Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Varðandi ummæli sr. Guðrúnar Karlsdóttur

Heyrst hefur af Vantrúarfólki með eyðublöð á öldurhúsum borgarinnar og á lóð Háskóla Íslands. Ef það er satt að fyllt sé út í eyðublað fyrir ölvað fólk sem síðan skrifar undir, þá verð ég að segja að siðferði Vantrúarfólks er ekki upp á marga fiska og spurning hvort raunverulega sé hægt að taka mark á þeim pappírum. #

Kári Svan Rafnsson
Kári Svan á vaktinni

Þessi málsgrein birtist á Eyjubloggi Guðrúnar Karlsdóttur, prests í Grafarvogssókn, í gær. Það er leiðinlegt að svara bulli en enn leiðinlegra er að reyna svara rætnum ósannindum: Vantrú hefur aldrei haft afskipti af drukknu fólki í trúfélagsleiðréttingaherferð sinni og aldrei gert sér far á öldurhús Reykjavíkur til að nýta sér ölvunarástand viðskiptavina í þeim tilgangi að leiðrétta trúfélagsskráningu þeirra. Það er einfaldlega siðlaust. Að sama skapi hefur Vantrú aldrei farið með áróður sinn í leik- eða grunnskóla landsins.

Trúfélagsleiðréttingarherferð Vantrúar er einn liður í að vekja fólki til umhugsunar; Eru þið rétt skráð? Hvert fara sóknargjöldin ykkar? Ertu trúlaus en ert í ríkiskirkjunni, af hverju? Ekki sakar ef fólk fer að spá í stöðu ríkiskirkjunnar. Þau góðu viðbrögð sem Vantrú hefur fengið sanna að grunur okkar var réttur, fjöldi fólks er skráður í ríkiskirkjuna af gömlum vana og hefur einfaldlega ekki komið sér í að breyta skráningunni.

Guðrún sá að sér, fjarlægði dylgjurnar og bætti þessu við færsluna:

Þessi bloggfærsla hefur vakið hörð viðbrögð. Setningar í færslunni buðu upp á oftúlkun og harma ég það. Hugmyndin með þeim var að leita svara, skapa umræður og biðja um útskýringar en ekki að segja sögur. Ég hef því tekið þessar setningar út. Ég vona að fólk virði þetta við mig.

Vissulega virðum við það við prestinn að hún fjarlægði ósannindin þó okkur þyki skýringarnar dálítið ótrúverðugar. Við skiljum ekki alveg hvað það var sem hægt er að "oftúlka". Það er líka frekar erfitt að eiga samræður þegar lokað er fyrir athugasemdir og ekki gerum við ráð fyrir að séra Guðrún skrifi athugasemdir á Vantrú þó hún sé að sjálfsögðu ávallt velkomin. Ríkiskirkjuprestar virðast forðast Vantrú af einhverri undarlegri ástæðu.

Kæra Guðrún. Hvað getum við lært af þessu? Það er ljótt að segja ósatt. Það stendur í Biblíunni. Rakalausar dylgjur eru eitt form ósanninda, í stað þess að fullyrða að Vantrú heimsæki öldurhús til að véla ölvað fólk úr kirkjunni er gripið til þess að vísa í orðróm. Varla er hægt að segja að siðferði þeirra sem dreifa ósönnum róg sé "upp á marga fiska". Með því að dreifa þessum orðrómi var verið að ráðast á félagið Vantrú með afar ómaklegum hætti og gefið í skyn að félagið misnoti ölvunarástand fólks til að véla það úr ríkiskirkjunni. Þetta eru alvarlegar ásakanir og að okkar mati skuldar Guðrún okkur afsökunarbeiðni.

Það má að lokum velta því upp hvort prestar ættu að íhuga hvort þeir séu að grýta steinum úr glerhúsi með svona sögusögnum því hvað má þá segja um skráningar kornabarna í trúfélög, óendurkræfar skírnarathafnir á ungabörnum og staðfestingar á þeim gjörning þegar unglingar eru hvað viðkvæmastir?

Ritstjórn 15.10.2009
Flokkað undir: ( Tilkynning )

Viðbrögð


Arnar - 15/10/09 09:32 #

Hún ætti kannski að líta sér nær og spá í hver aðal markhópurinn fyrir ýmsa kristna söfnuði virðist vera, alkóhólistar.. helst nýkomnir úr meðferð.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 15/10/09 09:34 #

Ólyginn sagði mér, en hafðu mig samt ekki fyrir því....

Ég vissi ekki að Gróa á Leiti væri komin í hempu.

