Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúarbrögðin "okkar"

Nýverið gaf Námsgagnastofnun út bókina Trúarbrögðin okkar eftir Hrund Hlöðversdóttur. Ég las bókina sem ætluð er yngstu bekkjum grunnskóla og var ekki hrifinn.

Grunnhugmyndin að bókinni er greinilega sótt í aðalnámskrá grunnskólanna þar sem segir að börn í 2-4 bekk eigi að kynnast trúarbrögðum með sögum af jafnöldrum sínum. Ég ætla ekki að tala hér um hve vitlaus hugmynd það er að merkja börn eftir trúarbrögðum foreldra sinna, það er efni í aðra grein.

Bókin segir frá því þegar fimm börn koma í heimsókn í skóla og segja frá trúarbrögðum foreldra sinna. Þessir foreldrar eru búddistar, hindúar, múslimar, gyðingar og (þjóðkirkju) kristnir. Fulltrúi kristni er alíslensk, hvít, ljóshærð og bláeygð stelpa. Hin börnin virðast vera innflytjendur eða börn innflytjenda. Engum virðist hafa dottið í hug að þarna væri verið að ýta um of undir staðalmyndir. Hve erfitt hefði verið að hafa fulltrúa kristninnar líka barn innflytjenda og/eða láta einhvern af hinum fulltrúunum vera ljóshært og bláeygt barn?

Augljóslega þarf miklar einfaldanir þegar verið er að útskýra hluti fyrir börnum en á köflum er það gert í óhófi. Enginn greinarmunur er gerður á ólíkum tegundum kristni þó þar sé mikil fjölbreytni. Raunar er áhugavert að Hrund telji nauðsynlegt að hafa fulltrúa kristni því ekkert er minnst á það í námskránni enda er þar talað um nauðsyn þess að kynnast "framandi trúarbrögðum". Þegar gyðingdómur er kynntur telur höfundur enga þörf á að greina á milli gyðinga sem almenns hóps og sem trúarhóps. Síðan er sagt að "allir" gyðingar hafi bænaskrín við dyrnar sínar.

En að sjálfssögðu er það trúleysið sem fer verst út úr bókinni. Raunar er minnst á að til sé fólk sem trúi ekki á guð og hafi ekki trúarbrögð en upphafning trúarbragðanna í bókinni er aftur á móti algjört. Orðrétt segir:

Trúarbrögðin kenna okkur að þykja vænt um hvort annað og þau hjálpa okkur til að eignast vini. Ef allir færu eftir því sem trúarbrögðin boða gerðust færri slæmir hlutir í heiminum. Þá gætum við lifað saman eins og ein stór fjölskylda.

Lesið þetta aftur og mátið þetta við stöðu mála í heiminum í dag. Eru trúarbrögð að hjálpa fólki að lifa saman í friði eða stuðla þau að ofbeldi? Eiga Osama bin Laden og George Bush ekki það sameiginlegt að reyna að gera það sem trúarbrögðin boða þeim? Hitler taldi sig líka skilja raunverulega hvað Jesús var að tala um og það sama á við Lúther sem predikaði ofsóknir gegn gyðingum. Ef við efuðumst ekki um það sem trúarbrögðin boða þá hefði Upplýsingin aldrei átt sér stað. Án Upplýsingarinnar hefðum við augljóslega ekki nútíma læknavísindi eða neina aðra þekkingu sem hún leiddi af sér.

En það sem er verst við þessa klausu er að sjálfssögðu að þar er sterklega gefið í skyn að trúlausir séu siðlausir. Þeir fara ekki eftir því sem trúarbrögðin boða og eru því væntanlega að stuðla að því að slæmir hlutir gerist í heiminum. Þetta er svívirðilegur boðskapur. Í umræðum fyrir áramót sást vel hve fordómar gegn trúleysingjum eru útbreiddir. Það er því sérstaklega ógeðfellt að Námsgagnastofnun taki þátt í að koma þessum boðskapi til barna. Það væri ákaflega einfalt að skrifa kennslubók sem væri hlutlaus og fræðandi fyrir börn. Þessi bók er það ekki. Hún er einfaldlega áróður.

Óli Gneisti Sóleyjarson 28.11.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Skólinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 28/11/08 09:30 #

Þessi Hrund er greinilega "bláeyg" mjög. Svo kann hún ekki einu sinni íslensku. Eru áróðursrit kristlinga ekki einu sinni prófarkalesin áður en þeim er troðið ofan í kokið á börnunum?

Gaman væri að heyra álit móðurmálskennara á þessu textabroti.

Falleinkunn í sögu, falleinkunn í heimspeki, falleinkunn í íslensku. Gæfulegt er það.


Sveinn - 28/11/08 09:43 #

Ég er algjörlega sammála. Nú kenni ég í 4. og 5. bekk og á einmitt að fara að kenna þessa bók á næstu önn.

Þegar ég skoðaði hana fyrst varð mér einmitt hugsað til orða Dawkins um að ekki ætti nota trúarbragðastimpilinn á börn heldur á foreldra þeirra.


Ásta Elínardóttir - 28/11/08 12:45 #

Ég hef löngum hlegið að þessari staðaltýpu sem ávallt er verið að troða ofan í fólk.

Það var nú svoldið skrítið að þekkja svartan strák eftir að hafa lesið litla svarta Sambó oft sem barn!

En frekar skal ég ala upp siðLAUST barn en siðBLINT.


Kristján Hrannar Pálsson - 28/11/08 13:14 #

Þessi grein á brýnt erindi í fjölmiðla.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 28/11/08 18:11 #

Það væri gagnlegt að fá myndir úr þessari bók.


