Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Undur jarðar

JörðinÞegar ég eignaðist mína fyrstu bók um miðjan níunda áratuginn um gagnrýni á gervivísindi var það mikil opinberun. Í þá daga voru margir hillumetrar í bókabúðum um alls konar yfirnáttúru, bæði innlendar og erlendar bækur, en ekkert mótvægi. Þar hefur lítið breyst. Í þessari bók (Science and the paranormal) var fjallað á gagnrýninn hátt um Loch Ness skrímslið, fljúgandi furðuhluti, álfa- og árumyndir, Bermúda þríhyrninginn o.s.frv.

Í þá daga voru menn ekki að vafra á netinu, engin kjaftæðisvakt á vantrú og ekkert youtube. Eitt það fjarstæðukenndasta í bókinni (að mínu viti) var umfjöllun um þá kenningu að jörðin sé hol að innan. Nú geta menn kynnt sér þessar hugmyndir á youtube beint og fyrirhafnalaust. Í einni útgáfunni kemur Ísland talsvert við sögu í fyrsta þættinum. Í upphafi er sagt að holið í jörðinni eigi sér mörg nöfn í goðafræði, þar á meðal landið handan pólanna, Valhöll, Útópía og aldingarðurinn Eden! Í Tíbet kallast staðurinn Agartha, í Egyptalandi Amerta og á Íslandi Ásgarður. Stuttu síðar segir þulurinn að á Íslandi sé trúin á hola jörð, Última Thule, sem raunverulegan og dularfullan stað, almenn. „Raunar á megnið af dulhyggju á Íslandi rætur sínar að rekja til þessarar trúar.“ Allar þessar upplýsingar koma fram á fyrstu þremur mínútum þáttarins.

Ég ætla ekki að fjalla meira um þessa þjóðtrú okkar (enda ætti það að vera óþarfi) en vil þó benda á að menn telja líka að hér sé um Atlantis að ræða og „geimverur“ fljúgi iðulega í diskum sínum inn og út úr jörðinni (oftast á pólunum). En menn hafa gælt við þá hugmynd lengi að jörðin sé að stækka, þ.á.m. Darwin á tímabili, og nú má styðja þá hugmynd útfrá nýjustu mælingum á aldri sjávarbotnsins. En hvernig bregst þú við ef teiknimyndahöfundur segir þér að rúmmál jarðar hafi tvöfaldast á síðustu 65 milljón árum og 2/3 hlutar yfirborðs jarðar (sjávarbotninn) sé innan við 200 milljón ára? Styður það ekki kenninguna um hola jörð og fellur undir sama flokk?

Teiknimyndahöfundurinn er þekktur á sínu sviði, Neal Adams, en hann er minna nafn í jarðfræði og stjörnufræði. Ég skora á þig að horfa á myndband sem kallast samsæri vísindanna, Conspiracy of science og gá hvort forvitni þín vaknar. Að því búnu skaltu kíkja á viðurkennd kort af aldri sjávarbotnsins, t.d. þetta og þetta.

Það er ekki um að villast. Samkvæmt bestu heimildum er aldur sjávarbotnsins að megninu til innan við 200 milljón ára. Í jarðfræði lærði ég allt um flekakenninguna, fljótandi Indland o.s.frv, hvernig flekarnir renna undir aðra, skiljast að eða nuddast saman. Vissulega kemur Ísland við sögu í því máli, hér sjáum við flekana skiljast að og Wegener kom hingað til lands til að vinna að mælingum sínum. Ein mælistika hans stendur enn á Arnarneshæðinni í Garðabæ!

En ég verð að viðurkenna að kenningin um stækkandi jörð er ákaflega heillandi, a.m.k. á yfirborðinu. Þegar nánar er að gáð kemur svo í ljós að kenningin á líka við um tunglið og aðrar plánetur í sólkerfinu, sjá hér.

En auðvitað ber maður fyrirfram lítið traust til höfundar teiknimyndasagna af ofurhetjum þegar kemur að jarðfræði. En jarðfræðingar hafa líka haldið fram þessari tilgátu og á youtube má sjá einn þeirra, James Maxlow, halda fyrirlestur um kenninguna, vel studda rökum og jarðfræðilegum rannsóknum. Hann rekur stækkunina líka miklu lengra aftur en myndband Neals.

Ég ætla ekki að fella dóm hérna, bara að benda á hvað könnun á heiminum getur verið skemmtileg, raunar miklu skemmtilegri en stúdía á goðsögum og trúarbrögðum. Þeir sem vilja kynna sér málið ættu að lesa sér til og fá frekari heimildir á Wikipedia.

Við þurfum alltaf að vera reiðubúin að skoða öll gögn, ekki síst þau sem ganga þvert á hugmyndir okkar, annars stöðnum við.

Reynir Harðarson 03.03.2009
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Sævar Helgi - 03/03/09 15:31 #

Fín grein Reynir. Ég rétt kíkti á þessi myndskeið sem þú vísar á og er ekki sannfærður um stækkandi jörð og reikistjörnur. Að minnsta kosti eru sönnunargögnin af frekar skornum skammti. Í þessu tilviki eins og öðrum í vísindum gildir rakhnífur Okkhams. Jarðmyndanirnar á tunglinu og Mars eru miklu betur útskýrðar með haldbærari sönnunargögnum en þarna koma fram. Kannski er ég að misskilja það sem þarna sagði þar sem ég horfði ekki á öll myndskeiðin. Bara eitt sem mér finnst ástæða til að benda á og það er notkun á orðalaginu "kenning" í þessu sambandi. Réttast væri að nota orðið tilgáta.

Flestar reikistjörnur sólkerfisins eru að minnka vegna þess að þegar þær kólna skreppa þær saman. Á Merkúríusi eru greinilega merki þess (Sjá http://www.stjornuskodun.is/merkurius#jardfraedi). Sama gildir t.d. um Júpíter (http://www.stjornuskodun.is/jupiter#orkuutgeislun).

En það er rétt hjá þér, raunveruleikinn er miklu meira heillandi heldur en goðsögur og trúarbrögð.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 03/03/09 15:46 #

Rétt er að nefna að fyrsta setningin í wikipedia greininni er: "Proponents of an expanding Earth hypothesis claim that...."

Hypothesis verandi enska orðið yfir tilgátu en ekki kenningu.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 03/03/09 16:35 #

Rétt hjá ykkur. Tilgáta er betra orð í þessu samhengi en kenning.

Annars vantar ekki sönnunargögnin - tveir þriðju af yfirborði hnattarins eru slatti :)

Ég skora á fólk að horfa á þessi myndskeið sem ég vísaði á (alla þætti Neals og Maxlows). Þau hljóta að fá menn til að klóra sér í hausnum, ef ekki annað.

Eini gallinn við þessa kenn... úps... tilgátu er að hún stangast fullkomlega á við núverandi paradigm/heimsmynd. Annað hvort er tilgátan röng eða hugmynd okkar um eðli alheimsins.

