Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúboðssöfnun

Ég á frekar erfitt með að setja mig upp á móti söfnunum til styrktar bágstöddum. Fer ósjálfrátt að hugsa hvort ég sé svona illa innrættur, tími ekki nokkrum krónum og/eða hafi enga samúð með þeim sem eiga erfitt uppdráttar?

Það er stöðugt verið að safna til styrktar fátækum hér á landi, fórnarlömbum jarðskjálftanna á Haítí og bágstöddum í Afríku svo einhver dæmi séu tekin. Og ætti auðvitað að vera hið besta mál. Ég efast í sjálfu sér ekki um góðan vilja og ásetning flestra þeirra sem standa fyrir þessum söfnunum. Og ekki ætla ég að gera lítið úr því sem hefur áunnist í fjöldamörgum tilfellum.

Það sem truflar mig er að sumum tilvikum fer hluti peninganna í trúboð. Stundum beint og stundum óbeint. Kirkjan notar hluta af peningum sem fer í hjálparstarf til að byggja kirkjur. Hjálpinni fylgir oftast boðskapur. Jafnvel þegar beina trúboðið er í lágmarki þá ímynda ég mér að það sé erfitt að þiggja neyðaraðstoð eða aðra hjálp án þess að horfa með jákvæðum hugarfari á böggulinn sem fylgir.

Ég velti líka fyrir mér hvers vegna verið er að tengja saman trúboð og hjálparstarf. Væri það ekki einmitt meira í anda kristninnar að hjálpa nafnlaust og nánast úr felum?

En látum jafnvel vera, í bili að minnsta kosti, þó hjálparstarf kirkjunnar sæki peninga í sínu nafni. Nú er kirkjan farin að safna nánast undir dulnefni, „ABC barnahjálp“. Það er ekki verið að kynna fyrir þeim sem gefa að þeir séu að styrkja trúboð. Það finnst að vísu á vefnum þeirra ef leitað er vel, en hvorki orðið „trú“ eða „kristið“ koma fram á heimasíðu þeirra. Hvers vegna skyldi það vera? Er það vegna þess að markaðsfræðingar kirkjunnar hafa fundið út að færri myndu leggja fram pening ef þeir vissu hvers eðlis starfsemin er?

Nú er ég ekki mikið fyrir endalausar lagasetningar um allt og ekki neitt, en ég held að það væri óvitlaust að skylda söfnunaraðila til að taka fram hvernig þeir verja söfnunarfé sínu. „Viltu styrkja XYZ gamalmennahjálpina um 1.500? Tvöhundruðkall fer í yfirbyggingu, fimm hundruð krónur í trúboð og afgangurinn í hjálparstarf?“

Þannig að svona eftir á að hyggja..

Nei, það er ekkert erfitt fyrir mig að setja mig upp á móti sumum söfnununum.

Ég er á móti söfnunum þar sem góður hluti peninganna rennur til málefnis sem ég vil ekki styrkja, eins og td. trúboðs. Og ég er alveg sérstaklega mótfallinn starfssemi sem rekur söfnun undir fölsku flaggi.

Valgarður Guðjónsson 24.02.2010
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Halla Sverrisdóttir - 24/02/10 10:09 #

