Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þröngsýni og hroki

Trúlausum er oft borið á brýn að vera þröngsýnir hrokagikkir og trúaðir mega þola að vera sagðir óupplýstir mikilmennskubrjálæðingar. Svona skítkast skilar engu þótt það geti verið skemmtilegt á að horfa, og jafnvel að kasta einstaka sparði eða vænum mykjuköggli.

Eigi veit ég svo gjörla hvort þessi grein er skítkast en hitt veit ég að þetta eru hugleiðingar mínar um menn og málefni. Ég var nefnilega að velta fyrir mér alheiminum og dásemdum hans og vorkenna þeim sem á undan okkur hafa gengið og höfðu ekki aðgang að þeim upplýsingum sem við getum nú nálgast með nokkrum smellum á lyklaborði. Ég veit að vit og gáfur mannskepnunnar hafa lítið breyst í þúsundir ára, munurinn á okkur og steinaldarmanni er vart merkjanlegur. Enn minni munur er á okkur og bronsaldarmanni og óhætt að segja að hann sé enginn á okkur og þeim sem uppi hafa verið síðustu tvö þúsund ár.

En þótt vitið sé það sama er himinn og haf á milli þekkingar okkar og þeirra sem lifðu á nítjándu öld. Heimsmynd okkar hefur tekið heljarstökk á þessum tíma og við erum enn ekki lent. Hvernig stendur þá á því að hugmyndir okkar um endanleg rök tilverunnar og guð eru þær sömu nú og fyrir 100, 200, 500 og 1000 árum? Og hvernig stendur á því að við styðjumst enn við 1500 til 2500 ára gamla skræðu sem einhvern „sannleika“ í þeim efnum? Er það vegna þess að svörin við þessum stóru spurningum krefjast ekki meiri þekkingar en þeirrar sem mönnum var aðgengileg á þessum tímum?

Höfundar Biblíunnar voru e.t.v. víðsýnir á sínum tíma, en hversu stór var sjóndeildarhringur þeirra? Ef við lítum á landafræðiþekkingu þeirra náði hún líklega aðeins yfir næstu nágrannalönd og engin skömm að því. Gefum okkur að á miðöldum hafi menn þekkt um helming jarðar, án þess að gera sér grein fyrir að hún er hnöttur. Er helmingurinn ekki nóg? Og þarf nokkra landafræðiþekkingu til að komast að eðli guðdómsins? Ég nota landafræðina bara sem dæmi um þekkingu.

Nú vitum við ekki bara hvernig löndin liggja heldur eigum við myndir af þeim úr geimnum. Við vitum og Eratosþenes reiknaði út að jörðin er um 40.000 km að ummáli. Hann vissi að það var löng vegalengd. Hann vissi hins vegar ekki að ljós getur ferðast þessa vegalengd á rúmlega tíunda hluta úr sekúndu. Ljósið berst hratt (300.000 km/sek), en samt tekur það sólarljósið rúmar átta mínútur að berast frá sólinni til jarðar. Sólin er langt í burtu, en samt tekur það ljósið fimm og hálfan tíma að berast að endimörkum sólkerfisins. Sólkerfið er stórt, sólarljósið berst þó ekki til næstu stjörnu fyrr en rúmum fjórum árum síðar. Geimurinn virðist ansi tómur, fullur af engu, rétt eins og frumeindirnar. Þó eru þær ekki fáar stjörnurnar í stjörnuþokunni okkar, Vetrarbrautinni. Menn skjóta á 100 milljarða (100.000.000.000) aðrir á 200 milljarða stjarna/sóla. Sólarljósið okkar er 30.000 ár að berast að miðju Vetrarbrautarinnar, en hún er um 100.000 ljósár að þvermáli. Vetrarbrautin er stór, en þó eru mun fleiri stjörnur í næstu stjörnuþoku, sem er ein af 30 stjörnuþokum í stjörnuþokuhópnum okkar. Stjörnuþokuhópurinn okkar er stór, en þó er er næsti hópur mun stærri. Í honum eru 2000 stjörnuþokur í 50 milljóna ljósára fjarlægð frá okkur. Enginn veit svo hversu margar stjörnuþokurnar eru í allt, en menn hafa skotið á 200 milljarða og það tæki sólarljósið 78-93 milljarða ára að berast á milli (núverandi) endimarka alheimsins, sem er samt aðeins talinn tæplega 14 milljarða ára gamall og byrjaði í einum punkti.