(Og ég er farinn að efast stórlega um hugmyndir okkar um eðli alheimsins - mikla hvell og þyngdaraflsmiðaða heimsmynd, a la Einstein).


Dandalast - 04/03/09 11:06 #

Áhugavert, alls ekki svo ótrúlegt en samt ýmislegt sem er ekki útskýrt með þessari tilgátu (nennti reyndar ekki að horfa á öll myndböndinn.. sumir þurfa að vinna).

Td. samkvæmt flekakenningunni er misgengi við vestur strönd ameríku sem útskýrir td. skjálftavirkni þar og tilurð fjallgarðanna sem ná næstum samfelt frá norðri til suðurs. Þessi 'vaxandi jarðar' tilgáta útskýrir það ekki. Reyndar samkvæmt tilgátunni er vestur ströndin langt frá 'virkum' svæðum.

Svo náði ég aldrei þessu með samsærið gegn þessari tilgátu. :)

Ef jörðin er í raun að vaxa þá ætti að vera freka auðvelt að mæla breytingar á ummáli hennar með núverandi tækni.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 04/03/09 16:43 #

"Hún stækkar nú samt." ??

Bæði tilgátan um stækkandi jörð og þyngdaraflsmiðaða- tilgátan/kenningin gera ráð fyrir sama aldri jarðar (um 4,7 milljarðar ára - eitt elsta bergið er að finna á Grænlandi).

Ef alheimurinn varð til fyrir ~15 milljörðum ára hefur jörðin verið til þriðjung tímans (og sólin líka). Áður en þyngri frumefnin urðu til þurfti náttúran að búa þau til (úr einfaldari frumefnum) í sprengistjörnum (súper-nóvum) samkvæmt ráðandi hugmyndum. Stærri stjörnur geta orðið að súpernóvum, en til þess þarf þó tíma (því stærri - því styttri).

Ég verð að viðurkenna að hár aldur sólkerfisins, miðað við alheiminn, og áætlaður líftími þess (5-6 milljarðar í viðbót) virðist grunsamlegur. Enn grunsamlegra er þó að sólkerfið hafi verið svo lengi óbreytt í grunninn.

Hélt Newton ekki að sólinn brynni líkt og sprek í arni? Ég spái að innan skamms verði hugmyndir okkar um bruna sólar sem kjarnasamruna vetniseinda (sem verði að helíni) álitnar jafneinfeldnislegar og sprekatilgátan.

Ég held að alheimurinn sé miklu flóknari en flestir halda núna (hvað þá áður), við erum rétt að byrja að skilja svo margt.

Og svo ég haldi áfram að spá þá held ég að hugmyndir manna um plasma og það sem kallast "electric-universe" séu mun vænlegri en að miða (svo til) allt við hið einfalda og þunglamalega þyngdarafl.

Rafsegulkrafturinn er miklu sterkari en þyngdaraflið og hann getur hugsanlega útskýrt margt sem okkur er hulið núna (til dæmis snúning og lögun stjörnuþoka og jafnvel orkuflutning milli staða í geimnum).

Orka jafngildir massa sinnum ljóshraða í öðru veldi. Núverandi heimsmynd miðar svo til allt við massann (þyngdaraflið).

En svo neyðarlega vill til að okkur vantar 96% af massa alheimsins svo núverandi mynd gangi upp - og því tala menn um hulduefni eða dökkt efni... og jafnvel hulduorku og dökka orku. Þessi "skekkja" ætti að segja okkur eitthvað.

Við þurfum að skilja orkuna betur (tómið og plasma ?) og kannski leynist þar skýring á því hvernig massi (efni) getur orðið til hér og þar - líkt og virðist nauðsyn ef jörðin er að bólgna út.

Ég ætla ekki að slá neinu föstu, hef ekki forsendur til þess, en mig hryllir við þeirri hugsun að við höldum okkur hafa höndlað sannleikann - bara smáfínísering eftir.

Þetta eru þó líka góðar fréttir. Enn bíða okkar grundvallaruppgötvanir, byltingar í heimsmyndinni, paradigm-shifts. Ég bíð spenntur og verð ekki hissa ef jörðin er að stækka samkvæmt nýrri heimsmynd.

Ég birti þessar hugleiðingar hér til að menn sjái að vantrúarseggur getur líka verið vantrúaður á heimsmynd viðurkenndra vísinda, eða öllu heldur vísindamanna. Maxlow, líkt og Galileó, dregur ályktanir af því sem hann sér, ályktanir sem ganga þvert á ríkjandi hugmyndir.

Rakhnífur Okkhams, já. Hvort er einfaldara að jörðin snúist um sólu eða sól um jörðu? Hvort er einfaldara að jörðin hafi orðið til svo að segja fullsköpuð fyrir 4,7 milljörðum ára (nú, eða 6000 árum) eða hafi orðið til um það leyti og sé enn að stækka?

Nú kennum við börnum landrekskenninguna (tilgátuna) og sýnum þeim lögun og aldur hafsbotnsins í Atlantshafi henni til staðfestingar. Ef börnum væri kennd tilgátan um stækkandi jörð væri hún alveg jafnsjálfsögð og vel studd rökum og landrekskenningin. Stækkandi jörð er jafnaugljós sannleikur og landrek.

En við neitum að trúa þessu vegna... ja, vegna hvers? Vegna þess að við getum ekki séð fyrir okkur að efni spretti upp "af sjálfu sér" í iðrum jarðar. Það er jafnfjarlægt hugsunarhætti okkar nú og hugmyndin um að jörðin snerist um sólu var hér áður fyrr.

Kannski er sagan (tilgátan/kenningin) um Mikla-hvell líkari fyrstu Mósebók en rauninni. Ég trúi að raunvísindin haldi áfram að vísa veginn til aukins skilnings - fjær einföldum hugmyndum byggðum á takmarkaðri þekkingu, nær sannleikanum.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 04/03/09 17:15 #

Já það er yndislegt til þess að hugsa að heimurinn er mun flóknari en svo að við getum skilið hann allan strax.


Kári Rafn Karlsson - 04/03/09 20:05 #

Mæli með lestri á þessum forum-þræði í sambandi við "stækkandi jörð" ... mér sýnist þetta vera alger bolaskítur.

Þetta er btw forum hjá podcasti sem kallast "The Skeptic's Guide to the Universe" mæli með þessu. Mjög fræðandi podcast. (Hægt að finna það í podcast directory-inu á itunes undir science eða hér


Kári Rafn Karlsson - 04/03/09 21:29 #

Það er viðtal við Neal Adams í einum þættinum og hægt er að lesa rökræður milli Dr. Steven Novella (þáttarstjórnanda) og Neal Adams í kjölfar þáttarins hér


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 05/03/09 09:12 #

Neal Adams er raunar peð í þessu tafli. Kanónurnar er að finna í greininni á Wikipedia sem ég benti á. En Adams er með mjög heillandi myndbönd um þetta, enda vanur að vinna í myndum.