Haukur Kristinsson - 28/11/08 19:35 #

Þvílíkt bull. Kennið börnunum frekar kenningar Darwins. Skal þetta vera einhver kjánaleg ísl. útgáfa af "intelligent design"? Börn í dag eru líka það vel upplýst, að þau láta ekki bjóða sér svona vitleysu.


Tryggvi Baldursson - 28/11/08 21:09 #

Tek undir orðin hér að ofan, að þessi grein á erindi í fjölmiðla.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 28/11/08 22:55 #

Athugasemd Hauks Kristinssonar lenti í spamsýju og fór því ekki á síðuna fyrr en nú.


Trútti - 28/11/08 23:23 #

Tek undir að þessi grein eigi fullt erindi í fjölmiðla. Það þarf virkilega að vanda til verka við framsetningu námsefnis af þessu tagi. Þar sem ég á nokkur börn og eitt á leið í skóla verð ég greinilega að kynna mér þessa bók betur. Takk fyrir ábendinguna.


Björn Ómarsson - 28/11/08 23:28 #

Mikið óska ég þess nú að þú sért mjög óheiðarlegur maður, Óli, og að þessi tilvitnun sé gróflega slitin úr samhengi. Það er mun skárri tilhugsun en að þetta sé raunverulega það sem börnum er kennt: trúðu á guð, annars eignastu ekki neina vini og eyðileggur heiminn.

Ég tek undir með ummælum hér að ofan um að þetta eigi að birta í víðlesnari fjölmiðlum.


Hjörtur Haraldsson - 29/11/08 12:48 #

Hjartanlega sammála því sem að ofan er sagt. Þetta á að fara í fjölmiðla þar sem þetta er einfaldlega reginhneyksli. Ég hef mikið álit á Vantrú.is en því miður týnist þetta svolítið hér á þessum síðum.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 29/11/08 13:00 #

Það væri flott ef einhver blaðamaður pikki þetta upp og skoði námsefnið í trúarbragðafræðslu í grunnskóla og geri einfaldlega úttekt á því. Hvort þetta sé virkilega stanslaus áróður frá 1. bekk fram að gagnfræðiskóla hvað trúarbrögð eru frábær og allt væri stórkostlegt ef allir "færu eftir því sem trúarbrögðin boða".

Þetta er ekki eðlilegt.


Arnar Már Ólafsson - 29/11/08 18:06 #

Já, þetta er algjört hneyksli. Það er algjör skömm af því hvernig trúarbragðakennslu er háttað nú í byrjun 21. aldar. Ég hef aldrei skilið hvernig það á að gagnast börnunum að það sé logið að þeim. Kannski til að byrja að sporna við gagnrýnni hugsun strax á fyrstu árunum til að tryggja löghlýðna borgara sem eru ekki með neinar hættulegar skoðanir?

Annars er þetta efni í góða grein í stórum fjölmiðli. Það ætti einhver að taka þennan pakka í gegn.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 29/11/08 20:57 #

"Trúarbrögðin kenna okkur að þykja vænt um hvort annað og þau hjálpa okkur til að eignast vini. Ef allir færu eftir því sem trúarbrögðin boða gerðust færri slæmir hlutir í heiminum. Þá gætum við lifað saman eins og ein stór fjölskylda."

Hljómar miklu eðlilegra á ensku:

"Religion teaches us to love each other and helps us to make friends. If everybody acted the way religion tells them to, fewer bad things would happen in the world. Then we could all live together as one big family."

Hvaðan skyldi þetta vera tekið og þýtt? Kemur það nokkuð fram í bókinni, Óli, að þetta sé þýtt úr ensku? Grínlaust þá ber íslenski textinn öll merki þess að vera þýddur beint úr ensku.


gimbi - 29/11/08 22:19 #

[fært á spjallið - Þórður]


Óttar - 30/11/08 13:29 #

Hjálpi mér nú allir. Strákurinn minn er að byrja í skóla á næsta ári og kemur úr trúlausri fjölskyldu. Er ekkert talað um í bókinni að trúlausir eru líka góðar manneskjur ? Ef ekki þá er ég bálreiður (vægt til orða tekið).


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 01/12/08 00:23 #

Ég er ekki með bókina lengur því miður og get því ekki reddað myndum. Hins vegar má sjá forsíðuna hér og þar er greinilega hægt að hlaða henni niður sem hljóðbók, sem ég hefði átt að vita fyrirfram.

Bókin er ekki þýdd og uppsetningin á henni er svo greinilega byggð á aðalnámskrá að það eru ekki líkur á að hún eigi sér beina erlenda fyrirmynd.


Freyja - 01/12/08 14:59 #

Trúleysi ætti vitanlega að vera kynnt samhliða trúarbrögðum, en manni finnst nú að það mætti alveg kynna ásatrúna með, og hafa í það rammíslenskan krakka. Að vísu er ásatrúin einnig kynnt í íslensku og íslandssögu, en hún á fyllilega erindi í svona bók, þó svo að iðkendur hennar séu ekki margir á heimsmælikvarða. Sum þeirra gilda sem voru í hávegum höfð fyrir kristnitöku sitja djúpt í þjóðarsálinni, og jafnvel dýpra en þau gildi sem hafa verið útbreidd samhliða kristni og einkenna íslendinga upp til hópa án tillits til tilbeiðslu.


Hlynur - 03/12/08 19:35 #

Shitt hvað heimurinn væri slæmur staður ef allir færu eftir því sem trúarbrögðin boða.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.