Já, ég verð að vera sammála þessu. Og enn og aftur læðir kirkjan sér inn í skólastarfið í gegnum þessar bakdyr - það bönkuðu þrjár skvísur úr hverfinu upp á hjá mér í gær með söfnunarbauka fyrir ABC. Ég spurði þær reyndar ekki en get ekki ímyndað mér annað en að sú söfnun sé skipulögð í gegnum hverfisskólann. Ég átti reyndar ekki lausan aur og gat með hreinni samvisku sagt þeim að mínir hjálparaurar færu mánaðarlega til SOS-barnaþorps í Maputo í Mósambík. Það er reyndar alveg sama hver hjálparstofnunin eða góðgerðarsamtökin eru, það hlýtur að orka tvímælis að senda skólabörn út af örkinni til að safna fyrir þau. Spurningin er: hafa foreldrar barnanna eitthvað að segja um það hvaða samtök er safnað fyrir (og maður getur jú haft ýmsar skoðanir á hjálparsamtökum, hvort sem er hugmyndafræðilega eða annars eðlis) og er leitað samráðs við foreldrafélög eða fengið skriflegt leyfi hjá öllum foreldrum áður en barnið er sent af stað með baukinn? Það er falleg hugsun og hverju barni hollt að upplifa að það geti aðstoðað við að leggja öðrum lið. En sem foreldri er mér hreint ekki sama hvernig það er gert!


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 24/02/10 10:15 #

...er leitað samráðs við foreldrafélög eða fengið skriflegt leyfi hjá öllum foreldrum áður en barnið er sent af stað með baukinn?

Aldeilis ekki. Kristniboðssamtökin ABC virðast hafa óheftan aðgang að skólabörnum og vinnuframlagi kennara. ABC og skólinn hafa þann háttinn á að gefa sér leyfi foreldra til að börn þeirra safni fé til trúboðs nema foreldrarnir hafi sérstaklega fyrir því að banna barni sínu að "hjálpa börnum", eins og það er kallað.

Þú getur lesið nánar um fyrirkomulagið í nýlegri grein hérna.


Jón Yngvi - 24/02/10 11:08 #

Skipulagið í hverfinu okkar er alveg eins og lýst er í grein Reynis (við Halla erum nágrannar).

Ég skrifaði skólastjóranum og fékk þau svör að þetta væri eitt þeirra verkefna sem verið væri að endurskoða. Ég hef fengið svipuð svör áður þegar ég hef gert athugasemdir við kirkjuferðir og fleira.

Mínar dætur eiga tvö ár eftir í Laugarnesskóla. Ég treysti því að Halla taki við stöðu minni sem nöldrandi foreldri eftir það.


Bryndís - 24/02/10 14:23 #

Oft eru það einmitt hin trúarbrögðin sem fólkið aðhyllist sem fjötra þau og lama. Leifa mönnum að fara illa með konur sínar og börn, umskera stúlkubörn, bera út stúlkubörn. Hvernig ætlar þú að segja þessu fólki að það sé bara einfaldlega ekki rétt að gera þetta. Það hefur verið reynt og ekki tekst, en þar sem trúin hefur komist að hafa kraftaverkin gerst. Menn hafa tekið að skoða þetta út frá kærleiksaugum trúarinnar og konur fengið meira frelsi og hamingju.

Líklega þyrftuð þið að kynna ykkur starf kristniboðssamtakanna betur til að skilja hversu ómetanlegt starf þeirra er og fórnfúst.


Halla Sverrisdóttir - 24/02/10 14:39 #

Hafðu engar áhyggjur, Jón Yngvi, ég mun taka við arfleifð þinni með stolti og nöldra af þrótti við sem flest tækifæri!


Jón Yngvi - 24/02/10 15:34 #

Þessi umræða snýst um söfnunina, ekki starf trúboðssamtaka sem vissulega einkennist oft af fórnfýsi og gerir víða gagn.

Varðandi fullyrðingar Bryndísar um tengsl milli kristni og baráttu fyrir réttindum stúlkna og kvenna má benda á að til eru samfélög kristinna þar sem stúlkur eru umskornar (t.d. meðal koptískra í Egyptalandi) og kristnir eru ekki saklausir af ofbeldi gegn konum, ekkert frekar en múslimar, trúlausir, ásatrúarmenn eða aðrir hópar, því miður.

Meðal annarra orða: Er Bryndís sama manneskjan og gaf í skyn að forsvarsmönnum Vantrúar væri sama þótt börn deyi á fundi í Háskólanum um daginn? Það þótti mér verulega andstyggilegur málflutningur.

