Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun

Nýjasta æðið í óhefðbundnum lækningum er svokölluð höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð. Meðferðin er fólgin í því að sjúklingurinn er látinn liggja á bekk meðan höfuðbeinasérfræðingurinn fer fimum höndum um höfuðbein og spjaldhrygg sjúklingsins. Lykilatriði er að beita ekki miklum þrýstingi heldur nota eins lítinn kraft og unnt er. Höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð á að lækna allt frá lestrarörðugleikum til heila- og mænuskaða. Þar sem ég var nýbúinn að frétta af norskri rannsókn um gagnsleysi höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferðar, vakti þessi starfsemi forvitni mína. Ég kynnti mér málið og komst að óvæntri niðurstöðu.

I. Svikin vara.

Höfuðbeina- og spjaldhryggs jafnarar halda því fram að með höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð sé hægt að lækna allt frá minniháttar kvillum til flókinna og illviðráðanlegra vandamála eins og mænuskaða. Þetta eru stórar fullyrðingar sem krefjast skoðunar. Hlutlausar rannsóknir hafa leitt í ljós að það er ekkert sem sannar ágæti höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferða. Norska rannsóknin leiddi það m.a. í ljós. Helsta gagnrýnin á höfuðbeina- og spjaldhryggmeðferð (fyrir utan gríðarlega óþjált heiti) eru eftirfarandi atriði:

  • “Cranal bone movement” fyrirfinnst ekki nema í börnum sem hafa ekki náð kynþroska. Hjá kynþroska manneskju er höfuðkúpan orðin föst og hörð. Ekki er mögulegt að hreyfa við stökum höfuðbeinum. Höfuðkúpan er eitt stykki í fullorðnu fólki. Höfuðbeinin hafa gróið föst saman. Þess ber að geta að “Cranal bone movement” er aðalforsenda þessara svokölluðu höfuðbeina- og spjaldhryggsvísinda.
  • “Cranial Rythm” er ekki til sem fyrirbæri. Rannsóknir hafa sýnt að þrýstingur í mænuvökva er fyrir tilverknað hjarta- og æðakerfis en hvorki vegna höfuðbeina- og spjaldhryggjar né stoðkerfis líkamans.
  • “Cranial Rythm” er ekki hægt að tengja við sjúkdóma. Enginn rannsókn hefur gefið til kynna að þrýstingur í mænuvökva tengist almennri heilsu okkar.
  • Svokallaðir “höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnarar” geta ekki fundið út þrýsting í mænuvökva. Meintur “Cranial Rythm” finnst aðeins með flóknum tækjabúnaði. Manneskja sem hefur lokið nokkura mánaða námi getur ekki fundið slíkan þrýsting. Þegar “höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnari” segist finna þennan þrýsting er sá hinn sami að fara með rangt mál.
  • Það þarf ekki mikla reynslu af lífinu og heilsufari fólks til þess að fatta að ofurnettar handayfirlagningar bæta hvorki né laga ástand á borð við heila og mænuskaða eða námsörðugleika eins og "höfuðbeina- og spjaldhryggsfræðingar" halda fram.

II. Sjúku fólki seld varan.

Eins og alltaf í dæmi “óhefðbundinna lækninga” er kúnnahópurinn fólk sem hefur ekki fengið bót sinna meina hjá hefðbundnum læknum og leitar því á önnur mið í von um bata. Eins og heilbrigðiskerfið er rekið í dag þá eru læknar önnum kafnir og hafa ekki tíma til að sinna sjúklingum sínum eins og þeir sennilega vildu sjálfir. Margir sjúklingar þurfa oft bara að tala um bágindi sín. Þurfa að fá einhvern til að hlusta á vandamál sín. Þessu atriði geta læknar í dag sjaldnast sinnt vegna anna. Ímyndum okkur að manneskja komi til læknis vegna bakverks og fengi fulla klukkustund með lækninum sínum. Læknirinn skoðaði sjúklinginn, setti hann á bekk, tæki myndir, talaði um mikilvægi réttrar líkamsstöðu og mataræðis. Ímyndum okkur síðan að þessi læknir spjallaði lengi um mismunandi meðferðir og mælti með samblandið af lyfjatöku, léttri leikfimi, bættum svefnvenjum og nýju mataræði. Ímyndum okkur svo að þessi umhyggjusami læknir hringdi 2 dögum síðar í sjúklinginn sinn og athugaði hvernig meðferðinni miðaði. Sjúklingurinn mætir síðan vikulega í 8 vikur. Ætli sjúklingnum liði ekki barasta betur? Í þessu tilfelli er einhver sem sýnir sjúklingnum áhuga. Nokkuð sem heilbrigðiskerfið okkar getur í raun ekki gert vegna anna.