Ég ítreka:

Stækkandi jörð er jafnaugljós sannleikur og landrek.

Ef marka má myndbönd Adams og Maxlows ættu þessi augljósu sannindi að hrópa á okkur. Þau hrópa á mig og ég gapi á þau í forundran.

Efast einhver um aldursmælingar sjávarbotnsins? Það er stutt síðan menn áttuðu sig á og viðurkenndu tilgátuna/kenninguna um landrek - því það blasir við þegar á það er bent. En svo er bara það sama uppi á teningnum í Kyrrahafi og Indlandshafi... og það skrítnasta af öllu - flekarnir passa saman á minni jörð. Meira að segja N- og S-Ameríka passa betur saman við Evrópu og Afríku á minni jörð en á jafnstórri.

Á maður að trúa eigin augum og hyggjuviti eða halda fast í "þekkinguna", heimsmyndina/ríkjandi paradigm? Þetta er skemmtilegasta spurning sem ég hef rekist á lengi og ég hef tilhneigingu til tortryggni í garð alls sem kallast dogma.

Þú þarft ekki háskólapróf til að sjá að dæmið gengur upp. Barn getur séð að þetta er augljóst þegar því er bent á það. En við neitum að trúa vegna þess að þetta stangast á við "þekkingu" okkar. En kannski er eitthvað athugavert við "þekkinguna".

Ég hef skoðað margt bullið og oftar en ekki rekist á þau "rök" að menn hafi hlegið að Galileo ("en snilld hans fólst ekki í því.") Ítrekað er ég sakaður um þröngsýni og trú á dogma vísindasamfélagsins. En jafnan er auðvelt að blása á slíkan "bolaskít".

En í þessu tilviki er ég skák og að því er virðist... mát. Þetta er ekki eina dæmið, en þetta er það magnaðasta og því deili ég því með ykkur í von um skemmtilegar umræður frekar en sleggjudóma.

(Ætli "samsæri vísindanna" felist ekki í því að þagga þetta niður, neita að horfast í augu við þær staðreyndir sem virðast blasa við.)


Árni Árnason - 05/03/09 10:39 #

Segir ekki sagan um rakhníf Ockhams að einfaldasta skýringin sé að jafnaði sú líklegasta.

Hvað eru menn þá að vaða í villu og svíma ?

Guð gerði það. Eða er það ekki nógu einfalt fyrir ykkur ? He he he.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 05/03/09 11:05 #

Hljómar vissulega einfalt, en guð þyrfti þá að vera afar einfaldur.

Einfaldleikinn veltur á skilgreiningunni á guði. Við erum þá ekki að tala um guð Biblíunnar.

Spurningin er kannski frekar "hvernig" gerðist það en "hver" gerði það.

Vonandi verður svarið einfalt þegar við áttum okkur á því. En núverandi hugmyndir um tilurð og eðli alheimsins, stjörnuþoka og sólkerfa ganga alls ekki upp að mínu viti.

Svarið er allt annað en okkur er talin trú um. Við erum á blindgötu. Opnum augun.


danskurinn - 05/03/09 18:03 #

Skemmtilegt! En þetta ekki alveg augljóst. Að á meðan alheimurinn er að þenjast út þá gildi það sama um allt sem í honum er.

Dæmið um risaeðlurnar í myndbandinu er umhugsunarvert. Þær fóru um alla Jörð því landmassinn var „einn“. Að auki er smærri Jörð ágæt skýrin á því hvernig sumar af þessum risaskepnum gátu yfirleitt gengið um eða hreyft sig. Aðdráttaraflið á smærri Jörð hlýtur að hafa verið minna.

Á hinn bóginn er erfitt að skilja hvernig jurtir og dýr eiga fyrst að hafa orðið til í sjónum og skriðið þaðan á land.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 05/03/09 18:16 #

Það er nu ekki ýkja flókið. Það er þróun sem tekur þónokkuð margar kynslóðir og til eru ýmis "millistig" í þeirri þróun enn í dag.


danskurinn - 05/03/09 18:22 #

Haukur! Það er erfitt að skilja upphaf jurta og dýra í sjónum ef bæði jurtir og dýr voru á Jörðinni þegar landmassinn var allur samvaxinn.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 05/03/09 19:50 #

Eins og ég skil dæmið þakkti sjór hluta landmassans þegar hann var saman á minni jörð. Þannig voru höf þar sem nú finnast steingervðar leifar sjávardýra (í setlögum á landi). Þannig varð sjórinn (hluti hans) til á undan sjávarbotninum, þar sem sjórinn er núna.

Samvaxinn landmassi útilokar ekki sjó í fyrndinni.


danskurinn - 05/03/09 23:07 #

Miðað við sama vatnsmagn og nú þekkist þá hefði allt yfirborðið átt að vera á floti. Skipting í ferskvatn og sjó væri seinni tíma mál. Við værum að tala um n.k allt um lykjandi rakahjúp sem aftur gæti verið önnur skýring á því hvernig sumar risaskepnur gátu komist ferða sinna.

Spurning hvort eðlismassi Jarðarinnar væri alltaf sá sami þrátt fyrir stækkun. Þannig að þyngra efni bærist upp úr iðrum Jarðar en yki rúmmál sitt með blöndun við súrefni og önnur léttari efni.


danskurinn - 05/03/09 23:14 #

Spurning hvort eðlismassi Jarðarinnar væri alltaf sá sami þrátt fyrir stækkun. Þannig að þyngra efni bærist upp úr iðrum Jarðar en yki rúmmál sitt með blöndun við súrefni og önnur léttari efni.

Þessi setning passar varla við tilgátuna. Því stækkunin er öll innaní. Yfirborðið gliðnar í sundur eins og blásið sé í blöðru. Hljómar allt mjög undarlega.


Jóhann - 06/03/09 00:34 #

Á þessi bálkur allur ekki heima undir "hindurvitni"?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 06/03/09 08:13 #

Jóhann, Vantrú er í baráttu gegn boðun hindurvitna og þetta er birt á Vantrú.

Það er enginn flokkur sem kallast "hindurvitni" en þetta er birt í flokki sem kallast "kjaftæðisvaktin".

Fyrsta tilhneiging er að flokka þetta sem kjaftæði en eftir að hafa kynnt mér þessar hugmyndir virðist umfjöllun National Geographic miklu frekar vera kjaftæði.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/03/09 12:41 #

Ég er enn afskaplega skeptískur á þessar hugmyndir eftir að hafa horft á þessi myndbönd. Mér finnst málatilbúnaður þeirra sem setja þetta fram minna mig of mikið á það hvernig aðrir kjaftæðiskenningarsmiðir setja sitt mál fram. Talað um samsæri vísindanna og álíka rugl. Jarðfræðingurinn James Maxlow flytur fyrirlestur hjá nötturum (það er ekki hægt að orða það á annan hátt). Hann hefur starfað við gullleit og ráðgjöf, ekki rannsóknir.

