Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að skuldsetja komandi kynslóðir

Tölulegar staðreyndir þvælast mjög fyrir íslenskri prestastétt ef marka má viðbrögð við greinaskrifum mínum um prestlaun. Tvö dæmi ættu að nægja til að sýna lesendum fram á það.

Tvöföld laun

Í þættinum Í bítið þann 28. október sl. hélt sr. Vigfús Árnason því fram að prestar væru á svipuðum launum og framhaldsskólakennarar. Eflaust hefur sr. Vigfús kannað þetta mál til hlítar en eitthvað hefur talnalæsið verið að trufla hann því samkvæmt tölum frá KÍ nema meðal heildarlaun framhaldsskólakennara um 400 þúsund á mánuði en sambærileg tala fyrir presta er um 800 þúsund, mv. fjárlög og 60. grein laga um stöðu Þjóðkirkjunnar. Þarna skeikar ekki nema tvöföldu hjá sr. Vigfúsi – og mætti muna um minna. Til samanburðar eru meðal heildarlaun á almennum vinnumarkaði um 300 þúsund á mánuði.

Tífaldur arður

Annað gott dæmi um talnaskilning prestastéttar er grein sr. Gunnars Jóhannessonar sem birtist í Morgunblaðinu þann 23. nóvember sl. Ekki tekst sr. Gunnari betur til við lesturinn en svo að hann telur mig halda því fram að „ár hvert þiggi kirkjan upphæð sem sé tíu sinnu hærri en raunverulegt andvirði seldra kirkjujarða“.

Þarna hefur sr. Gunnar misskilið mig illilega. Ég held því aðeins fram að kirkjan fái tífalda arðgreiðslu af þessum sömu kirkjujörðum. Skoðum það nánar.

Samningur til eilífðar

Samningur milli ríkis og Þjóðkirkju er í grunninn frá 1907 en var endanlega lögfestur árið 1997.

Sr. Gunnar lýsir honum svona: „Samkvæmt [samningnum] felast launagreiðslur presta í arðgreiðslu af höfuðstóli þeirra eigna sem höfðu réttilega tilheyrt kirkjunni en ríkið tók yfir“.

Í viðtali við Markaðinn 9. apríl sl. segir Guðmundur Þór Guðmundsson framkvæmdastjóri Kirkjuráðs: „Við lítum á greiðslu ríkisins til Þjóðkirkjunnar á fjárlögum sem endurgjald fyrir kirkjujarðir ... Þetta eru sex til sjö hundruð jarðir“.

Hver er höfuðstóllinn?

Til að átta sig á tölulegum grundvelli samningsins þarf að skoða hvert raunverulegt verðmæti innlagnarinnar, kirkjujarðanna, er. Þar ætti að vera kominn höfuðstóllinn sem stendur undir arðgreiðslunum.

Önnur leið til að nálgast höfuðstólinn er að skoða arðgreiðslurnar sjálfar sem greiddar eru á hverju ári úr ríkissjóði. Höfuðstóllinn er þá sú upphæð sem ríkið þyrfti að afhenda kirkjunni ef til uppsagnar samnings kæmi, upphæð sem myndi tryggja kirkjunni sömu arðgreiðslu.

Auðveldir útreikningar

Það er auðvelt að reikna þetta. Útreikningar eiga ekki heima í blaðagrein en á vefsíðu minni eru allir útreikningar útlistaðir ásamt heimildum.

Reiknað er með því að 700 jarðir hafi verið lagðar inn í ríkissjóð. Nokkrar mismunandi leiðir eru færar til að gera sér grein fyrir þvi hversu mikils virði þetta jarðasafn er í raun og veru en allar leiða þær að sömu niðurstöðu, að heildarandvirði jarðanna sé af stærðargráðunni 10 milljarðir.

Samkvæmt fjárlögum næsta árs eru framlög til Þjóðkirkjunnar umfram sóknargjöld 2,5 milljarðir. Höfuðstóllinn sem stendur að baki þeirri greiðslu er sú upphæð sem, sett í örugga langtímafjárfestingu, gæfi 2,5 milljarði í arð.

