Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gjaldið guði vel rökstudda túlkun

Mánudaginn 22. febrúar var Vantrú með kynningu fyrir nema í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Það gekk vel þó það hefði vissulega verið gaman að sjá kannski einhvern kennara í deildinni mæta en þeir voru væntanlega allir mjög uppteknir.

Í umræðunum var oft talað á þeim nótum að við Vantrúarseggir skildum Biblíuna eins og bókstafstrúarmenn. Ég áttaði mig raunar ekki fyllilega hvað fólk átti við fyrren okkur var borðið á brýn að vera á móti öllum túlkunum (formaðurinn sagði raunar að hann væri skeptískur á túlkanir og vísaði þá í Freud). En ég náði að svara því að við værum ekki á móti túlkunum, bara bjánalegum túlkunum.

Þær túlkanir sem við gagnrýnum oftast á Vantrú eru komnar úr hefðinni “ljós krists”. Í stuttu máli sjá slíkir túlkendur aldrei neitt neikvætt í fari Jesú af því að þeir ganga út frá því að hann hafi verið alveg frábærlega góður. Þannig ná þessir menn að snúa öllu í eitthvað jákvætt. Vandinn er að þessar túlkanir eru oft alveg ótrúlega fjarstæðukenndar.

En til þess að hrekja það að við Vantrúarseggir séum á móti túlkunum á textum til dæmis guðspjallanna þá er best að taka smá texta á benda á að við erum sátt við að hann sé túlkaður fram og til baka. Ég mundi ekki eftir góðu dæmi fyrren ég var að keyra heim. Sem er týpískt.

Í guðspjöllunum segir örugglega oftar en einu sinni Jesú eignuð þessi lína:

“Gjaldið keisaranum það sem keisarans er og guði það sem guðs er.”

Sá skilningur sem ég hef oftast séð á þessari línu hjá íslenskum ríkiskirkjuprestum er bókstaflegur (en þó eru þeir ekki ásakaðir um bókstafstrú fyrir). Þarna sé Jesús að boða frið og ró milli ríkis og kirkju. “Borgið bara skattana ykkar og tíundina líka.” Ég samþykki þá túlkun ekki. Ég tel tvær túlkanir miklu líklegri þó þær gangi einmitt í berhögg við hvor aðra. Ég veit ekki hvor er réttari en ég tel meiri líkur á að þær séu réttar en sú bókstaflega. Ég nefni þessar túlkanir bara sem dæmi en ætla ekki að kafa dýpra í þær eins og er.

Fyrri skýringin: Jesús er í raun að segi að maður eigi ekki að gjalda keisaranum neitt því allt sé guðs. Seinni skýringin: Jesús er að segja að peningar séu einskis virði þar sem heimsendir er handan við hornið þannig að það sé alveg eins gott að borga keisaranum því þá getur maður trallað rólegur þar til ríki guðs kemur.

Texti getur oft falið í sér meira en það sem er á yfirborðinu en maður getur ekki bara bullað eitthvað af því að það hentar trúarskoðun manns. Það þarf að gera greinarmun á því sem hægt er að lesa úr textanum og samhengi hans og því sem komið til vegna óskhyggju túlkandans. Túlkanir standa og falla með rökstuðningi sínum og þær guðspjallatúlkanir sem standa á þeim grunni að þér finnist Jesús alveg frábær eru byggðar á mjög vafasömum forsendum. Við erum ekki á móti túlkunum almennt heldur erum við á móti lélegum túlkunum sem hafa það höfuðmarkmið að fela merkingu textans.

Óli Gneisti Sóleyjarson 03.03.2010
Flokkað undir: ( Hugvekja , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Vigdís Ágústsdóttir - 03/03/10 09:57 #

Mig langar til að segja ykkur dálítið "skrítið". Ég er flogaveik, og þið vitið væntanlega að það hefur verið kallað "hin heilaga veiki". Ég hef lesið um að í heilanum sé sérstakt "trúarsvið". Ég er engin bókstafstrúarmanneskja, en hef upplifað að komast í einskonar "trúarlegt" ástand eftir flogakast. Meira að segja hélst þetta ástand í þó nokkra daga. Þetta var upplifun út af fyrir sig, ég gleymi henni ekki, þó að þetta "svið" sé ekki virkt venjulega hjá mér. Í lokin langar mig að segja, að án þess að ég sé trúuð, sé ég að trúin getur verið fólki styrkur, veitt fólki sálarró. Og gert sitt gagn. Ég er á móti öfgum, en hef á minni ævi þekkt nokkra sanntrúaða einstaklinga,þetta voru allt sannar öfgalausar manneskjur, fullar af náungakærleika. Fyrir svona fólki ber ég virðingu, þó að mitt trúarsvið sé lítið virkt. Það er nefnilega mannbætandi að þekkja svona fólk. Þá ég líka við að þetta voru allt manneskjur, sem sýndu sína trú í verki.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 03/03/10 12:56 #