Vestrænar lækningar hafa nefnilega aðgreint sjúkdóminn frá sjúklingnum mörgum sjúklingum til mikillar gremju. Fólk með verk í baki fer til læknis og er afgreitt á innan við 5 mínútum! Útskrifað með lyfseðil og 2000 krónu reikning fyrir komuna til læknisins! Mörgum þykir þetta frekar ómerkileg afgreiðsla miðað við þjáninguna sem bakverkurinn hefur valdið. Það er þarna sem óhefðbundnar lækningar virka best. Sjúklingurinn sjáfur fær þá athygli sem hann þarf. Sjúkdómurinn er hinsvegar óáreittur þrátt fyrir handayfirlagningar og léttan þrýsting á ennisblað.

III. Blekkjarinn blekktur.

Hið viðskiptalega snilldarverk í uppbyggingu s.k. “óhefðbundinna lækninga” er sú staðreynd að það eru ekki bara “sjúklingarnir” sem eru féflettir. Heldur einnig “læknarnir”. Flestar greinar óhefðbundinna lækninga bjóða upp á einhvers konar skóla þar sem almenningi býðst að ljúka prófi í viðkomandi lækningaafbrigði. Það eru því tiltölulega fáir sem hagnast verulega á óhefðbundnum lækningum. Það eru þeir sem reka svokallaða skóla og útskrifa nemendur í óhefðbundnum lækningum sem hagnast best á óhefðbundnum lækningum. -Það er verið að plata platarana!

Það er kaldhæðnislegt að stærstu tapararnir í þessu apparati eru nemendurnir í þessum skólum. Þeir þurfa margir hverjir að kosta til umtalsverðum peningum í þetta tilgangslausa nám. Arómaþerapistar bjóða upp á skóla. Nám þar kostar uþb. 210 þúsund krónur auk efniskostnaðar sem er á bilinu 100 – 150 þúsund. Nám í smáskammtalækningum er ástundað hérlendis og kostar verulegar upphæðir. Nám í svæðanuddi er stundað af 2 félögum hér á landi. Það virðist því góður peningur í að “mennta” þá sem vilja útskrifa óhefðbundna lækna.

Í dæmi höfuðbeina- og spjaldhryggjafnara sést vel að eftir nokkru er að slægjast því að nú er hægt að læra höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnun á 2 stöðum og s.k. “Bowentækni” er hægt að læra á einum stað, en þessari Bowentækni er svipar mjög til höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnunar og er jafn gagnslaus.

Ef skoðuð eru félagatöl höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnara á Íslandi kemur í ljós að félögin tvö hafa samtals útskrifað um 400 nemendur á síðastliðnum árum. Ef hvert nám kostar um 250.000.- þá hefur þetta fólk greitt þessum höfuðbeinaskólum 100.000.000.- fyrir viðvikið. Bowentækni er ný á markaðnum en hefur þegar útskrifað 76 manns. Alls þurfa nemendur að klára 5 stig og verð fyrir gráðuna er ekki undir 250.000.-. Samtals hafa þessir nemendur því greitt a.m.k. 19.000.000.-