Það er ekkert nýtt að prestar beri ljúgvitni gegn Vantrú (þrátt fyrir boðorðið) og ugglaust er það beint frá hjartanu því þaðan koma jú illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi samkvæmt "heilagri ritningu".

Og presturinn getur heldur ekki stillt sig um að dæma siðferði okkar, út frá eigin róg.

En af hverju að fárast yfir því að klerkurinn brjóti boðorð og fyrirmæli Krists? Hann veit sem er að það eru engin viðurlög við siðferðisbrotum í heilagri Þjóðkirkjunni.


Sigurlaug - 15/10/09 09:35 #

... og amen á eftir efninu...


Baldur - 15/10/09 10:10 #

Hvar var hún að ýja að einhverju? Ásakanir um að misnota ölvað fólk gerast ekki beinari en þetta.


ArnarG - 15/10/09 10:11 #

Það er of mikið á presta sem heilaga menn í þjóðfélaginu. Þá má ekki gagnræyna eða véfengja á neinn hátt. Þess vegna tel ég ólíklegt að sr. Guðrún biðjist afsökunar á þessum fáránlega málflutningi. Prestar sem svo sjálfir umfram alla aðra líta á sig sem æðri verur í samfélaginu og eru yfir alla hafna. Því jú kristna siðgæðið er svo stórkostlegt. Óóó hve mikið við eigum þessum siðgæði að þakka....


Rósa - 15/10/09 10:38 #

Talandi um að láta fólk fylla út eyðublað án þess að það sé með á nótunum: Vinaleiðin er enn á kreiki - fékk miða með dótturinni í Varmárskóla í síðustu viku sem innihélt engar upplýsingar um fyrirbærið, bara auða reiti til að fylla inn í. Sem betur fer hljómaði þetta kunnuglega og ég gat fundið á netinu um hvað þetta snérist, en Varmárskóli var sannarlega ekki að a) upplýsa krakkana um hvað þetta snerist og b) að upplýsa foreldrana að þetta væri verkefni á vegum Þjóðkirkjunnar. Það er örugglega fullt af fólki sem veit ekkert um þetta en skrifar undir eyðublaðið því krökkunum finnst þetta hljóma spennandi (hver vill ekki fleiri vini?). Þjóðkirkjan er sannarlega að kasta steinum úr glerhúsi.


Bjarki - 15/10/09 10:54 #

Siðleysi þessarar stofnunar og starfsmanna hennar nær alltaf að koma mér á óvart. Þeim tekst einhvernveginn alltaf að finna nýtt og lægra plan til að leggjast á.


Arnold Björnsson (meðlimur í Vantrú) - 15/10/09 12:25 #

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig er að mæta í vinnu á hverjum degi og verja málstað sem að eru 99.999999% líkur á að sé ímyndun ein. Vita það innst inni en boða hann samt. Hvernig umgengst maður þá sannleikann í öðrum málum dags daglega. Verður maður dofinn. Bara smá pæling. Ríkiskirkjan og prestarnir hafa oft og mörgum sinnum farið ansi frjálslega með sannleikann þegar á að verja tilveru báknsins.


Svavar Kjarrval - 15/10/09 12:46 #

Trú felst í því að trúa á þetta 0,000001%


Margrét - 15/10/09 13:36 #

Af hverju miðast ferming ekki við 18 ára þ.e.sjálfræðis-aldur ?


jogus (meðlimur í Vantrú) - 15/10/09 13:53 #

Af hverju miðast ferming ekki við 18 ára þ.e.sjálfræðis-aldur ?

Var það ekki einhver presturinn sem sagði með hryllingi í röddinni að þá væru þau farin að spyrja svo erfiðra spurninga? ;)


caramba - 15/10/09 14:39 #

Þið eruð í rauninni ekki að berjast gegn trú per se heldur kreddum og uppspuna kristinnar kirkju og fornum arfsögnum gyðingdóms sem finna má í biblíunni. Þið teljið víst að allir trúaðir menn í nútímanum sjái Guð á sama hátt og hirðingjar eyðimerkurinnar fyrir 3000 árum. Í stuttu máli eruð þið jafnfastir í kreddunum og kenningasmiðirnir! Hvernig væri að taka skref inn í nútímann og líta á málin heildrænt? Trúarbrögðin sem formlegt skipulag eru einfaldlega, og hafa alltaf verið, börn síns tíma. En kirkjan, hvort sem hún er af kristnum, gyðinglegum eða islömskum uppruna, heldur fast við umbúðir og forðast innihald, og þið eruð fastir í umbúðunum ekkert síður en þjóðkirkjufólk, jihadistar og orþódox gyðingar.


