Í byrjun febrúar hélt ríkiskirkjan „biblíudaginn“ hátíðlega. Þess vegna fjölluðu prestar hennar mikið um biblíuna í predikunum sínum. Í einni þeirra, „Biblían – Innblásið, óskeikult og óbriðgult orð Guðs til þín“ eftir Gunnar Jóhannesson, kemur höfundurinn með ýmsar vafasamar fullyrðingar og virðist viðurkenna að hann hafi skoðanir sem má segja að einkenni bókstafstrúarmenn.
Gunnar fullyrðir að biblían „[standi] á traustum grunni“ og rökstyður það með því að segja að við vitum að textinn sem við höfum nú í dag sé sá sami og upprunalegi textinn:
„Ef við tökum dæmi af ritum Nýja testamentisins þá eru engin rit fornaldar til í jafn miklum fjölda handrita (sem hlaupa á mörg þúsundum) eða jafn gömlum handritum. Við getum því verið viss um að við séum að lesa Nýja testamentið eins og það var ritað.“ Það er vissulega rétt að við höfum þúsundir eintaka af Nýja testamentinu (sem eru reyndar flest mörg hundruð árum eftir ritunartímann) og að við getum verið nokkuð viss um mestan hluta Nýja testamentisins, en því miður getum við ekki verið viss um nokkra hluta Nýja testamentisins.
Í fyrsta lagi þá vitum við stundum einfaldlega ekki hvaða lesháttur er réttur þegar handritin sem við höfum eru ekki sammála. Fínt dæmi um þetta eru orðin sem heyrast við skírn Jesú í Lúkasarguðspjalli. Sagði röddin frá himninum: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.“ eða „Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig.“? Við vitum það einfaldlega ekki.[1]
Í annan stað er hægt að benda á það að við vitum að sum rit sem núna eru í Nýja testamentinu voru til í öðrum útgáfum sem við höfum engin eintök af. Á fyrri hluta annarrar aldar gaf „villutrúarmaðurinn“ Markíon út elsta „Nýja testamentið“ sem vitað er af og það innihélt meðal annars tíu bréf Páls, en þau voru í annarri, styttri mynd heldur en útgáfan sem er í biblíunum okkar. Andstæðingar hans sökuðu hann um að hafa breytt bréfunum og Markíon og fylgjendur hans hafa örugglega svarað ásökuninni í sömu mynt. Engin afrit af þessari útgáfu hafa varðveist og ýmsir fræðimenn hafa bent á að sumt í okkar útgáfu af bréfum Páls virðist vera síðari tíma viðbót.[2]
Í þriðja lagi er hægt að benda á hluta í Nýja testamentinu sem virðast vera síðari tíma viðbætur, þrátt fyrir að við höfum engar beinar vísbendingar um það í handritum eða þá öðrum útgáfum sem við vitum af. Lokakaflinn í Jóhannesarguðspjalli er gott dæmi. Lokaorð kaflans á undan hljóma eins og lokaorð bókar: „Jesús gjörði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna, sem eigi eru skráð á þessa bók. En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.“ (Jh 20.30-31). Í næsta kafla eru lærisveinarnir farnir að stunda fiskveiðar aftur en ekki að boða kristna trú, þrátt fyrir að hafa séð Jesús nokkrum sinnum í 20. kaflanum. Það eru fleiri dæmi um þetta í Jóhannesarguðspjalli.[3]
En allt þetta tal um textann er frekar óspennandi, þar sem þetta segir okkur ekki neitt um það hvort að ritið segi satt og rétt frá. Við getum verið algjörlega viss um að eintakið okkar af Séð og heyrt sé eins og upprunalega eintakið, en það segir okkur lítið um hvort að slúðrið í blaðinu sé satt. Gunnar verður því að benda á eitthvað annað ef hann ætlar að fá okkur til að trúa öllum furðusögunum sem eru í Nýja testamentinu. Gunnar reynir það auðvitað.
Nýja testamentið er líka algjörlega einstakt að því leyti hversu ótrúlega nálægt rit þess liggja þeim atburðum sem þau greina frá. Takið Pál postula sem dæmi. Elstu bréfin hans eru rituð á síðari hluta fimmta áratugar fyrstu aldar, þ.e. aðeins 15-20 árum eftir dauða Jesú. Og heimildir Páls eru auðvitað enn eldri. Á þessum tíma eru sjónarvottar að lífi og starfi Jesú enn á lífi. Það sama á við um guðspjöllin. Þetta vita ekki allir.
