferðisgrundvöllur Ólafs er "Jesús Kristur og heilög boð hans". Til dæmis þessi í Lk. 14:26:

Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.

Mig grunar nú að jafnvel Ólafur treysti sér ekki til að standa á þessum grundvelli, hvað þá meira.

Að lokum minni ég á orð sr. Jónu Hrannar Bolladóttur þegar hún afhjúpaði óheiðarleika sinn svo eftirminnilega á málþingi um trúboð presta í skólum. Hún sagði:

Það er bara ekki hægt að nota þetta orð lengur, trúboð er bara orðið jafnt og ofbeldi. Þannig að það er bara eðlilegt að við notum bara ekki orðið trúboð, en það er það.

Reynir Harðarson 29.06.2010
Flokkað undir: ( Skólinn , Vísun )

Viðbrögð


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 29/06/10 14:32 #

Já nú er trúarvaldastéttin að reyna að finna nýjar leiðir með nýjum heitum til að plata fólk.

Ég hef líka lesið það og heyrt frá sértrúarsöfnuðum sem hafa verið sakaðir um heilaþvott, að það sé bara gott að vera heilaþveginn, ef það hjálpar fólki :-)


Sigurður - 29/06/10 15:41 #

Segjum sem svo að í leikskóla í Breiðholti sé meirihlutinn samansettur af börnum innflytjenda sem tilbiðja Islam. Geta ung börn, sama hvaða trúfélagi þau tilheyra, þá haft eitthvað slæmt af því að syngja og biðja Islam, Múhameð og allra hans ættkvíslar? Kóraninn hlýtur að telja Guðinn þeirra barnavin mesta.

Þá er þessi tilvísun í Lk. 14:26 kostuleg. Prestarnir hljóta að hafa "eðlilega" skýringu á þessu.

Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.


gös - 29/06/10 16:59 #

[A]ð rækta trúna, viðhalda trúararfinum í landi, sem kallar sig kristið. Að kenna ungum börnum bænir og vers og að biðja er einhver þýðingarmesti liður í því ræktunarstarfi.

Rétt er það, Ólafur, trúin hlyti mikinn skaða ef þetta yrði lagt af.


Jórunn Sörensen - 03/07/10 18:59 #

"Á Íslandi ríkir trúfrelsi. En varla þýðir það að í kristnu landi eigum við að leggja af alla kristilega tilbeiðslu í leik- og grunnskólum, vegna þess að þar séu einstaklingar, sem fæddir eru inn í annað trúarsamfélag."

Já - við EIGUM að leggja af ALLA tilbeiðslu í leik- og grunnskólum - af hvaða trúararmi sem hún kann að vera sprottin!


Egill Axfjörð - 04/07/10 00:12 #

"Á Íslandi ríkir trúfrelsi. En varla þýðir það að í kristnu landi..."

Smá mótsögn í þessu finnst mér. Það að á Íslandi ríki trúfrelsi finnst mér þýða að landið sé ekkert kristið frekar en eitthvað annað. Einstakir hópar geta aðhyllst sín trúarbrögð en landið er trúlaust þar sem þar ríkir trúfrelsi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/07/10 15:12 #

Hárrétt athugað, Egill. Og þetta leiðir okkur til þeirrar leiðu niðurstöðu að það ríkir ekkert trúfrelsi hér á landi, nema í orði kveðnu.


BjornG - 07/07/10 04:27 #

Hlautlaust ríki takk fyrir, ef Ólafur fær trú meira inn í skóla þá þori ég að veðja að hann vilji bara sína trú og ekkert annað, leyfðu eitt trúarviðhorf og það verður að leyfa allt hitt, býsna ruglingslegt fyrir ófullmótaða huga mmm?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.