Björn Ómarsson - 15/10/09 15:23 #

Caramba, ef þú skoðar málið aðeins betur sérðu að það eru "umbúðirnar" sem hafa raunveruleg áhrif í samfélaginu.

Samkynhneigðir meiga ekki gifta sig útaf "umbúðunum".

"Umbúðirnar" herja á börn í grunnskólum með "umbúðaboði".

Dylgjurnar sem ræddar eru í pistlinum komu beint frá "umbúðunum".


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 15/10/09 16:37 #

Caramba, ef þú læsir Vantrú betur sæirðu að við berjumst gegn miklu fleiri kreddum og bábiljum en bara kristinni trú.

Við eyðum ekki miklu púðri í deisma, trú á guð sem gerir ekkert og hefur engin áhrif á efni eða orku vegna þess að slík trú hefur ekki áhrif á gjörðir fólks.

Það er ekki þar með sagt að við samþykkjum að slík trú (deismi) sé rökleg eða gáfuleg en hún er amk fullkomlega tannlaus.

Að auki fær deismi ekki úthlutað 5 milljörðum árlega af fjárlögum til að gera ... ekki neitt?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/10/09 16:54 #

Caramba veit þetta vel, ég er nýbúinn að útskýra málið fyrir honum á öðrum vettvangi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/10/09 19:31 #

Af hverju miðast ferming ekki við 18 ára þ.e.sjálfræðis-aldur ?

Af hverju miðast skírn eki við sjálfræðisaldur?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 15/10/09 19:57 #

Samkvæmt kirkjunni er ferming eiginlega hluti af skírn, staðfesting á henni. Sá sem er skírður sem smábarn en ekki fermdur sem unglingur held ég að skoðist sem óskírður.

Það var annars gott að Guðrún tók þessar ærumeiðandi dylgjur út af blogginu og baðst afsökunar. Þetta hefði annars útheimt meiðyrðamál.


Hjalti Rúnar Ómarsson - 15/10/09 21:07 #

Vésteinn, hvar baðst hún afsökunar?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 16/10/09 00:17 #

Hún skrifar " Ég vona að fólk virði þetta við mig." Ber ekki að skilja það sem afsökunarbeiðni?


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 16/10/09 07:34 #

Það er líka svolítið ruddalegt að álykta eins og presturinn gerir, að drukkið fólk sé líklegra til þess að leiðrétta trúfélagaskráningu sína.

Eins og maður þurfi að vera fullur til þess að kynna sér órétt sóknargjaldsins og gera eitthvað í málunum.

Töluverður hroki gagnvart þeim 920 einstaklingum sem hafa breytt trúfélagaskráningu sinni.


caramba - 17/10/09 02:25 #

Hefur ekkert með deisma að gera. Það eru tvær hliðar á myntinni en það sjá ekki þeir sem lifa í einvíðum heimi. Öll trúarbrögð hafa hver með sínum hætti verið afl til góðs. Sá sem neitar þessu og einblínir á umbúðirnir veit ekkert eða hefur engan lærdóm dregið af sögu mannkyns. Að vera á móti trú á Guð eða telja fólki trú um að upprunalegur boðskapur kristindómsins sé kreddur og bábilja er fánýtt og hégómlegt. Tek fram að ég er ekki kristinn maður, löngu búinn að ganga úr þjóðkirkjunni en hef samt fulla trú á Kristi per se sem og öðrum andlegum leiðtogum mannkyns.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/10/09 02:56 #

Þetta er nú komið frekar langt út fyrir efni greinarinnar, en ég ræð ekki við mig :P

Öll trúarbrögð hafa hver með sínum hætti verið afl til góðs. Sá sem neitar þessu og einblínir á umbúðirnir veit ekkert eða hefur engan lærdóm dregið af sögu mannkyns.

Það er hægt að koma með dæmi (misýkt) sem sýna að þessi alhæfing gengur ekki upp, hvað með t.d. Heaven's gate söfnuðinn eða Vísindaspekikirkjuna.

Tek fram að ég er ekki kristinn maður, löngu búinn að ganga úr þjóðkirkjunni en hef samt fulla trú á Kristi per se sem og öðrum andlegum leiðtogum mannkyns.

Ertu þá að tala um að Jesús hafi bara verið góður og friðelskandi maður? Hvernig passa t.d. ummæli Jesú þar sem hann hótar heilu borgunum að þau muni brenna í helvíti við þessa ímynd af Jesú?

Síðan gætum við rætt um "andlega leiðtoga" sem voru klárlega svikahrappar, eins og Jósef Smith.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/10/09 02:59 #

Hún skrifar " Ég vona að fólk virði þetta við mig." Ber ekki að skilja það sem afsökunarbeiðni?

