Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þúsundasta trúfélagsleiðréttingin

Eyðublöð afhent

Á föstudaginn fór ég með umslag á Þjóðskrá, það innihélt bunka af útfylltum trúfélagsskráningareyðublöðum, afraksturinn af haustátaki í trúfélagsleiðréttingarherferð Vantrúar. Því geri ég þetta að umtalsefni, að með þessum eyðublöðum náði herferðin því markmiði að leiðrétta skráningu eittþúsund einstaklinga. Af þessu tilefni langar mig að skrifa smávegis um þessa herferð, tildrög hennar, hugmyndir, markmið og áhrif.

Það var félagi Hjalti Rúnar Ómarsson sem átti upphaflegu hugmyndina á einhverjum Vantrúarhittingi. „Hei,“ sagði hann, „hvað með að halda „skráðu-þig-úr-Þjóðkirkjunni-daginn“ einhvern tímann?“ Augu okkar mættust og við áttuðum okkur báðir á því að hann hafði hitt gersamlega í mark. Við biðum því ekki boðanna.

Upphafið

Fyrsta skiptið sem Vantrú bauð upp á trúfélagsleiðréttingu var í desember 2005 og það voru Hjalti, Kári Svan Rafnsson og Birgir Baldursson sem þá tóku sér stöðu á Laugaveginum, ekki langt frá horni Vatnsstígs, á háannatíma í jólagjafaös, og buðu gestum og gangandi þjónustu sína. Nokkrir þáðu hana -- sex manns, minnir mig -- og einn gamall karl var svo ánægður með framtakið að hann rétti þeim óumbeðinn fimmhundruðkall í félagssjóð Vantrúar. Þessi stikkprufa sýndi okkur skýrt hvaða möguleika herferðin bauð upp á, svo nú varð ekki aftur snúið. Beinar aðgerðir, beibí.

Næst fórum við á Andkristnihátíð, árlega þungarokkshátíð sem er haldin á vetrarsólstöðum ár hvert. Þar fengum við bás, dreifðum áróðurspésum og fleiru, og buðum fólki að breyta trúfélagsskráningu. Í það skiptið skráðu heilir fimmtán sig. Síðan hefur þetta gengið nokkuð jafnt og þétt, í einu og einu átaki en þess á milli eftir framtaki hvers og eins. Að öðrum ólöstuðum hefur Kári Svan Rafnsson líklega aðstoðað mun fleiri en nokkur annar. Ætli ég komi ekki sjálfur í öðru sæti og Hjalti í þriðja.

Fastir liðir hafa verið Andkristnihátíðin áfram, sem og Gay Pride-dagur og Háskóli Íslands. Þá hefur verið farið út á sextánda og sautjánda júní, menningarnótt, Þorláksmessu, ýmsa rokk- og pönktónleika og í menntaskóla þegar okkar hefur verið óskað. Undirtektirnar eru nokkuð mismunandi; þannig var frekar lítill áhugi nú á síðustu menningarnótt, en árangursríkasti dagurinn hingað til var hins vegar á Gay Pride 2007, þá fór stór hópur Vantrúarfólks út (einn meira að segja klæddur í drag) og skráði alls 88 manns.

Auk fólks sem við höfum beinlínis aðstoðað svona, farið með eyðublaðið á Þjóðskrá og allt, þá er einnig inni í tölunni fólk sem hefur látið verða af því að skrá sig úr ríkiskirkjunni eftir áskorun okkar á heimasíðunni, og hefur verið svo vinsamlegt að láta okkur vita af því. Það er líklega eitthvað á annað hundrað manns.

Véstinn Valgarðsson
Vésteinn Valgarðsson fyrir framan Þjóðskrá

Ávinningur

Hvað vinnst með trúfélagsleiðréttingu? Augljóslega skiptir það beinu máli hvert sóknargjöldin renna. Á meðan þau runnu í Háskólasjóð, þá þótti mörgum (réttilega) Háskóli Íslands betur að þeim kominn heldur en ríkiskirkjan, og vera þarfari stofnun í þjóðfélaginu. Nú í vor var lögum um sóknargjöld breytt og þau sitja bara eftir í ríkissjóði. Merkilegt nokk, þá heldur fólk áfram að skrá sig, næstum allir, utan trúfélaga -- eins og fólk setji ríkiskirkjuna skör neðar á forgangslistanum heldur en Héðinsfjarðargöng, nýtt sendiráð í Washington eða læknismeðferð fyrir krabbameinssjúklinga.

