Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Dalai Lama og biskupinn

Vegna komu Dalai Lama hingað til lands er ekki úr vegi að bera saman nokkur orð hans og Karls Sigurbjörnssonar biskups.

Biskupinn og Dalai Lama

Dalai Lama:

Þótt Búddismi minn hafi auðveldað mér að kalla fram kærleika og væntumþykju, jafnvel í garð þeirra sem við teljum óvini okkar, er ég sannfærðum um að allir geta þróað mér sér gott hjartalag og ábyrgðarkennd gagnvart alheiminum með eða án trúarbragða.

Við móttöku Nóbelsverðlauna 10. desember 1998

Í Búddisma eru engar kenningar um guð eða skapara. Samkvæmt Búddisma eru gjörðir sérhvers manns sköpunin, þegar allt kemur til alls.

"The Dalai Lama, A Policy of Kindness" Dalai Lama 1990 bls. 115

Trú mín er einföld. Það er engin þörf á hofum, engin þörf á flókinni heimspeki. Heili okkar, hjarta okkar er hof okkar, heimspekin er góðvild.

"The Dalai Lama, A Policy of Kindness" Dalai Lama 1990 bls. 52

Ég trúi að í sérhverju lagi samfélagsins - í fjölskyldunni, ættinni, þjóðinni og jörðinni - sé lykillinn að hamingjuríkari og árangursríkari heimi vöxtur væntumþykjunnar. Við þurfum ekki að verða trúuð og við þurfum ekki heldur að trúa á ákveðna hugmyndafræði. Það eina sem þarf er að hvert okkar þrói með sér okkar góðu mannlegu eiginleika.

"The Compassionate Life" Dalai Lama 2001 bls. 37

Hvort sem maður aðhyllist trúarbrögð eða ekki, og hvort sem maður trúir á endurholdgun eða ekki, er enginn sem kann ekki að meta velvild og væntumþykju.

"The Dalai Lama, A Policy of Kindness" Dalai Lama 1990 bls. 47

Karl Sigurbjörnsson:

Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum; ótryggð og ótrú ógnar uppeldi barna okkar, sundrar heimilum og fjölskyldum. Valið stendur milli trúar og trúleysis á vettvangi hversdagsins, sem og viðskipta og stjórnmála.

“Enn þetta ár er sú leið fær”, prédikun flutt í Dómkirkjunni á nýársdag, 1. janúar 2003.

Ekkert foreldri getur varið barn sitt fyrir ágengni þess ofstækis sem helst sækir að þeim hjörtum og sálum sem ekki hafa fengið næringu trúar, ekki hafa fengið viðmið helgra sagna og helgrar iðkunar og ein megna að hamla gegn áhrifum sálardeyðandi og mannskemmandi guðleysis og vantrúar.

“Hvernig manneskja viltu vera?” flutt í Áskirkju, 6. mars 2005.

Ef börnin fá ekki lengur að heyra sögurnar af Jesú og læra boðskap hans, þá verða þau ... blind á birtu þess orðs og anda sem eitt megnar að lýsa, leiða og blessa í gleði og sorg, í lífi og í dauða.

“Undan eða eftir tímanum”, flutt í Hallgrímskirkju, 2. desember 2007.

Af rótum kristninnar sprettur frelsi, já og mannréttindi og allt það besta sem vestræn menning hefur fram að færa. ...Guð hefur skapað okkur til samfélags við sig og hjarta manns er órótt uns það hvílist í honum. Þetta er grundvallarstaðreynd. Og þegar Guði er úthýst úr lífi manns og mannhyggjan er sett á stall, þá verða það ekki frelsið og friðurinn og lífið sem við tekur, heldur helsið og hatrið og dauðinn. Það staðfestir öll reynsla.

“Heilbrigð eða óheilbrigð trú”, flutt í Hvalsneskirkju, 9. desember 2007.

Ég ber mikla virðingu fyrir Búddisma og fagna komu Dalai Lama en harma að sama skapi andlega fátækt Karls Sigurbjörnssonar.

Reynir Harðarson 01.06.2009
Flokkað undir: ( Fleyg orð , Ófleyg orð )

Viðbrögð


Davíð - 01/06/09 12:07 #

Af rótum kristni sprettur frelsi og mannréttindi? Er hann að reyna að vera fyndinn?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 01/06/09 13:26 #

Af mbl.is

Biskup vitnar í Dalai Lama um að gjá sé á milli hins kristna boðskapar og breytni hversdagslífsins í kristnum samfélögum. „Ef kristindómurinn á að verða trúverðugur þá verður hann að virka í hversdeginum með því að vera lifaður í kærleika, bræðralagi, umhyggju og sáttargjörð,“

Við sjáum þá væntanlega brátt nýja hlið á kirkjunni í kynferðisbrotamálunum, ekki satt?