Ég get ekki útilokað þessar kenningar (ekki frekar en t.d. tilvist æðri máttar) en mér finnst þetta afskaplega ótrúverðugt.

Hver veit, kannski er ég bara svona þröngsýnn.


Ásdís - 13/03/09 00:28 #

Mig langar fyrst til þess að leiðrétta þann misskilning að landrek sé sú kenning sem er 'ráðandi' í vísindasamfélaginu í dag. Í þeirri kenningu segir að meginlöndin séu að 'plægja' í gegnum úthafsskorpuna, sem þau eru ekki að gera samkvæmt nýrri og uppfærðri útgáfu af landrekskenningunni. Þessi nýja kenning er plötu tektóník kenningin (e. plate tectonics) sem byggir á hugmyndum Wegeners (sá sem kom með landrekskenninguna) en í stað færanlegra meginlanda sem brjóta upp úthafsskorpuna eru þau á hinum ýmsu flekum sem mynda jarðskorpuna. Það eru síðan þessir flekar sem færast hver með tilliti til annars sem gerir það að verkum að meginlöndin hreyfast líka.

Tilgátan um stækkandi jörð er almennt ekki viðurkennd innan vísindasamfélagsins og heyrði ég fyrst um þessa kenningu núna við lestur greinarinnar. Mig grunar sterklega að það væri hægt, á skömmum tíma, að hrekja þessa tilgátu með ýmsum sönnunargögnum. Eitt dæmi sem mér dettur í hug strax er að aldur meginlandanna virðist, frá fyrirlestri James Maxlow, vera meiri en 160 milljón ár. Hvernig útskýrir það ungan aldur Íslands? Í endurgerð hans á lögun meginlandanna aftur til 200 milljón ára var Ísland til, þrátt fyrir að elsta grjót sem hefur verið aldursgreint hér á landi er um 16 milljón ára gamalt. Hann talar jafnframt ekki um 'subduction zones' (þar sem ein platan er að fara undir hina; ég horfði ekki á allan fyrirlesturinn hans-minnist hann á þau?) en staðfesting á tilveru þeirra er yfirgnæfandi. Það verður hins vegar að viðurkennast að ekki er vitað nákvæmlega hvað verður um úthafsflekann sem sekkur niður þar sem tæknin leyfir okkur ekki að sjá dýpra í jörðina en ~2000 km (og þá er upplausnin orðin léleg).

Engu að síður er gott að sjá að mismunandi tilgátur eru á lofti því það er eina leiðin fyrir vísindin að ná framförum, ekki viljum við staðna.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 13/03/09 12:58 #

Tek fram og lýsi því hér yfir að mér finnst allt benda til þess að jörðin sé að stækka líkt og Adams og Maxlow halda fram...fyrir utan það eitt að enginn veit hvernig á því stendur.

Öll gögn sem menn hafa safnað um jörðina, um landrek, síðar plöturek (eins og það muni öllu), meira að segja sökksvæði (subduction-zones) eru góð og gild en þarfnast nýrrar túlkunar við.

Adams lætur Ísland hrúgast upp við Bretland í einhverjum myndböndum sínum. Adams er ekki jarðfræðingur. Kort Maxlows eru svo ömurlega óskýr að ég hef ekki getað greint Ísland almennilega. En skýring á tilurð Íslands er augljós - Ísland varð til við það að kvika skaust upp úr gliðnunarbelti. Þá að aldrinum.

Ásdís, þú segir að elsta berg á Íslandi sé 16 milljón ára gamalt. Ég trúi því. En hvað um landgrunnið (sem við köllum svo). Er landgrunnið ekki meginlandsskorpa? (Spyr sá sem ekki veit.) Ef landgrunnið er meginlandsskorpa er rétt að hafa það/hana með Ef landgrunnið er til orðið á sama hátt og Ísland, á sama eða svipuðum tíma, er rangt að hafa það með. Hvert er svarið?

(En Ísland, líkt og Adams, er því miður bara peð í þessu tafli - og ekki fellur tilgátan með svörum um Ísland eitt.)

Ásdís, þú ættir e.t.v. að endurskoða hugmyndir um subduction-zones... ekki hafna gögnunum heldur íhuga hvort aðrar skýringar kunni að finnast (eins og að þar molni, brotni, krumpist meginlandsflekar eða úthafsflekar, frekar en að einn gangi undir annan).

Þú þarft líka að gera þér grein fyrir hvort þessi sökkbelti anna öllu því sökki sem þarf að koma á móti því mikla magni af nýju yfirborði sem við höfum sönnun fyrir. Er það ekki meiriháttar höfuðverkur plötukenningarinnar?

Við trúum því að löndin hvoru megin við Atlantshafið voru einu sinni saman (engin sökkbelti þar). Þannig búa menn til mynd af Pangeu. Þegar Atlantshafinu er skeytt saman verður útkoman þessi mynd

Til að álfurnar passi saman þarf að slíta Norður-Ameríku frá Suður-Ameríku (á myndinni) og enn neyðarlegra er bilið sem þarf að mynda á milli A-Afríku og Arabíuskaga/Asíu.

Fræðin segja okkur að Indland hafi eitt sinn verið við Afríku - allir trúa því. Á milli Indlands og Afríku er gliðnunarás - ENGIN sökkbelti.

Þegar menn búa til myndir af Pangeu láta þeir Indland vera áfast Afríku - um leið og Atlantshafið er ekki til - en Asíu langt langt í burtu.... Á myndinni sem ég vísa í er Arabíuskaga, Asíu og Indlandi sleppt.

Hvar á að láta Indland á myndina? Við Afríku, væntanlega. En samkvæmt flekakenningunni skaust Indland (flekinn, já) óraleið norður til fundar við Asíu (eða Asía suður til fundar við Indland). Og hvar á að láta Arabíuskaga á myndina? Við Afríku eða við Asíu? Og hvar eru sökkbeltin sem gleyptu allt þetta land milli Afríku-Arabíuskaga-Asíu???

Nú þarf að brjóta heilann. Á líkönum Adams og Maxlows er þetta hægðarleikur - fjarlægðin milli Indlands og Afríku minnkar eftir því sem radíusinn og ummál jarðar minnkar - rétt eins og Atlantshafið lokast. Málið leysist sjálfkrafa.

Myndin sem ég vísa á verður ekkert vandamál á smærri jörð, engin glufa myndast milli A-Am og S-AM annars vegar og Afríku og Arabíuskaga/Asíu/Indlands hins vegar. Þetta er magnað.

Miðað við kostulegar kenningar um flot meginlandanna (flekanna) (a la National Geographic) virðist tilgátan um stækkandi jörð mun gáfulegri.