Ég giska á að það séu nálægt 90% sem hafa skráð sig utan trúfélaga. Hinir hafa flestir skráð sig í Ásatrúarfélag, fáeinir í Fríkirkjuna í Reykjavík og svo einn og einn í önnur félög. Eftirtektarvert er einnig að næstum allir skrá sig úr ríkiskirkjunni en ekki öðrum trúfélögum. Ég veit um einn sem hefur skráð sig úr kaþólsku kirkjunni, einn úr Óháða söfnuðinum, einn og einn úr hinu og þessu félagi. Aðeins tveir hafa skráð sig í ríkiskirkjuna. Tveir af þúsund.

Trúfélagsskráning landsmanna á auðvitað að endurspegla lífsskoðanir þeirra. Samkvæmt könnun um trúarlíf Íslendinga frá 2004 er nálægt helmingur landsmanna kristinn í víðustu merkingu orðsins -- sem er að segjast vera trúaður og kristinn. En tæplega 80% eru skráð í ríkiskirkjuna. Hverju sætir þetta misræmi? Jú, fólk fæðist inn í trúfélag móður. Flestum þykir þetta ekki merkilegt mál og koma sér því ekki á Þjóðskrá til að breyta skráningunni.

En þetta er ekki bara prinsippmál. Ef það væri það, þá væri kirkjan kannski fáanleg til þess að gera málamiðlanir. Nei, hér er meira í húfi: Peningar.

Kári Svan Rafnsson
Kári Svan á Akureyri árið 2007

Krónur og aurar

Strípuð sóknargjöld fyrir árið 2010 eru 9996 krónur á mann. Aukaframlög ríkisins til kirkjunnar sinnar, úr Jöfnunarsjóði sókna og Kirkjumálasjóði, eru 32,8%, svo hún fær 13.274 krónur á mann. Ef við nú reiknum með að af þessum þúsund hafi 990 skráð sig úr ríkiskirkjunni, þá kostar það hana um það rúmlega 13 milljónir á ári. Þessi upphæð samsvarar hér um bil árslaunum Karls Sigurbjörnssonar biskups. Í vor var lögum um sóknargjöld breytt, svo gjöld þeirra sem eru utan trúfélaga renna nú í ríkissjóð en ekki Háskólasjóð eins og áður var. Það þýðir að hver skráning utan trúfélaga er í raun sparnaður fyrir ríkið, svo ef við reiknum með að 90% hafi skráð sig utan trúfélaga, eða 900 manns, sparar það ríkinu þar með tæpar tólf milljónir á ári í hreinan sparnað.

Hinir sem eftir eru, segjum að þeir séu hundrað af þessum þúsund, sem hafa skráð sig í önnur trúfélög en ríkiskirkjuna, fá ekki aukaframlög úr Jöfnunarsjóði sókna og Kirkjumálasjóði greidd með sér. Það þýðir að þessir hundrað spara ríkinu aðrar 327.800 krónur á ári. Ef við notum þessar tölur, sem ég ítreka að eru ekki nákvæmar heldur ágiskun, nemur heildarsparnaður ríkisins vegna leiðréttingarherferðar því alls 12.247.852 krónum á ári. Það munar víst um minna á þessum síðustu og verstu tímum. Allt þetta hefur Vantrú sparað þjóðarbúinu og skattborgurum í sjálfboðavinnu og ekki þegið eyri fyrir. Ja, fyrir utan þennan fimmhundruðkall sem gamli maðurinn vildi endilega gefa okkur hér um árið. En það var líka í góðærinu.