Í góðum þætti á rúv var Dalai Lama spurður hvort það væri ekki freistandi að nýta sín miklu áhrif til að boða Búddisma. Dalai Lama svaraði:

"Aldrei. Aldrei." "Það er ekki gott að reyna að breiða út eigin trú á öðrum svæðum. Það er ekki gott. Mér mislíkar það. Ég gagnrýni líka sumt fólk sem stundar trúboð. Mér líkar það ekki."

En biskup vill troða einfeldnislegri trú sinni upp á alla, jafnt á börn okkar í skólum sem "villimennina" í Afríku. Ríkiskirkjan er boðandi kirkja, það er skylda þessara skoffína að reyna að snúa öllum sinnar hjátrúar.


Guðmundur I. Markússon - 01/06/09 20:45 #

Góður samanburður, Reynir.


Jón Valur Jensson - 02/06/09 10:51 #

Vitaskuld er stór munur á afstöðu Karls biskups og Dalai Lama. Látum þann fyrrnefnda um að skýra sína afstöðu; hann talar ekki fyrir hönd allra kristinna manna, t.d. ekki mína, þótt ég sjái sannleikskornin í ýmsum annars óheppilegum ummælum hans.

Hvað Dalai Lama snertir, fæst enn frekari staðfesting á þeirri framsetningu kenningar hans, sem lesa má í samantekt Reynis Harðarsonar hér ofar, í glænýju og bráðskemmtilegu viðtali þessa andlega höfðingja við Péturs Blöndal blaðamann í Mbl. í dag: Sama gildir um trú og matargerð – Dalai Lama á Íslandi. Þar höfðar hann ekki aðeins til trúaðra, heldur allra, m.a. með boðskap sinn um hófsemi andstætt efnishyggju, með siðferðisskyldum ríkra þjóða að hjálpa þeim fátæku og með innri, andlegu gildunum og segir þar:

"Þegar Dalai Lama talar um að rækta innri gildi, þá eru þau ekki endilega af trúarlegum toga. Hann segir að víst sé trúin gagnleg og mikilvæg, en sumir séu hamingjusamir án hennar. „Fólk sem ekki er trúað á ekkert síður skilið fyllra og hamingjuríkara líf. Jafnvel það fólk, sem áhugalaust er um trúarbrögð, ætti að horfa meira inn á við, svo lífið verði stöðugra og hamingjuríkara. Með því að efla vitund um ábyrgð og einingu og umhyggju fyrir öðrum, þá uppskerum við hamingjuríkari fjölskyldur og hamingjuríkara samfélag."

Vantrúar og Siðmenntarmenn finna hér væntanlega streng sleginn sem harmónerar við eitthvað hjá þeim sjálfum.

Hann vill "færa trúarbrögðin nær hvert öðru," en segir þó: „Ég tel betra að til séu ólík trúarbrögð. Það gilda sömu lögmál um trú og matargerð. Matargestir veitingastaða eru ólíkir og þess vegna er betra að bjóða úrval rétta en aðeins einn. Ef veitingastaður hefur einn rétt á matseðlinum, í morgunverð, hádegisverð og kvöldverð, þá er viðbúið að viðskiptavinum fari fækkandi. Við höfum líkamlega þörf fyrir fjölbreyttan mat. Og þegar kemur að hugarfóðri, þá skulum við líka tryggja fjölbreytileika.“

En svo liggur fyrir að ræða þessi viðhorf hans og hvort og hvernig þau geti á einhvern hátt samrýmzt krstinni trú. Þau eru, hvað siðferðið varðar, nær kaþólskri trú en þeim tilvitnunum í Karl biskup, sem Reynir tilfærði hér ofar. Samt er það grundvallaratriði, hvað Kristur sjálfur segir um þau mál, og það er sannarlega mjög róttækt, og í huga hvers kristins manns hlýtur það að vera óhjákvæmileg undirstaða (þótt fleira komi til skounar) til allrar réttrar lausnar á þeim ráðgátum, sem hér er um að ræða.