Nú skal viðurkennt að hér þrýtur vit greinarhöfundar (og raunar allnokkru fyrr). Hvernig gat alheimurinn þanist svona óskaplega út á svona „stuttum“ tíma. Ekki þenst hann út hraðar en ljósið, því ekkert getur víst ferðast hraðar en ljósið. jafnvel þótt þennslan aukist með tímanum. Kannski verður hlegið að þessari þekkingu okkar á alheiminum innan ekki svo margra ára og þessar hugmyndir verða álíka banal og þær að telja alheiminn ná frá Palestínu til Mesópótamíu.

En sá sem telur jörðina enn miðju alheimsins og mannin kórónu „sköpunarverksins“ hlýtur að teljast illa áttaður, sama hvernig á það er litið. Og menn sem telja Biblíuna ekki bara hýsa stórkostlegustu leyndardóma tilverunnar heldur líka svörin við þeim eru grátlegir. Heimurinn er svo miklu stórkostlegri. Munurinn á þeim ráðgátum og svörum sem finna má í Biblíunni annars vegar og vísindunum hins vegar er svona eins og munurinn á fjarlægðinni frá Jerúsalem til Rómar annars vegar og frá Jerúsalem til... segjum bara næstu stjörnu.

Það er óafsakanleg fáfræði að halda öðru fram, stjarnfræðilega vitlaust, þröngsýni í hæsta veldi og hroki af verstu gerð.

Reynir Harðarson 19.10.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Vísindi og trú )

Viðbrögð


Davíð - 19/10/08 15:31 #

,,Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn. En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur." 1 korintubréf 13. 12-13.

Vonandi taka menn ekki ílla upp að ég pósti hér inn Biblíversi. Mig langað að bara að pósta því inn að kristnir trúðu því engan veginn að allt væri opinberað á þeim tímum sem Biblían var skrifuð og það á heldur ekki við í dag.

Vera má að þér finnist við grágleg og einföld að miða líf okkar við orð sem skrifað var fyrir um tæplega 2000 árum eða Andann og frelsarann sem við eigum í persónulegu samfélagi við.

En þegar öllu er á botninn hvolft þá ber þér að umbera og virða líf okkar eins og annara Íslendinga.

Það að umbera og virða er langt í frá það sama og að samþykkja eða telja gáfulegt.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 19/10/08 15:49 #

Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn. I. Kor. 13:11

Davíð, ég tel bara tímabært að leggja af barnaskapinn. Og líf þitt skal ég umbera og virða, hafðu ekki áhyggjur.


Jóhann Friðriksson (meðlimur í Vantrú) - 19/10/08 23:43 #

Að umbera og virða líf er allt annað en að umbera og virða (grunnhyggnar) skoðanir.

Allir hafa rétt á skoðunum. En þeir hinir sömu verða einnig að sætta sig við að skoðanir þeirra eru ekki hafnar yfir réttmæta gagnrýni.

Stundum kýs ég að titla mig ekki trúlausan, heldur einfaldlega upplýstan. Sjóndeildarhringur okkar þarf ekki að vera jafn þröngur þeirra sem gengu jörðina fyrir tvö þúsund árum því upplýsingaflæði nútímans er mun meira en nokkru sinni fyrr. Margir höndla þó ekki allt þetta flæði og kjósa fáfræði og þröngsýni. Það er sérstaklega auðvelt þegar svo mikið er til af fólki sem aðhyllist sömu lífssýn. Að mínu mati hafa allir trúaðir svipaða lífssýn ef horft er á málið frá þessu sjónarhorni: Viljann til að loka augunum og lifa í ímynduðum draumaheimi.


Davíð - 20/10/08 00:09 #

Ég skal segja þér að eitt er fullkomlega víst og það er það að ef trúarupplifanir mínar séu ímindanir þá er ég snargeðveikur.

Hvort ég sé það eða ekki verður seint mitt eða þitt Jóhann að ákveða ætti að vera í höndum þeirra sem þekkja betur til þess fagsviðs.

Hvort sem skoðun er grunn, þröng, víð eða djúp ber jú vissulega að umbera hana um það eruð við sammála Reynir.