En gætum að, enn er eitt sem munar um: Ríkissjóður borgar laun presta, samkvæmt þeirri reiknireglu að fyrir hverja 5000 sem fjölgar um eða fækkar, þá borgar hann einu stöðugildi meira eða minna. Með þúsundustu skráningunni höfum við því náð 20% af upphaflega höfuðmarkmiðinu með herferðinni. Þegar okkur tekst að fækka um einn prest kemur svo röðin bara að þeim næsta.

Lokamarkmiðið er auðvitað að ríki og kirkja verði aðskilin í alvörunni og ríkið hætti að halda skrá utan um lífsskoðanir fólks eða innheimta sóknargjöld. Á meðan svo er ekki, þá höldum við ótrauð áfram -- að aðskilja kirkju og ríki, einn einstakling í einu.

Vésteinn Valgarðsson 26.10.2009
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú , Tilkynning )

Viðbrögð


Jón Karl - 26/10/09 16:49 #

Glæsilegt!


Stebbi - 26/10/09 18:09 #

Frábært framtak!


Una - 26/10/09 20:33 #

Þið eruð æði. ég skráði mig hjá ykkur á gaypride 2007.


Benóný - 26/10/09 20:38 #

Vel gert, til hamingju, ég veit að þið hjálpuðuð mér með að skrá mig úr kirkjunni upp í háskóla núna í haust


Þorsteinn Kolbeinsson - 26/10/09 21:30 #

Þetta eru ódauðleg orð: " Á meðan svo er ekki, þá höldum við ótrauð áfram -- að aðskilja kirkju og ríki, einn einstakling í einu."

Algjörlega massíft framtak ykkar!


Villi - 26/10/09 21:32 #

Þjóðarskútan liggur lemstruð á strandstað og brimið lemur á almenningi sem svamlar um í brimgarðinum, og reynir að bjarga sér. Þá lyftið þið glösum og fagnið, ykkar markmið: að svipta þetta fólk trúnni. Að mæta á strandstað og hvetja fólk til að hafna björgunarvestum: Þú getur þetta, þú þarft ekkert vesti það er bara blöff! Fólk telur sig bænheyrt og fær lækningu, þá segið þið: þetta er bara placebo-effect. Ég spyr þá: Skiptir það máli ef maðurinn læknast?Kannski gengur trú út á það hjá stórum hluta trúaðra. Vantrú er á villigötum og er ekki sjálfgefið að ef þið sannfærið fólk um að trúin sé ekki leiðin að þið komið með haldreipi í staðinn? Ætlið þið að setja upp sálfræðiþjónustu? Símaþjónustu?


Björn Ómarsson - 26/10/09 21:40 #

Þú ert að missklja Villi. Lesa fyrst, tala svo.


Bjarki - 26/10/09 21:54 #

Villi hefur heilmikla trú á Vantrú (hehe) ef hann heldur að þessi félagsskapur "svipti fólk trúnni" í stórum stíl. Pistlar og umræður á vef eins og þessum geta sjálfsagt átt þátt í að móta lífsviðhorf en ákvörðunin er samt hvers og eins. Sannkristinn einstaklingur gengur varla af trúnni við það eitt að rekast á Vantrúargaur í Háskólanum. Þeir sem fylla út eyðublöðin í svona skráningarátaki eru þeir sem voru búnir að átta sig á því að björgunarvestin eru ónýt en höfðu bara ekki komið sér að því að fara úr þeim.


Nanna - 26/10/09 22:04 #

Sannfæra? Það sannfærði mig enginn og fólk sem að ekki hefur pælt í þessu áður stekkur nú örugglega ekki til 1, 2 og 3 bara vegna þess að þorir ekki að segja nei! Fólk á að trúa því sem það vill trúa og það böggar mig ekki svo framarlega sem því er ekki troðið í fésið á mér! Og finnst mér það ekki hafa verið gert með því að BJÓÐA mér að leiðrétta trúfélagsskráninguna mína..!?! Ég hugsa líka að þeir sem að séu virkilega trúaðir séu nú ekki að fara að snúa bakinu við því bara með því að líta blað augum... Þetta snýst um val og enginn þarf að lesa síðu vantrú eða taka þátt í neinu svo framarlega sem það hefur ekki áhuga sjálft...


