Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hræsni biskups

Páskar eru sagðir mesta hátíð kristinnar kirkju því þá drápu menn guð sem var forsenda þess að guð gæti fyrirgefið mönnum að fyrsta parið sem hann skapaði borðaði ávöxt. Guðinn reis upp frá dauðum ásamt fjölda annarra og skaust skömmu síðar upp til himna (með skít og öllu saman - eins og Helgi Hóseasson orðar það) til fundar við sjálfan sig.

Á hverju ári flytja fjölmiðlar fréttir af brjálæðingum á Filippseyjum sem leiðist ekki að láta krossfesta sig og svo sést myndskot úr hálftómri Dómkirkjunni þar sem æðstistrumpur... biskup prédikar yfir sauðum sínum.

Í ár var biskupi mikið niðri fyrir og hann fordæmdi markaðinn hræðilega sem dró lýðinn niður í svaðið, frá heilagri almennri kirkju og boðskap hennar. Karl Sigurbjörnsson er hræsnari því kirkjan var ófeimin við að taka við illa fengnu fé fjárglæframannanna sem hún kallar nú þá auðugu og valdamiklu og ófyrirleitnu þessa heims.

Við munum þegar smekklausir foreldrar fengu smekklega gjöf frá VÍS við skírn barna sinna í Grafarvogskirkju.

Hvítur smekkur með rauðri rönd og á honum stendur: "Þakkið Drottni því að hann er góður" og undir mynd af Grafarvogskirkju stendur "Með kveðju frá Grafarvogskirkju" Með smekknum fylgir svo auglýsingabæklingur um bílstóla frá VÍS. Í staðinn fyrir auglýsinguna fær kirkjan styrk frá VÍS.

Baugur, VÍS og LÍ gáfu orgel fyrir milljónatugi (hvað eru það margir brunnar?)

Af forsíðu dv 1. des 2005
Af forsíðu DV 1. des 2005
Auðmenn gefa orgel fyrir 40 milljónir
Þrír helstu auðmenn þjóðarinnar hafa sammælst um að gefa Grafarvogskirkju nýtt orgel fyrir 40 milljónir króna. Var það ákveðið eftir að séra Vigfús Þór Árnason sóknarprestur fékk þremenningana í heimsókn þar sem farið var yfir málið. Þörfin var brýn og þeir félagar, Björgólfur Guðmundsson í Landsbankanum, Finnur Ingólfsson í VÍS og Jóhannes í Bónus, voru ekki lengi að ákveða sig: Orgelið skyldi keypt.
DV, fimmtudagur 1. desember 2005

Sund ehf kostaði Vinaleið í Garðabæ.

Samherji styrkir barnatrúboð á Akureyri.

Eflaust eru ótal dæmi um annað, við hvetjum ríkiskirkjuna til að setja allt á borðið og segja frá öllum styrkjum frá auðmönnum Íslands, til kirkjunnar eða sókna.

Vantrú hefur aldrei þegið styrki frá stórfyrirtækjum og aldrei boðist slíkir. Vantrú hefur heldur ekki hlotið styrki frá ríki eða bæ.

Kirkjan sýgur ekki bara spena auðmanna heldur líka bæjarfélaga og ekki má gleyma fimm þúsund milljónum árlega frá ríkinu.

Ritstjórn 14.04.2009
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


anna benkovic - 14/04/09 15:43 #

Þetta eru mútur...eða ekki vissi ég að RÍKISKIRKJA mætti taka öllu sem að henni er rétt?...(ásamt því að stela mínum skattpening)


GH - 14/04/09 16:01 #

Þetta er ótrúlegt, alveg til skammar. Gott að fá þetta rifjað upp. Veit að Jóhannes í Bónus, gengið í Sjóvá og örugglega miklu fleiri hafa styrkt kristilegar sumarbúðir KFUM þrátt fyrir að sú innrætingarstarfsemi sé í áskrift að tugmilljónum árlega hjá ríkinu, ásamt því að fá fullt gjald frá foreldrum fyrir sumardvöl barnanna. Það þarf að uppræta svona sníkjudýrshátt.


Ragna - 14/04/09 16:12 #

En styrkur þessara fjárglæframannanna... hvaða styrkur er það og hvað græddu styrkgefendur í því máli, þ.e. hvað gat kirkjan gert fyrir þessa menn í staðinn? Eða átt þú bara við VÍS styrkinn?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/04/09 16:21 #

Þeir sem afhentu styrkina (auðmennirnir) græddu gott PR - þeir voru góðu gæjarnir sem styrktu góðu og göfugu ríkiskirkjuna.

Þegar upp er staðið eru það hins vegar ég og þú sem greiðum þessar gjafir - í gjaldþrotum þeirra, iðgjöldum og í vöruverði.

Vantrú benti á þetta bruðl á sínum tíma, og hlaut bágt fyrir að benda á fátækt í Afríku í því samhengi.


thork - 15/04/09 08:02 #

Kirkjan ætti að sjá sóma sinn í að skila þessum peningum til þrotabúanna.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 15/04/09 12:28 #

Sá sem væntir sómatilfinningar hjá kirkjunni leitar ullar í geitahúsi. Því miður.

Kirkjan gerir ekkert sem skerðir fjárhagslegan hag hennar nema tilneydd. Biskup og prestar mala nógu fjálglega um siðferði, hógværð, auðmýkt og andúð á peningum en í raun snýst allt fyrst og fremst um þeirra eigin hag þótt vaðið sé á skítugum skóm yfir réttindi og tilfinningar annarra.

Það þarf meira en firringu til að fordæma Mammón (enginn getur þjónað tveimur herrum) og taka jafnframt við fimm þúsund milljónum af almannafé árlega.

Steininn tekur þó úr þegar prestapar (a.m.k. 1,2 millur á mánuði frá ríkinu þar) heldur fram að kirkjan eigi engra hagsmuna að gæta. Þetta lið er klikk.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.