Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guðfræðileg stærðfræði

Í þættinum Okkar á milli, á Rás 1 í morgun var viðtal við Þóreyju Guðmundsdóttur, sóknarprest í Noregi. í viðtalinu sagði Þórey meðal annars þetta:

Einnig er hægt að sækja hljóðskrána.

Séra Þórey Guðmundsdóttir

Núna þegar ég kem aftur [til Noregs] þá er ein fyrsta fréttin sem ég heyri í norska Ríkissjónvarpinu að fjórða hvert sveinbarn í Osló fái nafnið Múhameð. Sem þýðir hvað, eru ekki ca. álíka margar telpur sem fæðast eins og drengir? Er þá um það bil 50% af ungu kynslóðinni í Osló að verða múslimar?

Svarið við síðari spurningu Þóreyjar er einfalt nei. Samkvæmt þessum forsendum er væntanlega fjórðungur ungu kynslóðarinnar í Osló múslimar.

Ef fjórðungur sveinbarna eru börn múslima (en eins og við vitum eru allir sem heita Múhameð múslimar) er það um áttundi hluti allra fæddra barna. Ef múslimum fæðast að jafnaði jafn margar stúlkur og drengir, sem hlýtur að vera nærri lagi, þá er að sama skapi fjórðungur stúlkubarna börn múslima. Aftur áttundi hluti allra fæddra barna. Samanlagt eru börn múslima því fjórðungur allra fæddra barna. Ekki helmingur.

En standast þessar forsendur sem Þórey hefur frá NRK, að fjórðungur fæddra drengja hljóti nafnið Múhameð? Samkvæmt norskum fréttum hlutu 120 drengir nafnið Múhameð í Osló árið 2008, þegar allar mismunandi stafsetningarleiðir nafnsins eru teknar saman.

Sama ár fæddust 9948 börn í borginni, samkvæmt opinberum tölum. Ef við gerum ráð fyrir jafnri kynjadreifingu eru það 4974 fæddir drengir í Osló árið 2008. Hlutfall drengja sem hlutu nafnið Múhameð er því 120 af 4974, eða 2,41%.

Það er því fjarri lagi að fjórða hvert sveinbarn í Osló hljóti nafnið Múhameð og nær lagi að tala um fertugasta hvert sveinbarn í því sambandi.

Þóreyju til vorkunnar er oft talað um mannfjöldaupplýsingar sem hlutfall af hverjum 1000 í stað hins venjubundna hlutfalls af hverjum hundrað og því hugsanlegt að hún hafi misskilið hina raunverulegu tölu, 24 af þúsundi, sem 24 af hundraði.

Auk augljósra mistaka í prósentureikningi Þóreyjar er umhugsunaratriði að hún skuli sjálfkrafa setja samasemmerki milli þess að bera nafnið Múhameð og að vera múslimi. Börn múslima fæðast ekki múslimar frekar en börn Sjálfstæðismanna fæðast sjálfstæðismenn. Varhugarvert er því að stimpla börn sjálfkrafa með skoðunum foreldra þeirra. Svo vill til að í Noregi eru flestir húmanistar af öllum löndum heims miðað við höfðatölu og allar líkur á að einhverjir af þessum 120 drengjum sem koma til með að alast upp með nafninu Múhameð í Noregi komi til með að verða fráhverfir trú foreldra sinna. Enn fremur þurfa foreldrar ekki nauðsynlega að vera múslimar til þess að gefa syni sínum nafnið Múhameð.

Við í Vantrú óskum Þóreyju velfarnaðar og vonum að tölfræðin vefjist ekki um of fyrir henni við væntanlega doktorsvörn hennar.

Ritstjórn 24.03.2010
Flokkað undir: ( Íslam )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/03/10 17:20 #

Þess má geta að sumir hafa miklar áhyggjur af fjölgun múslima í Evrópu og halda því jafnvel fram að stutt sé í að múslimar verði í meirihluta í nokkrum löndum. Þetta byggja þér yfirleitt á því að múslimar fjölgi sér miklu hraðar en aðrir hópar.

Þessar áhyggjur byggja á svipuðum tölfræðiæfingum og Þórey notaði í þessu viðtali.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 24/03/10 17:21 #

Af því að nú stendur yfir kosning um Ágústínusarverðlaunin 2009 er ekki úr vegi að menn geri sér að leik að skoða annað dæmi um guðfræðilega stærðfræði og guðfræðilega erfðafræði sem hlotið hafa tilnefningar.


Jón Hjörtur - 24/03/10 18:40 #

Hún gefur sér líka að ALLIR múslímar sem eignast strák gefi honum nafnið Múhameð. Það eru bæði fjöldi fordóma og ótrúleg fáfræði í þessari stuttu setningu hennar.


baddi (meðlimur í Vantrú) - 25/03/10 05:54 #

Sonur minn heitir Ahmed að millinafni ;)


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 25/03/10 07:36 #

Ég held að það sé óhætt að tala um ranghugmyndir sóknarprestsins í þessu sambandi.