Mér finnst ekki ljóst að hún sé að biðjast afsökunar á því að hafa komið með dylgjur, þvert á móti segir hún að þessi orð hafi verið "oftúlkuð".


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 17/10/09 10:25 #

Kann að vera rétt hjá þér. Það væri best ef Guðrún tæki sjálf af tvímæli um hvort hún biðst afsökunar eða ekki. Ef ekki, þá hljótum við að skoða réttarstöðu okkar.


Arnar Magússon - 17/10/09 22:03 #

Tólf spora kerfið er dæmi um að blanda meðferð og trú


Anna Lára - 20/10/09 00:52 #

Ég las ekki öll commentin en mig langar að segja að það stuðaði mig svolítið hvernig þetta var orðað þegar ég hitti manneskju frá Vantrú upp í HÍ: Má bjóða þér að leiðrétta trúfélagsskráninguna þína?

Finnst ekki rett að orða þetta svona en hefði þótt það allt annað ef ég hefði verið spurð að því hvort ég hefði íhugað að breyta trúfelagsskráningunni minni. Finnst með því sem sagt var verið að gera ráð fyrir því að það sé sjálfsagt að ég sé vitlaust skráð. Kannski bara óþarfa viðkvæmni í mér en mér finnst þið megið alveg skoða þetta.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 20/10/09 01:16 #

Tja... held þetta sé nú bara óttaleg viðkvæmni. Fólk getur nú sagt "Nei takk, ég er sátt/ur" eða álíka og labbað svo burt.


Ásta Elínardóttir - 20/10/09 15:04 #

Ágæta Anna Lára.

Finnst þér stuðandi ef að fólk segir við þig ,,Má bjóða þér kaffi?" svona þar sem fólk er að gera sér að þú drekkir kaffi?


Anna Lára - 20/10/09 17:46 #

Sæl Ásta, ég sagði aðeins að það hefði stuðað mig aðeins, hef heyrt fleiri tala um þetta líka eftir að þeir voru upp í HÍ. Hef ekkert á móti því að þeir hafi verið að því að athuga hvort það væru ekki einhverjir þarna sem voru ekki búnir að koma sér í það að skipta.

Finnst bara leiðinlegt að heyra fólk tala um þetta á neikvæðum nótum og það væri hægt að sleppa við það með því að umorða aðeins spurninguna. Þetta er mun viðkvæmara efni fyrir flesta heldur en hvort þeir drekki kaffi.


Ásta Elínardóttir - 20/10/09 19:48 #

Það er þá kannski betra að líkja þessu við - ,,Viltu skrá þig í samtökin '78?"

Nú veit ég að margir gagnkynhneigðir fá áfall yfir þessari spurningu og ætla alveg um koll keyra vegna óöryggis og hræðslu um rangan stimpil.

Ég gekk framhjá þeim drengjum er þeir voru í háskólatorgi og get ég ekki sagt að mér hafi fundist þeir eitthvað neikvæðir þegar þeir brostu sínu blíðasta til mín og buðu mér leiðréttingu. Og átti ég heldur ekkert erfitt með að brosa til bara og segja ,,nei takk ég er skráð á alveg hárréttan stað."


Anna Lára - 21/10/09 01:08 #

Sæl Ásta, þú virðist vera að misskilja mig hérna, finnst leiðinlegt að heyra fólk í skólanum tala svona um þetta átak þeirra og langaði vinsamlegast að benda á að það mætti kannski orða þetta öðruvísi til að minnka neikvæða umræðu. Meinti þetta ekki illa á nein hátt.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 21/10/09 01:14 #

Ekki taka svörunum sem árás eða viðlíka, Anna Lára. Þetta er alveg réttmæt ábending og það má vel vera að hún bætist við spurningasarpinn. Það gæti jafnvel verið að þessi spurning - Hefur þú íhugað trúfélagsskráningu þína? - yrði betur tekin en Má bjóða þér að leiðrétta trúfélagsskráningu þína?.

Það sem á sér stað hér er umræða. Og hún er heilbrigð og ekkert illa meint.


Jón Steinar - 21/10/09 17:28 #

Siðleysi þessara þjóna krikjunnar ætti ekkert að koma neinum okkar á óvart, eins og einhver íjar að hér. Hinsvegar er ljóst á essu máli að siðleysi þeirra virðist koma sjálfum þeim á óvart, sem er mun merkilegra. Hún skrifaar greinina, les og segir: " Vá! Skrifaði ég þetta virkilega? Best að taka þetta út. Maður gengur alveg fram af manni."

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.