Hitt er svona annað mál að við höfum ekki endilega sama vínkil á hvað er þröngsýni eða grunnhyggni eða ekki.

Ég þekki held ég ekki þann mann sem gæti kallast hlutlaus þegar kemur að trúmálum eða trúleysi.


Jóhann Friðriksson (meðlimur í Vantrú) - 20/10/08 00:37 #

Davíð, ég hef ekki minnst einu orði á geðheilsu þína og ætla mér ekki að tala um hana, hvað þá að reyna að skera úr um hvernig henni er háttað.

Reyndar er rosalega fátt sem ég skil úr síðasta svari þínu, sérstaklega síðasta málsgreinin sem er algjörlega úr lausu lofti gripin.

Ég ætla mér að vera algjörlega ósammála þér þegar kemur að því að umbera skoðanir. Engar skoðanir eru hafnar yfir gagnrýni. Sumar er hægt að umbera en aðrar bara alls ekki. Hér get ég nefnt dæmi eins og skoðanir rasista. Þær vil ég alls ekki umbera og mun aldrei gera.

Ekki skilja mig svo að ég sé að setja þínar skoðanir í sama flokk. Hér var ég aðeins að nefna róttækt dæmi til að varpa ljósi á mál mitt.


Svanur Sigurbjörnsson - 20/10/08 02:21 #

Flott grein Reynir. Frásögnin verður að skemmtilegri ferð um himingeiminn og maður áttar sig á því hversu smár okkar nálægi heimur er. Ætli einhver að afneita þessum uppgötvunum á sá verulega bágt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/10/08 06:36 #

Ég skal segja þér að eitt er fullkomlega víst og það er það að ef trúarupplifanir mínar séu ímindanir þá er ég snargeðveikur.

Ekki endilega. Þú gætir einfaldlega verið haldinn gagnaugablaðsflogaveiki.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 20/10/08 08:43 #

Ætli einhver að afneita þessum uppgötvunum á sá verulega bágt.

Fólk sem þekkir ekki framfarir í vísindum og forsendur þeirra hefur afsökun en í því landi sem leiðir skoðun okkar á himingeiminum, Bandaríkjunum, telur stór hluti þjóðarinnar að jörðin hafi verið sköpuð - hókus-pókus - fyrir sex þúsund árum.

Við getum þakkað kristni þennan miðaldahugsunarhátt. Höfðinu er stungið í sandinn til að réttlæta teiknimyndafígúru - guð. Gegn þessari forheimskun ber að berjast.

Hávamál lýsa heimssýn þessu ágætlega:

Lítilla sanda lítilla sæva lítil eru geð guma.


Jón Arnar Magnússon - 20/05/09 07:03 #

Plöntur er gott efni i rannsóknarvinnu og spurningin er þessi sem maður setur fram hefur planta tökum tré til dæmis einhvers konar meðvitund. Ef svo er nú er planta ekki með neinn heila þannig hvar er þessi meðvitun til staðar hjá plöntunum? Það væri gaman að rannsaka þetta.

Plönturíki sem er allt annað lífsform og þróast útfrá sínum eigin lögmálum.

svo er það þessi pæling sem væri ef til vill gaman að skoða.

Nú vitum við að við erum samasafn af litlum lífverum sem kallast frumur og gerla. En geta þessar stærrir lífverur sem maðurinn flokkast myndað ennþá stærri lífveru svipað eins og frumusamfélagið mynda okkur.

Það væri gaman að athuga það.

Sem sagt það er gott að vera efnis þá setur maður fram spurningu og fer að rannsaka en það er líka gott að vera með að víkka út sjóndeildahringinn.

Nú rífast menn um þesa bók Biblíuna annars vegar og trú hins vegar.

En trú er ekki bundi við einhverja eina bók. Það væri einnig gaman að rannsaka hvort að líf sem slíkt gæti komi fram í mismunandi formi og þá hvernig.

Sem sagt í þessum geimi sem er í kringum okkur, er eitthvað sem segir okkur að líf sem slíkt þurfi að vera eins og það er á jörðinni eða getur það komið fram í öðru formi og þá hvernig.

Nú tala menn um engla, guði og allt slíkt. Sumir sergja þetta fyrirbæri sé eingöngu til í skáldsögum og aðrir segja þetta fyrirbæri sé til í raun og veru.

