Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er hjátrú ekki bara krúttleg?

Enn er verið að brenna fólk vegna nornahjátrúar, en nútíma nornabrennur er hægt að kvikmynda, sem gerir það verulega mikið óhugnalegra heldur en gömlu tréristurnar frá tímum rannsóknarréttarins.

Svona leit athugasemd eins vantrúarseggs út er hann vísaði á einkaspjalli okkar í myndband sem sýnir fimm gamalmenni í skurði í Afríku. Allt um kring stóð múgurinn (aðgerðalaus) og fylgdist með nokkrum ofuráköfum ungmennum berja gamalmennin og sparka í þau varnar- og umkomulaus. Í miðjum skurðinum logaði eldur, í eldinum lágu tvær manneskjur og gamall maður sat ringlaður með fætur í logunum, logum sem höfðu læst sig í skyrtu hans líka. En hann sat þó uppréttur og hreyfingarlítill. Tvær konur reyndu að skríða í burtu en var dröslað á bálið, aðrir bættu spreki á eldinn og í einu skotinu sést maður með hjólbarða (en það er algengt á þessum slóðum að umlykja glæpamenn með einum slíkum og bera svo eld að).

Svona er réttlætið sums staðar, aftaka lýðsins án dóms og laga. Vissulega er snara, kúla, sprauta eða jafnvel rafmagnsstóll huggulegri aftaka, en aftaka engu að síður. Sumum líður betur ef slík aftaka fer fram eftir misréttláta dómsmeðferð.

En hver var glæpur þessara vesælu gamalmenna sem lýðurinn taldi réttdræp? Þau voru ÁLITIN nornir, galdrahyski.

Ég leitaði mér upplýsinga um þennan atburð og las þar viðhorf íbúa á þessu svæði sem lýsti því hróðugur að þar gæti fólk átt litasjónvarp í strákofum sínum án þess að eiga á hættu að þjófar brjótist þar inn og fjarlægi þau. Hann var stoltur af virkri baráttu síns fólks fyrir bættu samfélagi og taldi það ekkert til að skammast sín fyrir að berjast ötullega gegn þjóðfélagsmeinum.

Látum viðhorf fólks til dauðarefsinga og dómsmeðferðar liggja á milli hluta. En hugum að hinu, viðhorfinu til galdra, til "hins illa". Ef fólk heldur, líkt og því er talin trú um, að "hið illa" grasseri á meðal manna, taki sér jafnvel bólfestu í líkömum þeirra - eins og Kristur kenndi - er sjálfsagt mál og eðlilegt að uppræta það.... sér í lagi ef heilsa, hamingja og sálarheill samfélagsins veltur á slíku. Þá eru nornabrennur réttlætanlegar.

Þetta er sá veruleiki sem blasir við okkur, þetta kennir sagan okkur, þetta bendum við í Vantrú á. Viðhorf fólks í trúmálum - ekki síst í kristni - getur verið stórhættulegt, viðbjóðslegt og mannskemmandi, jafnvel þótt hinn algóði fyrirskipi að fólk sé grýtt frekar en brennt. Lokabrennuna eilífu, eldsofninn, annast hann sjálfur.

Sauðirnir sem horfðu á brennuna eru ekkert verra fólk en ég og þú. Ungmennin sem slógu, spörkuðu og brenndu gamalmennin eru hetjur í vissum skilningi.... skilningi trúarbragðanna.

Af tillitssemi við lesendur og þá ekki síður fórnarlömb hindurvitnanna vísum við ekki á þetta myndband. Hroðinn er ekki afstaðinn, hann er yfirstandandi og fórnarlömbunum fjölgar daglega. Það eina sem skilur okkur frá þessum lýð er breytt afstaða til hindurvitna.

Nei, hjátrú er ekki krúttleg.

Reynir Harðarson 22.04.2009
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/04/09 11:41 #

Karl Sigurbjörnsson hneykslast á formælingum nornar á Íslandi nú nýlega:

Hvað er formæling og bölbænir? Það er að kalla hið illa vald og vilja til liðs og þar með vegið að grundvelli lands og þjóðar.

