Við erum best, aðrir eru aumingjar. Þannig hljómar boðskapur margra hálf-kristinna sem hafa á einhvern furðulegan hátt blandað saman trúarboðskap kirkjunnar og senofóbíu þjóðernishyggjunnar.
Einn slíkur er Bjarni Harðarson, yfirlýstur trúleysingi sem hælir kristnu siðgæði í bak og fyrir. Tilgangur Bjarna virðist einmitt vera að gera lítið úr þeim menningarheimi sem ekki telst kristinn. Boðskapurinn er einfaldur: Meðlimir hinna kristnu samfélaga (les: Vesturlandabúar) eru bestir, hinir eru aumingjar og ef ekki réttdræpir þá alla vega getum við sofið rótt þótt þeir séu drepnir í okkar nafni.
Þessi “siðaboðskapur” Bjarna, hversu ósiðlegur sem hann nú annars er, kemur vel í ljós í eftirfarandi tilvitnun:
Mig langar samt að bæta hér við úr vopnabúri hinnar kristnu siðfræði. Grundvöllur hennar sem stendur okkur næst á jólum er einmitt kærleiksboðskapur og fyrirgefningin. Elska skaltu óvini þína og fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Kannski er þessi boðskapur það sem sker kristnidóminn frá öðrum trúarbrögðum með afdráttarlausari hætti en nokkuð annað og lyftir siðferðisboðskap kristninnar á stall ofar þeim siðaboðskap sem gerir hefndina að aðal atriði. #
Þarna birtist skefjalaus hatursáróður en einnig furðulegur misskilningur (eða rangskilningur) á mannlegu eðli og sögulegu samhengi. Við getum jú öll verið sammála því að gæði samfélagsgerðar má fyrst og fremst meta út frá þeirri siðfræði sem þar er ríkjandi. Þetta vitum við og þetta veit Bjarni. Hann fullyrðir þessu næst að ein tegund samfélaga búi yfir siðfræði sem sé langtum fullkomnari en siðfræði allra annarra samfélaga. Þessi sjöttipartur jarðarbúa sem tilheyrir mannheimum, samkvæmt miðaldafræðum Bjarna, er á stalli langt ofar öllum hinum.
Hinir fimm-sjöttu jarðarbúa eru “afdráttarlaust” langt fyrir neðan okkar vestræna “kristna” siðferðisstall að mati Bjarna. Við hin fáu heppnu vestrænu kristniboðuðu übermensch erum hinir kærleiksríku en þó einkum fyrirgefandi herrar alheims sem eigum með réttu að hafa í höndum okkar líf og hamingju þess nöðrukyns sem fyrir neðan (les: sunnan og austan) okkur býr og “gerir hefndina að aðal atriði”.
Bjarni telur sig vita að fyrirgefningin sé uppfinning kristninnar, eða í það minnsta einkaréttur hennar. Það er þó merkileg fyrirgefning sem þar er að finna, útúrsnúningur fyrirgefningar væri kannski betri lýsing á þeirri furðulegu hugsun að það sé hægt að kaupa fyrirgefningu frá einhverjum himnasölumanni hamingjunnar.
Hinn kristni fær fyrirgefningu syndanna frá guði. Aðrir fá fyrirgefningu frá mönnum. Ef gyðingur syndgar gegn lögmálum guðs þá leitar hann til Guðs um fyrirgefningu. Ef hann syndgar gegn lögmálum manna þá leitar hann til manna um fyrirgefningu. Ef gyðingur slær Bjarna utanundir með beikonstykki þá sækir hann fyrirgefningu fyrir höggið til Bjarna en beikonið til Guðs.
Hinn kristni þarf, samkvæmt kristinni fyrirgefningu, aðeins að fá afsökun guðs. Hermenn Ísraels sem í dag drepa saklaus börn í Gaza þurfa að leita fyrirgefningar frá foreldrum þessara barna, ættingjum þeirra og samlöndum. Guð getur ekki fyrirgefið þeim. Hinn kristni hermaður sem drepur börn í Írak fyrir okkar hönd og Bjarna, þarf aðeins að fá fyrirgefningu frá Guði.