Burt séð frá því þá er eitt er víst að menn standa alveg á gati þegar hinir trúðu spurningu hvernig lítur þessi guð út, er þetta lífvera? Er þetta orkan sem er forsenda lífs á jörðinni. Þegar menn eru að meina með guði eru menn þá að vísa í sólina. Ég spyr hver er skilgreiningin á þessu fyrirbæri. Þá er það alveg burt séð frá því hvort að það sé skaldskapur eða ekki.

Ég spyr núna eins og menn gerðu hér árum áður og læt ykkur vita um niðurstöðu rannsókna minna.


Leibbi - 25/01/12 13:18 #

Allir þeir sem berja sér á brjóst fyrir annaðhvort trú eða trúleysi eru jafn hrokafullir og þröngsýnir. Líklegt verður að teljast að eftir 100 ár verði hlegið að trúgirni fólks á þeim vísinda kenningum sem haldið er uppi á lofti í dag.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/01/12 14:15 #

Það er nú gott að þú ert hafinn yfir þá alla, hógvær og víðsýnn.


Leibbi - 25/01/12 19:18 #

Já, hógvær að því leyti að ég notast einungis við orð greinarhöfundar um hroka og þröngsýni. Víðsýnn að því leyti að ég tel kenningar vísindamanna engan heilagann sannleika, enda um kenningar að ræða.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 25/01/12 19:21 #

Og hver hefur haldið því fram að þær séu heilagur sannleikur?


Leibbi - 25/01/12 21:40 #

Og hver hefur haldið því fram að ég bendi á einhvern sérstakan? Annars er þessi færsla undir vísindi og trú, þannig að orð mín eiga vel við, en fara greinilega í taugarnar á einhverjum ;)


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 25/01/12 21:49 #

Til hvers að taka það fram að þú sért víðsýnn á þennan hátt ef allir eru það?

Ef enginn telur vísindakenningar vera heilagan sannleika þá er það ekkert nema innantómt orðagjálfur að berja sér á brjóst fyrir að vera sama sinnis...


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 25/01/12 22:27 #

@ Leibbi:

Veistu hvað orðið ''kenning'' þýðir í vísindum?


Leibbi - 25/01/12 22:32 #

Ástæðan er líklega sú að ég hafi sama veikleika og þú, að svara fyrir mig, en án persónulegrar ávirðingar. Fyrstu ummæli mín voru ekki persónulegt skítkast og síður önnur ummæli mín, en á einhvern undraverðan máta hefur meðlimum vantrúar tekist að snúa umræðunni persónulega upp á mig. Kannski á vel við að greinin fjalli um hroka, hroka tveggja meðlima vantrúar, vegna ummæla sem var þeim ekki að skapi. Það er ekki til virðingarauka vantrúar að standa í persónulegu skítkasti við þá sem dirfast til að bæta við ummælum hér á þessum vef ykkar. Hef það satt að tilfinningin er að ég sé í umræðum við ofsatrúarmenn.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 25/01/12 22:48 #

Hvaða skítkast? Þú settir inn athugasemd sem erfitt er að skilja öðruvísi en sem dylgjur um þröngsýni.

Ég spurði þig við hvern þessi ummæli þín gætu átt.

Ef enginn er svo "þröngsýnn" að halda að vísindakenningar séu heilagur sannleikur er merkingarlaust að tala um það sem "víðsýni" að halda það ekki.

Það hefur nákvæmlega ekkert með þína persónu að gera þó að beðið sé um útskýringar á athugasemdum þínum.


Leibbi - 25/01/12 23:31 #

Æji Hjörtur, ekki halda að ég geri engan greinarmun á kenningum trúarbragða og vísinda, Við skulum þá nota orðið tilgátur. Núlifandi vísindamönnum er gert erfitt að koma fram tilgátum sínum vegna eldri tilgátna. Tilgátur hljóta að byggjast á orsökum og eðli hluta.

@Baldvin. Tel það vera augljóst með fyrstu ummælum mínum að ég geri engan greinarmun á ofstæki trú og trúleysingja, sem betur fer ná öfgar ekki til allra trú og trúleysingja. Menn augljóslega verða taka það til sín sem eiga.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 25/01/12 23:38 #

Geturðu nefnt dæmi um ofstæki trúleysingja?

Eða ertu bara einn af þeim sem telja að ofstækið hljóti bara að vera jafnt á báða bóga?