Höfuðstóll sem gæfi af sér 2,5 milljarði í arð til lengri tíma er af stærðargráðunni 100 - 250 milljarðir. Þessi upphæð er hið allra minnsta tíföld hin raunverulega innlögn. Þetta kallast þúsund prósent ávöxtun og er forvitnilegt að vita hvort aðrir geti lagt inn eignir sínar í ríkissjóð með sömu ávöxtun.

Að skuldsetja komandi kynslóðir

Kirkjan semur ekki til ára eða áratuga heldur um ókomna framtíð. Núverandi samningur er þegar orðinn einnar aldar gamall og í framkvæmd samningsins kemur í ljós að ríkið hefur skuldsett sig svo nemi hundruðum milljarða um ókomna framtíð.

Á ellefu árum frá því samningurinn var lögfestur í núverandi mynd hefur árleg greiðsla aukist um 3% á hverju ári að raungildi. Höfuðstóllinn hefur þá hækkað með sama hraða. Þessi hækkun er í samræmi við launavísitölu enda kveður samningurinn á um arðgreiðslur í formi launa. Hækkunin er því innbyggð í samninginn.

Árleg hækkun upp á 3% jafngildir rúmlega tvöföldun á hverjum aldarfjórðungi. Skuld ríkisins við Þjóðkirkjuna tvöfaldast því að raungildi fyrir hverja kynslóð, tuttugfaldast á 21. öldinni!

Það er aðeins ein leið út úr þessum skuldaklafa: Að segja þessum samningi upp og slíta sambandi ríkis og kirkju. Kirkjan hefur enda fengið andvirði jarða sinna margfalt til baka og á enga heimtingu á frekari greiðslum úr ríkissjóði.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í gær, 21.12.2008.

Brynjólfur Þorvarðarson 22.12.2008
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Steini - 22/12/08 17:43 #

Linkurinn á síðunni þinni um útreikninga virkar ekki, væriru til í að laga það, áhugavert að sjá útreikningana.


Thork - 23/12/08 09:22 #

Linkurinn á síðunni þinni um útreikninga virkar ekki, væriru til í að laga það, áhugavert að sjá útreikningana.

+1.


anna benkovic - 23/12/08 18:16 #

Lögverndaður þjófnaður frá þeim sem kæra sig ekki um presta og leikhús þeirra!


Brynjolfur Thorvardarson (meðlimur í Vantrú) - 24/12/08 11:51 #

Linkur kominn i lag!


Ómar Harðarson - 26/12/08 14:52 #

Ertu viss um að hafa reiknað launin rétt?

Ég er algerlega sammála því að það beri að segja upp þessum samningi um "greiðslur" fyrir jarðirnar. Hins vegar sýnist mér þú, Brynjólfur, hafa eitthvað misreiknað þig með launin. Það er ekki eðlilegt að deila í heildarsummuna með fjölda presta, því þá eru launatengd gjöld talin sem laun þeirra, sem venjulega er ekki gert. Síðustu tölurnar eru frá Kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna fyrir fyrri helming ársins 2007 (http://frontpage.simnet.is/kos). Þá voru heildarlaun presta (ákveðin af Kjaranefnd) að meðaltali um 540 þús. á mánuði eða um 30% hærri en BHM félaga (framhaldsskólakennarar eru ekki birtir). Sæmileg laun, en langt frá því að vera tilefni til hneykslunar.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 27/12/08 00:42 #

Það er langt því frá að heildarlaun presta séu 540 þús. að meðaltali.

Grunnlaunin sem ákveðin eru af kjararáði eru 473.549 kr. Við það bætast minnst 15 og allt að 24 einingar á mánuði, eftir stærð sóknar. Hver eining er 6171kr. Lágmarkslaun presta eru því rúm 566 þús. Hæstu grunnlaun presta fara upp fyrir 620 þús. Þá eru ótaldar greiðslur fyrir embættisverk og öll önnur fríðindi. Sjá nánar hér.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 27/12/08 12:09 #

Sæll Ómar

Það er ekki gott að átta sig á heildarlaunum presta. Eins og Baldvin bendir á eru ýmsar greiðslur sem þarf að reikna með inn í dæmið og það er langt frá því að það liggi allt ljóst fyrir. Fastur kostnaður, niðurgreidd húsaleiga, greiðslur fyrir embættisverk osfrv. eru nokkur dæmi.