Hvor er nú betri siðfræðin?
Kristnin virðist einn trúarhópa hafa þróað með sér þá hugmynd að fyrirgefningu sé hægt að kaupa með þjáningu annarra. Hin upprunalega fyrirgefning syndanna var keypt með þjáningum Krists. Bjarni ætti að skoða þá merkilegu mynd, “The Passion of the Christ”, og þá skilur hann með hvaða gjaldmiðli hin kristna fyrirgefning er keypt. Hvert skipti sem Bjarni sækir kirkju þá getur hann skoðað krosshanginn, gjaldmiðil fyrirgefningarinnar, þetta dollaramerki kirkjunnar, þessi áminning kristninnar að fyrirgefningin er keypt með blóði annarra.
Á fyrstu öld okkar tímatals reis mikill spámaður og siðapostuli í eystri hluta Rómarveldis. Boðskapur hans var einfaldur: Elska skaltu óvini þína sagði hann og lagði sig persónulega í lífshættu til að framfylgja boðorði sínu. Spámaður þessi lagðist með skýrum og afdráttarlausum hætti gegn ofbeldi, gegn mismunun, gegn þrælahaldi. Hann var dáður og dýrkaður af sínum samtíma, talinn einhver mesti og heilagasti heimspekingur sem uppi hafði verið.
Hljómar þetta kunnuglega? Er þetta kannski lýsing á Jesú þeim Kristi sem Bjarni telur hafa sett okkur á þann siðferðisstall að við getum frjálst skitið eins og okkur sýnist á alla hina?
Jesú boðaði vissulega að við skyldum elska óvini okkar. En var hann á móti ofbeldi? Nei, enda var faðir hans (sem í hinum einstaka kristna ruglingi er jafnframt hinn eini Guð og þá um leið sonurinn sjálfur) mikill aðdáandi ofbeldis. Sá kaupsamningur sem pabbi gamli gerði við fylgismenn kristninnar er byggður á ofbeldi og dauða.
En var Jesú á móti mismunun? Var hann fylgjandi jafnrétti kynjanna, svo dæmi sé tekið? Nei, ekki er nú gott að sjá að svo hafi verið enda er ójafnrétti kynjanna eitt helsta einkenni kristninnar, jafnt hinnar lútersku sem kaþólsku.
Jesú hlýtur þá að hafa verið á móti þrælahaldi? Nei, ónei, ekki minnist hann á það. En Jesú leggur á hinn bóginn mikla áherslu á hlýðni við yfirvöld, að maður skuli sætta sig við hlutskipti sitt og þjóna valdherrum möglunarlaust. “Siðaboðskapur” sniðinn að þörfum kúgarans.
Hinn mikli siðapostuli fyrstu aldar hét Musonius Rufus og er nánast að fullu gleymdur. En víst er að hann flutti sinn boðskap áður en guðspjöllin voru skrifuð og ef aðeins guðspjallamennirnir hefðu lesið Rufus þá hefði kristnin kannski verið mannkyni sæmandi.
Fyrirgefningin átti reyndar sína guði meðal “heiðingjanna”, musteri fyrirgefningar stóð í Róm og musteri miskunarinnar stóð í Aþenu. Sem siðaboðskapur, með sérstaka áherslu á fyrirgefningu, nær sjálfsagt Jainismi lengst en upphaf hans má einkum rekja til 7. aldar fyrir okkar tímatal . Meðal þeirra sem hafa þegið siðaboðskap Jainismans og gert að sínum eru Mahatma Gandhi og Hindúar almennt, sem og súfistarnir sem eru enn í dag ríkjandi kennimenn innan hins suðræna Íslams.