Að námi loknu er þetta fólk hvatt til þess að sækja s.k. “framhaldsnámskeið” í faginu. Hvert aukanámskeið kostar á bilinu 50 til 150 þúsund. Stundum eru þessi námskeið erlendis og þá rýkur verðið upp. Nýjasta og sennilega ógeðfelldasta viðbótin við þetta peningaplokk eru sérstakar meðferðir ætlaðar börnum; Ungbarna heilun, ungbarna höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun og ungbarna þetta og hitt. Allt er þetta kennt og nemendurnir herja síðan á foreldra veikra barna og að lokum þurfa börnin sjálf að upplifa þetta tilgangslausa hnoð. Það er örugglega stutt í að þá verði farið að bjóða upp á höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnum fyrir aldraða, sem hefur sérstaka virkni gegn minnisglöppum og stuðlar að langlífi. Hvað með höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnun gegn getuleysi? Er það ekki handan við hornið eða er það þegar komið?

Það eru enginn takmörk fyrir græðgi þessara fúskara sem svífast einskis í þeirri viðleitni að græða fé. Það er ekki að undra að nafn regnhlífasamtaka óhefðbundinna lækninga er skammstafað B.I.G. eða Bandalag íslenskra “græðara”.

Teitur Atlason 21.05.2009
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin , Nýöld )

Viðbrögð


Árni Árnason - 22/05/09 18:18 #

Snilldin í þessu felst í því að sá hinn plataði getur aldrei viðurkennt, hvorki fyrir sjálfum sér né öðrum, að hafa verið plataður. Til er saga um "con artist" sem seldi Effelturninn tvisvar í brotajárn, og í a.m.k. annað skiftið var kaupandinn mættur með tæki og tól til að rífa hann niður þegar upp komst að svik voru í tafli. Hvorugur kaupendanna kærði svikin, þeir skömmuðust sín of mikið og vildu helst ekki að þau kæmust í hámæli. Ef þú ert búinn að borga 1/2 milljón fyrir nám í höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnun finnur þú einhverja leið til að halda bullinu áfram a.m.k. þar til þú ert búinn að vinna fyrir náminu.


Björn I - 22/05/09 20:33 #

Árni : Þetta er það sem tippastækkaraiðnaðurinn gengur út á. Það fer enginn að kvarta þegar græjan virkar ekki.


Einar - 13/06/09 03:25 #

Ég vil nú byrja á því að taka það fram að ég er að eðlisfari mjög skeptiskur trúleysingi en langaði þó að deila reynslu minni af þessum "lækningum" Ég eignaðist barn með keisaraskurð og þ.a.l fór það ekki hina hefðbundnu leið með tilheyrandi hnjaski á höfuðbeinin. Fyrstu vikurnar eftir fæðingu voru kvöldin og fram á nótt oft erfið vegna þess barnið grét mikið og virtist þjást af magaverkjum. Heyrðum við hjónin af þessari höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun og slógum við til. Eftir fyrstu meðferð(fingrapot) tók "læknir" fram að við gætum átt von á góðu hægðarskoti næsta kvöld sem jú stóðst nokkuð vel því næsta kvöld fór að mestu í að þrífa upp afleiðingar þvílíkrar bakbombu að annað eins hefur varla sést. (var ekki var við að troðið hafði verið hægðarlosandi ofan í barnið) En til að koma mér að pointinu þá eftir meðferð 2 þá má segja að 100% árangur hafi náðst og verkirnir horfnir með öllu. Sitt sýnist hverjum. kv.


Árni Árnason - 14/06/09 01:24 #

Ég heyrði líka af prófessor í skordýrafræði sem sleit allar lappirnar og vængina af fiskiflugu, lét hana á borð og sló svo lófanum í borðið og öskraði "hopp".

Flugan hoppaði ekki og þá dró prófessorinn þá ályktun að þegar þú ert búinn að slíta vængina og allar lappirnar af flugu --- þá missir hún heyrnina.