Umræðan er rétt að byrja. Hafi ég til þess tíma, er ekki ólíkegt að ég fari út í hana á mínum vef líka.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 02/06/09 12:22 #

Þakka þér fyrir, Jón Valur. Það gleður mig að þú áttar þig á hve "óheppileg" ummæli biskups eru. Í mínum huga eru þau rúmlega það, þau eru arfavitlaus, en mjög kristin.

Búddismi er stórmerkilegur en Dalai Lama er ekki besti fulltrúi hans, þótt ágætur sé að mörgu leyti.


Jón Valur Jensson - 02/06/09 13:15 #

Þau eru "arfavitlaus, en mjög kristin," segirðu, Reynir, um ummæli Karls biskups, en í 1. lagi tekurðu mjög djúpt í árinni með því að segja þau "arfavitlaus," því að skiljanleg og sönn eru þau að mörgu leyti og geyma í sér vissan sannleikskjarna, þótt umbúnaðurinn og útkoman séu ekki ævinlega ásættanleg, og í 2. lagi er djarft og ónákvæmt að kalla þau heilt yfir línuna "mjög kristin," því að sumt í þeim snertir einfaldlega sögulegar staðreyndir, sumt (margt) er að vísu sannur kristindómur, en annað virðist svolítið á ská og skjön við kristna sköpunarguðfræði og t.d. orð Páls postula um gildi samvizku allra manna og möguleika þeirra til sannrar þekkingar í andlegum efnum.

Karli er annt um að varðveita lútherska afstöðu, t.d. hið eðlilega hugðar- og áhyggjuefni (concern) Lúthers að beita sér gegn öllum Pelagianisma og Semi-Pelagianisma (þar sem gert er mikið úr gildi mannlegra verka, "verkaréttlætis", í sambandi við hjálpræðið), en Lúther gekk of langt í því efni, með allsherjar-fordæmingu óendurleystrar samvizku og skynsemi manna og fór háðulegum orðum um skynsemina (kallaði hana "hóru" o.s.frv.).

Þetta er ekki hin kaþólska hefð, t.d. alls ekki hjá skólaspekingunum. Þar að auki virðist Karl einna helzt á línu manna eins og hollenzka Kalvínistans Hendriks Kraemer (d. 1965) varðandi möguleika ókristinna á hjálpræði og eilífu lífi, á því að þekkja sannleikann (eða einhvern sannleika) í trúarefnum og að gera góð verk og Guði þókknanleg, en hann var í þeim efnum langt á "hægri kantinum," ef svo má orða það.

Afar ólíkur var kaþólski 20. aldar guðfræðiprófessorinn Karl Rahner, SJ (og einn leiðandi guðfræðinga á II. Vatíkanþinginu), sem talaði – og það í anda margra fyrri guðfræðinga eins og Tómasar frá Aquino og enn eldri kristinna kennimanna, allt frá fornkirkjunni – um ýmsa óskírða menn sem e.k. "nafnlausa kristna menn" (anonyme Christen) vegna þeirrar innri afstöðu þeirra, sem samrýmdist kristindómi og væri opin fyrir bæði tilvist (og vilja) æðri máttar (Guðs) og hjálp frá þeim æðra mætti til að maðurinn gerði þau verk sem honum bæri að gera (gagnvart öðrum og sjálfum sér).

Kaþólska kirkjan er frjálslyndari í þessu máli en sú (hrein-)lútherska og sú kalvínska, og sjálfur er ég mikill Rahners-maður.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 02/06/09 15:25 #

Orð biskups eru arfavitlaus. Ég fer ekkert ofan af því. Samkvæmt þeim er Dalai Lama (sem biskup ávarpaði sem hans heilagleika) stórhættulegur maður.

Sögulegar staðreyndir!? Áttu við þennan þvætting:

Og þegar Guði er úthýst úr lífi manns og mannhyggjan er sett á stall, þá verða það ekki frelsið og friðurinn og lífið sem við tekur, heldur helsið og hatrið og dauðinn. Það staðfestir öll reynsla.

Er þetta reynslan af guðlausum Dalai Lama?

Auðvitað eru til alls konar stefnur og straumar í kristni, en hvað er kaþólskara en páfinn og kristnara en biskupinn?

Ef aðeins þeir eru kristnir sem fara í einu og öllu eftir orðum Krists er lúthersk og kaþólsk kirkja auðvitað fyrst til að ganga úr skaptinu.

"Lát hina dauðu jarða sína dauðu, en far þú og boða Guðs ríki." Allur Mt. 6 o.s.frv.


Morten Lange - 02/06/09 15:46 #

Mjög sláandi munur á þessum orðum fulltrúa tveggja trúarbragða.

