Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ósannindi, fáfræði eða spuni séra Skúla S. Ólafssonar á Rás 1

Í þættinum Lárétt eða lóðrétt sunnudaginn 12. okt.1 mátti heyra viðtal við Skúla S. Ólafsson prest í Keflavík þar sem hann tjáði sig meðal annars um átroðning ríkiskirkjunnar í leik- og grunnskólum.

Árum saman hafa Siðmennt og Vantrú bent á að boðberar boðandi kirkju eiga ekkert erindi inn í almenna skóla með boðskap sinn, trúboð (pdf), þótt hann sé dulbúinn sem fræðsla, kynning, sálgæsla, kærleiksþjónusta eða hvaða orðskrípi sem menn kjósa að leggja sér í munn.

Við vitum mætavel að kirkjan sækir stíft í skólana (leikskólaheimsóknir, Vinaleið í grunnskólum, lífsleikni í framhaldsskólum). Kirkjan hefur markað sér stefnu í þessum málum, boðað til funda með skólastjórnendum o.s.frv. til að koma trúboðunum inn fyrir þröskuldinn. En þetta hafði presturinn um málið að segja:

Þegar að kirkjan mætir einhvers staðar, til dæmis, vill koma inn í skólastarf, sem er mjög viðkvæmt, nú þá er farið bara.. þá fer af stað ákveðið ferli. Menn sem sagt.. þetta fær rækilega kynningu þegar að... Það þarf ekki nema eitt foreldri til þess að andmæla og þá... þá er bara málið dautt, sko. Þannig er þetta. Í flestum tilvikum að minnsta kosti, þar sem ég þekki til. Svo ef það er bara almenn ánægja með þetta... þú veist að þessar heimsóknir eru... Það má ekki heldur láta líta svo út að hér sé einhver massív innræting... víðast... til dæmis leikskólaheimsóknir, þetta er kannski mánaðarlega yfir vetrartímann. Við erum að tala um sjö, átta heimsóknir á ári, þetta er ekki... og 40 mínútur í senn. Þetta er náttúrulega fyrst og fremst kynning, þetta eru tengsl, skapar traust. Foreldrar leita til oft þessara einstaklinga sem koma að heimsækja, það myndast tengsl, fólk veit hvert það getur leitað þegar á bjátar, eða hvernig það er. Þetta er auðvitað ekki... þetta er náttúrulega.. mannréttindabrot er gríðarlega sterkt orð og... hvort þetta er á gráu svæði, það er náttúrulega það er... það er bara almenn viðurkenning fyrir þessu innan kirkjunnar... þess vegna fer þetta ferli af stað þegar menn fara, oftast að frumkvæði skólanna, hvort þeir eiga að koma í heimsókn eða slíkt. Nú ef það er ekki í lagi þá er það bara ekkert gert.

Sérann virðist ákaflega illa að sér eða gerir sér upp fáfræði. Það er ekkert ferli sem fer af stað þegar kirkjan vill troða sér inn í skólana. Frumkvæðið er kirkjunnnar. Foreldrar eru sjaldnast spurðir álits og því fráleitt að tala um almenna ánægju. Rækileg kynning á sér ekki stað. En fráleitast af öllu er að fullyrða að ekki þurfi nema eitt foreldri að mótmæla til að allt sé blásið af, "það staðfestir öll reynsla" (svo vitnað sé í biskupinn).

Raunar kippir maður sér ekki upp við ósannindi kirkjunnar manna lengur, þetta er venjan, ekki undantekningin í málflutningi þeirra. Og þegar við bendum á lygarnar erum við sögð "grýta fulltrúa sannleikans og gæskunnar í þessum heimi".

Á vef kirkjunnar er birt viðtal við Valborgu Rut Geirsdóttur formann nefndar um hina boðandi kirkju á nýafstöðnu Kirkjuþingi unga fólksins. Hún sagði:

Við ræddum um boðun og hvað boðun skiptir miklu máli og við komumst að þeirri niðurstöðu að það er mikilvægt að vera duglegri að boða trúna í leikskólum og grunnskólum og sérstaklega í framhaldsskólum, þar sem sá aldur virðist stundum verða eftir.

Spyrill: Nú töluðuð þið um boðun í grunnskólum og leikskólum líka. Rædduð þið ekkert um að þetta er nú dálítið umdeilt almennt?

Jú, við gerðum það, veltum þessu mikið fyrir okkur. En við komumst eiginlega að því að það er stór hluti af fólkinu í landinu, um 90%, sem er í Þjóðkirkjunni og ætti þess vegna að vera í lagi að boða trú. Og ef það eru krakkar sem mega kannski ekki taka þátt í þessu þá bara geta þau bara verið í einhverju litlu leynivinafélagi að gera eitthvað annað á meðan, finna svona eitthvað sniðugt út úr því.

Ungliðinn námundar 80,7% upp í 90% og virðist litlar áhyggjur hafa af aðalnámskrá, sem segir skólann fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun.

Gott er að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri.

1 Upptaka af þættinum:

Reynir Harðarson 05.11.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Skólinn )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/11/08 17:51 #

Það er hreint út sagt óþolandi hvernig þetta fólk lýgur. Ítrekað.


gimbi - 06/11/08 00:18 #

Þessu ber að svara í fjölmiðlum, Reynir. Þetta er afkárlegt!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.