´Guðmundur Sigurðsson - 14/06/09 09:51 #

Árni! HA HA HA HO HO---- Þessi saga verður ekki toppuð,fyllilega réttmæt í kjölfar reynslusögu Einars.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 15/06/09 18:20 #

Einar, nuddaði þessi maður magann á barninu með nettum hringlaga hreyfingum? Barnalæknirinn okkar kenndi okkur þannig nudd til að örva meltinguna ef einhver hægðateppa er í gangi.


Agný - 28/08/09 16:37 #

Eru höfuðbeinin hreyfanleg?

http://www.upledger.is/index.php?option=com_content&task=view&id=81&Itemid=81

Upledger HBSM, saga og þróun.

http://www.upledger.is/index.php?option=com_content&task=view&id=83&Itemid=83

The Upledger Institute

http://upledger.com/content.asp?id=6

Þarna getið þið lesið um rannsóknir og upphaf þessarrar meðferðar.. Ég vona að þið gefið ykkur tíma til að lesa greinarnar þarna og myndið ykkur svo skoðun út frá því en ekki einhverja sleggjudóma eins og mér finnst koma fram í greininni hér..Því það eru þó nokkuð miklar vísindalegar rannsóknir á bak við þetta meðferðarform..


Teitur Atlason - 28/08/09 16:58 #

Agný... Notar þú virkilega "heimildir" frá Upledger til að styðja máli þitt um að Höfuðbeina -og spjalhryggsjöfnun sé hið besta mál?

Vísaðu á almennilegar heimildir og ég skal vera fyrsti maðurinn sem trúir þér. Henda niður þessari grein og bóna bílinn þinn.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 28/08/09 17:06 #

Agný, gætirðu útskýrt fyrir okkur hvað þetta "orkuflæði" er?


Agný - 28/08/09 21:39 #

Þó að þér líki ekki þessar heimildir er ekki mitt mál Teitur.... Þú verður þá bara að "googla" þér til sjálfur og finna eitthvað sem fittar að þinni "vantrú"...

Hjalti...Ég setti þessar slóðir þarna inn svo þið gætuð lesið ykkur sjálfir til...ég þarf ekki að verja eitt eða neitt..eða sanna eitt eða neitt fyrir ykkur..

Hef líka mikla"vantrú" á því að mér myndi takast að koma því til skila á það faglegan hátt að ykkur líki...;-) Lesið ykkur bara til og gagnrýnið svo...en ég verð bara að segja að mér finnst nú ekki mjög fagmannleg skrif hér í athugasemdum frá öllum..


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 28/08/09 21:42 #

Agný, málið er nefnilega það að þetta "orkuflæði" eru galdrar, einhver dularfull "orka". Það er dæmigert fyrir gervivísindi að nota orð sem hljóma vísindalega en eru í raun og veru merkingarlaus.


Þundur Freyr - 28/08/09 23:38 #

Agný, fyrstu 2 linkarnir virkuðu ekki fyrir mig en sá þriðji virkaði. Á þessari heimasíðu fann ég engar upplýsingar um rannsóknir þannig að ég sendi þeim þennan póst:

Hi I´m very interested in your treatments. However I could not find information on any research supporting your claims. Can you please send me a short list of the best papers that have been published in established, peer reviewed, scientific journals?

Regards, Trausti Freyr Reynisson

Vonandi svara þeir mér. Ég mun pósta svörum þeirra hér og skoða þau.


Agny - 29/08/09 04:30 #

Good for you........Hafa hinir svokölluðu vestrænu "læknar" einhverntímann getað gefið þér svar svo þér líki?... Ef svo er ..þá hversvegna bögga "kuklara" eins og mig?


Teitur Atlason - 29/08/09 07:29 #

Það að vísa á heimildir frá Upledger í þeim tilgangi að verja Upledger er.... bara fáránlegt. Þú segir að ÉG þurfi að googla mig til í að finna alvöru heimildir um gagnsemi HSM (höfðubeinaogspjaldhryggsmeðferðar)! Ég er barasta búin að því. Ég er búin að lesa mig töluvert til í þessum fræðum og örugglega ekki minna en þeir sem þó ástunda þetta hnoð.