Bjarni er einn þeirra sem boðar að heimurinn skiptist í manneskjur og ómanneskjur, í “okkur” og “hina” þar sem “hinir” eru óhjákvæmilega verri og lélegri og auðvitað vondari en við. Bjarni er fulltrúi þeirrar siðfræði sem byggir á óvild, ofbeldi og hefnd og sem birtist okkur hvarvetna þar sem fulltrúar okkar vestræna hugmyndaheims beita yfirburði tækni sinnar til að eyðileggja samfélög “hinna” með blóði og stáli, eldi og brennisteini. Þar birtist siðfræði hins kristna heims.
Bjarni hefði eflaust gott af því að kynna sér í hverju raunverulegt siðferði felst.
Ég fæ álíka mikinn kjánahroll þegar ég heyri hugtakið "kristið siðgæði" eins og þegar ég heyri "kristin vísindi."
Ég held satt best að segja að við hefðum meira upp úr því að stúdera "bonobo-apa siðgæði" og "bonobo-apa vísindi."
...with all due respect :)
Bíddu erum við ekki að lesa full mikið úr þessum orðum mannsins?
Það eina sem hann segir í raun er
"Kannski er þessi boðskapur það sem sker kristnidóminn frá öðrum trúarbrögðum með afdráttarlausari hætti en nokkuð annað og lyftir siðferðisboðskap kristninnar á stall ofar þeim siðaboðskap sem gerir hefndina að aðal atriði."
Og við lesum úr því
"skefjalaus hatursáróður" "er á stalli langt ofar öllum hinum. Hinir fimm-sjöttu jarðarbúa eru “afdráttarlaust” langt fyrir neðan okkar" "herrar alheims sem eigum með réttu að hafa í höndum okkar líf og hamingju þess nöðrukyns sem fyrir neðan" "Bjarni er einn þeirra sem boðar að heimurinn skiptist í manneskjur og ómanneskjur"
Er þetta ekki oftúlkun í það minnsta?
Sæll Haukur
Takk fyrir þessa ábendingu. Það er rétt að mér er heitt í hamsi og sjálfsagt líður þér eins og fleirum, að viðbrögð mín séu ekki í fullu samræmi við það sem í fyrstu virðist frekar sakleysislegt. Mig langar að skýra hvers vegna ég bregst svona hart við, skýringin er auðvitað löng og eflaust þvæld.
Siðaboðskapur Bjarna er yfirlýstur tvískinnungur frá upphafi. Hann er sjálfur trúlaus og tilkynnir það í titli færslunnar sem tilvitnunin er tekin úr. Þessu næst mærir hann siðferðisboðskap kristninnar sem hann virðist þó telja sjálfan sig hafinn yfir.
Framsetning hans á siðaboðskap kristninnar er einfeldningsleg. Hann telur kristninni til góðs allt sem fallegt er sagt eða túlkað út frá henni. En kristnin er trúarstefna en ekki heimspekistefna. Siðaboðskapur hennar er ekki algildur eða byggður á heimspekilegum rökum, hann er byggður á hræðsluáróðri, blóði og ofbeldi. Vilji maður mæra kristinn boðskap verður maður að taka allan pakkann.
Bjarni gerir það ekki - hann er ekki kristinn sjálfur en telur samt sem áður að kristnin sé miklu betri en allt annað. Þá skoðun sína byggir hann á misskilningi á því um hvað kristnin snýst en einnig á misskilningi um sögulegt samhengi kristninnar, hugmyndasögu almennt, og boðskap annarra trúarbragða.
Eins og ég hef sett þetta fram hérna þá virðist boðskapur Bjarna vera ruglinglslegur kannski, byggður á misskilningi, en hugsanlega vel meintur í sjálfu sér, hinn einfeldningslegi sveitamaður sem ekki veit betur en vill hið besta.
En það sem ég les úr boðskap Bjarna er miklu dýpra og svartara en svo. Textann verður að skilja í samhengi samtímans, í þeirri hugmyndafræði sem hann er hluti af. Sú hugmyndafræði birtist okkur einmitt nakin nú fyrir stuttu á vefsíðu nýstofnaðs stjórnmálaflokks (http://simnet.is/ihaldsflokkurinn/index.htm).