Nanna - 26/10/09 22:05 #

Er greinilega að hugsa það sama og þú Bjarki... heh! Já og til hamingju með gott framtak!


Kristján - 26/10/09 22:21 #

Tja það skrítnasta er kannski að maður er sjálfkrafa skráður í kirkjuna, maður fær ekkert val til að byrja með.


Hjalli - 26/10/09 22:49 #

[Athugasemd færð á spjallið- Þórður]


Villi - 26/10/09 22:53 #

Það kann að koma að því að fólk þarf á trúnni að halda og er þá ekki betra að vera í klúbbnum? Þegar fólk áttar sig á að svörin eru ekki hér og ekki hjá "mömmu", þá myndi vera gott að vera tryggður. Ég hefi heyrt margan manninn segja frá hvernig hann hafi alltaf átt sína barnatrú. Það reyndist gott veganesti þegar kreppti að sálinni. Gálgahúmor dugir skammt og ekki hafa sálfræðingar öll svör. Jæja krakkar ég þakka ykkur spjallið.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/10/09 23:02 #

Æji Villi, þú ert með frekar aumt skopskyn. Eða á þetta ekki annars að vera fyndið hjá þér?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/10/09 23:07 #

Það kann að koma að því að fólk þarf á trúnni að halda og er þá ekki betra að vera í klúbbnum?

Þá getur fólk einfaldlega skráð sig aftur í klúbbinn.

Gálgahúmor dugir skammt og ekki hafa sálfræðingar öll svör.

Alveg örugglega betri "svör" en prestar.


Sindri Stefánsson - 26/10/09 23:41 #

Mikil ánægja að vera einn af þessum þúsund. Gott framtak.


Jón - 26/10/09 23:50 #

1) Hvar er best að skrá sig úr þjóðkirkju (og vera þá án trúfélags)?

Og tvær aðrar þar sem "betri helmingurinn" er trúaður:

2) Er hægt að giftast ef maður er utan trúfélags?

3) Er hægt að skíra barn sitt ef maður er utan trúfélags?


Gummi - 27/10/09 00:10 #

Og ef þið viljið færa út kvíarnar: http://eternal-earthbound-pets.com/


Óðinn - 27/10/09 00:53 #

Jón Skráining í og úr trúfélögum fer farm á Hagstofunni

og það er hægt að gifta sig þó að bara annar einstaklingurinn sé skráður í kirkjuna

skírn er að skrá einstakling inní kirkju söfnuð og ef ég man rétt þá þarf amk annað foreldri að vera skráð í sofnuðinn

en ég mæli með fyrir börnin ef þú vilt gefa þeim alvöru val að hvorki skíra né ferma inní kirkju söfnuð þar sem að það er ekki hægt að ógilda þann samning og mótmælandinn sem reyndi að fá því hnekt dó um daginn


Gísli - 27/10/09 07:16 #

Vinur minn er að reyna að predika þennan boðskap ykkar í mig. Ég skil afstöðu ykkar að bjóða val og það er ekkert að því þó svo að ég sé ekki á sömu skoðun og þið. En það eitt að hafa trú (ekki kaldhæðni) á því sem þið eruð að gera er aðdáunarvert útaf fyrir sig.


Arnar - 27/10/09 09:06 #

Jón, það geta allir gift sig óháð trúfélaga skráningu, nema samkynhneigðir.

Pör utan trúfélags geta einfaldlega gift sig hjá sýslumanni eða jafnvel hjá umburðarlindum presti ef viljinn er fyrir hendi.

Þjóðkirkjan hefur ekki einkarétt á hjónaböndum.


Arnar - 27/10/09 09:14 #

Og já, frábært framtak!

Held ég sé nr. 970.. hefði átt að bíða til 1024 til að verða sá síðasti sem hægt væri að telja á fingrum beggja handa :p

Og Villi, Vantrú 'svipti' mig ekki trúnni. Hef talið mig trúlausan í c.a. tuttugu ár eða meira áður en ég fékk 'aðstoð'. Fáránlegt að borga áskrift af einhverju sem ég lít á sem athafna-stofnun.. þegar ég þarf svo að borga fyrir allar athafnir þar sjálfur.