Ef að þú kemur með fullyrðingu um eitthvað eins og undursamleika HSM, þá er það þitt hlutverk að styðja fullyrðinguna rökum. Ekki mitt eða Vantrúar. Varla þarf að taka farm að rökin þurfa að koma frá óháðum aðila, ekki leim sem málið snertir beint, eins og í þínu tilfelli.

Í rauninni er kosturinn við vestrænar lækningar, hve hlautlausar þær eru. Ef það virkar, þá er það notað. Sama hvað. Tilraunir eru látnar skera úr um gagnsemi hinna mismunandi lækningaaðferða ekki hvað einhverjum finnst, alveg sama hve skynsamlega sem það kann að hljóma. Ef það virkar þá er það notað.

Höfuðbeinahnoð og annað kukl er peningaplokk en ekki lækning í neinum skilningi. Það er verið að plokka fé frá sjúklingum og þeim lægra settum í lækninga-liðinu.

Ef þetta virkaði þá væri þetta notað af vestrænum læknum. Þá væri þetta kennt við læknadeildir virtra sem óvirtra háskóla. Svo einfalt er það nú bara.


Trausti Freyr - 22/10/09 21:10 #

Ekkert svar frá Upledger.

Það mátti svo sem búast við því að þeir hefðu ekki áhuga á að svara spurningum um galdra meðferð þeirra.


Olga - 22/10/09 23:05 #

Ég fór í 2 skipti í svona meðferð og fann nákvæmlega alls ekki neitt, jújú, þetta var voða notalegt, en ég fann engan mun á mér. Annað er hinsvegar að segja um vinkonu mína.

Fólk, eins og ég, sem veit ekki endilega mikið um það hvernig líkamsstarfsemin virkar, á það til að trúa þegar "það gerist eitthvað".

Vinkona mín sem fer reglulega í svona meðferð kemur alltaf út með sögur um hvernig líkaminn fór að hreyfast ósjálfrátt - allt í einu lyftist höndin, hún fór að snúa höfðinu, fór með fætur upp um alla veggi, fór jafnvel upp í brú, hló eða grét - allt án þess að hún réði við það.

Þetta er það sem fær fólk til að trúa. Nú veit ég ekki hvort að þetta "hnoð" og þessi líkamlegu viðbrögð við því lækni alla mögulega kvilla. En eitthvað er að gerast!

Pottþétt að þetta sé bara kjaftæði?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 23/10/09 02:43 #

Er vinkona þín flogaveik?


Trausti Freyr - 24/10/09 11:28 #

Olga

googlaðu eða wikiaðu "ideomotor effect"

Það er fyrirbæri sem getur skýrt slíka hegðun.

Bottom línan er að ef ekki er hægt að sýna fram á virkni meðferðar undir stýrðum skilyrðum þá er siðlaust (og lögbrot í raun) að segja að þær virki.

Það nægir ekki að safna saman sögusögnum og orðrómum. Það nægir sem sagt ekki að ég segi kraftaverkasögur af bílvélavirkja systur tannlæknisins hennar móðurfrænku minnar.


óli - 10/11/09 01:14 #

jah, ég veit svosem ekki hvaða vísindalegur grunnur liggur að baki svona meðferð, mér er nokk sama, en ég get sagt það að ég hef prófað þetta - hafði lent í slysi og lítið gengið að losna við verki þrátt fyrir mikla sjúkraþjálfun og líkamsrækt. Fór í einn tíma hjá svona "lækni" - var mjög skeptískur (vantrúaður að mestu leyti (enda lesandi þessa síðu...)) en munurinn var ótrúlegur, líkaminn minn varð í fyrsta sinn laus við sársauka í 5 ár, Ég gat hreyft öxlina fram og til baka án þess að hún festist á miðri leið í fyrsta sinn í nokkra mánuði (eftir annað slys) og einnig losaði konan á einhvern undarlegan hátt um öndunarveginn og ég á auðveldara með andardrátt.