En ef ég á gerast leiðinlegur, þá gæti ég velt upp efirfarandi :

Getur verið að munurinn hefði verið minni ef maður mundi leita uppi tilvitnanir frá þeim báðum í því skini að "sanna" hversu lítill munurinn sé ? Jafnvel í tilvitnunum um trúleysi ?

Hér fyrir ofan hefur etv hið gagnstæða verið gert, og allt gott um það að segja. Teiknar skýrari mynd.

En síðustu ár hef ég séð það, að á mörgum sviðum hefur vantað "the devils advocate". ( Hvað segir maður á íslensku ?) Ef hann býður sér eki fram ætti maður sjálfur að bregða sér í líki hans. Hlusta á hann og rökræða við hann.


Morten Lange - 02/06/09 15:47 #

Öh... gerist...


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 02/06/09 15:56 #

Morten, "devils advocate" er málsvari myrkrahöfðingjans.

Það er enginn vandi að finna dæmi um gáfuleg orð biskups um umburðarlyndi, kærleika og bræðralag. Biskup er ormstunga, hefur tungur tvær og talar sitt með hvorri.

Ágætt dæmi um þetta eru upphafsorð hans á stundinni með Dalai Lama. Þar talar biskup allt annarri tungu en ofangreindum tilvitnunum.

Allir geta malað mærðarlega á hátíðlegum stundum en þegar til kastanna kemur er biskup allt annar en sá sem hann þykist vera, það staðfestir mörg reynslan, t.d. þegar hann sakaði Siðmennt um "hatramman málflutning" og neitaði svo að biðjast afsökunar á þeim ummælum. Maður sátta og kærleika? Ég held nú síður.


Morten Lange - 03/06/09 07:42 #

Takk fyrir svar, Reynir.

Ég þurfti að hlusta ítrekað á upphafsorð biskups til að finna umburðarlyndi í garð trúlausra.

Hér eru orðin sem ég fann : "As your holiness has relentlessly stressed, human kind in all its diversity is one family. That message resounds in our hearts whatever faith or world view we hold. We are all brothers and sisters....."

Hann notar sem sagt orðin "faith or world view" í jákvæðu samhengi.

En það er skrýtið að sjá að þegar þessi upphafsorð birtast á íslensku á tru.is, þá eru orðin "world view" og " in all its diversity" dottin út :

"Eins og Yðar heilagleiki hefur þráfaldlega minnt á þá er mannkyn allt ein fjölskylda. Sá boðskapur á sér hljómgrunn með okkur öllum, hverrar trúar sem við erum. Við erum systkin, líf okkar allra er af sömu jörðu runnið, við eigum hlutdeild í sömu mennsku, jarðarbörn."

( Af tru.is : Friður og von )


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 03/06/09 08:40 #

Takk, Morten.

Svona er að vera tvítyngdur og tala sitt með hvorri, nákvæmlega.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 03/06/09 22:02 #

Karl biskup er eins og Arafat gamli. Segir eitt í útlöndum og annað í heimalandinu.

Þreytandi að sjá ríkiskirkjuna á hátíðisstundum þykjast vera afar hress og líbó þegar staðreyndin er allt önnur. Sérstaklega í ljósi sögu kristinnar kirkju. Hversu mörgum trúarbrögðum útrýmdu fylgjendur hennar t.d. í Ameríku og Afríku? Eru reyndar enn að í trúboði sínu meðal heiðingjanna. Til hvers að boða kristni umfram annað ef þetta er allt saman gott og blessað?

Auðvitað trúa kirkjunnar þjónar því að þeirra trú sé mest og best. En svona til að fela hrokagikksháttinn þá má á hátíðistundum bjóða trúvillingum sem koma í heimsókn á eitthvað samtrúarkrull.

Kannski sýnir þessi hegðun breyttan hugsunarhátt hjá trúarstofnunum. Nú þykir mikilvægara að sýna samstöðu með öðrum trúuðum, sama á hvað þeir trúa, því mesta ógnin sem steðjar að trúarbrögðum í dag eru þeir dólgar sem trúa ekki á neina yfirnáttúru og eru svo djarfir að tala um það opinberlega. Óvinur óvinar míns og allt það.

Held að við eigum eftir að sjá meira af þessu tagi. Heimurinn á ekki fyrst og fremst eftir að skiptast niður í mismunandi trúarbrögð heldur frekar fylgjendur trúarbragða og skynsemishyggjufólk.


