Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

13 bækur sem Vantrú mælir með

Ertu að spá í bókakaupum? Ertu í einhverjum vafa hvaða bók á að kaupa? Ertu kannski að spekúlera í einhverjum efahyggjubókum? Ef svo er þá höfum tekið saman lista yfir 13 bækur sem við í Vantrú mælum sterklega með til að gefa skeptíkerum, trúleysingjunum og öðrum, sem þætti þetta jafnvel forvitnilegt efni, að gjöf.

Bad Science

Ben Goldacre

Bad Science

Læknirinn Ben Goldacre tekur hér fyrir hómeopatíu, næringarkukl, placebóáhrif, lyf og lyfjafyrirtæki, vísindaumfjöllun fjölmiðla, bólusetningahræðslu, tölfræði og ýmislegt fleira. Mögnuð bók sem sýnir manni hvernig fjölmiðlar eru stöðugt að plata mann í allri sinni umfjöllun um heilsu, næringu, læknismeðferðir og tölfræði. Jónína Ben ætti að lesa þessa bók og þú líka.

Why Do People Believe Weird Things?

Michael Shermer

Why Do People Believe Weird Things?

Michael Shermer útlistar nokkuð nákvæmlega í þessari bók hvað fær fólk - jafnvel frekar gáfað fólk - til að trúa hinum furðulegustu hlutum. Hann talar m.a. um visst sannfæringarferli sem sumir fara í gegn til þess að réttlæta fyrir sér að innan um alla almenna skynsemi leynist djúpstæð trú á hið ótrúlega. Eins og Shermer segir sjálfur í bókinni; ástæðan af hverju fólk trúir hinum furðulegustu hlutum er "því þau vilja það... fólki finnst það gott. Fólki líður vel. Fólki finnst það huggandi." Þetta er lipur, skemmtileg og fræðandi bók.

God Is Not Great: How Religion Poisons Everything

Christopher Hitchens

God Is Not Great: How Religion Poisons Everything

Christopher Hitchens er einn skarpasti penni okkar tíma (blaðamaður) og er óhræddur við að leggja til atlögu við heilagar kýr, samanber bók hans um "Móður Theresu" (The missionary position). Í bókinni "God is not great" fjallar Hitchens um trúarbölið og afhjúpar siðleysi Biblíunnar, bæði Gamla og Nýja testamentisins, og Kóraninn fær líka sinn skerf. Hitchens greinir frá því hvernig hann snerist frá trúarbrögðunum og beindi sjónum sínum að skynsemi og vísindum. Hann segir trúarbrögðin bera á borð brenglaðar hugmyndir um uppruna okkar, eðli og alheiminn og að það sé illa gert að troða þeim ranghugmyndum í ómótaða hugi barna. Bókin er um 300 bls.

Snake Oil Science: The Truth about Complementary and Alternative Medicine

R. Barker Bausell

Snake Oil Science: The Truth about Complementary and Alternative Medicine

Líftölfræðingurinn R. Barker Bausell fer yfir meira en 300 rannsóknir sem gerðar hafa verið á gagnsemi óhefðbundinna lækningaaðferða, m.a. nálastungumeðferða, smáskammtalækninga og grasalækninga. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að engin grein óhefðbundinna lækninga hafi staðist vísindalegar prófanir og að engin þeirra geri meira gagn en lyfleysa. Bausell útskýrir einnig hvaða rökvillur og aðferðavillur leiða til þess að læknar og sjúklingar hafa tilhneigingu til að sjá virkni þar sem engin er þó að báðir séu í góðri trú.

Jesus: Apocalyptic prophet of the new millenium

Bart D. Ehrman

Jesus: Apocalyptic prophet of the new millenium

Bart D. Ehrman er virtur Nýja testamentisfræðingur sem byrjaði fræðiferil sinn hreintrúaður en missti trúna smám saman. Í þessari bók bendir hann á að Jesús hafi að öllum líkindum verið dómsdagsspámaður sem bjóst við heimsendi mjög fljótlega. Ehrman tekur fyrir ótal vers úr Nýja testamentinu og sýnir hvernig augljósasta leiðin til að túlka þau sé einmitt sú að þar sé verið að gera ráð fyrir heimsendi innan skamms. Vel skrifuð bók sem hentar flestum.