Gerður - 27/10/09 11:21 #

Frábært framtak og góð grein. Ég hafði aldrei hugsað út í sparnaðinn fyrir ríkið af úrskráningu né heldur tengsl milli fjölda presta og skráðra félaga. Mundi skrá mig úr strax ef ég væri ekki löngu, löngu búin að því.


Ragnar Sverrisson - 27/10/09 13:37 #

Frábært framtak og enn eitt skrefið í átt að fullkomnu valfrelsi hér á landi.


Björgvin - 27/10/09 18:54 #

Ég þakka bara fyrir að hafa farið á vantrú fyrirlestur í borgarholtsskóla. Þar var sagt að maður væri að borga í þjóðkirkjuna og ég hafði ekki hugmynd um þetta áður en að vantrú sagði okkur það. Ég vill ekki að kirkjan fái krónu úr mínum vasa. Trúfélög eru stærsta glæpastarfsemi í heimi að mínu mati. Þessir gæjar eru að fá alltof mikinn pening og skiptir landið meira máli heldur en eithvað sem er ekki einu sinni til.


Jón - 27/10/09 22:14 #

"en ég mæli með fyrir börnin ef þú vilt gefa þeim alvöru val að hvorki skíra né ferma inní kirkju söfnuð þar sem að það er ekki hægt að ógilda þann samning og mótmælandinn sem reyndi að fá því hnekt dó um daginn"

1) er maður ekki að fá þann samning ógildan með því að ganga úr kirkjunni (skrá sig utan trúfélags?)

2) getur einhver vitnað meira í þetta með mótmælandann sem dó um daginn... botna ekkert í þessu kommenti!


Valgarður Guðjónsson - 27/10/09 23:36 #

Frábært!

Ég velti líka fyrir mér, ef fólk hefði ekki nánast undantekingarlaust verið skráð við fæðingu, og skráning í trúfélag væri sjálfstætt val hvers og eins, td. við 18 ára aldur, hversu margir myndu hugsa:

  1. Ég trúi að jörðin hafi verið sköpuð fyrir sex þúsund árum á sex dögum af einum guði.

  2. Ég trúi að talandi snákurinn hafi verið raunverulegur.

  3. Ég trúi að guð hafi komið til jarðar sem eintaklingur í gegn um meyfæðingu.

  4. Ég trúi að hann hafi svo risið upp frá dauðum.

(hér mætti væntanlega telja 20-30 undarleg atriði til viðbótar)

Best að drífa sig í að skrá sig í þjóðkirkjuna...


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 28/10/09 00:53 #

Takk fyrir öll þessi jákvæðu viðbrögð. Smá leiðrétting til Óðins: Blöðunum er skilað til Þjóðskrár en ekki Hagstofu, og skírn hefur ekki með trúfélagsskráningu að gera.


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 28/10/09 14:00 #

Jón:

Það er ekki hægt að ´´skírnarsáttmálann´´ ógildan þar sem kirkjan lítur á það sem samnings milli guðs og barns (kirkjan getur verið millimaður í gerð samningsins en ekki í riftun hans). Þegar þú skráir þig úr þjóðkirkjunni ertu einungis að breyta skráningu þinni hjá Hagstofunni sem hefur áhrif á það hver sóknargjöldin þín fara. Skírnarsáttmálinn stendur ennþá eins og áður.

Mótmælandinn var Helgó Hó, sem varði þónokkuð stórum hluta ævi sinnar í að berjast fyrir því að nafn hans yrði fjarlægt úr kirkjubókum og skírnarsáttmálanum rift. Þegar það lá fyrir að það var ekki að fara að gerast, vildi hann að ríkið tæki á móti bréfi sínu þess efnis að fyrir hans sakir væri samningurinn sem gerðir var fyrir hans hönd þegar hann var ómálga barn og að ríkið myndi gefa út bréf þess efnis að hann hefði fyrir sitt leiti rift samningnum. Kirkjan lagðist gegn þessu af öllum sínum þunga og dómsmálaráðuneytið létt það því vera að gera þetta fyrir Helga sem hélt áfram til dauðadags að berjast fyrir þessu sem fyrir hann var mikið hjartans mál.