Ég hef til dæmis aldrei heyrt neinn halda því fram að vísindakenningar séu heilagur sannleikur, aldrei.

Ég skil ekki hvað er unnið með dylgjum um öfgar sem enginn getur tekið til sín.


haukurv - 26/01/12 07:44 #

Geturðu nefnt dæmi um ofstæki trúleysingja?

Væri ekki nákvæmara að biðja um dæmi um trúleysisofstæki, þ.e. sem væri þá sambærilegt við trúarofstæki.

Það kemur í sjálfu sér ekkert í veg fyrir að hver sem er geti verið ofstækisfullur í einhverju sem hefur ekkert með trú eða trýleysi að gera, t.d. gæti hvort sem er trúaður eða trúlaus maður verið ofstækisfullur kynþáttahatari, án þess að það komi öðrum skoðunum hans beinlínis við.

Vildi koma þessu að þannig að það sé á hreinu að til dæmis trúaðir/trúlausir einræðisherrar séu ekki marktækt dæmi.


Halldór L. - 26/01/12 08:25 #

Ofstæki kristni er að berjast gegn réttindum fólks og framförum.

Ofstæki islam er að sprengja upp hluti.

Ofstæki trúleysis er að skrifa skoðanir sínar á netið.

Annars já, ég efast líka um þyngdaraflið og tölvuna mína og rafmagnið sem að knýr hana áfram og tel þetta allt saman tilgátur. Meina þetta gæti allt eins verið draugur sem að væri að sýna mér þessa stafi sem að ég sé núna.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 26/01/12 12:10 #

Þetta er ágætis punktur hjá Hauki.

Auðvitað efast fólk ekki dags daglega um þessar kenningar, enda eru þær nógu réttar til að virka í daglegu lífi. Kenningarnar eru hins vegar alltaf háðar breytingum eftir því sem skilningur okkar á viðfangsefnunum eykst. Það er því engan veginn hægt að tala um þær sem endanlegan eða heilagan sannleika.

Eins og ég sagði, þá hef ég aldrei heyrt neinn gera það.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 26/01/12 21:31 #

Já nafni, það væri betra að tala um "trúleysisofstæki". Hvað þykir þér vera dæmi um slíkt?


haukurv - 27/01/12 07:32 #

Til þess að hægt sé að tala um trúleysisofstæki, þyrfti þá ekki að vera um að ræða um ofsóknir eða ofbeldi gegn trúuðum? Til dæmis banna ástundun á trú, svipað og ástundun annarrar trúar en "þeirrar réttu" er bönnuð sumsstaðar.

Ég man nú ekki til þess að svo sé statt með nokkurn stað, þannig að raunverulegt dæmi dettur mér ekki í hug. Það væri fróðlegt að sjá hvort einhver geti bent á eitthvað slíkt.

Það að fara fram á að réttindi trúlausra séu til jafns við réttindi trúaðra og að sérréttindi eins trúarhóps séu minnkuð svo þau séu til jafns við aðra, það verður seint talið ofstæki.


gös - 27/01/12 11:40 #

Til þess að hægt sé að tala um trúleysisofstæki, þyrfti þá ekki að vera um að ræða um ofsóknir eða ofbeldi gegn trúuðum?

Nóg er af dæmum í sögunni um ofsóknir og ofbeldi gegn trúuðum... af fólki annarrar trúar.

Svo eru dæmi um ofsóknir og ofbeldi gegn trúuðum af fólki sem aðhylltist hugmyndafræði sem var trúlaus, og þá meina ég ekki bara hlutlaus gagnvart trú heldur með trúleysi sem hluta sinnar stefnuskrár. Þar hef ég í huga frönsku byltinguna, Rússland eftir kommúnistabyltinguna og Tíbet undir kommúnískum Kínverjum.

Í öllum þessum þremur dæmum var um að ræða nokkuð heilsteypta hugmyndafræði sem tókst á við kirkju um völd. Það má deila um hvert hlutverki trúleysinnar sem slíkrar var í þessum ofsóknum, enda stendur trúleysi kannski ekki ein og sér sem heilsteypt hugmyndafræði eða kerfi sem stofnanir gætu byggt á. Það fellur hins vegar vel inn í alls konar hugmyndafræði: húmanisma, kommúnisma, anarkisma, sósíaldarwinisma, libertaríanisma, o.fl., o.fl.


haukurv - 27/01/12 12:15 #

@gos: Já ég hefði kannksi getað komið þessu aðeins skýrar frá mér, "af hendi trúlausra" hefði mátt vera þarna í lokin.