Fullyrðing Gunnars um að nálægð ritunartíma Nýja testamentisins við atburðina sem það lýsir sé „algjörlega einstakt“ er einfaldlega röng. Sem dæmi má benda á að ein aðalheimild okkar um samtíma Jesú eru rit gyðingsins Jósefusar. Um það bil tíu árum eftir uppreisn gyðinga árið 70 skrifaði Jósefus, sem hafði einmitt tekið þátt í uppreisninni og var tekinn til fanga af Rómverjum, um aðdraganda uppreisnarinnar og átökin sjálf.
En það er undarlegt að Gunnar fullyrði að sjónarvottar að lífi og starfi Jesú hafi enn verið á lífi þegar guðspjöllin voru skrifuð. Almennt er talað um að elsta guðspjallið, Markúsarguðspjall, hafi í fyrsta lagi verið skrifað í kringum árið 70. Sá sem var 20 ára þegar Jesús var að vappa um Jerúsalem og boða heimsendi hefði þá verið orðinn 60 ára, og á tíma þar sem fólk lifði almennt ekki lengi. Svo ekki sé minnst á styrjöldina sem lagði landið gjörsamlega í eyði. Guðspjöllin voru síðan líklega ekki rituð á heimaslóðum Jesú. Það er þannig frekar vafasamt að fullyrða höfundar guðspjallana hafi þurft að hafa einhverjar áhyggjur af sjónarvottum.
Það er hins vegar rétt að bréf Páls (þau sem eru ekki falsanir! [4]) eru skrifuð á tímum sjónarvotta, en ef maður fer í gegnum bréfin, þá minnist Páll ekki á eitt einasta kraftaverk sem Jesús á að hafa framkvæmt meðan hann var á lífi!
Þetta er allur rökstuðningurinn sem Gunnar kemur með fyrir áreiðanleika Nýja testamentisins og á þessum vafasama grundvelli kemur Gunnar með ótrúlegar fullyrðingar.
Allt tal um síðari tíma goðsögur þegar Nýja testamentið er annars vegar er fráleitt.
Það er erfitt að taka svona fullyrðingar alvarlega, enda er þetta eitthvað sem maður býst satt best að segja bara við frá gallhörðum bókstafstrúarmönnum. Hérna er saga sem samkvæmt Gunnari er „fráleitt“ að telja vera goðsögn:
En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann. Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr, jörðin skalf og björgin klofnuðu, grafir opnuðust og margir líkamir helgra látinna manna risu upp. Eftir upprisu Jesú gengu þeir úr gröfum sínum og komu í borgina helgu og birtust mörgum. (Mt 27.50-53)
Þessi ótrúlegi atburður virðist hafa farið fram hjá hinum guðspjallahöfundunum. Það væri hægt að benda á fleiri dæmi (ætli Gunnar trúi því að frásagnirnar af fæðingu Jesú séu sannar?) en það er líklega best að benda á aðrar helgisagnir sem Gunnar hafnar sjálfur, þrátt fyrir að heimildirnar fyrir þeim séu betri.
Fyrst má auðvitað benda á sögur sem eru nánast samtíma Jesú eða guðspjöllunum. Jósefus segir frá alls konar furðusögum, meðal annars að kú hafi fætt lamb! Síðan segir þessi sagnaritari að „...ég myndi halda að þessi frásögn væri uppspuni, ef þeir sem sáu þetta hefðu ekki sagt frá þessu,..“ [5] Sagnaritarinn Takítus segir frá því að munnvatn keisarans Vespasíanusar hafi læknað blindan mann og að hann hafi sjónarvotta að atburðinum sem græði ekkert á því að ljúga þessu. Í Markúsarguðspjalli læknar Jesú líka blindan mann með munnvatninu sínu [6]. Ég tel allar þrjár sögurnar vera helgisögur, en líklega telur Gunnar bara eina þeirra vera sanna, og meira að segja „fráleitt“ að telja hana vera helgisögn.
