Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þúsund ár dugðu ekki til

Trúarbrögð þrífast á eymd og volæði. Erfiðleikar af ýmsu tagi, sorg, áföll og vonbrigði, allt er þetta frjósemisakur trúarinnar og ef eymdin víkur um stund eru trúfíflin jafnan reiðubúin að að sökkva fólki aftur ofan í volæðið til að vernda hagsmuni sína. Því hagsmunirnir eru miklir og mælanlegir í völdum og í beinhörðum peningum. Hrunskýrslan er því kærkomið tækifæri fyrir ríkiskirkjuna til að maka krókinn enn um hríð með sínum eymdarsöng.

Næstu vikur og misseri á eftir að freyða um talfæri sjálfskipaðra siðapostula ríkiskirkjunnar í heilagri vandlætingu yfir siðferðisbrestunum. Þeir eiga eftir að draga fram boðskap síns krosshangna frelsara og finna þjóðfélaginu og höfuðpaurum hrunsins það til foráttu að hafa rásað út af vegi dygðanna. Lausn á öllum vanda mun verða talin sú að snúa sér af krafti til almættisins, falla á kné og biðja og jafnvel kvaka sálmavers svo vitnað sé í leiðbeiningar biskups. Hrópað verður á siðbót og yfirbót og þráfaldlega verður stagast á því að hin gömlu gildi skuli aftur hafin til vegs og virðingar svo bjarga megi þjóðinni upp úr siðferðiskeldunni sem henni varð á að álpast ofan í. Kristur mun koma okkur úr klípunni.

Enginn hinna dyggðugu sálusorgara á samt eftir að minnast á að þjóðin hefur verið kristin í þúsund ár og gott betur. Enginn þeirra á eftir að nefna það að einu siðferðisviðmiðin sem kennd hafa verið eru kristin. Enginn þeirra á eftir að nefna það að lengstum var allur þorri fólks skráður í ríkiskirkjuna. Enginn þeirra á eftir að minnast á það að ríkiskirkjan hefur fengið óheyrilegar fjárhæðir til að boða siðferði sitt. Enginn þeirra á eftir að nefna hið augljósa – kirkjan og kristnin hefur brugðist.

Nú er lag að endurskoða siðferði ríkis og þjóðar. Í stað úreltrar heims- og siðferðismyndar fárra kverúlanta gefst nú tækifæri til að leggja upp með gagnrýna hugsun, fjölbreytilega heimsmynd og lausn frá úreltum boðskap löngu liðins tíma. Kirkjan brást rétt eins og stjórnvöld og útrásarlýðurinn. Gerum ekki þau mistök að leggja við eyrun þegar þessi söfnuður kyrjar sinn sorgarsöng.

Guðmundur Guðmundsson 27.04.2010
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Siðferði og trú )

Viðbrögð


BjornG - 27/04/10 17:18 #

yep, trúarbrögð lofa öllu, gefa lítið til baka, ég meina ef þú hittir fyrir fullan, heimilislausan róna út á götu og spyrðir hann hvernig honum liði, hann myndi líklega segja að hann hefði það frábært, gott fyrir marga að fylla upp í göt eymdar og fáfræði með trúarbrögðum, ég hata kannski ekki trúarbrögð en af fenginni reynslu væri betra að vera laus við allt þetta og bara vera heiðarlegur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.