Varðandi ofsóknir ýmissa hugmyndafræðilegra stefna gegn trúuðum, þá eru þetta sennilega bestu dæmin sem þú þefnir þarna, en eins og þú bendir á þá má deila um hver stórt hlutverk trúleysi spilar þar.

Reyndar benti ég á í athugasemd við aðra grein að það er erfitt að fá það til að ganga upp að trúleysi sem slíkt geti verið orsök illra gjörða, þannig að mér þykir mjög hæpið að kenna því um ofsóknirnar í sjálfu sér. Helst dettur mér í hug að það hjálpi valdamönnum að skerpa á línunni milli "okkar" og "þeirra" (þ.e. til að það sé réttlætanlegt að "við" skjótum "þá").


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 27/01/12 12:24 #

Alltaf skal draga fram kommúnismann...

Burtséð frá pælingum um trúleysi vs. persónudýrkun, þá segirðu það sjálfur að í öllum þessum tilfellum var önnur hugmyndafræði undirrótin að þessum ofsóknum. Hér er til umræðu trúleysisofstæki vs. trúarofstæki. Er til eitthvað dæmi um ofstæki vegna skorts á trú á yfirnáttúrulegt afl?

Hafa trúleysiskreddur einhverntíma valdið ofstæki, líkt og trúarkreddur gera í tíma og ótíma?

Og ég tek það fram aftur að kommúnismi, fasismi og sósíaldarwinismi koma trúleysi ekkert við.


haukurv - 27/01/12 12:51 #

Alltaf skal draga fram kommúnismann...

Það er einfaldlega vegna þess að þetta er besta dæmið þar sem trúleysi er hluti af yfirlýstri stefnu sem ofsækir aðra sem aðhyllast þá stefnu ekki (eða eru bara fyrir á einhvern hátt).

Það má því færa rök fyrir því að einhverjir sem aðhyllast "trúlausa hugmyndafræði" ofsæki trúaða, í sjálfu sér get ég ekki verið ósammála þeirri fullyrðingu. En ég er mjög svo ósammála því að trúleysið geti verið rót ofsóknanna.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 27/01/12 13:35 #

Kommúnisminn kom sjálfum sér í sess trúarbragða. Guðsdýrkun var skipt út fyrir persónu- og flokksdýrkun. Það er mjög villandi að tala um kommúnismann sem trúlausa stefnu.

En það kemur þessari umræðu svosem lítið við.


gös - 27/01/12 13:46 #

@Baldvin

Alltaf skal draga fram kommúnismann...

Eðlilega. Hann er og verður dreginn fram eins og krossferðir og rannsóknarréttur er dreginn fram fyrir Kristna. Ég held að það sé okkur trúlausum öllum mjög hollt að íhuga vandlega hlutverk trúleysis innan kommúnismans almennt og samspil þess við ofbeldi sem hefur verið framið í nafni kommúnismans, sé það eitthvert. Mér finnst einmitt þetta:

Og ég tek það fram aftur að kommúnismi, fasismi og sósíaldarwinismi koma trúleysi ekkert við.

hljóma eins og frasi sem hefur verið endurtekinn það oft að sá sem hann mælir sé hættur að hugsa um merkingu hans.

Hvað þýðir þetta "koma ekkert við" eiginlega? Ég sagði að trúleysi félli vel inn í hugmyndafræði eins og kommúnisma og sósíaldarwinisma og ég stend við það. Það er klárlega ljóst að trúleysin er hvorki nauðsynleg þessum hugmyndafræðum né sjálfgefin hluti þeirra en hún er sögulega spyrt saman við þær og það er ekki að ástæðulausu. Báðar þessar stefnur nýttu sér augljósan sannleik trúleysis til að styrkja sinn málstað.

Við þekkjum öll "no true Scotsman" rökvilluna því við sjáum trúaða svo oft beita henni. Verum nægilega metnaðarfull til þess að gera meiri kröfur til okkar sjálfs.