Og væri það hræðilegt ef helmingur nýbura í Osló væru börn múslima? Sami guð, sama Biblía og Jesús enn spámaður. Eina breytingin er nýr spámaður, nýjar vitranir beint frá almættinu sjálfu og hinn undurfagri Kóran til vitnis, nýjustu fréttir frá Jehóva, nær milliliðalaust.

Er það ekki hið hræðilega trúleysi sem ógnar mannlegu samfélagi og trúin á eyðimerkurguðinn forsenda alls siðgæðis?

Herra Karl Sigurbjörnsson, biskupinn sjálfur, andlegur leiðtogi þjóðarinnar (að vísu bara með milljón á mánuði) hefur jú sagt:

Bænin er hámark málþroskans, og trúin hin æðsta viska. #

Sannlega er hann atvinnutrúmaður og biðst væntanlega ósjaldan fyrir (og því orðsnillingur mikill og mannvitsbrekka brött) en múslimar biðjast fyrir fimm sinnum á dag og eiga margir heita trú líka. Er þá ekki allt í besta lagi?


jogus - 25/03/10 11:08 #

Í framhaldi af hugleiðingum Reynis get ég komið með enn meiri sjokkerandi tölfræði. Þetta eru sjokkerandi tölur og mér þætti vænt um ef þið hefðuð ekki hátt um þetta. Og það sorglegasta er, að þetta er nákvæm tölfræði. Ekkert helvítis meðaltal eða staðalfrávik. Engar ágiskanir eða ályktanir. Því miður.

100% allra barna sem fæðast á Íslandi eru trúlaus.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 27/03/10 13:27 #

Ég fór að velta fyrir mér þegar ég var búinn að undrast þetta nógu lengi..

Getur verið að það sé ekki tilviljun að svona komi frá presti. Viljinn til að trúa einhverri vitleysi, algjör skortur á gagnrýnni hugsun, engar viðvörunarbjöllur hringja á ósennilegar niðurstöður og ekkert verið að doka við áður en farið er að básúna þetta út.

Ekkert: "bíddu, getur þetta verið, kannski er rétt að kanna málið áður en ég fer að gefa stórar yfirlýsingar."

PS. Ættum við ekki að grípa "100% trúleysi" með ef eitthvað verður af bolaprentunum?


Valdimar G. - 23/07/10 04:30 #

Vá. Hér eru komin átta ummæli. Finnst engum neitt skrítið við þetta: "Núna þegar ég kem aftur [til Noregs] þá er ein fyrsta fréttin sem ég heyri í norska Ríkissjónvarpinu að fjórða hvert sveinbarn í Osló fái nafnið Múhameð. Sem þýðir hvað, eru ekki ca. álíka margar telpur sem fæðast eins og drengir? Er þá um það bil 50% af ungu kynslóðinni í Osló að verða múslimar?" Fjórða hvert SVEINBARN í Osló. Það þýðir að 25% drengja fæddra á þessum tíma heita Muhammed hvort sem það er fyrra, mið eða eftirnafm. Út frá því að dæma eru 12,5% nýfæddra Oslóbúa sem hljóta nafnið Muhammed. Elsku krakkarnir mínir, aldnir og ungir, sá þetta enginn?


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 23/07/10 08:21 #

Valdimar, þetta einmitt tekið fram í greininni. Um þetta atriði fjallar greinin.

Ef fjórðungur sveinbarna eru börn múslima (en eins og við vitum eru allir sem heita Múhameð múslimar) er það um áttundi hluti allra fæddra barna. Ef múslimum fæðast að jafnaði jafn margar stúlkur og drengir, sem hlýtur að vera nærri lagi, þá er að sama skapi fjórðungur stúlkubarna börn múslima. Aftur áttundi hluti allra fæddra barna. Samanlagt eru börn múslima því fjórðungur allra fæddra barna. Ekki helmingur.

Einn áttundi = 12,5%

Aftur á móti er líka bent á að þessi tala stenst engan veginn samkvæmt opinberum, norskum, tölum heldur lætur nær að tala um 2,5% fæddra drengja.

Hver var punkturinn þinn, Valdimar? Hvað er það sem þér finnst að okkur hafi yfirsést?


Ikrajb - 28/07/10 18:11 #

FYRRA BRÉF PÁLS TIL KORINTUMANNA 1 14:34 Eins og í öllum söfnuðum hinna heilögu 34skulu konur þegja á safnaðarsamkomunum, því að ekki er þeim leyft að tala, heldur skulu þær vera undirgefnar, eins og líka lögmálið segir. 35En ef þær vilja fræðast um eitthvað, þá skulu þær spyrja eiginmenn sína heima. Því að það er ósæmilegt fyrir konu að tala á safnaðarsamkomu. 36Eða er Guðs orð frá yður komið? Eða er það komið til yðar einna?

á hana að grýta, brenna eða limlesta?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.