Túlkun er óhjákvæmileg á öllum texta, en því langsóttari sem hún er, þeim mun vafasamari tel ég hana.

Flestir foreldrar bera börn sín til skírnar og kirkjan segir að við það verði þau "lærisveinar Krists". Þó er aldrei vitnað í Lk. 14:26

Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.

Biskup og prestar eru á ofurlaunum af skattfé okkar og allir þekkja söguna um ríka manninn og nálaraugað, fugla himinsins og liljur vallarins. En þeir vitna þó sjaldan í þá ritningarstafi í kjarabaráttu sinni. Og hversu oft er vitnað í Lk. 14:33:

Þannig getur enginn yðar verið lærisveinn minn, nema hann segi skilið við allt sem hann á.

Nei, maður spyr sig svona, kannski í ljósi þess hvernig Jesús er sagður hafa hagað lífi sínu. Sennilega er það síst til eftirbreytni.


Árni Árnason - 03/03/10 14:28 #

Allar túlkanir eiga að leiða til fyrirfram gefinnar niðurstöðu. Guð og Jésú eru frábærir, góðir og algerir snillingar, allt sem þeir segja og gera er rétt og fallegt. Allt sem þeir feðgar hafa sagt og gert er ekki bara gerlegt, heldur líka í samræmi við þekkingu mannsins á hverjum tíma. Ef eitthvað hljómar fjarstæðukennt eða ómannúðlegt, kemur óþægilega við presta eða er bara heimskulegt er það bara vegna þess að það er ekki búið að túlka það til. Ef eitthvað er nógu töff án túlkunar á að láta það í friði.

Einungis trúaðir eða þeir sem hafa atvinnu af trúgirni annarra geta túlkað rétt. Túlkanir annarra, sérstaklega vantrúaðra, eru ekki túlkanir heldur útúrsnúningur. Amen.


Guðmundur I. Markússon - 04/03/10 00:02 #

Við erum ekki á móti túlkunum almennt heldur erum við á móti lélegum túlkunum sem hafa það höfuðmarkmið að fela merkingu textans.

Það er ekki hægt að vera á móti túlkunum sem slíkum. Enginn texti hefur merkingu óháð túlkun. Þess vegna er ekki hægt að segja að textinn hafi merkingu eins og hún sé eitthvað sem býr í textanum (því er hæpið að tala um að "fela merkingu textans"). Þetta er grundvallar merkingarfræði (semiotics). Meira að segja að skilja setninguna "farðu út í búð" felur í sér túlkun, sem byrjar í sjónskynjun orðanna í ósjálfráðri virkni heilabúsins (og svo þarf þekkingu á samhengi, eins og hvað er "búð").

Hins vegar, eins og Reynir bendir á, má dæma túlkanir eftir því hversu langsóttar þær eru, rétt eins og skýringar. En varðandi Biblíuna skiptir tilgangur túlkunarinnar miklu máli.

Ef þú ætlar að túlka fornan, "dauðan" texta til þess að nálgast þá merkingu sem höfundurinn og áherendur/lesendur hans lögðu í hann, hvort sem það er úr Biblíunni eða eitthvað annað, þarf að taka félagslegt og sögulegt samhengi inn í myndina. Því meira sem við höfum af þessu samhengi, því betri líkur eru á því að nálgast þessa upprunalegu merkingu eða tilgang textans. Hér er hægt að leggja mat á túlkunina m.a. eftir því hversu langsótt hún er.

Um kristilega túlkun gengir öðru máli. Fyrir kristnum er textinn ekki "dauður", heldur tæki til að nálgast veruleikann og samtímann. Þetta krefst þess að túlka textann hér og nú, ekki endilega að reyna að nálgast hina upprunalegu merkingu sem höfundurinn lagði í. Eins með lestur Gamla Testamentisins í ljósi Krists -- þetta er hluti kristinnar trúar, og er allt annað en að lesa hina fornu texta GTs sem slíka.

