Í pistli mínum á vetrarsólstöðum vék ég nokkrum orðum að upphafi eingyðistrúar í Egyptalandi. Ég hef löngum verið heillaður af sögu Egyptalands og tvisvar sótt það heim. Eflaust eru pýramídar það fyrsta sem kemur upp í huga manna þegar minnst er á Egyptaland, hugsanlega grafir faraóa og fjársjóðir þeirra en það eru þó ekki síst musterin sem eru mér minnistæð.
En hvaða erindi eiga hugleiðingar sem þessar á vef vantrúar? Jú, þetta tengist allt saman trúarbrögðum, hindurvitnum. Það var ótti faraóanna við dauðann, eða löngun í eilíft líf, sem hrakti þá eða hvatti til að reisa pýramídana, varðveita líkin og hrúga fjársjóði í grafirnar.
Þegar fjallað er um fimm þúsund ára sögu er auðvitað ekki hægt að alhæfa neitt. Þeir faraóar sem byggðu pýramídana (t.d. Keops) voru t.d. uppi eitt þúsund árum fyrr en þeir sem grófu grafirnar í Dal konunganna (t.d. Tutankamon). Þúsund árum síðar réð Kleópatra svo ríkjum og síðan eru liðin rúmlega tvö þúsund ár.
Ég ætla ekki að rekja söguna, jafnheillandi og hún er, heldur deila hugleiðingum um það sem má e.t.v. læra af henni. Eins og ég sagði áðan eru það ekki síst öll musterin sem standa upp úr í minningunni en það er hægur vandi að fá nóg af þeim á vettvangi og verða snarringlaður. Tökum Karnak-musterið í gömlu Þebu sem dæmi. Það var byggt á 1.300 árum, hver faraóinn á fætur öðrum byggði við það á 100 hektara landi. Þegar Ramses II réð ríkjum (fyrir 3.170 árum) voru 433 aldingarðar við musterið, 421 þúsund skepnur, 65 þorp, 83 skip, 46 vinnustofur og þar unnu 81 þúsund manns!
Musterin voru greinilega atvinnuskapandi en prestarnir voru ekkert líkir þessum prumphænsnum sem við sjáum galandi hér á landi yfir sauðum sínum. Í þá daga voru prestarnir þjónar guðanna, þeir færðu þeim mat, klæddu þá, þvoðu o.s.frv. (Guðirnir voru ekki óáþreifanlegir heldur bjuggu þeir í styttunum.).
Er eitthvað vit í þessu? Hver pýramídi var grafhýsi fyrir einn mann en kröfðust áratugavinnu tuga þúsunda manna. Grafir faraóanna eru heldur engin smámannvirki, listilega skreytt trúarlegu myndletri og myndum (ekki veraldlegum). Lík þeirra voru þurrkuð og reifuð, líffærin látin í sérstök ílát og með þeim grafnar veraldlegar eigur, ómældir fjársjóðir, gull, silfur og eðalsteinar.
Egyptar nútímans njóta nú góðs af öllu þessu vegna ferðamanna eins og mín, en hvað ætli venjulegur Egypti hafi hugsað um þetta í gegnum aldirnar? Var hægt að verja þessari orku, skipulagningu, vinnu og auðæfum í eitthvað gáfulegra? Þegar blómabarnið Akenaten ákvað að kasta gömlu guðunum fyrir róða og tilbiðja sóldiskinn einan, hunsaði hann herinn, musterin og prestana – þjóðfélagið riðaði til falls. Sterkt Egyptaland valt á styrkri stjórn og skipulagi, en var skipulag óhugsandi án presta, mustera og faraóa sem litu á sig sem millilið guða og manna, hálfguði eða hreinlega guði?
Og erum við virkilega ekki komin lengra árið 2009 en að þurfa enn að burðast með heila stétt manna sem þykist vera fulltrúar guðs á jörðu? Getur það verið? Þurfa Íslendingar virkilega að verja fimm eða sex þúsund milljónum árlega í að halda æðri mætti góðum eða segja honum fyrir verkum, byggja honum hús og hallir?
Við dáumst að ríkidæmi forn-Egypta, en því var komið á með styrkri stjórn, einræði og yfirgangi gagnvart nágrannaríkjum. Faraóinn gat ekki haft rangt fyrir sér því hann var guð, eða í beinu sambandi við guðina. Á þessu grundvallaðist ríkidæmið sem við dáumst að núna. Um þessar mundir er önnur þjóð, skammt frá Egyptalandi, að murka lífið úr nágrönnum sínum. Við dáumst að Ísraelsmönnum fyrir að byggja upp landið og rækta það, en það er gert á kostnað þeirra sem þar bjuggu fyrir. Hörmungum Palestínumanna verður tæpast með orðum lýst, en jafnvel hér á landi eru menn sem verja hroðalegan yfirgang Ísraela og kúgun... vegna þess að Ísraelsmenn eru guðs útvalda þjóð.
Guðir eru bölvaldar.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.