En spurningin er þó helst þessi: Passa meginlandsflekarnir saman á smærri jörð. Passa flekarnir betur saman yfir Atlantshafið? Mynda meginlandsflekarnir samfellda heild fyrir 200 milljón árum...á radíusi sem er 55-60% af núverandi stærð? Væri það ekki magnað. Það ættu ENGAR líkur að vera á því miðað við hugmyndir manna um lygilegar tilfærslur í fyrndinni.

Sjávarbotninn sýnir gliðnun og aftur gliðnun. Hvað gerist ef við drögum allar gliðnanir til baka, eins og í Atlantshafi. Radíusinn minnkar auðvitað....en smella meginlandsflekarnir þá saman? Og aldur, stefna og lögun sjávarbotnsins segir okkur hvað við eigum að draga saman, hvernig og á hvaða hraða.

Gengur þetta allt upp ef við leyfum jörðinni að minnka eftir því sem við drögum yngstu, eldri...elstu gliðnunina frá sjávarbotninum.

Ef allt gengur upp á minni jörð neyðumst við að kyngja nokkru, sem er sannarlega ógnvekjandi, óskiljanlegt og niðurlægjandi.... Jörðin stækkar.

Það er niðurlægjandi og neyðarlegt að hafa ekki áttað sig á þessu (ef maður nær að lita heiminn þessum augum) en hversu meiri væri niðurlægingin ekki ef við neituðum að horfast í augu við staðreyndir?

Og það er vissulega niðurlægjandi að halda þessu fram, vitandi að maður getur engan veginn útskýrt hvað veldur þessum ósköpum... Sexföldum rúmmáls á 200 milljón árum (4% af aldri jarðar).

Jörðin er kyrr og sólin rís og hnígur. Það er gefið. -Svo segir einhver að sólin snúist um jörðina! -Svo segir annar að jörðin snúist um sólu!

Jörðin hefur alltaf verið jafnstór. Það er gefið. -Svo segir einhver að jörðin sé að stækka!

Eftir allnokkra skoðun fæ ég ekki betur séð en að Adams og Neal hafi lög að mæla. Um leið viðurkenni ég að ég hef ekki hugmynd um hvað veldur þessari stækkun, þótt ég hafi ýjað að því hvar skýringuna gæti verið að finna.

Við fyrstu sýn virðist þetta kollvarpa öllu. En auðvitað stendur vitneskja okkar óhögguð. Við gerum okkur hins vegar grein fyrir að það er greinilega eitthvað sem hefur farið illa fram hjá okkur.

Þegar haft er í huga að 96% af massa alheimsins er hvergi að finna í alheiminum (dökka efnið, hulduefnið) ætti það þó ekki að koma okkur á óvart að eitthvað er að.

Kannski er stutt í næsta paradigm-shift! En kannski er ég bara að bilast, það virðist vissulega mun líklegra.


Ásdís - 13/03/09 23:06 #

En skýring á tilurð Íslands er augljós - Ísland varð til við það að kvika skaust upp úr gliðnunarbelti. Þá að aldrinum.

Ísland er þar sem það er vegna samspil úthafshryggjar og heits reits. Ef rökin fyrir tilurð Íslands eru þau að kvika skaust upp úr gliðnunarbelti (þ.e. úthafshrygg) þá ættu allir úthafshryggir að vera yfir sjávarmáli.

Ásdís, þú segir að elsta berg á Íslandi sé 16 milljón ára gamalt. Ég trúi því. En hvað um landgrunnið (sem við köllum svo). Er landgrunnið ekki meginlandsskorpa? (Spyr sá sem ekki veit.) Ef landgrunnið er meginlandsskorpa er rétt að hafa það/hana með Ef landgrunnið er til orðið á sama hátt og Ísland, á sama eða svipuðum tíma, er rangt að hafa það með. Hvert er svarið?

Landgrunnið í kringum Ísland og Grænland - Færeyjahryggurinn (sem liggur frá Grænlandi til Íslands og svo frá Íslandi til Færeyja) einkennast af óvenju þykkri úthafsskorpu. Hægt er að finna út aldur landgrunnsins frá segulstrípum sem er að finna á hafsbotninum. Út frá korti af segulstrípum og aldurkvarða segulstrípna getur maður séð að landgrunnið er ~ 0-20 milljón ára gamalt (út af Vestfjörðum og suður af þeim má sjá segulínu sem samsvara chron 6 sem er ~20 milljón ára).Landgrunnið og Grænland-Færeyjahryggurinn eru talin vera óvenju þykk vegna sampspil úthafshryggjarins og heita reitsins undir Íslandi. Þetta er því ekki meginlandsskorpa (meðalþykkt meginlandsskorpu er ~200 km, meðalþykkt úthafsskorpu er ~8km og þykkt, þykkt skorpunnar undir miðju Íslandi er 35-40 km og um 20 km á rekbeltum og þykkt landgrunnsins rétt fyrir neðan 20 km (sem sagt langt í frá að vera nálægt 200 km þykkt)).

Ásdís, þú ættir e.t.v. að endurskoða hugmyndir um subduction-zones... ekki hafna gögnunum heldur íhuga hvort aðrar skýringar kunni að finnast (eins og að þar molni, brotni, krumpist meginlandsflekar eða úthafsflekar, frekar en að einn gangi undir annan).

Þar sem tveir flerkar mætast 'krumpast' þeir annað hvort saman og myndast þá fjallgarðar (sbr. Himalaya fjallgarðurinn, Appalachian fjallgarðurinn, o.s.frv.) eða annar sekkur undir hinn. Ef gert er ráð fyrir að kenningin um plötu tektóník sé sönn að þá er ekki til nein útskýring á upphafi subduction zones. Aftur á móti eru umfang gagna sem sanna að þau eru til yfirgnæfandi. Sem dæmi má nefna dýpt jarðsjálfta á plötumótum. Jarðskjálftar eiga uppruna sinn að rekja til Benioff svæðisins (http://en.wikipedia.org/wiki/Wadati-Benioff_zone) og markar þetta svæði skil milli efsta parts sökkvandi plötunnar við þá sem er að yfir. 'Sökksvæði' útskýra einnig tilvist þeirra eldfjalla sem er að finna fyrir ofan þessi svæði (t.d. í Vestur Suður-Ameríku, Japan, Izu-Bonin-Mariana eyjaboginn, o.s.frv.).

Þú þarft líka að gera þér grein fyrir hvort þessi sökkbelti anna öllu því sökki sem þarf að koma á móti því mikla magni af nýju yfirborði sem við höfum sönnun fyrir. Er það ekki meiriháttar höfuðverkur plötukenningarinnar?

