Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Nýbókstafstrú biskupsins

Ég er nokkuð viss um að Karl Sigurbjörnsson er það sem ég kalla ný-bókstafstrúarmaður, hann trúir því að allt í Nýja testamentinu hafi í raun og veru gerst, að öll kraftaverkin sem sagt er frá hafi átt sér stað og að Jesús hafi í raun og veru sagt allt það sem honum er eignað í guðspjöllunum. Tilraunir hans til þess að verja áreiðanleika fæðingarfrásagnir tveggja guðspjallanna er dæmi um eitthvað sem bara bókstafs- eða ný-bókstafstrúarmenn reyna[1]. Síðastliðinn sunnudag reyndi hann síðan að samræma frásagnir af greftrun Jesú og þá fer allt í vitleysu:

Guðspjöllin segir [sic] frá því að vinir Jesú, þeir Nikódemus og Jósef frá Arimaþeu keyptu rándýr smyrsl til að búa Jesú til grafar. #

Nú er erfitt að átta sig á því hvort hann haldi að þetta eigi við um fleira en eitt guðspjall, en frá þessu er sagt í Jóhannesarguðspjalli:

Þar kom líka Nikódemus, er fyrrum hafði komið til hans um nótt, og hafði með sér blöndu af myrru og alóe, nær hundrað pundum. Þeir tóku nú líkama Jesú og sveipuðu hann línblæjum með ilmjurtunum, eins og Gyðingar búa lík til greftrunar. (Jh 19.39-40).

Það sem gerist næst í þessu guðspjalli er að María Magdalena fer til grafarinnar og sér að steinninn er ekki á sínum stað og því næst hleypur hún til lærisveinanna. Það sem gerist ekki er það sem Karl segir að hafi gerst:

Og hvað segir um konurnar í páskaguðspjallinu? Án þess að hafa hugmynd um þetta örlæti hinna auðugu vina, fara þær þegar er hvíldardagurinn er líðinn til að kaupa ilmsmyrsl og jurtir til að smyrja lík Jesú. #

Nú flækist málið. Karl trúir því greinilega að frásögnin af konunglegri útför Jesú sé sönn og að konurnar hafi ekki haft hugmynd um hana. En í hinum guðspjöllunum, er sagt að konurnar hafi séð þetta:

María Magdalena og María móðir Jóse sáu, hvar hann var lagður. (Mk 15.47)

Jósef tók líkið, sveipaði það hreinu línklæði og lagði í nýja gröf, sem hann átti og hafði látið höggva í klett, velti síðan stórum steini fyrir grafarmunnann og fór burt. María Magdalena var þar og María hin, og sátu þær gegnt gröfinni. (Mt 27.59-6)

Konur þær, er komið höfðu með Jesú frá Galíleu, fylgdu eftir og sáu gröfina og hvernig líkami hans var lagður. (Lk 23.55)

Þannig að ef maður reynir að samræma öll guðspjöllin þá sjá konurnar Jósef og Níkódemus spreða ótrúlega mikið af ilmjurtum á lík Jesú, fara síðan heim til sín búa til ilmjurtir og smyrsl, halda síðan kyrru fyrir á hvíldardeginum (Lk 23.56). Eftir hvíldardaginn fara þær síðan og kaupa meira af ilmsmyrslum (Mk 16.1).

Það er augljóslega ekkert vit í þessari frásögn og því kýs Karl að minnast ekki á það að konurnar sáu greftrunina. Sumir vilja ef til vill halda því fram að hann geri það viljandi, en ég held að hann sé einfaldlega eins og aðrir bókstafstrúarmenn, blindur á það sem textarnir segja raunverulega og býr til ímyndaða samræmda frásögn í huganum sínum.


[1] Sjá til dæmis En það bar til um þessar mundir.

Hjalti Rúnar Ómarsson 16.04.2009
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Árni Árnason - 16/04/09 14:21 #

Úff, mikið óskaplega hlýtur það að vera erfitt að vera að ströggla við að trúa þessum margsögnum, þversögnum og ofsögnum sem sannar væru. Það er væntanlega heilmikil hugarleikfimi að muna hvað má nefna og hvað ekki til að ævintýrin gangi upp.

Það er í raun þannig að þrjár eða fleiri frásagnir af "sama" atburði eru svo misvísandi og stangast í svo veigamiklum atriðum á hver aðra að ekki er hægt að nota þær allar samhliða. Hugsanlega væri það styðjanlegt einhverjum rökum að ein slíkra frásagna væri áreiðanlegri en hinar, og bæri því að trúa umfram hinar. En málið er bara ekki svo einfalt, heldur eru eru allar frásagnirnar álitnar jafnréttháar ( þetta er jú allt saman orð guðs - ekki satt ?) og þá getur hver prestur búið til sína eigin frásögn eftir hentugleika hverju sinni með því að bútasauma í eina mynd úr úrklippusafninu.

Gera þeir þetta meðvitað eða ómeðvitað ? Er annað eitthvað skárra en hitt?

Það er ómögulegt að leggja á það mat og það sem gildir um einn prest þarf ekki að gilda um annan.

Eitt vitum við þó, að til eru prestar sem trúa ekki einu orði af því sem stendur í Biflíunni, þeir fóru bara í auðvelt nám sem skilar þægilegu og vel launuðu innistarfi og taka helst ekki þátt í umræðum um trúmál utan vinnutíma, og stendur því á sama um hvort kílóin af smyrslum sem kámað var á krosshangann voru fleiri eða færri og hver eða hverjir kámuðu og hvenær þeim var kámað á hann. Svo eru auðvitað hinir, prestar og leikmenn sem trúa þessu í alvöru. Það væri auðvitað ósanngjarnt af mér að kalla það allt vitleysinga, enda margt ágætlega gefið fólk þar innanum, en eitthvað vantar í það, einhvern kafla í bókina á efstu hæðinni vantar, og því er þessu fólki enginn vandi á höndum að trúa öllum frásögnum af sama atburði jafnt, þó að þær stangist á. Þau lesa bara eina frásögn í einu, jaaá - svona var þetta, og svo næstu - jaaá svona var þetta og svo næstu - jaaá svona var þetta.

Ekki láta hvarfla að ykkur eitt augnablik orð eins og "stupid". Þau eru bara svona opin fyrir fjölbreytileika almættisins. Amen.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 16/04/09 17:22 #

Já, ég held að ég sé sammála þér. Annars þá sýnist mér þeir búa til eina samræmda frásögn í huganum og bara taka ekki eftir þeim versum sem passa ekki við, eða þá að þeir eru óheiðarlegir.

Annað dæmi má sjá í ræðu hjá ríkiskirkjuprestinum Kristjáni Val, þar segir hann:

Það vannst ekki tími til þess á föstudaginn langa að búa líkama Jesú til greftrunar eins og venja var í gyðinglegum sið.

En í Jh stendur:

Þeir tóku nú líkama Jesú og sveipuðu hann línblæjum með ilmjurtunum, eins og Gyðingar búa lík til greftrunar. (Jh 19.40).

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.