Ég efast ekki um að það sé ýmislegt til í því sem þessi grein segir um vitlausar staðhæfingar varðandi þessar meðferðir, og eflaust fullt af fólki sem tekur þetta útí öfgar og talar útum rassgatið á sér (eins og ég býst við að sé tilfellið með fólk sem segir að þetta lagi lestrarörðugleika) - en það skal enginn reyna að segja mér að þetta sé allt bölvað kjaftæði


Þundur Freyr - 10/11/09 11:01 #

Óli Ef þetta svínvirkar svona, hvar eru þá allar rannsóknirnar sem sýna fram á virknina svart á hvítu?

Sagan þín er bara orðrómur fyrir mér og lýsing á persónulegri upplifun þinni. Hér er linkur á video sem útskýrir vandamálið með reynslusögur.

http://www.youtube.com/user/QualiaSoup#p/u/5/NPqerbz8KDc

Það er hins vegar ánægjulegt að heyra að þér líður betur.


Ingþór Friðriksson - 13/02/10 13:22 #

Er þessa norsku rannsókn að finna á netinu? Gaman væri að fá slóðina!


Jenný - 30/11/10 11:22 #

Get ekki annað en sent innlegg í þessar umræður.

Ég fór nefnilega fyrir mörgum árum í HBS af beiðni móður minnar. Ég hafði orðið fyrir áfalli sem íslenskir læknar gátu ekki hjálpað mér með og ekki einu sinni með spjall-meðferð. Ég var í rusli og algjörlega vanmátug um eigin heilsu.

Ég hafði að sjáfu sér ekkert kynnt mér hvað höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun gekk út á, þar sem ég var það illa haldin að ég átti erfitt með að sýna nokkru áhuga.

Meðferðin fór þannig fram að ég lagðist á bekki hjá konu sem talaði svo sem ekkert mikið við mig nema um veðrið. Ég fór til hennar eflaust 6-7 sinnum. Þá einhvernveginn án þess að hugsa um það fannst mér enginn tilgangur í þessu og jafnvel peningasóun. Þegar ég hugsa samt til baka þá átti ég ótrúlega góðan tíma í mínu lífi í nokkur ár á eftir. Ég tek það fram að mér þótti þetta kjánalega meðferð á sínum tíma og leyndi því að hafa farið.

Síðan eignast ég barn sem er líkt og barn Einars afskaplega órólegt og svaf lítið sem ekkert fyrsta árið. Vinkonur mína voru alltaf að segja mér að fara með barnið í svona meðferð en ég hummaði það af mér. Ég sé eftir því að hafa ekki farið því þetta var bæði mér og barninu erfitt og enginn læknir hefur geta hjálpað því.

Meðgangan var mér mjög erfið og ég er enn 5 árum síðan "að jafna mig". Enginn læknir sem ég hef sótt til hefur getað hjálpað mér og hef ég leitað lækningar bæði hér á Íslandi og í Bretlandi. Ég hef farið í ótal skipti í hnykkingar og sjúkraþjálfun bæði hér og úti í Bretlandi. Ég hef talað bæði við geðlækna og sálfræðinga og enn hef ég ekki fengið neina bót á mínu meini.

Sjáið til læknar eru ekkert endilega með einu lausnina og það er ekki af tímaskorti sem þeir geta ekki talað við sjúklinga sína því margir læknar gefa sér bara 5-10 mín með sjúklingum sínum og er það yfirleitt vegna þess að þeim vantar að koma fleiri sjúklingum að til þess að græða meira í kassann. Svo hver er það sem er að græða á hverjum? Síðan er ég send út með lyfseðil og í flestum tilfellum eru þeir að skrifa út sama lyfið og þeir skrifuð út síðast þegar ég koma, en vitið menn ég var einmitt komin aftur vegna þess að lyfið virkaði ekki þá.