Fyrir okkur sem stöndum utan kristninnar getur stundum verið erfitt að átta sig á því hvað er verið að fara, og sjálfsagt að hafa á því skoðun. En ég tel að það sé nauðsynlegt að greina þarna á milli.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/03/10 01:56 #

Þetta krefst þess að túlka textann hér og nú, ekki endilega að reyna að nálgast hina upprunalegu merkingu sem höfundurinn lagði í.

Mér sýnist þetta þá líka krefjast þess að litið sé á að þessi texti sé á einhvern hátt guðlegur, yfirnáttúrlegur og geti þar af leiðandi fjallað um aðstæður okkar í nútímanum.

Það gleymist semsagt alveg að spyrja hinnar nauðsynlegu fyrstu spurningar, þessa um hvort þessi texti geti talað út fyrir samtíma sinn. Í staðinn hlaupa menn til og byrja á að reyna að komast að því hvernig hann talar út fyrir samtímann.

Slík vísindi eru að mínu viti gervivísindi.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 04/03/10 10:59 #

Enginn texti hefur merkingu óháð túlkun.

Jú, er það ekki? "þrír plús þrír eru sex", "ég er með tíu tær", "ég er að skrifa athugasemd á Vantrúarsíðuna".

Fyrir kristnum er textinn ekki "dauður", heldur tæki til að nálgast veruleikann og samtímann

Gildir það líka um bókstafstrúarmenn?


Guðmundur Ingi Markússon - 04/03/10 18:37 #

Biggi:

Mér sýnist þetta þá líka krefjast þess að litið sé á að þessi texti sé á einhvern hátt guðlegur, yfirnáttúrlegur og geti þar af leiðandi fjallað um aðstæður okkar í nútímanum.

Ja, ætli það sé ekki það sem átt er við með "guðs orði"? Ég býst við því að þeir trúuðu líti svo á. Hinir veraldlegu, "trúlausu", prestar, guðfræðingar og fræðimenn sem gera ráð fyrir yfirnáttúru líta væntanlega svo á að textarnir eigi á einhvern hátt meira erindi en aðrir fornir textar (s.b. Bultman og René Girard).

Ég hafna hvort tveggja, enda er ég trúleysingi. Þetta er hins vegar ekki það sem ég var að tala um.


Guðmundur Ingi Markússon - 04/03/10 18:49 #

Valgarður:

Enginn texti hefur merkingu óháð túlkun (GIM).

Jú, er það ekki? "þrír plús þrír eru sex", "ég er með tíu tær", "ég er að skrifa athugasemd á Vantrúarsíðuna".

Það sem ég átti við, var að merking getur ekki verið "íbúandi" eiginleiki í texta. Athugaðu þessa hugartilraun: Ef allt mannkynið eins og það leggur sig myndi deyja út, væri þá merking í í textum, bókum, o.s.frv.? Svarið er nei. Án manna eru textar einungis munstur, og sem slík merkingarlaus (hið sama á við gen: Erfðaefni fyrir utan frumu eru aðeins gagnslaus munstur). Þetta er grundvallar semiótik: Til þess að merking sé til þarf alltaf túlkandi einstakling, túlkandi huga.

Hins vegar hafa textar mismikið svigrúm til túlkunar. Ef þú sérð einhvern segja yfir afgreiðsluborð í sjoppu "Einn Winston", býður það ekki upp á mikla andagift. Hins vegar, til þess að skilja þetta þarftu að þekkja ákveðna ramma eins og verslun, búð, vara. Án þess gætir þú ekki skilið þetta.

Ég skal reyna við dæmin sem þú nefnir:

"þrír plús þrír eru sex": Þetta er aðeins hægt að skilja með lágmarks þekkingu samlagningu. Þar að auki, ef ég rækist á þetta í handriti eða annarsstaðar án þess að vita hver eða hvenær það var ritað, gæti ég ekki skilið tilganginn með setningunni. Líkleg skýring væri kennsla í samlagningu í 1. bekk ... en það gæti líka verið dæmi í rökræðum einstaklinga um textatúlkun (sem væri ekki mjög augljóst).