En í nútímanum eru miklu betri dæmi um helgisögur sem spretta upp á þeim tíma sem sjónarvottar að lífi kraftaverkamannsins eru enn á lífi. Á Indlandi er til dæmis maður sem, eins og Jesús, á að vera einhvers konar guð holdi klæddur. Þessi maður er enn á lífi og hann á milljónir fylgismanna. Það þarf ekki mikla leit á netinu til þess að finna margar sögur af meintum kraftaverkum Sai Baba. Á einni síðu með lista yfir kraftaverkasögur er til dæmis þessi saga:
Pílagrímur á leið sinni til Puttaparthi fékk skyndilega hættulegt botnlangakast. Það var hvorki sjúkrahús né skurðlæknir á svæðinu þannig að Sai Baba var beðinn um að koma í herbergið þar sem sjúklingurinn lá kvalinn. Hann veifaði höndinni sinni og framkallaði skurðhníf úr engu. Hann veifaði höndinni aftur og framkallaði heilaga ösku sem hann notaði sem deyfilyf. Hann framkvæmdi skurðaðgerðina með þessum hjálpartækjum og fjarlægði bólgna botnlangann. Síðan hvarf skurðhnífurinn í loftið. Hann bar síðan öskuna á skurðinn sem gréri samstundis og aðeins lítið ör var sýnilegt. #
Ef Gunnar er samkvæmur sjálfum sér, þá er „fráleitt“ að halda því fram að þetta sé ekki satt og rétt, enda eru „sjónarvottar að lífi og starfi [Sai Baba] enn á lífi“. Á síðunni kemur meira að segja fram að þessi saga er í bók eftir nafngreindan fylgjanda Sai Baba, þannig að ef eitthvað, þá eru betri heimildir fyrir þessari sögu heldur en sögunum af Jesú. Ég leyfi mér að gera ráð fyrir því að Gunnar haldi að allar þessar sögur af Sai Baba séu helgisögur. Hann gerir hins vegar undantekningu á góðri gagnrýninni nálgun þegar sögurnar fjalla um trúarleiðtogann hans.
Þegar allt þetta er haft í huga eru næstu ummæli hans enn undarlegri. Hann segir að „oft séu þeir fyrirvarar sem fólk hefur gagnvart Biblíuna og kristinni trú af tilfinningalegum toga fremur en öðrum“.
Ég hef þegar bent á að það er eðlilegt að efast um frásagnir biblíunnar ef maður kynnir sér Nýja testamentið og sambærilegan áróður um aðra trúarleiðtoga, en þó svo að maður viti ekkert um þetta málefni, þá held ég að það séu ekki fyrirvarar af „tilfinningalegum toga“ ef fólk gleypir ekki við sögum um fólki sem labbar á vatni og flýgur upp í geiminn. Gunnar gefur í skyn að þeir sem gleypi ekki við sögunum af trúarleiðtoganum hans geri það bara vegna þess að þeir hafi einhverjar tilfinningalegar, ekki skynsamlegar, ástæður fyrir því.
Ef þú trúir því ekki að við dauða Jesú hafi margir menn risið upp frá dauðum og labbað um Jerúsalem, þá er líklegra en ekki að ástæðan sé af tilfinningalegum toga samkvæmt Gunnari!
Síðustu ummælin hans sem ég fjalla um varpa töluverðu ljósi á allan málflutning hans, Gunnar virðist nefnilega vera alger bókstafstrúarmaður[7]:
Biblían er innblásið orð Guðs, og sem slík er Biblían fullkomin, áreiðanleg, óskeikul og sönn.
Hann útskýrir síðar í predikuninni hvað hann á við með þessum orðum:
Ég á ekki heldur við að Biblían sé óskeikul í öllu sem hún segir. Nei. En Biblían, sem orð Guðs, er sönn og rétt í því sem hún boðar og kennir.
Ég leyfi mér að fullyrða að þetta er trú sem er ekki byggð á skynsamlegum rökum heldur séu þessi trú af „tilfinningalegum toga“. Til þess að réttlæta þessa trú sína hefur Gunnar síðan farið í smiðju bókstafstrúarmanna og kemur með sömu lélegu rök og þeir nota til að réttlæta þessa trú sína.
Ástæðan fyrir því að Gunnar trúir sögunum af kraftaverkum Jesú en ekki sögunum af Sai Baba og Vespasíanusi er ekki sú að Nýja testamentið sé ótrúlega frábær heimild, heldur einlæg trú Gunnars. Rökin sem hann nefnir í þessari predikun sinni eru síðari tíma réttlætingar. Sögurnar af kraftaverkum Jesú verða að vera sannar, því annars er biblían skeikul og þá er trú Gunnars í hættu stödd.