Vantrú hefur birt 3 eða 4 greinar nýlega varðandi þetta mál, langar og ítarlegar greinar.


Jón Steinar - 28/10/09 20:15 #

Mér finnst svolítið misráðið af Vantrú að gefa sér tilefni til herferðar um útskráningu vegna meintra "þreifinga" þjóðkirkjuprests. Það er kannski tilefni til að minna á útskráningu, en óþarfi að tengja það slíku beint. Það er hálf lágkúrulegt finnst mér. Mér finnst rökin fyrir afskráningu miklu sterkari og merkilegri en afglöp breyskra einstaklinga innan stofnunarinnar. Finnst þið mættuð hugleiða það.

Það að ég skyldi skráður í þetta og knúinn í gegnum fermirngarritúalið með flauelshótunum og fjármútum, gegn mínum vilja, finnst mér jafnast á við níð. Níð a marréttindum mínum, vanvirðingu við líf mitt og framtíð, óheiðarleiki og lygi í garð auðtrúa barns. Það ómerkilegasta og lágkúrulegasta af öllu lágkúrulegu. Heilaþvott þennan í æsku legg ég til jafns við barnaníð í sumum skilningi og finnst það í fáu ósvipað að seilast inn í hugskot barna með þessar lymskulegu ranghugmyndir eins og að seilast ofan í brækurnar á þeim. Oft er talað um "grooming" í tengslum við barnaníð, þar sem börn eru lokkuð yfir lengri tíma með gjöfum, klámi og sóðatali. Þessar aðferðir kirkjunnar og ásókn hennar í að ná til barna áður en rökhyggjan sest að, er ekkert annað en "grooming" af skyldri sort. Markmiðið þar er að ræna börnin sakleysi sínu og trausti. Ræna þau sjálfstæðri hugsun og beygja þau til undirgefni við stofnunina með óttaprangi og loforðum, sem engin leið er að efna.

Vel má vera að þetta móðgi einhvern. Ég vil í því sambandi gera orð Stephen Fry að mínum:

So you are offended? So fucking what?"


Matti (meðlimur í Vantrú) - 28/10/09 20:38 #

Mér finnst svolítið misráðið af Vantrú að gefa sér tilefni til herferðar um útskráningu vegna meintra "þreifinga" þjóðkirkjuprests.

Hvaða herferð ertu eiginlega að tala um? Þreifingar prestsins koma úrskráningarstarfinu nákvæmlega ekkert við. Það að við bloggum við fréttina og minnum fólk á þennan möguleika tengist því einfaldlega að ýmsir hafa verið að nefna þetta í athugasemdum hér og þar.

Vantrú er ekki og hefur ekki verið í neinni herferð útaf þessum tiltekna presti.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 28/10/09 22:33 #

Hins vegar hefur sumu fólki misboðið upp á eigin spýtur úrræðaleysi kirkjunnar og seinagangur í þessu máli hans, og sagt sig úr henni vegna þess. Það er ekki verri ástæða en hver önnur til þess að segja skilið við þessa súru stofnun.

Ég er annars sammála því að það sé lágkúra að ginna börn með gjöfum til að ganga gegn betri vitund.


Svavar E - 30/10/09 00:32 #

Endilega að taka upp Dúdsima í staðinn.


Sigurður Rósant - 30/10/09 21:47 #

Ég óska ykkur í Vantrú til hamingju með þessar aðgerðir. Þær virka jákvæðar í mínum augum og eru baráttu trúfrjálsra til fyrirmyndar.