"ég er með tíu tær": Ef ég hef þekki 10 tölur (sem er víst ekki tilfellið í talnakerfum allra samfélaga) og þekki grunn líffærafræði, er þetta þröngt. En samt þarf samhengi. Aftur, ef ég finndi þetta einangrað á snifsi eða í handriti kæmi margt til greina -- einhver lýsir því yfir að hann er normal; maður vaknar úr táígræðslu og glest yfir því að hafa allar tærnar áfastar; eða eitthvað djúpt sem Jesú sagði í einhverju gnostísku handriti. Vissulega er hægt að segja að einhver "yfirborðsmerking" sé þarna (að því gefnu að þú kunnir íslensku og hafir grunnþekkingu), en til að skilja textann (nálgast þá merkingu sem höfundur lagði í textann) þarf að skilja samhengið.

Fyrir kristnum er textinn ekki "dauður", heldur tæki til að nálgast veruleikann og samtímann (GIM)

Gildir það líka um bókstafstrúarmenn?

Jú, vitanlega. En það er mikill misskilningur að bókstafstrúarmenn túlki ekki Biblíuna (enda ekki hægt annað), og því í raun villandi að tala um bókstafi í þessu samhengi. Í nýlegri bók trúarbragðafræðingsins Brian Malley um hvernig ákveðinn "bókstafstrúarsöfnuður" um gengst Biblíuna (How the Bible Works: An Anthropological Study of Evangelical Biblicism, AltaMira Press, 2004), sýnir að þeir túlka Biblína líka, velja úr, og hafna örðu. Mæli með þessari bók.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 04/03/10 19:03 #

Ef allt mannkynið eins og það leggur sig myndi deyja út, væri þá merking í í textum, bókum, o.s.frv.? Svarið er nei

Ég ætla að fá að vera ósammála, í mínum huga er merkingin er á sínum stað, hvort sem einhver er til að skilja eða ekki.

Þetta er aðeins hægt að skilja með lágmarks þekkingu samlagningu..

Það er rétt en breytir ekki að þetta er ekki túlkunaratriði.

gæti ég ekki skilið tilganginn með setningunni

Tilgangur setningarinnar er eitt, merkingin er annað, og ef ég má þrjóskast við, stendur hún og þarfnast ekki endilega túlkunar.

Sama gildir um dæmið með tærnar. En ég er ekki að segja að það megi ekki taka texta og túlka og leggja út af. Ég er að segja að það sé ekki nauðsynlegt og oft standi texti bara án þess að nokkur þurfi að túlka.

Auðvitað er rétt hjá þér að flestir sem kalla sig bókstafstrúarmenn túlka og velja og hafna þegar á reynir. En grunn hugmynd þeirra er samt sú að það eigi að taka biblíuna bókstaflega og ég myndi halda að fyrir þeim sé textinn dauður...


Guðmundur Ingi Markússon - 04/03/10 20:59 #

í mínum huga er merkingin er á sínum stað, hvort sem einhver er til að skilja eða ekki.

Þannig að ef ekkert vitsmunalíf væri í alheiminum en hlutur sem við myndum þekkja sem eintak af Hard Times Dickens lægi einvhersstaðar í skorningi -- væri samt merking til staðar í þessum hlut? Hvernig þá? Í hvaða formi? Mælanlegu??

Merking er ekki staðbundin. Hún er dýnamískt fyrirbæri sem kemur fram í samspili hugar og tákna. Og ef ég er ekki að æra ykkur úr málalengingum, má setja fram í þessari röð:

1) Tákn (eitthvað sem hægt er að skynja, td. texti )

2) Túlkandi hugar

3) merking, útkoma samspils 1) og 2)

Tilgangur setningarinnar er eitt, merkingin er annað, og ef ég má þrjóskast við, stendur hún og þarfnast ekki endilega túlkunar.

Merkingarfræðin/táknfræðin er er sundurleit og ýmsar kenningar á lofti, en að sá tilgangur sem höfundur/ræðumaður hefur í huga sé lykilatriði í merkingu þess sem hann lætur frá sér er óumdeilt (því maður lætur eitthvað út úr sér í þeim tilgangi að koma einhverju ákveðnu til skila -- merkingu).


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 04/03/10 22:11 #

... væri samt merking til staðar í þessum hlut? Hvernig þá? Í hvaða formi? Mælanlegu??

Já, klárlega er merking hvort sem einhver getur nýtt eða mælt.