Mér er sama hvaðan gott kemur og ég skil það vel að fólk sem er orðið lang þreytt á því að fá ekki þjáningum sínum bót og leiti þar af leiðandi í óhefðbundnar lækningar. Sjáið til það er hægt að vera öfgafullur í öfgunum og við skulum passa okkur á þvi. Þess vegna ætla ég að panta mér tíma í HBS-meðferð og sjá hvort það sé jafn gagnlausar og allar þær meðferðir sem ég hef lotið sl. 5 ár í hefðubundum lækningum.

Afsakið hvað þetta er langt!


Arnaldur - 10/12/10 13:23 #

Það er náttúrulega leiðinlegt að allir þeir sem notið hafa góðs af Cranio-therapiu séu ekki að lesa vantrú og harka í rökræðum við ykkur; talsmenn vestrænna læknavísinda - sem m.a. afneita eins og þeim hentar, kínverskum læknavísindum (i.e. nálastungum) af öllum mætti þrátt fyrir margsannaða virkni þeirra í amk. 6000ár.

Það sem ég vildi deila með ykkur var bara það að eftir heilauppskurð á 2 ára syni mínum tjáðu mér læknar að höfuðbeinin væru að festast saman sökum rasksins en það myndi valda því að höfuðið myndi ekki vaxa eðlilega. Því væri þörf á öðrum uppskurði þar sem samgróin samskeyti höfuðbeinana yrðu brotin upp - því kalkmyndun (forsenda beinvaxtar) væri hafin. Málið var á frumstigi svo ég smellti mér í 2 tíma í Cranio hjá konu sem er sérstaklega mælt með í meðferð ungbarna. Hún 'losaði um höfuðbeinin' - en ég fór fram á aðra rannsókn áður en uppskurður færi fram til að athuga hvort þörf væri á honum... Myndir voru teknar; niðurstaðan - að nægileg hreyfing væri nú til staðar á samskeytunum og 'bilið á milli' nóg til að áframhaldandi kalkmyndun/beinvöxtur myndi ekki verða. Hvor tími kostaði 5000kr en hefur líklega sparað ríkinu um 250.000 kr. í þeim uppskurði sem fara átti fram; og n.b. hljómaði eins og 'normal procedure' hjá þeim annars ágætu læknum sem komið hafa að veikindum sonar míns. Hvað ætli margar dýrar aðgerðir og rannsóknir fari fram við minniháttar kvillum, sem 'skottulæknar' takast á við utan við hið fullkomna vestræna læknakerfi ykkar (sem n.b. vill örugglega hafa ykkur ásamt hinum 25% þjóðarinnar á þunglyndislyfjum)? Og hvað ætli þessir 'skottulæknar' spari ykkur þá sem hafið svo miklar áhyggjur af skattinum ykkar? Þakkið gvuði bara fyrir skottulæknana, því komist fólk ekki til þeirra þá herjar það bara af enn meiri krafti á hið opinbera heilbrigðiskerfi...

Og hvað eru 19 milljónir í veltu náms og skóla-reksturs; er það verri atvinna en... hvað svo sem það er sem þið gerið. 5000 kr. fyrir Cranio tíma er minna (held ég) heldur en kostnaðurinn við sálfræðitíma hjá sálfræðing (með hvað 5 ára nám að baki?) og ekki er nú vísindunum fyrir að fara hjá þeim! Viljiði ekki fara fjalla um það hér hvað það sé nú fáránleg hugmynd: sálfræðingar! Afsakið hvað þetta er seint á ferð miðað við hvenær greinin var skrifuð; tók ekki eftir því. En besides the point.
Þau 'vísindi' sem eru að baki eru 'jafn óáræðanleg' í augum vestrænnar rök-eða 'sönnunarhyggju' (og lyfjarisanna sem sem þar þrífast) og heildræn sýn austrænna læknavísinda hefur verið um árabil. En þið leggist bara á árar með því sem þið skiljið. Eða gegn því sem þið skiljið ekki. Og þess vegna er bara svart hvítt hér. Biturleiki og sigurvissa. Verði ykkur að góðu; en vonin kviknar þar sem sáttin við óvissuna finnst. Góðar stundir.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/12/10 15:06 #

Ég get eiginlega ekki komið orðum að því hvað mér þykir það óábyrgt að fara með tveggja ára barn sem er nýkomið úr heilauppskurði til kuklara og láta hann krukka í höfðinu á því.