The God Delusion

Richard Dawkins

The God Delusion

Tæpitungulaus gagnrýni á hugmyndir manna um guð settar fram af Oxford-prófessor í líffræði sem liggur mikið á hjarta. Þótt yfirburða þekking hans á líffræði og þróun fái svo sannarlega að blómstra á síðum bókarinnar, sem og dálæti hans á enskri tungu, er ljóst að hann er ekki síður vel að sér í sögu, heimspeki, trúarbragðafræði, guðfræði o.s.frv. Geislandi gáfur og þekking á hverri síðu. Engin bók hefur valdið meiri usla á meðal trúmanna hin síðari ár og ástæðan er einföld: Þetta er mögnuð bók og vægðarlaus. Hún er um 460 bls. (í kilju) og gæti reynst nokkuð þung lesning á ensku en von er á íslenskri þýðingu snemma árs 2010.

Atheism: The Case Against God

George H. Smith

Atheism: The Case Against God

Titill bókarinnar segir allt sem segja þarf í raun. Henni er skipt í fjóra hluta: 1. Trúleysi og guð, 2. Rök/skynsemi, trú og vitranir, 3. Rökin fyrir tilvist guðs og 4. Guð: praktískar afleiðingar. Eftir lesturinn er ljóst hvað trúleysi er og hvað mælir gegn sérhverjum rökum fyrir tilvist guðs og réttmæti guðstrúar og trúarbragða. Höfundurinn lærði á sínum tíma heimspeki og bókin ber þess töluverð merki, hún er rökfræðiáfangi 101 þegar kemur að guði. Niðurstaðan er ítarleg og ótvíræð: guð er goðsögn, órökleg og stenst enga skoðun. Sönnunarbyrðin er trúmanna, ekki trúleysingja, og trúmönnum hefur ekki tekist á neinn hátt að færa sannfærandi rök fyrir máli sínu. Bókin er mjög ítarleg, um 350 bls, sennilega sú besta sem til er vilji menn þekkja rökin gegn tilvist guðs, sama hvar borið er niður.

Ertu viss? Brigðul dómgrein í dagsins önn

Thomas Gilovich

Ertu viss? Brigðul dómgrein í dagsins önn

Bókin fjallar um hæpnar skoðanir fólks, meinlokur eða ranghugmyndir, og hvernig þær mótast af misskilningi, rangtúlkun, hlutdrægni, óskhyggju, hagsmunum manna og samfélaginu í heild. Höfundurinn er prófessor í sálfræði og hefur bókin verið notuð sem kennslubók í meistaranámi í sálfræði við Háskóla Íslands. Bókin varpar meðal annars ljósi á vafasamar hugmyndir fólks um smáskammta-, náttúru- og huglækningar og svonefnd dulsálfræðileg fyrirbæri. Bókin er um 200 bls. og nokkuð ítarleg á sínu takmarkaða sviði.

Letter to a Christian Nation

Sam Harris

Letter to a Christian Nation

Helsti kosturinn við bók Sam Harris er að hún beinskeitt, einföld og stutt (91 bls. í litlu broti). Eins og titillinn ber með sér er bókin í raun bréf til bandarísku þjóðarinnar (ekki bara þeirra kristnu) sem svar við ótal bréfum (og bölbænum) sem hann fékk í kjölfar bókar sinnar "The End of Faith". Í seinni bókinni fer hann aðeins í saumana á því hvað kristni er í raun, siðferði Biblíunnar og fleira, og varar við þeirri hættu sem stafar af því að menn fari að leita í smiðju kristninnar (eða trúarbragða) eftir svörum eða stefnumálum í pólitík. Enskan í bókinni er einföld og auðskilin.

