Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guð blessi Ísland

Það var kannski ekki mikil merking á bak við orð Geirs Haarde, þegar hann lauk grafalvarlegri ræðu um daginn með orðunum „Guð blessi Ísland“ og það er kannski meinlaust þótt stjórnmálamaður grípi til klisjulegs orðbragðs sem hann heldur að láti vel í eyrum fólks, þegar hann er kominn í hann krappan.

Í orðum Geirs bergmálaði samt nálgun sem er ekki sérlega uppbyggileg: Að vona að guð reddi málunum þegar maður veit ekki hvað á til bragðs að taka. Uppgjafarnálgun, með öðrum orðum. Ég endurtek að ég held ekki að sú merking hafi verið hugsuð á bak við orð hans, bara að orðin bergmáluðu hana.

Það er hins vegar eitthvað meira að baki þegar prestar og biskup klifa á þessu, biðja fyrir ríkisstjórninni og segja fólki að halda stillingu sinni á meðan það tapar ævisparnaðinum. Það er þeirra stéttarlega hlutverk — að veita eðlilegri reiði í meinlausan farveg, að láta fólk trúa „guði“ fyrir henni í staðinn fyrir að tjá hana fyrir einhverjum sem er ekki sama. Að sefja fólk í stað þess að það leysi málin.

Í riti sínu, Gagnrýni á réttarheimspeki Hegels, komst Karl Marx svo að orði: „Trúarleg áþján er í senn tjáning á raunverulegri áþján og andóf gegn raunverulegri áþján. Trú er stuna í píndri skepnu, hugur hjartalauss heims, eins og hún er andi andlausra kringumstæðna. Hún er ópíum fyrir fólkið.“ Hann áleit að bænin gagnaðist ráðandi stéttum með því að vera útrás trúaðs alþýðufólks fyrir réttláta gremju vegna hlutskiptis síns. Félagslega öruggur farvegur fyrir tilfinningar sem annars gætu brotist út í hreyfingum sem berðust fyrir réttlæti — og væru þannig valdhöfunum hættulegar.

Kannski má segja að undirskriftasafnanir á netinu gegni svipuðu hlutverki. Nú stendur t.d. yfir undirskriftasöfnunin „Ég sem Íslendingur neita að greiða skuldir útrásarmanna og heimta að eignir þeirra verði frystar!“ á PetitionOnline. Þangað getur fólk farið og skrifað undir þetta ef það vill — nú, eða fundið sér eitthvert annað áhugamál eða réttlætismál — og fundist það hafa gert eitthvað. Auðvitað hefur það ekki gert neitt. Þegar þetta er ritað hafa tæplega 600 manns skrifað undir, þ.e.a.s. friðað samviskuna með því að gera ekki neitt. Ráðamönnum er eins mikið sama um net-undirskriftasafnanir eins og þeim er um kvöldbænir.

Sagt er að maður geri meira gagn með höndum sem vinna en höndum sem biðja. Það er nokkuð víst að við vinnum okkur ekki út úr þessari kreppu með spenntar greipar.

Megi lögmál hagfræðinnar verða Íslandi hagstæð.

Vésteinn Valgarðsson 31.10.2008
Flokkað undir: ( Hugvekja , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 31/10/08 09:31 #

Ég hef aldrei skilið af hverju kristnir eru alltaf að segja guðinum sínum fyrir verkum. Faðirvorið er til dæmis allt í boðhætti. Guð, gerðu þetta og gerðu hitt, af því að þú ert svo frábær.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 31/10/08 12:42 #

Það er af þeirri einföldu ástæðu að þetta eru galdrar.


anna benkovic - 31/10/08 14:31 #

http://www.youtube.com/watch?v=YjZ-lSn0A3M

PS; vona að þetta virki?


Carlos - 31/10/08 17:18 #

Sammála Vés1, hljómar eins og "deus ex machina" og lyktar af fúlu haldreipi þegar allt annað bregst (hollur). Nær væri að taka upp aðra sálma ... ;)

Faðir vor og flestar aðrar (klassískar) bænir eru reyndar í óskhætti, lat. hortativus.

Verst að óskhátturinn er útdauður sem sjálfstæð beygingarmynd í íslensku og stundum illgreinanlegur í latnesku og grísku. Ekki að það breyti því að sumir trúmenn álíta óskháttinn vera boðhátt og hegða sér eftir því. Ekki að ég ætli GH slíkt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/11/08 11:23 #

Athugasemd Carlosar lenti í spamfilternum og ég sá hana ekki fyrr en nú. Ég biðst velvirðingar á því.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 02/11/08 12:37 #

Takk, Carlos. Skipun og ósk eru náskyldar. Ef ég segi "eigðu þig" er það greinilega ósk mín að þú gerir slíkt. Auðvitað er bænin óskhyggja og galdraþula, eins og Birgir bendir á.

Hefði ekki verið gráupplagt að lagfæra þetta í nýjustu þýðingu Biblíunnar?

Mikið vildi ég óska að þú værir ekki að leggja fyrir okkur gildrur og gæfir okkur brauð á hverjum degi. Svo væri rosalega gott ef þú gætir afskrifað skuldirnar, ekki síst þessar verðtryggðu og gengistengdu.


Carlos - 05/11/08 19:03 #

Ef þú segðir við mig "Eigðu þig", Reynir, myndi ég taka ósk þinni sem svo að nóg væri komið af hinu góða og myndi líklega leggja til: "Hættum hverjum leik þá hæst hann stendur!". Fráleitt að þar í fælist meira en tillaga, nema ég bæri höfuð og herðar yfir þig og gæti í krafti óska þinna stjórnað þér.

Bæn til Guðs eða guða er einmitt fráleitt skipun, þar sem valdahlutföllin eru einfaldlega ekki þannig að maður ráði yfir guðunum ...

Geri maðurinn sér grein fyrir að hann skapaði guðina, þá fyrst verða galdrar eða bænir óþarfar, enda lægi þá beinast við að ganga af trúnni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.