Það er einmitt þetta 'sökk' sem talið er vera einn af aðal ástæðunum fyrir því að plöturnar eru á hreyfingu. Platan sem er að sökkva er með hærri eðlismassa en létt möttulefni og sekkur því eins og steinn í vatni. Þessi 'sökkkraftur' (lélegt orðalag en mér datt ekkert annað í hug)verður svo til þess að hinn endinn á plötunni færist með og er þannig togaður í burtu frá aðliggjandi plötu og þar með myndast ný úthafsskorpa sem fyllir inn í þetta skarð. Subduction zones eru því alls ekki höfuðverkur fyrir plötu tektóník heldur nauðsynlegur hlutur. Án þeirra væri kenningin búin að vera.

Við trúum því að löndin hvoru megin við Atlantshafið voru einu sinni saman (engin sökkbelti þar). Þannig búa menn til mynd af Pangeu. Þegar Atlantshafinu er skeytt saman verður útkoman þessi mynd

Það er rétt að meginlöndin lágu einu sinni saman. Aftur á móti hefuru rangt fyrir þér þegar þú segir að þar séu engin sökkbelti. Appalachian fjallgarðurinn varð fyrst til þegar Iapetus úthafsplatan byrjaði að sökkva undir Laurentiu (sem núna myndar hluta af Norður Ameríku flekanum). Atlantshafið hefur því verið til tvisvar, í núverandi mynd og í mynd Iapetus hafsins. Iapetus hafið lokaðis með sökkvun sinni en Atlantshafið byrjaði að opnast aftur fyrir ~200 milljón árum þegar Pangea byrjaði að gliðna í sundur. Norður Atlantshafið byrjaði að gliðna í sundur fyrir ~60 milljón árum.

Fræðin segja okkur að Indland hafi eitt sinn verið við Afríku - allir trúa því. Á milli Indlands og Afríku er gliðnunarás - ENGIN sökkbelti.

Sökkbeltið var til staðar og er núna undir Himalaya fjallgarðinum. Úthafsparturinn af Indlandsplötunni sökk undir Asíu flekann en þegar komið var að meginlandinu á plötunni að sökkva hætti sökkvunin og tvö meginlöndin 'krumpuðust' saman og mynduðu Himalaya fjöllin. Þannig lokaðist hafið á milli tveggja meginlanda, svipað og í tilfellinu með Atlantshafið. Ég ítreka enn og aftur að subduction zones er lykillinn að því að plötu tektóník kenningin virki.

Ef jörðin er að stækka og við gerum ráð fyrir því að massi getur ekki orðið til úr engu þá ætti eðlismassi jarðarinnar að vera að minnka. Ef jörðin er að stækka ætti hún að vera að hitna - hvaðan kemur hitinn? Jörðin er að kólna og því þykir mér það vera rökréttara að hún ætti að vera að minnka frekar en að stækka.

Eyjabogar eru sérstaklega áberandi í Kyrrahafinu. Þeir verða til þegar úthafsplata sekkur undir aðra úthafsplötu, hvernig ætli kenningin um stækandi jörð útskýri það?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/03/09 06:44 #

Þakka þér fyrir að ræða málin, Ásdís. Mikill fengur að þér og þínum svörum. Ég hef bara menntaskólamenntun í þessum fræðum öllum og þú fyrirgefur vonandi stöku ónákvæmni en leiðréttir villur. Mig langar hins vegar að vita meira og meira og gjarnan komast út úr meinloku og villutrú hvers konar :)

(Fróðlegt þetta með landgrunn Íslands. En þar sem meginlandsflekar geta krumpast, brotnað, molnað og teygst langar mig að spyrja hvort það geti verið að meginlandsflekabrot (kannski teygt og þynnt) hafi kannski "flotið" (á útsjávarskorpu) á hryggnum undir Íslandi og kvika ollið (skotist) yfir hana og þakið? Þannig hafi Ísland orðið til ofan á meginlandsflekabroti sem sat fast á hryggnum miðjum? Ólíklegt, ég er bara að hugsa upphátt.)

Þú segir að meðalþykkt meginlandsskorpu sé 200 km, en þeir kumpánar Adams og Maslow tala um 40-70 km. Wikipedia segir hana 35-40 km og Britannica 35 km að meðaltali. Eru 200 km nýjar tölur?

Þetta er því ekki meginlandsskorpa (meðalþykkt meginlandsskorpu er ~200 km, meðalþykkt úthafsskorpu er ~8km og þykkt, þykkt skorpunnar undir miðju Íslandi er 35-40 km og um 20 km á rekbeltum og þykkt landgrunnsins rétt fyrir neðan 20 km (sem sagt langt í frá að vera nálægt 200 km þykkt)).

Þetta er dálítið ruglingslegt fyrir mig.

Varðandi sökksvæðin þá efa ég ekki að svæðin eru til með öllum þeim fyrirbærum sem lýst er í fræðunum. Spyr bara hvort önnur útskýring á fyrirbærunum sé hugsanleg. Menn gera ráð fyrir sökki - því annars væri jörðin að stækka - og leita því að þeim logandi ljósi...þar til þeir telja sig sjá það þegar þeir eru kannski að sjá og mæla eitthvað annað, bara hugleiðing. Ég hef ekki þekkingu til að hrekja tilvist sökkbelta en aðrir treysta sér til þess, svo ég set spurningamerki við túlkun gagnanna (þú fyrirgefur)

Subduction zones eru því alls ekki höfuðverkur fyrir plötu tektóník heldur nauðsynlegur hlutur. Án þeirra væri kenningin búin að vera.

Hér hefurðu misskilið mig illilega. Sökkbelti eru nauðsyn fyrir plötukenninguna. Höfuðverkurinn felst í að finna þau og staðfesta eðli þeirra. Þú ert sannfærð, ég efast um túlkun gagnanna.

En er það rétt að bergkvikan (magma) undir plötunum sé tvisvar sinnum þéttari í sér en storknað granít? Gengur það upp að 7 km þykk basaltskorpa þrýstist ofan í slíkt undir 40 km (og þú segir 200 km) þykka meginlandsskorpu?

Ef það stenst eðlis- og efnafræði hlýtur samt að þurfa gríðarlegan þrýsting á útsjávarplötuna til að keyra hana niður í bergkvikuna. Hvað myndar þennan þrýsting? Ekki efnið sem vellur upp úr útsjávarhryggjunum, heldur líklega iðustraumar í iðrum jarðar. Stenst það fræðin? Hvað eru slíkir iðustraumar (færibönd) djúpir og breiðir? Er þetta ekki höfuðverkur? (Ath, ég er ekki að boða frelsi frá höfuðverkjum, þvert á móti.)