Það að taka heildarkostnaðinn, þ.e. launagreiðslurnar, og deila í með heildarfjöldanum er ágætis nálgun, ég bendi líka á að þar með fær maður brúttólaunakostnað launagreiðanda - sem er alltaf aðeins hærri en launin sjálf.

Við getum skipt launakostnaði launagreiðanda þannig að ákveðinn hluti, "laun", er skattskylt af hendi launþega, en annar hluti, "launatengd gjöld", er ekki skattskyldur - og telst því ekki til launa. Eftir því sem ég get best séð er þar eingöngu um tryggingargjald að ræða, sem er 5,7%. Að því gefnu að Biskupsstofa greiði tryggingargjald þá má lækka brúttólaunin um c.a. 5% til að komast að heildarlaunum - sem er innan skekkjumarka hjá mér og breytir því ekki niðurstöðu að neinu marki.


Ómar Harðarson - 27/12/08 12:28 #

Enn um útreikninga á launum presta og röksstuðning fyrir góðum málstað

Takk fyrir svarið Brynjólfur.

Ég ætla ekki að munnhöggvast við þig. Ég sagði ekki að "heildarlaun presta séu 540 þús. að meðaltali", heldur að svo hafi verið fyrri helming ársins 2007. Síðan þá hefur kjararáð (ekki kjaranefnd eins og ég misnefndi í fyrra innleggi) ákveðið þrjár launabreytingar, 1. júlí 2007 að meðaltali 2,6%, 1. janúar 2008 2% og 1. maí 2008 20.300 kr. hækkun. Þessar hækkanir ofan á 540 þúsundin gera ca. 586 þúsund á mánuði að meðaltali, þ.e. innan þess ramma sem þú nefnir en all nokkuð lægra en 800 þúsund. Þar sem laun BHM félaga hafa hækkað svipað, þá er munurinn þó hlutfallslega svipaður, eða um 30% hærri laun presta en að meðaltali meðal háskólamanna.

Hvað sporslur varðar, svo sem greiðslur fyrir hvers kyns "þjónustu", dagpeninga, ódýrt húsnæði osfrv. Til að halda því til haga, þá hafa margir aðrir háskólamenn sambærilegar "sporslur", menn fá greitt fyrir að skrifa í tímarit, flytja erindi, menn fara á ráðstefnur, fá dagpeninga, ökutækjastyrk, símatengingar og ef þeir þurfa starfs síns vegna að flytjast búferlum þá gera flestir kröfur til þess að vinnuveitandinn taki einhvern þátt í því.

Ekkert af þessu skiptir þó neinu máli. Aðalatriðið er að heildargreiðslurnar (800 þús. á mánuði pr prest) eru samanlagt of háar, arðgreiðslurnar af verðmæti jarðanna sem ríkið á að hafa tekið af kirkjunni standa engan veginn undir þessum fjárhæðum. Það er því eðlilegt að segja upp þessum samningi. Þó það feli í sér að kirkjunni verði greitt andvirði eignanna í einu lagi, eða þeim afhentar eignirnar aftur (að svo miklu leyti sem þær eru enn í eigu ríkisins) þá verður bara svo að vera, það verður alltaf ódýrarara fyrir okkur og komandi kynslóðir en núverandi fyrirkomulag.

Ég get hins vegar engan veginn tekið undir þá öfundarsýki sem marga hrjáir sem felst í því að sjá ofsjónum yfir launum annarra. Hér er ég ekki að tala um ofurlaunamennina sem nýverið voru vinsælir hér á landi. Að þeim slepptum eru góð laun hjá nágrannapresti bara hvatning til að biðja um sambærileg laun sjálfur.