P.S. ég hef ekki bannað dóttur minni að taka þátt í söfnun ABC og mun ekki gera það. Það breytir því ekki að mér finnst ástæða til að gagnrýna framkvæmd hennar og aðkomu skólans að henni.


Davíð - 24/02/10 16:02 #

ABC er byggt á kristnum grunni, það hefur aldrei verið leyndarmál, en það tengist ekkert frekar Þjóðkirkjunni frekar en öðrum kristnum trúfélögum.

Ástæðan fyrir því að að það er ekki tengt kirkjustarfi beint, er einfaldlega vegna þess að um er að ræða þverkirkjulegt starf sem er óháð kirkjudeildum.

Kveðja Davíð.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 24/02/10 16:06 #

Oft eru það einmitt hin trúarbrögðin sem fólkið aðhyllist sem fjötra þau og lama.

Þetta er einstaklega sjálfhverfur hugsunarháttur. Auðvitað finnst þér þín trú betri en annarra. En kristni er reynslan hefur sýnt að kristin trú kemur voða lítið að gagni þegar kemur að því að siða fólk.

Þvert á móti er það þannig að þeim mun trúlausari sem þjóðir eru, þeim mun friðsamari eru þær.

Það hefur verið reynt og ekki tekst, en þar sem trúin hefur komist að hafa kraftaverkin gerst.

Menn hafa tekið að skoða þetta út frá kærleiksaugum trúarinnar og konur fengið meira frelsi og hamingju.

Eigum við nú að fara að ljúga að fólki því við teljum það of heimskt til að taka eigin ákvarðanir?

Svona svipað og er að gerast í Afríku þar sem kristnir foreldrar eru að drepa börnin sín af því að prestar segja þau vera nornir?

Líklega þyrftuð þið að kynna ykkur starf kristniboðssamtakanna betur til að skilja hversu ómetanlegt starf þeirra er og fórnfúst.

Ég efast ekkert um það að mjög gott starf sé unnið á vegum ABC. Hér hefur enginn sagt annað.

Nú fæ ég það á tilfinninguna að þú sért bara ekkert sérstaklega læs. Því miður. Ég veit að þetta er móðgandi en hvernig á ég að skila þetta öðruvísi? Við höfum marg ítrekað að við höfum ekkert á móti hjálparstarfinu. Við erum á móti því að almenningsskólar séu látnir safna fé fyrir trúboði.

Því ABC gerir meira en að sinna hjálparstarfi. Þeir eru í trúboði.

Ef skólar vilja láta börn safna fyrir hjálparstarfi þá væri eðlilegast að velja óháðar stofnanir.

Eða hvað? Finndist þér í lagi að skólabörn söfnuðu fyrir múslímsk hjálpar- og trúboðssamtök?


Baldur - 24/02/10 18:35 #

Eða hvað? Finndist þér í lagi að skólabörn söfnuðu fyrir múslímsk hjálpar- og trúboðssamtök?

Ég væri til í að heyra svar við þessu.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 24/02/10 20:09 #

Bryndís, það er kannski ekki miklu við svör Jóns Yngva og Trausta að bæta...

En ég tók nú sérstaklega fram að ég væri ekki að gera lítið úr því að oft væri gott starf unnið.

Mér finnst það fráleit hugsun að ekki megi fræða og kenna án þess að því fylgi trúboð - sem í mínum huga er eingöngu skipti úr einni tegund hindurvitna fyrir í aðra.

Og enn fráleitari að ekki megi hjálpa án þess að trúboð fylgi, enda mörg góð dæmi um að hjálparstarf sé stundað án trúboðs.

Og ekki gleyma að oft er kristnin notuð í miður góðum tilgangi, sbr. nýleg dæmi frá Nígeríu.

Og.. það sem kannski truflar mig mest er þessi feluleikur með að ABC starfinu fylgi trúboð.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.