Sökkbeltið var til staðar [milli Indlands og Asíu (RH: ég var reyndar að tala um Indland og AFRÍKU, en ok.)] og er núna undir Himalaya fjallgarðinum. Úthafsparturinn af Indlandsplötunni sökk undir Asíu flekann en þegar komið var að meginlandinu á plötunni að sökkva hætti sökkvunin og tvö meginlöndin 'krumpuðust' saman og mynduðu Himalaya fjöllin. Þannig lokaðist hafið á milli tveggja meginlanda, svipað og í tilfellinu með Atlantshafið. Ég ítreka enn og aftur að subduction zones er lykillinn að því að plötu tektóník kenningin virki.

Staldraðu endilega við þarna, Ásdís. Þú virðist gefa þér að Indland hafi flotið á fleka, rúllað á færibandi, óraveg (á Pangeu-myndinni) frá Afríku til Asíu. Norðurhlið úthafsparts flekans rakst þá fyrst á Asíu - væntanlega - og þrýstist undir Asíu. Var þá enginn sjávarbotn sunnan megin við Asíu fyrir? Jú, það hlýtur að vera, en ruddist Indland yfir gamlan sjávarbotn (og þá stækkaði Indlandsplatan jafnóðum -færibandið) eða "ruddi" Indland sjávarbotni á undir sér? - óbreytt færiband??)

Myndin sem kemur upp í huga mér er af Indlandi, áföstu Afríku. Svo myndast plötuskil (upp úr þurru?) þar á milli, Indlands-flekinn verður til fullskapaður (nær líklega allt til Asíu), færibandið fer í gang...og Indland flýtur að Asíu... með sjávarplötu á undan sér sem fellur undir Asíu jafnóðum....uns Indland klessir á Asíu og hleður upp Himalaya-fjöllunum. Er þetta rétt mynd?

Afríka=Af Indland=In Asía=As ...= úthaf

  1. (AfIn...As) 2. (Af.In..As) 3. (Af..In.As) 4. (Af...InAS)

Ef svo er þá ættum við líklega að sjá svona fyrirbæri núna, þ.e.a.s. meginland á floti við upphaf færibands...og langa leið fyrir höndum að næsta meginlandi....eða meginland hér um bil að ná ströndum annars meginlands...og allt þar á milli. Skilurðu myndina? Er hún ekki ósköp svipuð landreki, nema nú færast löndin ekki til á sjávarbotninum heldur sjávarbotninn á möttlinum... og meginlandsplötur fljóta á sjávarplötum?

En hvað blasir við þegar við skoðum kort plötukenningarinnar og höfum í huga aldur sjávarbotnsins?

Hvar er Suðurskautslandið statt á sínu færibandi? Hámiðju og gliðnunarbelti allt í kring.

Skoðum S-Ameríku. Er hún ekki á leið í vestur á sínu færibandi - alla leið frá Afríku? Hvar er úthafsparturinn af S-Ameríkuplötunni vestan meginn? Sokkinn í sæ og kviku?

Og Afríka er á leið í austur frá S-Ameríku. Hvernig er úthafshluti Afríkuplötunnar austan megin? Austan megin blasir við sama mynd og vestan megin....klór í haus... gliðnun báðum megin eins og í S-Ameríku, elsti hafsbotninn næst landi og svo gliðnunarbelti fær. Og svo er Sómalíuplatan að ganga í vestur, er það ekki, frá Afríku...eða hvað...nei, hún liggur að gliðnunarbelti í miðju Indlandshafi sem ætti að ýta Sómalíuplötunni að Afríku.

Kannski er það mín takmörkun en ég sé þetta ekki.

Eyjabogar eru sérstaklega áberandi í Kyrrahafinu. Þeir verða til þegar úthafsplata sekkur undir aðra úthafsplötu, hvernig ætli kenningin um stækandi jörð útskýri það?

Góð spurning. Áttu við eyjarnar austur og norður af Ástralíu? Taktu eftir að samkvæmt flekakenningunni eru þar bæði sökk- og gliðnunarbelti, allt í ruglingslegu kraðaki.

Nú er ég ekki orðinn talsmaður tilgátunnar en samkvæmt nasaþef mínum af þessum hugmyndum þá gengur mikið á í Kyrrahafi - þar er þenslan mest (og því afstæð hreyfing mest - kemur út sem Ástralía rifni frá Kína og N-Ameríku og sé á fleygiferð í suður). Við þetta rifnast og tætist sauðausturhluti Asíu og afleiðingarnar verða þessar eyjar.

En svo er áhugaverð pæling sem varðar af hverju þetta gerist einmitt þarna. Ef til vill er lykillinn að gátunni að þetta gerist við miðbaug.

Ef jörðin er að stækka, en meginlandsjarðskorpan ekki, myndast alls konar álag, tog og þrýstingur. Bæði við rof og sundrun og eins við það að skorpan lagar sig að flatara yfirborði. (Hafðu það í huga þegar þú skoðar sökkbelti.) En jörðin er líka að snúast...og slíkt hefur áhrif á veðurfar á jörðu, vinda og sjávarstrauma. Ég hef séð færð rök fyrir því að snúningurinn hafi líka áhrif á tilfærslu meginlandsflekana - en kann ekki að skýra það nánar - nema að norðurhvel er eitt (vatn skolast niður rangsælis) og suðurhvel annað (vatn skolast niður réttsælis) og þetta samspil veldur þessum usla þarna við Ástralíu. (Sel það ekki dýrara en ég keypti.)

En missum okkur ekki í aukaatriðum. Ég vil spyrja þriggja spurninga:

  1. Passa allir meginlandsflekar saman í eina heild á smærri jörð (um 55-60% af núverandi radíusi) þegar þeir eru dregnir að öllum gliðnunarbeltum, samkvæmt aldri sjávarbotnsins?

  2. Væri slíkt ekki óhugsandi - algjör tilviljun - samkvæmt ríkjandi hugmyndum í flekakenningunni (flakk fleka fram og til baka - nokkrar ofurálfur o.s.frv.)?

  3. Hvernig liti jörðin út EF ummál hennar hefði þrefaldast á 200 milljón árum? Er líklegt að þá sæjum við gliðnunarbelti um alla jörð, og bara gliðnunarbelti? Er líklegt að jörðin virtist vera að rifna á saumunum? Væri ekki "eðlilegast" að við blasti stigaukin gliðnun eftir því sem tíminn leið...afleiðing veldisvaxtar?

P.S. Áhugasamir geta skoðað umræður um þetta á geology-grúppu googleen þær einkennast um of af stælum.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/03/09 13:32 #

Nokkur myndbönd samkvæmt ráðandi plötukenningu:

Indlandshaf - öfug tímaröð

Atlantshaf - rétt tímaröð Takið eftir að höfundur sýnir sjó á meginlöndunum, sennilega til að gera grein fyrir steingervðum leifum sjávardýra þar, gallinn er þó að steingervðu leifarnar sjávardýranna í setlögum inni á meginlandsflekum eru mörgum sinnum eldri en gliðnun Atlantshafsins. Takið líka vel eftir bilinu á milli Asíu og Afríku í upphafi og sjáið Indland skjótast á ofurhraða yfir hálfan hnöttinn (lengst til hægri).