Þessi trú hans á fullkomleika og áreiðanleika biblíunnar vekur margar spurningar. Er biblían ekki skeikul þegar höfundar rita í Nýja testamentinu segja að heimsendir sé rétt ókominn?[8] Ég efast um að Gunnar eigi eftir að geta varið þennan óskeikulleika án þess að hann útvatni skilgreininguna á óskeikulleika þannig að hún verði eitthvað í líkingu við biblían er óskeikul þegar hún boðar eitthvað sem er ekki augljós vitleysa.
Annað dæmi eru þjóðarmorðin í Gamla testamentinu. Á mörgum stöðum er klárlega boðað og kennt að guð hafi fyrirskipað þjóðarmorð. Ef óskeikula biblían „er sönn og rétt í því sem hún boðar og kennir“ , viðurkennir Gunnar þá að guðinn hans hafi fyrirskipað þjóðarmorð? Hvert svo sem svarið hans væri við þessum spuningum, þá er ljóst að prestar eins og Gunnar eru frábært dæmi um það að bókstafstrú blómstrar innan veggja Þjóðkirkjunnar.
[1] Í nýjustu íslensku biblíunni er fyrri kosturinn valinn. Til að sjá rökstuðning fyrir hinum lesháttinum í Lúk 3.22 er hægt að kíkja á bls. 62-67 í bók Bart Ehrmans The Orthodox Corruption of Scripture. Það er hægt að lesa kaflann hérna
[2]Sem dæmi er hægt að lesa bækur Winsome Munro og William O. Walker. Síðari aðilinn hefur skrifað allnokkrar greinar í fræðiritum um einstakar viðbætur, sjá til dæmis 1Kor 13, 1Kor 15.29-34 og Gal 2.7-8
[3] Sem dæmi má benda á kafla 15-17 í Jóhannesarguðspjalli. Í lok 14. kafla segir Jesús „Standið upp, vér skulum fara héðan.“ (Jóh 14.31) og í upphaf 18. kafla fara þeir (Jóh 18.1). Ræðan inn á milli virðist ekki passa.
[4] Hirðisbréfin (1, 2Tím og Tít) eru almennt talin vera falsanir og þetta eru einmitt bréfin sem voru ekki í „Nýja testamenti“ Markíons. Efesusbréfið er einnig talið falsað. Það er deilt um hvort Kólossubréfið og síðara Þessaloníkubréfið séu falsanir eða ekki.
[5] Gyðingastríðið 6.288
[6] Það er sagt frá sögunni af Vespasíanusi í Takítus, Saga Rómar, IV.81 og Svetóníus, Ævisögur keisaranna, Vespasían 7.2. Sagan af Jesú er í (Mrk 8.22-26). Því hefur meira að segja verið haldið fram að sagan af Jesú sé að einhverju leyti byggð á sögunni af Vespasíanusi.
[7]Með bókstafstrúarmaður á ég ekki við að hann túlki allt í biblíunni bókstaflega (t.d. að sköpunarsagan í 1Mós 1 lýsi raunverulegum atburðum), heldur að hann viðurkenni ekki að biblían hafi nokkra villu.
[8]Upphafsorð Opinberunarbókarinnar eru fínt dæmi. Þar er sagt að innihald bókarinnar (heimsendir) muni eiga sér stað innan skamms og að tíminn sé í nánd.
Hann segir að „oft séu þeir fyrirvarar sem fólk hefur gagnvart Biblíuna og kristinni trú af tilfinningalegum toga fremur en öðrum“.
Já, margur heldur mig sig.
Þetta er annars merkilegur hugsunargangur hjá trúmönnum af hvaða tagi sem er. Að halda að þeir sem trúa ekki og ættu þannig að vera alveg lausir við tilfinningalegar skuldbindingar við hjátrúnna skuli vera þeir sem séu hlutdrægir þegar ritningarnar eru lesnar.
Ætli Gunnar sé í miklu tilfinningalegu uppnámi þegar hann les Eddu?
Eða les hann hana með fræðilegum og hlutlausum hug.
Er "trúvörn" ekki sérstakt viðfangsefni guðfræðinnar? Og erum við glötuðu synirnir og sjúklingarnir ekki verðugt viðfangsefni þessara sem fundið hafa stóra sannleikann og þiggja laun sín af okkur fyrir vikið?
Þögn þessara hræsnara hér finnst mér jafnan kostuleg en þegar svona grein birtist er hún ofurskiljanleg.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 08/03/10 17:25 #
Takk fyrir frábæra grein Hjalti.