Blekking og þekking

Dr. Níels Dungal

Blekking og þekking

Árið 1948 kom út hið merka tímamótarit Blekking og Þekking eftir Dr. Níels Dungal. Bók sem hefði getað valdið straumhvörfum í íslenskri menningarsögu, en náði þó aldrei að ná svo langt né að verða neðanmálsnóta í nútíma sagnfræði. Þetta var jaðarbók af bestu sort er fjallar um efahyggju og gagnrýnir hverskyns hjátrú, hindurvitni og kristindóm. Ekki nóg með það, heldur var hún skrifuð á kjarnyrtri - ja, ef öðrum finnst það ekki, þá allavega déskoti fínni - íslensku, og er bara óvenju berorð og óvægin miðað við margt sem maður les í dag.

Breaking the Spell: Religion as a Natural Phenomenon

Daniel Dennett

Breaking the Spell: Religion as a Natural Phenomenon

Í þessari bók frá bandaríska heimspekingnum Daniel Dennett fjallar hann um mikilvægi þess að beita vísindalegri rýni á trúabrögð, í þeim tilgangi að skilja þau í ljósi þróunar mannsins, og spá fyrir um áhrif þeirra í framtíðinni. Þeim álögum sem hann vill aflétta eru ekki bara trúabrögð að grunninum til, heldur einnig þeim hugmyndum að þau séu á einhvern hátt undanskilin vísindalegri gagnrýni.

Why I am not a Christian

Bertrand Russel

Why I am not a Christian

[einnig er hægt að hala niður íslensku útgáfuna hér (.pdf-skrá)]
Bertrand Russel var einn þekktasti, virtasti, áhrifamesti og snjallasti heimspekingur 20. aldarinnar. Hann var óhemju afkastamikill, enda varð hann fjörgamall. Hann sýslaði við ýmislegt, s.s. þekkingarfræði, vísindaheimspeki, málspeki og rökgreiningu, en einnig var hann ákafur andstæðingur trúarbragða og hélt því m.a. fram að trúarbrögð og guðstrú væru Þrándur í Götu þekkingarleitar. Árið 1927 hélt Russel fyrirlestur sem varð uppistaðan í ritgerð hans "Why I am not a Christian", en hvort tveggja, fyrirlesturinn og ritgerðin, vöktu mikla athygli og sterk viðbrögð. Í ritgerðinni hrekur Russel ýmis rök fyrir tilvist guðs og kemst einnig að þeirri niðurstöðu að margt í kenningu Jésu (sem hann taldi að hefði aldrei verið til) sé siðferðilega gallað, ekki síst vegna þess að Jésú trúði á helvítisvist og eilífa refsingu syndugra. Kirkjustofnunin fær einnig rækilega á baukinn, en trú á guð taldi Russel fyrst og fremst byggja á ótta.

Ýmsir höfundar

Biblían

[einnig aðgengileg á netinu á íslensku og ýmsum öðrum tungumálum]
Ef þú vilt verða trúlaus - en ert ekkert að flýta þér rosalega mikið og hefur hugsað þér að gera það á eins leiðinlegan hátt og þú mögulega getur eða vilt kannski halda aðeins í barnatrúnna í svona tíu ár lengur - þá er gott að lesa Biblíuna. Örugglega ein allra vinsælasta leiðinlegasta bók í sögu mannsins. Hún er víst svo ömurleg að rúmlega 3-4 milljarðir einstaklinga sem líklegast eiga hana eða hafa greiðan aðgang að henni, nenna ekki einu sinni að lesa hana. Fyrir heilan helvíts helling af fólki er bara nóg að horfa á hana til að fara skæla og líða illa. Hún hefur verið gefin út í ýmsum fjölbreyttum útgáfum í einu eða mörgum bindum í næstum sautján hundruð ár. Það botna nánast engir í henni og fáir vita um hvað hún fjallar og hefur valdið harkalegum deilum hvernig ber að túlka hana. Gæti breytt lífi þínu til hins betra, en við efumst um það.