Hið illa er veruleiki, og engin barnaleikur, gleymum því ekki.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/04/09 11:54 #

Hjátrú, biskups eða annarra, er enginn barnaleikur, heldur grafalvarlegt mál.


Sigurður - 22/04/09 16:44 #

Kalli bskup nefnir einnig í greininni:

Dómgreindarleysi og oflátungsháttur hafa leitt þjóðina í ógöngur. Öfl ágirndar, græðgi, hroka og oflætis hafa leikið okkur grátt!

Hann sýndi ótrúlegt dómgreindarleysi þegar hann setti tengdason sinn í embætti prests í London (þótt slíkt embætti sé algjör tímaskekkja).


anna benkovic - 22/04/09 17:57 #

Gaman væri að heyra skoðanir um Carl Jung? Er kenning hans t.d. um "collectiv consiousness" Hjátrú?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 24/04/09 13:03 #

Ég er hræddur um að þeir sem hafa ekki séð myndbandið átti sig engan veginn á alvöru málsins. Lifandi fólk er brennt.

Í Papúa Nýju Gíneu er þetta gríðarlegt vandamál:

The country's Post-Courier newspaper reported Thursday that more than 50 people were killed in two Highlands provinces last year for allegedly practicing sorcery.

In a well-publicized case last year, a pregnant woman gave birth to a baby girl while struggling to free herself from a tree. Villagers had dragged the woman from her house and hung her from the tree, accusing her of sorcery after her neighbor suddenly died.

Emory University anthropology professor Bruce Knauft, who lived in a village in the western province of Papua New Guinea in the early 1980s, traced family histories for 42 years and found that one in three adult deaths were homicides -- "the bulk of these being collective killings of suspected sorcerers," he wrote in his book, "From Primitive to Postcolonial in Melanesia and Anthropology."

Á síðunni sem hér er vísað í er búið að fjarlægja myndband með greininni en þar má þó sjá Ítali skemmta sér við nornabrennu fyrir utan Hringleikahúsið í Róm. Þar er að vísu um greinilega strábrúðu að ræða en hlátur og skemmtan fólksins er sérlega óviðeigandi hafi maður séð ósvikna nornabrennu.

En Hringleikahúsið minnir okkur á að virðing fyrir mannslífum var ekki alltaf mikil hjá Evrópubúum. Þar voru skylmingaþrælar látnir berjast til dauða og kristnum kastað fyrir ljón.

Kristni ber því ekki alla sök, eða trúarbrögðin heldur virðingarleysi fyrir mannslífum. Nú skemmtum við okkur við dráp í tölvuleikjum og á sjónvarpsskjá eða kvikmyndatjaldi.

En það er ekki kristninni að þakka að virðing fyrir mannslífum jókst. Þungamiðja hennar er blóðug mannfórn. Við þekkjum galdrafárið og aftökuæði hennar.

En virðingingarleysi fyrir mannréttindum og hjátrú er banvæn blanda.

Þess vegna er illt til þess að vita að hér á landi er ein stofnun sem hefur þann yfirlýsta tilgang að koma grillum í hausinn á fólki... og sú hin sama stofnun gerir sér sérstakt far um að valta yfir mannréttindi annarra til að ná til barna þeirra í leik- og grunnskólum.

Enda þótt Guð skapi og viðhaldi náttúrunni, þá er orsök syndarinnar samt sem áður vilji hinna vondu, svo sem djöfulsins og guðlausra manna, sem, þegar Guð hjálpar ekki, snýr sér frá Guði, eins og Kristur segir í Jóh.8. "Þegar hann talar lygi, talar hann af sínu eigin".


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 24/04/09 22:03 #

Hjátrú er einmitt grafarvarlegt mál og þegar vel menntaðir og hálaunaðir ríkisstarfsmenn halda því blákalt fram að ómanneskjuleg hjátrú sé "sannleikur" þá er samfélagsgerð okkar stefnt í voða.


Óttar - 26/04/09 21:58 #

Anna: Carl Jung var sálgreinandi sem er óvísindaleg sálfræði. Þannig að já: Það er húmbúkk og kjaftæði.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.