Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um hin illu sunnudagaskólabörn

Biskupsstofa gefur út töluvert af barnatrúboðsefni ásamt Skálholtsútgáfu. Það er öllum sem vilja setja sig inn í þessi mál hollt að skoða það efni sem þaðan kemur. Eitt dæmi er "Verkefnahefti B með sögum og hugleiðingum fyrir 6-9 ára starf". Það er ætlað til notkunar í Sunnudagaskólum og líklega sjá svokallaðir "leiðtogar" um trúboðið.

Það er ýmislegt sem stekkur þarna á mann. Fyrst ber að nefna að höfundurinn, Elín Elísabet Jóhannsdóttir fræðslufulltrúi Biskupsstofu (yfirbarnatrúboði?), telur nauðsynlegt að gera út börnin sjálf til að lokka önnur börn í kirkjuna. Í bókinni er þessi ábending til þess sem sér um trúarítroðsluna: "Ræðið hvernig hægt er að bjóða fleirum að koma í kirkjustarfið. Skrifið hugmyndir barnanna á töflu."

Í bókinni eru börn líka hvött til að fara og safna peningum fyrir Hjálparstarf kirkjunnar í sögu af tombóluhaldi. Maður veit svo sem að þetta fólk álítur þetta starf góðverk (þó ég telji vafasamt að blanda kristniboði og hjálparstarfi saman) en er enginn siðferðislegur áttaviti sem bendir á rangt þegar á að nota börnin á þennan hátt?

En þessi tvö dæmi eru ákaflega meinlaus miðað við umfjöllunina um fórnardauða Jesú. Þar stendur: "[Jesús] dó á krossi vegna okkar synda. Refsingin sem við mennirnir áttum skilið vegna illsku okkar". Þetta er það sem börnin eiga að læra í Sunnudagaskólanum. Menn, og þá líka börnin og foreldrar þeirra enda er talað um "við" og "okkur" í þessu samhengi, eru illir og ættu í raun skilið refsingu.

Hver er þessi "illska okkar" sem á að refsa okkur fyrir? Það er væntanlega hin frámunalega heimskulega kristna erfðasynd sem þar er um að ræða. Þetta er vitleysa sem maður getur ekki ímyndað sér að margir kristnir menn á Íslandi í dag taki alvarlega en þessu er verið troða í börnin sem fara í sunnudagaskólann. Þau læra það, 6 til 9 ára gömul, að þau séu ill.

Treystir þú kirkjunni fyrir barninu þínu?

Óli Gneisti Sóleyjarson 06.09.2009
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Villi - 06/09/09 10:21 #

Getum við verið sammála um að þau börn sem falla fyrir boðskapnum eru þá væntanlega tæp fyrir? Foreldrar á fullu við að vinna fyrir fjallajeppa og parketti og rækta þau (börnin) illa. Er ekki betra að vita af börnunum í því starfi frekar en í reiðileysi á netinu eða á Hlemmi? Ég hygg að þau þeirra sem búa við sterkt bakland þurfi ekkert að óttast.


Ómar Harðarson - 06/09/09 11:00 #

Hvílík endemis rökleysa hjá Villa. Enn ein útgáfa af "God in the gap" (guð er í gatinu) tesunni. Valið stendur ekki milli Hlemms og barnatrúboðs þjóðkirkjunnar.

Með Óla Gneista get ég hins vegar tekið undir hvert orð. Þessu fólki er ekki treystandi fyrir barninu mínu, hvað þá annarra (fjallajeppa eða ekki).


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 06/09/09 12:01 #

Ágsborgarjátningin:

Eftir fall Adams fæðast allir menn, sem getnir eru á eðlilegan hátt, með synd, en það merkir án guðsótta, án guðstrausts og með girnd. Þessi upprunasjúkdómur eða spilling er raunveruleg synd, sem dæmir seka og steypir í eilífa glötun þeim sem ekki endurfæðast fyrir skírn og heilagan anda.

Þetta er sú "þekking" sem hræðslufulltrúi kirkjunnar hefur aflað sér og vill miðla til barnanna. En sonur guðs var drepinn til að redda þessu fyrir okkur og við þurfum bara að drekka blóð hans reglulega og miða allt okkar líf við að þóknast honum í staðinn.


GH - 06/09/09 13:14 #

Leiðtogaþjálfun hjá kristilegu barnastarfi er sérstaklega styrkt af ríkinu, en til er sjóður hjá menntamálaráðuneytinu þar sem hægt er að sækja um slíka styrki. Þekki til sumarbúða, þeirra einu sem eru óháðar í trúmálum, sem fá ekki einu sinni að sækja um í þessum sjóði. Kristilegt barnastarf fær að auki tugi milljóna í styrki á ári frá ríki og borg (eru á fjárlögum). Fyrir um 2 árum fékk Vatnaskógur t.d. heilar 50 milljónir frá borginni í byggingastyrk. Auðvitað blómstrar allt þetta starf þegar nóg er til af peningum (skattgreiðenda).


SÞ - 06/09/09 14:34 #

Guðríður Haraldsdóttir.

Ég var áður, á annað hvort bloggsíðu þinni eða hennar Jennýjar Önnu, búinn að úskýra fyrir þér að skátahreyfingin á Íslandi, og þar af leiðandi sumarbúðirnar sem hún rekur, er ekki kristileg í neinni meiningu þess orðs heldur, rétt eins og Sumarbúðirnar Ævintýraland, óháð í trúmálum.

Óli Gneisti

Ég myndi ekki treysta kirkjunni fyrir börnunum mínum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/09/09 14:48 #

SÞ, fyrst þér finnst ástæða til að nefna fullt nafn annarra í þessari umræðu þætti mér við hæfi að þú skrifaðir sjálfur undir fullu nafni.


Sveinn Þórhallsson - 06/09/09 14:58 #

Eðlilega


Reynir Harðarson (meðlimur í Vantrú) - 06/09/09 15:55 #

Skátahreyfingin í Bandaríkjunum hefur meinað trúleysingjum um þátttöku.

Við höfuðstöðvar útivistar skátahreyfingarinnar á Úlfljótsvatni var reistur gríðarstór kross, þegar Gunnar Eyjólfsson æðstikatólikki var skátahöfðingi. Krossinn gnæfir þar enn yfir öllu. En þetta er önnur saga.


Svanur Sigurbjörnsson - 07/09/09 02:06 #

Sælir Það er ekki sjálfgefið að börnin taki því þannig að þau séu ill, þó að sagt sé í textanum að Jesú hafi dáið á krossinum vegna synda okkar. Það er þó nægilega út úr korti til að gagnrýna, því að auðvitað er það fjarstæða að einhver geti dáið fórnardauða vegna "synda" sem væntanlega eru óhlýðni við Guð. Algerlega sjúk hugmynd sem ætti ekki að kynna fyrir börnum sem eitthvað sjálfsagt og eðlilegt. Bestu þakkir - Svanur

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.