Undanfarinn áratug eða svo höfum við séð sífellt fleiri gæla við nýja tegund þjóðernissinnaðs fasisma sem skilgreinir sig út frá menningarlegum bakgrunni kristninnar. Hér er ekki um trúarhreyfingu að ræða heldur markvissan áróður einstaklinga sem sjá sér hag í að ýta undir hatur manna á millum.
Átök okkar samtíma eru átök lýðræðisríkja gegn trúareinræðisríkjum. Núverandi ástand er hluti af langri átakasögu lýðræðis gegn einræði, allt frá frönsku byltingunni. Gróft sagt getum við litið á 19. öldina og fram til loka fyrri heimsstyrjaldar sem átök lýðræðis gegn einræði konunga og keisara; árin fram yfir seinna stríð sem átök lýðræðisríkja annars vegar og einræði þjóðernissinnaðra fasista hins vegar; og tímann fram á síðasta áratug síðustu aldar sem átök lýðræðisríkja gegn einræði alþjóða kommúnismans.
Öll hafa þessi átakatímabil endað með sigri lýðræðisins og þess sem því fylgir, mannréttinda og frelsis. Í dag stöndum við frammi fyrir nýrri ógn gegn lýðræðinu og það er hin trúarlega frelsiskerðing, hið trúarlega einræði sem við sjáum einkum birtast í hinum múslímska heimi en hefur einnig sterk ítök víða í hinum kristna. Þessi 21. öld sem nú er að hefjast mun einkennast af þessari baráttu og mig grunar að hún verði okkur erfið og langsótt.
Við sem lifum í lýðræðislöndum teljum okkur vissulega ógnað af þessum öflum myrkursins sem að okkur sækja. Hræðslan leiðir til viðbragða og sagan sýnir okkur ágætt fordæmi frá áratugunum eftir fyrri heimsstyrjöld. Íbúar vestrænna lýðræðisríkja óttuðust kommúnismann en höfðu ekki alltaf trú á lýðræðinu. Fasisminn var þeirra svar, fasisminn átti að vera vopnið sem gæti sigrað kommúnismann.
Hliðstæðan í dag er augljós: Nú er það kristnin sem á að bjarga okkur frá hinum illu og hefnigjörnu "hinum" eins og Bjarni bendir okkur á. Bjarni tilheyrir þeim flokki manna sem telur núverandi átök trúarlegs eðlis og vill beita vopnum trúarinnar gegn óvininum. Nákvæmlega eins og fasistar 30. áratugarins töldu átökin snúast um styrk og völd, eina tegund einræðis gegn annarri. Aðrir sáu sem satt var að átökin snerust um frelsi gegn helsi og til allrar hamingju voru þeir fleiri. Eitt land skar sig þar úr, Bandaríkin, en án aðkomu þeirra á hlið frelsisins þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum.
Fasisminn leiddi af sér síðari heimsstyrjöld af því að honum tókst með sannfærandi hætti að skipta heiminum í þá sem eru með og þá sem eru á móti, og honum tókst að gera átökin að menningarlegum átökum en ekki stjórnmálalegum. Hinir trúlausu kristniboðarar samtímans vinna að sama marki - þeir sjá átök nútímans ekki sem stjórnmálaleg, ekki sem lýðræði gegn einræði, heldur sem þjóðernismenningarleg - okkar menning gegn þeirra menningu, þar sem menning er skilgreind út frá ríkjandi trú.
Bjarni veit að þessi skilningur á átökum nútímans blundar í mörgum og hann veit að það er hægt að ýta undir þennan skilning, ýta undir hatrið og óþolið gegn "hinum". Að því leytinu líkist þetta tilraun Frjálslyndaflokksins til að ala á útlendingahatri til að afla sér fylgis. Munurinn er þó sá að Frjálslyndir voru of einfaldir, útlendingahatur er of líkt fasisma 20. aldarinnar til að ganga. Sambærilegar tilraunir annars staðar í Evrópu heppnuðust sums staðar en hafa síðan lognast út af.