Varðandi tákn og túlkanir, kannski mín takmörkun, en er ekki verið að flækja frekar einfaldan hlut? Óræður texti gefur tilefni til túlkunar, en oftar en ekki er texti frekar skýr og óþarfi að greina og/eða flækja.

Að minnsta kosti sé ég ekki enn að allan texta þurfi að túlka.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 04/03/10 22:56 #

Hér rekast á almennur skilningur og fræðin djúp. Bollalengingar Guðmundar Inga eru vel þekktar í merkingarfræði en skipta harla litlu í daglegu amstri Valgarðs. Einfalda hluti má flækja.

En nú vill svo til að við þekkjum dæmi um texta sem enginn gat ráðið öldum saman, myndletur Egypta. Eftir að Rósettu-steinninn fannst var unnt að ráða urmul slíkra texta. Voru þeir merkingarlausir þar á undan? Varla. Myndletur frumbyggja Suður og Mið-Ameríku er enn óráðið. Er það merkingarlaust?

Þetta er eins og spurningin um tréð sem fellur í skóginum þegar enginn er nálægt. Heyrist hljóð? Svarið skiptir engu máli.

(Eða hin útgáfan: Karlmaður tjáir sig en engin kona heyrir til. Hefur hann samt rangt fyrir sér?)


Guðmundur Ingi Markússon - 04/03/10 23:43 #

Já, klárlega er merking hvort sem einhver getur nýtt eða mælt.

Ef merkingin er einhversskonar platónsk hugmynd, kannski. En ég trúi ekki á platónskar hugmyndir frekar en guð.


Guðmundur Ingi Markússon - 04/03/10 23:55 #

Asakaðu Reynir. Upphaflega var það til þess að hamra á einföldum punkti: Að merking geti ekki búið í hlutum eins og texta ... vill bara svo til að ég hef áhuga á þessu og missi mig :)

En ekki nota þetta til þess að draga athyglina frá því sem skiptir máli, líka fyrir það sem þú kallar almennan skilning: samhengi, túlkun og tilgangur.

(En þú hittir naglann á höfuðið með Rósettu-steininn. Ástæða þess að hægt var að ráða myndletur, fleygrúnir, og vonandi myndletur frumbyggja Suður og Mið-Ameríku, er sú að hugur sömu gerðar og skapaði táknin réði þau. Annars hefðu þau aðeins verið munstur ... en munstur hafa formgerð, og því getur samskonar hugsandi vera og setti þau saman ráðið, sé einhver lykill, eins og steinninn góði.)


Guðmundur Ingi Markússon - 05/03/10 00:01 #

Einfalda hluti má flækja.

Mér finnst umfjöllunarefnið -- túlkanir á fornum textum -- alls ekki einfalt ... og hægt er að einfalda hluti þar til þeir hverfa.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 05/03/10 10:24 #

Ég var nú reyndar að grípa alhæfinguna "Enginn texti hefur merkingu óháð túlkun", ég var ekki að alhæfa að aldrei þyrfti að túlka texta.

Og það má líka flækja hlutina að óþörfu út í hið óendanlega, það tæki daginn (marga daga) að lesa blöðin ef það þyrfti að kryfja hverja einustu setningu.


Guðmundur I. Markússon - 05/03/10 12:47 #

... það tæki daginn (marga daga) að lesa blöðin ef það þyrfti að kryfja hverja einustu setningu.

Mér finnst þið gera óþarflega mikið úr þessum "flækjum". Þú settir fram eitthvað sem átti ekki að þurfa að túlka. Ég varð að svara því.

Grunnpunktarnir eru sem áður:

-Það er munur á því að túlka fornan, "dauðan" texta sem fornan texta, en að túlka út frá trúarhefð í samtímanum. Hvort tveggja má gagnrýna en á mismunandi forsendum.

-Allt þarf amk. ramma svo hægt sé að skilja það, sama hversu einfalt. Ef ég hefði verið í óbyggðum síðustu tvö árin myndi ég ekki botna í umræðunni í blöðunum ... Icesave??

-Ég hef svo sem ekki meira um þetta að segja, en þar sem ykkur þyrstir í meiri merkingarfræði, er hér grein þar sem ég gagnrýni Sr. Gunnar Jóhannesson fyrir að tala um "sanna" kristna trú eins og einhverja svífandi platónska hugmynd, á alveg sömu forsendum og merkingu hér á ofan:

http://www.vantru.is/2006/08/31/18.58/

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.