Eitt er þó sem ég sætti mig ekki við í rökræðum hér og í fjölmiðlum undanfarið. Það er sú viðleitni vantrúaðra að búa til nýja 'bábilju' eða 'hindurvitni' sem er t.d. orðuð svona: "Það er ekki hægt að ógilda ´´skírnarsáttmálann´´ þar sem kirkjan lítur á það sem samnings milli guðs og barns (kirkjan getur verið millimaður í gerð samningsins en ekki í riftun hans)." Hér er ekki gerður sáttmáli 'milli barns og guðs', heldur milli foreldra barns eða 'guðfeðgina' barns og guðs (að skilningi kirkjunnar manna). Orðið 'skírnarsáttmáli' er heldur ekki notað í þessu sambandi.

Annað, sem er gott að hafa í huga við breytingar á stöðu þjóðkirkju í óháða. - Um 73% Svía eru enn í gömlu 'þjóðkirkjunni' sem skildi frá ríkinu árið 2000, eða fyrir nærri 10 árum.- Nú ætlar sænska kirkjan að leyfa samkynhneigðum að giftast í kirkju frá og með 1. nóv. 2009. Hefur það í för með sér að fólk segir sig úr kirkjunni eða láti skrá sig í hana?

Þriðja atriðið sem vert er að hafa líka í huga. Ríkið fær nú meiri peninga til að styrkja aðra söfnuði t.d. múslima, búddista o.fl. til að koma sér upp safnaðarheimili, bænaaðstöðu í framhaldsskólum og á sjúkrahúsum. Svo fyrir hvern er þá verið að vinna, kæru meðlimir Vantrúar?

En vonandi getur Vantrú sótt um ríkisstyrk til starfsemi sinnar vegna þessarar vinnu.


Jóhann - 30/10/09 22:54 #

Þetta er vafalítið fallegasta hugmyndin í greininni:

"Augu okkar mættust og við áttuðum okkur báðir á því að hann hafði hitt gersamlega í mark"

Dásamlegt...


Matti (meðlimur í Vantrú) - 31/10/09 02:40 #

Sigurður Rósant. Ég vil gera tilraun til að svara þessum atriðum.

  1. Skírnin. Við höfum ótal tilvitnanir í presta ríkiskirkjunnar þar sem þeir rökstyðja trúboð í leik- og grunnskólum með vísan til skírnarinnar. Við höfum einnig tilvitnanir í presta sem halda því fram að allir sem hafa verið skírðir séu kristnir samkvæmt skilningi kirkjunnar, það sé ekki hægt að taka til baka! Ég hef satt að segja ekki hugmynd um hvaða "bábilju" eða "hindurvitni" þú ert að tala. Varðandi orðið "skírnarsáttmáli", þá hefur það verið notað um baráttu Helga Hóseassonar eins og þú veist.

  2. Varðandi Sænsku kirkjuna. Þú nefnir að 73% Svía séu meðlimir en gleymir að nefna að árið 2000 var talan 82.9%. 10% fækkun á tíu árum er þokkalegt. Auk þess er kirkjuástundum í Svíþjóð afar lítil. Ég held að nýtilkomið umburðarlyndi í garð samkynhneigðra muni lítil áhrif hafa á þessa þróun.

  3. Þessi punktur er glórulaus. Að sjálfsögðu gæti ríkið eytt þessum pening í önnur trúfélög en eru það virkilega eitthvað sem tekur því að ræða?

Jóhann, slepptu þessu.


Freyr - 02/11/09 11:50 #

Ég vil endilega bæta við að mér finnst þetta gott framtak hjá ykkur og hvet ykkur til að halda þessu áfram.

Bæði ég og konan mín skráðum okkur úr trúfélag fyrir 8 árum þegar við ákváðum að eignast barn og komumst að því að barnið færi sjálfkrafa í trúfélag móður. Því var snarlega leiðrétt.


Reynir Örn - 22/04/10 11:12 #

Snilldar framtak, ég hvet líka alla til að prenta út eyðublaðið og skrá út vini og vandamenn:

http://www.thjodskra.is/eydublod/trufelog/

Og ekki hlusta á þessa vitleysinga sem eru að væla hérna... að skrá sig úr Þjóðkirkjunni er ekki það sama og að hætta að vera kristinn. DUH!!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.