Kristnifasisminn er hin lævísa en illa stjúpsystir þjóðernisfasismans. Með kristnifasisma er hægt að búa til "okkur" og "hina" með 2000 ára hefð á bak við sig. Með því að endurskilgreina okkar upplýsta lýðræðislega samfélag sem kristið samfélag í trúarlegri andstöðu við íslam er hægt að æsa upp til ofbeldis og haturs innan viðtekins ramma. Þetta sjá menn eins og Bjarni og þó hann hafi eflaust ekki annað markmið en eigin völd innan litla Íslands þá er hann engu að síður peð í þeirri hreyfingu sem á eftir að leiða yfir okkur hörmungar 20. aldarinnar eina ferðina enn.
Boðskapur Bjarna er miklu hættulegri en trúaráróður presta í skólum. Það eitt að einstaklingur taki kristna trú er ekki samfélaginu hættulegt. Boðskapur Bjarna er ekki aðeins að við skilgreinum okkur sem kristið samfélag (en ekki lýðræðislegt eða frjálst samfélag) heldur og ekki síður að kristnin veiti okkur með einhverjum hætti gæðastimpil sem önnur samfélög hafi ekki, geri okkur "kristnu" að betri manneskjum, raunverulega mennskum manneskjum, í samanburði við hina sem eru á einhvern hátt ómennskir og illir. Í ljósi samtímans eins og við þekkjum hann og eins og Bjarni þekkir hann þá er þessi boðskapur jafngildur stríðsáróðri.
Kannski skilur þú núna Haukur hvers vegna ég tek boðskap Bjarna svona óstinnt upp. Kristnifasisminn er stórkostlega hættulegt fyrirbrigði sem getur leitt til raunverulegs dauða, raunverulegra þjáninga. Bjarni er meðvitaður kristnifasisti, einn sá lævísasti í þeim flokki, og einn af fáum sem hefur tækifæri til að hafa raunveruleg áhrif.
Andúð mín á boðskap Bjarna er því í raun pólítískur í þessum skilningi, en á sama tíma trúarlegur - þótt við Bjarni séum báðir trúlausir! En hann ætlar sér að nota trú eða hálftrú annarra málstað sínum til framdráttar. Það er á vettvangi trúarinnar sem baráttan á sér stað og því er Vantrú og aðrar stofnanir sem berjast gegn ofuráhrifum trúarinnar jafn gríðarlega mikilvægar og raun ber vitni.
Óskapleg læti eru í ykkur, strákar.
"Skefjalaus hatursáróður" hjá honum Bjarna? Nei, fjarri fór því, en vilji menn leita að einhverjum slíkum, sýnist mér nú stutt í hann í þessari vefgrein.
Og gleðilegt ár, Brynjólfur!
Vá. Rosalegt. Brynjólfur kemur með vel skrifuð og vel ígrúnduð rök, og þú sigrar rökræðsluna bara með "Djös væl. Þú hefur rangt fyrir þér."
Meistari.
flott grein, vel skrifuð og all það en er ekki kominn tími á að slaka aðeins á móðursýkinni með fullri virðingu. Hvað gerði þessi Bjarni þér?
flott grein, vel skrifuð og all það en er ekki kominn tími á að slaka aðeins á móðursýkinni með fullri virðingu. Hvað gerði þessi Bjarni þér?
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Reynir (meðlimur í Vantrú) - 16/01/09 09:43 #
Þetta er alveg í takt við hroka biskupsfeðganna, kristnin er best og ber af. Þetta segja þeir í öðru orðinu en þykjast svo manna lítillátastir og hógværastir í hinu.
Kristnir hafa guð sem ber af öðrum guðum, siðaboðskap sem er öllum öðrum siðaboðskap æðri, þeir eru auk þess í persónulegu sambandi við þennan stórmerkilega guð og geta haft áhrif á gerðir hans, eigið líf og annarra, með bænakvaki sínu. (Þannig á til dæmis að bjarga málum í Gaza hér á landi á sunnudaginn.)