Þess vegna finnst mér leiðinlegt að a) góðum rökum sé spillt með ónákvæmni í útreikningum og b) að góður málflutningur sé afvegaleiddur með því að blanda inn í hann aukaatriðum.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 27/12/08 13:18 #

Sæll Ómar

Kostnaður launagreiðanda vegna greiddra launa hlýtur að vera í einhverjum tengslum við hin greiddu laun? Sr. Vigfús bar prestalaun saman við laun framhaldsskólakennara, ekki ég. Heildarlaun framhaldsskólakennara eru einmitt það, heildarlaun. Innbyggðar sporslur umfram greidd laun eru engar. Ekki það að ég telji menn almennt fá of mikil laun, mín vegna mætti tvöfalda laun framhaldsskólakennara. Prestar telja sig hins vegar fá of mikil laun samanber hina slæma samvisku þeirra sem sr. Vigfús sýnir.

Talan sem þú vitnar í, 540 þúsund, á fyrri hluta ársins 2007, uppreiknað til 586.000, er sambærilegt við það sem Baldvin bendir á, 566.000, sem er lágmarkslaun samkvæmt ákvörðun Kjararáðs. Ef þetta væru raunveruleg heildarlaun presta þá er framlag til Biskupsstofu langt umfram það sem samningurinn kveður á um, sem nemur 300 milljónum eða svo. Samningurinn er lögbundinn, greiðslan er á fjárlögum. Ég sé ekkert athugavert við að reikna launin út frá þeim tölum og ég get ekki séð að það sé "rangt" reiknað.

Liðurinn "laun presta og prófasta" var um 80% áf framlagi til Biskupsstofu fyrir rúmum tíu árum, hin 20% voru kostnaður vegna reksturs Biskups, vígslubiskupa og Biskupsstofu. Það er engin ástæða til að ætla að þetta hafi breyst. Miðað við fjárlög næsta árs er launakostnaður ríkisins á hvern prest og prófast að meðaltali 790.000 krónur sem er mun meira en þau uþb. 600,000 að meðaltali sem fást samkvæmt úrskurði Kjararáðs. Mismunurinn hlýtur að felast í öðrum greiðslum - og mig grunar að þar séu margar greiðslurnar skattfrjálsar, t.d. fasti kostnaðurinn.

Það er alls ekki óeðlilegt að bera þetta svona saman, framhaldsskólakennarar fá aðeins sín laun sem eru að meðaltali 400.000, prestar fá fullt af mismunandi sporslum og eina leiðin til að reikna heildarlaunin er með þessum hætti.

Þú telur að ég sé að reikna "rangt", ég sé ekki að þú hafir getað sýnt fram á það. Þú verður að skýra betur hvað er "rangt" við þessa útreikninga áður en þú ferð að segja ég spilla góðum málstað með klaufaskap - sem má vel vera að ég geri, en mér þætti þá vænt um að fá betri rök fyrir því.


Ómar Harðarson - 01/01/09 01:01 #

Sæll Brynjólfur

Afsakaðu hversu seint ég bregst við. Ég gáði ekki að því að þú hefðir svarað um hæl.

Þú biður mig um rökstuðning fyrir máli mínu. Þær eru þessar: Fyrir hverja krónu sem launagreiðandi (ríkið) greiðir í laun, þarf hann að greiða einhverja aura í launatengd gjöld, s.s. tryggingargjöld, lífeyrissjóðsframlag, vísindasjóðsframlag, styrktarsjóðsframlag, etc. Þá þarf vinnuveitandi að gera ráð fyrir að x margir dagar tapist vegna veikinda eða fæðingarorlofs eða annarrar fráveru og greiða fyrir afleysingar vegna þessa. Þessar aukakrónur teljast í þessum u.þ.b. 800.000 krónunum sem þú hefur réttilega reiknað en ekki í því sem ég og þú köllum venjulega laun, þ.e. það sem hver einstakur meðalprestur fær í vasann. Þegar talað er um launakostnað ríkisins per prest er rétt að tala um hærri upphæðina, þegar hins vegar er talað um laun prestanna þá er sú upphæð sem er næst lagi sennilega í kringum 586 þúsund.

Ég óska þér og þínum gleðilegs og spennandi árs! Hver veit nema að við hreinsun hins gamla innvígða Íslands muni menn uppgötva að kirkjan er eitthvað sem skattgreiðendur geta alveg verið án.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.