Eiríkur - 10/06/09 15:06 #

Væri ekki ráð að Vantrú sendi andlegum leiðtoga Íslendinga bréf þar sem hann er spurður hvort:

a) hann hafi reynt að snúa D.L. til kristni

b) ef ekki, af hverju ekki.


Eiríkur - 20/06/09 03:01 #

skiptir ekki hvaða trú þú fylgir það er allt sami Guð bara í mismunandi klæðnaði eftir sem þú villt sjá hann, það er fyrir þá sem geta trúað og er gjöf en ég vorkenni ykkur vælukjóunum sem hafið alldrei fundið fyrir æðri mætti... ef þið hafið nokkuð reynt? en já ætla ekki að móðga ykkur, vona þið getið fundið fyrir trú en það þarf fyrst að vilja það og ekki vera bitur útí allt.-Guð hjálpar þeim sem hjálpa sjálfum sér. trú er sterkt orð þið trúið á ekkert þið verðið að því sem þið trúið á og heiðrið þið verðið ekkert

Big Bang og það varð ljós 1 guðs dagur samkv. biblíunni eru óvituð miljarða ára tala...., biblían er líka sögð í dæmi sögum tils að allir skilji hana og fatta facts in life að ´meaning of life er sjálfstætt val milli góðs og ills ... eða sem þið eruð "hlutlausir" "van" "ekki neitt" veljið þið að verða að engu. það syrgir mig syrgir.


Sigurður Rósant - 27/06/09 19:11 #

Eitt sinn las ég heilræði/spakyrði sem voru á þessa leið: "Allur samanburður er heimskulegur".

Oft hafa þau komið upp í huga mér, þegar ég sjálfur stend mig að því að bera saman eitt og annað, en aldrei get ég hætt, þrátt fyrir þessi heilræði. En við komumst ekki hjá því að stunda samanburð af einu eða öðru tagi, þrátt fyrir 'sannleik' þessara orða. Dalai Lama getur látið út úr sér orð sem virka þannig á lesandann/hlustandann að þarna sé um ávöxt Búddismans að ræða. Svona hefur Búddisminn áhrif á Dalai Lama og aðra Búddista.

En sum þau orð sem Karl biskup hefur látið frá sér, gæti Dalai Lama líka látið falla gagnvart Kína og kommúnisma.

Margt af því sem Dalai Lama segir gæti Karl biskup líka látið frá sér fara gagnvart umbúðum kirkju sinnar.

Eftirfarandi orð Dalai Lama, "Trú mín er einföld. Það er engin þörf á hofum, engin þörf á flókinni heimspeki. Heili okkar, hjarta okkar er hof okkar, heimspekin er góðvild.", eru svona smá loddaraleikur af hans hálfu.

Menn segja eitt, meina annað og gera það þriðja.

Allt samfélag Búddista er yfirfullt af skúmaskotum þar sem hver og einn umlar/kyrjar "namjahó-rengjekó" eða eitthvað álíka í sífellu fyrir framan sitt 'gonjó' og flestir gera það í minnst 1 klst kvölds og morgna. Þetta gera þeir algjörlega án tillits til maka síns eða barna. Þetta er í mínum augum 'hof' á heimilinu og ekkert annað en 'frekja'. Ruddalegt trúboð að auki.

Ég veit ekki hvað Reynir á við þegar hann segist bera virðingu fyrir Búddisma en kastar hnjóðsyrðum í Karl biskup í sömu andrá. Ég held að Dalai Lama myndi aldrei láta frá sér svona 'ruddayfirlýsingu' opinberlega eins og Reynir Harðarson gerir.

Er það að bera virðingu fyrir Búddisma, að gera hið gagnstæða við kenningu Búddismans?

Þekkir Reynir Harðarson Búddismann í framkvæmd?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 28/06/09 15:23 #

Svo Dalai Lama er loddari og búddistar með frekju og ruddalegt trúboð ef þeir taka sér klukkutíma í uml inni á heimili sínu. Jahá.

Eins og Sigurður bendir á eru greinar búddismans margar og ég þekki þær ekki allar. Þess þá síður ætti nokkur maður að halda að ég tali fyrir hönd búddista eða sama máli og þeir í hvívetna þótt ég beri virðingu fyrir búddisma.

Eitt það besta sem Búddha sagði var að menn ættu ekki að trúa honum í blindni heldur leita svara sjálfir og meta þau á eigin spýtur. Það er eitthvað annað en sumir.

Karl biskup er ágætur að mörgu leyti en vonlaus á öðrum sviðum. Vinur er sá er til vamms segir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.