Atlantshaf svipuð útgáfa. Sjór á meginlandinu - Indland skýst í norður á ógnarhraða á meðan Ameríka og Evrópa/Afríka fara mun hægar. Var sjór á meginlandsflekunum fyrir 20-50 milljón árum? Í þessum mæli?

Það hljóta að hafa verið gríðarlegar breytingar sem áttu sér stað þegar/ef jörðin fór að stækka hraðar en meginlandsskorpan réð við. Þá hefur myndast alveg nýtt umhverfi. Sjórinn rann af meginlandsskorpunni og niður í gríðarleg gil - rifur í skorpuna - síðar "polla". En í sístækkandi pollum -höfum - myndaðist allt annars konar skorpa -(út)hafsskorpa - þyngri og neðar en meginlandsskorpan.

Elsta aldursmælda sjávarskorpan er um 250-280 milljón ára. Af henni er lítið til en eftir því sem aldur sjávarbotnsins yngist er til meira og meira af honum. Þetta segir þeim sem halda að jörðin hafi stækkað að stækkun jarðar fari stigvaxandi - hún gliðnar hraðar og hraðar (veldisvöxtur - sjá Maxlow). En hvenær ætli þetta hafi byrjað? Sennilega um það leyti eða skömmu áður en elsta útsjávarskorpan varð til - fyrir 250-280 milljón árum?

Nú vill svo til að líffræðin segir okkur að eitthvað stórkostlegt/hræðilegt hafi gerst fyrir um 250 milljón árum. Þá dóu um 90% af öllum sjávardýrum út...og 70% af hryggdýrum jarðar, þriðjungur skordýra. Þetta kallast Permian-Triassic-útdeyðingin. Enginn veit hvað olli henni. Hmmm.....

Langstærsti hluti sjávarbotnsins er 60-100 milljón ára. Ásdís sagði

Atlantshafið byrjaði að opnast aftur fyrir ~200 milljón árum þegar Pangea byrjaði að gliðna í sundur. Norður Atlantshafið byrjaði að gliðna í sundur fyrir ~60 milljón árum.

(Myndaðist ekki "pollur" milli norðvesturhluta Afríku og Bandaríkjanna...áður en allt fór á fleygiferð??)

Þeir sem halda að jörðin hafi stækkað segja að vöxturinn hafi stigmagnast. Glufur tóku að myndast í meginlandsskorpuna fyrir 250-280 milljón árum, hægt í fyrstu en fyrir 60-100 milljón árum var vöxturinn orðinn svo mikill að í stað lítilla gilja hér og þar og "smápolla (á við austurhelming Miðjarðarhafs, Japanshaf eða eitthvað svipað því aðeins austar og sunnar)" rifnaði jörðin bókstaflega á saumunum, kvika braust fram/upp/út og tvístraði misstórum brotum af meginlandsskorpunni.

Líffræðin sýnir aðra mikla en minni útrýmingu dýrategunda fyrir um það bil 65 milljónum ára og kennir hana við Crataceous-Tertilary. Enginn veit hvað olli henni. Hmmmm.....

Stækkandi jörð segir að allt hafi verið í nokkrum sóma í um 4.400 milljónir ára á hnettinum, hvað meginlandsskorpuna áhrærir. Ofan á hluta hennar var grunnur sær - rétt eins og setlög á landi benda til. En skorpan hætti að hafa undan vextinum eins og áður fyrir 250-280 milljónum ára - einmitt þegar nær allt sjávarlíf þurrkaðist út. En skilyrði breyttust ekki svo drastískt á landi aftur fyrr en um fyrir 60-100 milljónum ára þegar vöxturinn var orðinn svo mikill að meginlandsskorpan brotnaði í nokkra búta sem skildust að - einmitt þegar fardýr (risaeðlur) lentu í vanda, dýr sem gengu á milli heimsálfa, eins og farfuglar fljúga núna (ættingjar risaeðlanna).

Ef 2/3 hlutar hnattarins hafa verið þakktir sjó í milljarða ára er ógerningur að útskýra hvað olli útrýmingu 90% sjávardýra fyrir 250 milljónum ára (were there no safe havens?). Ekki satt?

Ef jörðin hefur stækkað, og það í veldisvexti, hafa alltaf myndast rifur í jarðskorpuna - en svo kom greinilega að því stigi að jarðskorpan hafði ekki undan að jafna sig - og greinileg, bersýnileg og mælanleg skil urðu á eldri skorpu og yngri (meginlandsskorpu og úthafsskorpu). Nýjasta yfirborðið er hlutfallslega stærst, það elsta smæst (að flatarmáli).

Ef jörðin hefur stækkað sæum við kannski saumana, þar sem jörðin er að rifna og nýtt yfirborð verður til, einmitt á milli mun eldri meginlandsfleka. Algengasta munstrið væri þá væntanlega að út frá hverjum meginlandsfleka væri úthafshryggur með tilheyrandi gliðnun, yngsta bergið alltaf næst úthafshrygg og elsta bergið í hverjum sjó við strönd meginlands.

Sennilega eru það þessar tilviljanir allar sem rugla mig í ríminu og valda að ég get ímyndað mér að jörðin hafi stækkað. En auðvitað stækkar hún ekki, jörð stækkar ekki, það vita "allir" (einhverra hluta vegna).


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 16/03/09 11:54 #

Steingervingafræðingurinn dr. Edwin H. Colbert átti í mörg ár erfitt með að kyngja tilgátu um rek meginlanda/fleka vegna þess að með steingervingum mátti færa rök fyrir tengingu N-Ameríku við Asíu, Ástralíu við Asíu og líka við Ameríku! (Kveikir einhver?)

Í þessum þætti má sjá Colbert tala um steingervinga sem hann fann á Suðurskautslandinu, láðs og lagarskriðdýr (sem gátu ekki synt yfir sjó), sem líka má finna í Afríku, Indlandi og A-Kína! (Kveikir einhver?)

Ég dáist að Colbert, heiðarleika og varfærni hans. Sjáið hvað hann engist þegar hann játar erfiðleikana! Hann sá tengingar sem gengu ekki upp á Pangeu/flekakenningunni, nema að hluta, og það stóð í honum árum saman. Það sem Colbert áttaði sig ekki á, og fræðingar nútímans ekki heldur, er að allt þetta leysist og gengur upp, ef allir þessir meginlandsflekar voru fastir saman á öllum þessum mótum, á smærri jörð.

Annars mæli ég með að fólk horfi á þennan þátt frá 1976! um plötukenninguna. Hvað eftir annað sér maður vandamál og smáar og stórar skekkjur, sem hverfa með stækkandi jörð.

There is a principle, which is a bar against all information, which is proof against all arguments and which cannot fail to keep man in ever lasting ignorance - that principle is contempt prior to investigation. Herbert Spencer

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.