Biblííííí

Fleiri bækur sem við mælum með:

The Demon Haunted World - Carl Sagan
Andlegt sjálfstæði - Robert G. Ingersoll og Pjetur G. Guðmundsson
Irreligion - John Allen Paulos
Flim-Flam - James Randi

Ritstjórn 11.12.2009
Flokkað undir: ( Bókadómur , Bókaskápur efahyggjunnar , Listi )

Viðbrögð


Óttar Birgis - 11/12/09 11:14 #

"Ertu viss" er ekki (bara) kennd í meistaranámi í sálfræði heldur (líka) í grunnnámi. Meira að segja á fyrstu önn. Þannig á þetta að vera í öllum greinum í háskólanum, þ.e. að kenna nemendum gagnrýna hugsun.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 11/12/09 11:22 #

Það mætti nú leggja umtalsvert meiri áherslu á þetta á fyrri skólastigum.


Þundur Freyr - 11/12/09 11:40 #

Það væri nær að kenna þessa bók (Ertu viss) um leið og börnin eru orðin næginlega læs.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 11/12/09 11:51 #

Er það ekki How to think about weird things sem er kennd í grunnnáminu, Óttar?

Það er önnur góð bók af svipuðu tagi sem vert er að mæla með.

Annars heitir Ertu viss? á frummálinu How we know what isn't so.


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 11/12/09 13:16 #

Snilld að telja biblíuna fram en það er sagt að engin önnur bók sé fljótari að framkalla guðleysi en hún.

Ég hafði keypt Flim Flam fyrir nokkru síðan og byrjaði á henni fyrir nokkrum mánuðum. Því miður hef ég ekki komist í að lesa mikið meira í henni. Mun auðvitað bæta úr því á endanum.

Er annars búinn að panta eftirfarandi bækur frá Amazon: * Biblical Games: Game Theory and the Hebrew Bible * The Atheist's Introduction to the New Testament: How the Bible Undermines the Basic Teachings of Christianity * The Atheist's Bible Companion to the New Testament: A Comprehensive Guide to Christian Bible Contradictions


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 11/12/09 13:36 #

Mæli eindregið með bókaútgáfunni Prometheus books. Þar má finna ótal gagnrýnar bækur, m.a. á trúarbrögðin (sjáið undirgreinarnar í vinstri dálki), gervivísindi og margt fleira.


Albert - 11/12/09 13:52 #

Blekking og þekking er algjör skyldulesning. En hér mætti einnig benda á bókina Atheist Universe eftir David Mills. Hún er hnitmiðuð og auðlesin, tilvalin fyrir þá sem nenna ekki að lesa einhverjar langlokur.


Óttar Birgis - 11/12/09 14:49 #

Baldvin: "Ertu viss var a.m.k. kennd þegar ég var í grunnnáminu.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 11/12/09 15:10 #

Baldvin: "Ertu viss var a.m.k. kennd þegar ég var í grunnnáminu.

Já var það? Nú var ég árinu á undan þér og þá lásum við enn aðra bók í þessum kúrsi, reyndar tvær ... skrítið.

En þetta er svosem ekki aðalatriðið hérna ... :)


Benóný Þór - 11/12/09 16:21 #

Óttar og Baldvin:

Þar sem ég var að klára fyrstu önnina í sálfræði við HÍ, þá langaði mig bara að segja að bækurnar sem voru notaðar til að kenna gagnrýna hugsun voru How to think about weird things, og Psychobabble and Biobunk, báðar mjög góðar bækur sem taka á öllu frá stjörnuspeki til smákammtalækninga. Þetta eru bækur sem ég mun ekki voga mér að selja nokkurn tíma.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 19/01/10 21:09 #

Ertu viss? hefur verið endurútgefin og er nú væntanleg í verslanir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.