Sem betur fer hlaust ekki skaði af í þetta skipti.


Sverrir Ari Arnarsson - 13/12/10 20:44 #

Arnaldur segir um sálfræðinga: "og ekki er nú vísindunum fyrir að fara hjá þeim!" Ég leyfi mér að leiðrétta fáfræði þína. Sálfræðingar stunda margra ára nám í félagsvísindum. Sú vitneskja sem þeir hafa aflað sér í náminu er byggð á rannsóknum, mjög mörgum og vel unnum rannsóknum.

Annars eru þessar sögur sem koma hér fram um ágæti HSM ennþá bara sögur. Það gæti verið um sjálfkvæman bata að ræða. Trúlega eru mun fleiri sögur af gagnsleysi þessarar meðferðar. Ég þekki t.d. eitt þannig tilfelli. Þær sögur eru bara ekki spennandi og verður því umræðan um þetta oft skekkt.


asdf - 16/12/10 23:06 #

sé að þið takið svona fals lækningar fyrir reglulega, hafiði skrifað einhverja grein eða haft eitthvað út á að setja um kírópraktora?


birna haraldsdóttir - 04/08/11 07:42 #

mikið ofboðslega leiðist mér fólkið hér sem talar undir formerkjum vantrúar. þeir eiga það flestir sameiginlegt að reyna að gera lítið úr viðmælendum sínum og hæða þá. annað eins hef ég nú bara ekki séð nema ef vera skildi hjá veikum ölkum. hátt hreykir heimskur sér, sagði einhverstaðar. skortur á virðingu fyrir skoðunum annara og umburðarlyndi tel ég skorta hér svona svo ég segi mitt álit


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 04/08/11 11:02 #

Gætirðu verið svo góð og bent á þessa misbresti svo við getum bætt okkur? Ég bið þig af einlægni.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 04/08/11 11:11 #

Sýnir Birna Haraldsdóttir skoðunum okkar virðingu? Sýnir hún okkur umburðarlyndi?

Ætti þetta ekki að virka í báðar áttir?


fdsa - 20/08/11 01:50 #

@asdf, Kírópraktorar á íslandi eru ekki líkir bandarískum kírópraktorum, þeir hnykkja ekki við asma né krabbameini(svo að ég viti).

En kírópraktorar eru ekki heilbrigðisstarfsmenn og fyrir því er víst góð ástæða. Þeir hafa enga hvatningu til þess að ljúka meðferð. Tíminn hjá kírópraktor kostar um 4000kr og meðhöndlunin er oftast undir 10min.

kírópraktorar sumir hverjir ljúga, þeir segjast vinna á bug hryggskekkju og öðrum vandamálum en hvorki Sjúkraþjálfarar(löggildir heilbrigðisstarfsmenn) né kírópraktorar hafa sýnt fram á að þeir geti lagað hryggskekkju.(scholeosis)

En hnykkingar eru góðar fyrir stoðkerfavandamál, eru verkjastillandi. Margir sjúkraþjálfarar gera grunnhnykkingar.


Ástvaldur A Guðjónsson - 26/08/12 13:39 #

Ég er nýbyrjaður að láta hnikkja mig,hef reyndarbara farið í tvö skipti núna og veit ekki hvað seigja skal eftir að hafa lesið ofan greind ummæli. Allavega finn ég ekki mikinn mun ef einhvern eftir þessar tvær meðferðir,ef ég hef ekki bara versnað :( Ætla kannski að gefaþessu smá sénns,fer eftir hvað buddan leifir,því jú þetta er ekki gefinns. Mbk.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.