Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ágústínusarverðlaun Vantrúar 2009: Hratið

Meðan beðið er eftir úrslitum kosninganna þá hefur dómnefnd Ágústínusarverðlaunanna ákveðið að gefa lesendum kost á að lesa þær tilnefningar sem komust ekki í úrslit. Það má vera að lesendur séu ósammála um valið, en vert er að minnast á að dómnefndin valdi þau ummæli af kostgæfni og alúð.


Séra Hjálmar Jónsson

Orð krossins er heimska hverjum vitibornum manni. #


Séra Bjarni Karlsson

Kristin kirkja á enga hagsmuni vegna þess að hún er ekki til sjálfrar sín vegna. Að því leyti sem kirkja gengur upp í sjálfri sér er hún ekki kristin.#


Séra Baldur Kristjánsson

Jesús talar þannig að hann búist við því að hinir síðustu tímar séu nálægir. Hann meira að segja reiknar með því að samtíðarmenn hans muni upplifa þá tíma, sem rætist ekki, ekki í fljótu bragði séð. Þetta er sannarlega umhugsunar virði.#


Séra Sigurvin Jónsson

Ungmennunum í Neskirkju fannst guðspjall dagsins [Matt. 25.14 -30] ósanngjarnt enda eru þau líkt og flestir unglingar með sterka réttlætiskennd.#


Séra Hildur Eir Bolladóttir

Vísindin fjalla um hvernig heimurinn varð til, trúin fjallar um hvers vegna heimurinn varð til. #


Séra Þórhallur Heimisson

Trú er þýðing á enska orðinu „faith“ #


Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup ríkiskirkjunnar

Skelfilegastar voru að mínu mati myndir af því þegar níðstangir voru reistar við stjórnarráðið og bölbæna beðið yfir ráðamönnum. Það var óhugnanlegt að sjá. Fjölmiðlar sýndu þetta iðulega eins og hvern annan listrænan gjörning eða sem eðlilega leið til að tjá reiði. En þarna var verið að formæla. Hvað er formæling og bölbænir? Það er að kalla hið illa vald og vilja til liðs og þar með vegið að grundvelli lands og þjóðar. „Athugagjarn og orðvar sért, einkum þegar þú reiður ert. Formæling illan finnur stað, fást mega dæmin upp á það“ segir í Passíusálmunum (Pass. 28). Hið illa er veruleiki, og engin barnaleikur, gleymum því ekki. #


Það andrúmsloft og viðhorf efahyggju í trúmálum sem mótað hefur Vestræna menningu um langt skeið, og hefur að sögn gert það nánast óviðurkvæmilegt upplýstum nútímamanni að trúa á upprisu Jesú, var aldrei og er ekki enn hlutlaus afstaða, trúarlega, félagslega eða pólitískt. Heldur fordómur. Fordómur, að trúin sé fáfræði og skynsemisskortur. Hún María við gröfina og eins aðrir vinir Jesú voru ekki auðtrúa og grunnhyggnar manneskjur. Þau þekktu vel afl dauðans, hve allt er óafturkræft sem hann hrifsar til sín. Þess vegna var grátur þeirra og vonbrigði raunveruleg og sönn viðbrögð við missi, eins ótti þeirra, já og líka undrun þeirra og gleði. Og tökum eftir því, að þessi fordómur skynsemistefnunnar sem hlaut að afneita upprisu Jesú, small eins og hönd í hanska við aðrar meginstaðhæfingar þeirrar stefnu, að nú væri ekkert pláss fyrir Guð í heimsmynd mannsins, og því væri maðurinn frjáls að ráða málefnum manns og heims án æðri viðmiða, dóms og laga. Alræðisveldi tuttugustu aldar og hvers kyns alræðishyggja stjórnmála, fjármála og félagsfræða samtímans eru afsprengi þessarar guðlausu hugsunar, að ekkert sé manninum æðra.#


Hverjir geta ekki hugsað sér að dauðir rísi ekki upp? #


Við minnum fólk á að enn getur það kosið í keppninni.

Ritstjórn 26.03.2010
Flokkað undir: ( Ágústínusarverðlaunin )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 26/03/10 09:16 #

Orð krossins er heimska hverjum vitibornum manni.

Af hverju er þá svona voðalegt að benda á það? Af hverju þarf að banna það með lögum?

Eftir að mannkyn hafði baslað um aldir og árþúsundir bjó guð til eintak af sjálfum sér með óspjallaðri meyju og leyfði mönnunum að drepa það til að fyrirgefa þeim að vera ekki betri en hann gerði þá í upphafi - ef og aðeins ef þeir segjast trúa þessari sögu. Trúi þeir ekki sendir hann menn í eldsofn um alla eilífð - því hann er svo góður.

Segið svo að við bendum aldrei á eitthvað gáfulegt hjá prestunum. :)


Valtýr Kári Finnsson - 26/03/10 14:45 #

Í hvaða samhengi sagði séra Hjálmar fyrstu tilvitnunina? Þetta er óvenju gáfuleg svona frá presti komið.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/03/10 15:09 #

Smelltu á '#' merkið á eftir tilvitnun til að sjá samhengið.


Tinna G. Gígja (meðlimur í Vantrú) - 26/03/10 16:17 #

Tilvitnunin í Hjálmar myndi sóma sér vel í auglýsingu fyrir Vantrú.


Magnús - 26/03/10 19:35 #

Orðsifjafræði Þórhalls er gert allt of lágt undir höfði. Maðurinn er snillingur.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 26/03/10 20:48 #

Ég er sammála Magnúsi. Þórhallur er vanmetin. Orðsifjakenningar hans eru makalausar.

Það er einhver mystísk fegurð í misskilingi Þórhalls.... :)

Alveg yndislegt að halda því fram að orðið "trú" sé það sem það er og þýði það sem það þýði vegna þess að það megi rekja til enska orðsins "faith"...

Það er einhver tærleiki í þessu..

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.