Trúleysi ekki nauðsynlegur þáttur kommúnisma "in theory" en hún var áberandi þráður í Sovéskum kommúnisma. Ég held að hún haft áhrif á þá stefnu sem kommúnisminn tók og ég held það sé opin spurning hvort og þá hvernig hún hafi haft áhrif á þau ofbeldisverk sem framin voru í kommúnismans nafni (kannski hafði hún jákvæð áhrif).

Nú held ég ekki að það þurfi nauðsynlega að debatera þetta ákkúrat hér og nú en ef þið gerið það prófið að skipta út "trúleysi" fyrir "Islam" og hvaða ódæðisverk sem þið hafið í huga fyrir "umskurð kvenna" í rökum ykkar og sjáið til hvernig ykkur líst á þau þannig. ("Sovéskir kommúnistar myrtu ekki presta vegna þess að þeir voru trúlausir, heldur út af öðrum ástæðum" vs "Múslimar umskera ekki konur vegna þess að þeir eru múslimar, heldur er það hluti af menningu sumra múslima" o.s.frv.)

Sjálfum þætti mér gaman að rökræða þetta yfir bjór einhvern tíman...


gös - 27/01/12 14:06 #

Kommúnisminn kom sjálfum sér í sess trúarbragða. Guðsdýrkun var skipt út fyrir persónu- og flokksdýrkun. Það er mjög villandi að tala um kommúnismann sem trúlausa stefnu.

Ég var ekki búinn að sjá þetta þegar ég krafði þig um svör varðandi "koma ekkert við".

Ég skil hvað þú meinar en ég er ósammála orðanotkun þinni. Ég hef deilt við manneskju um trú sem sagði "Allir trúa á eitthvað" þegar ég kvaðst trúlaus. Hún talaði um trú á ástina og manneskjurnar og þegar ég jankaði því að ég trúði á tilvist fyrirbærisins ást þá hlakkaði í henni þegar hún tilkynnti mér að ég væri "víst trúaður". Samt fyndist mér hún fara með ósannindi ef hún segði öðrum að ég væri trúaður. Ástæðan er auðvitað sú að það nota allir orðir "trúaður" sem styttingu á "trúaður á yfirnáttúrulegt" í daglegu máli. Notkun þess í annarri merkingu án ítarlegra skýringa er óheiðarlegt. Nú get ég vel skilið að almenn merking orðs í daglegu tali getur farið í taugarnar á þér vegna þess að þér finnst hún asnaleg eða röng, en það breytir því ekki að þegar þú notast við hugtak eins og trúleysi í annarri merkingu en hún hefur í daglegu máli án útskýringa ("[K]ommúnismi [...] [kemur] trúleysi ekkert við.") þá virkar það bara sem bull og mér finnst það, tja, allavega jaðra við óheiðarleika.

Svo er hitt að persónu- og flokksdýrkun er (mjög) víða í trúarlegum hugmyndafræðum. Hún kemur ekki í stað fyrir trúarbrögð þar og ég er ekki viss um að ég sé sammála þér um að hún hafi komið í stað fyrir trúarbrögð í kommúnismanum.


gös - 27/01/12 14:26 #

@Baldvin:

Er til eitthvað dæmi um ofstæki vegna skorts á trú á yfirnáttúrulegt afl? Hafa trúleysiskreddur einhverntíma valdið ofstæki, líkt og trúarkreddur gera í tíma og ótíma?

Nú eru trúaðir gjarnan svo illa að sér í sögu☆ að þeir nota alltaf kommúnismann sem dæmið um illu trúleysingjana þegar það er til allavega eitt annað dæmi sem er miklu nærtækari:

French Revolution and the Church

Cult of Reason

Hér er trúleysið miklu nær því að vera hugmyndafræðileg þungamiðja áberandi og samþykktrar hreyfingar innan frönsku byltingarinnar sem sannarlega ofsótti kaþólikka vegna trúar sinnar. Ég þarf klárlega að lesa meira um frönsku byltinguna og gæti haft rangt fyrir mér, en í fljótu bragði finnst mér þarna dæmi um, ef við erum sanngjörn og heiðarleg og beitum sömu mælikvörðum til að dæma okkur sjálf og trúaða, trúleysiskreddur sem valdið hafa ofstæki.

@haukurv:

En ég er mjög svo ósammála því að trúleysið geti verið rót ofsóknanna.

Lestu hlekkina að ofan og segðu mér hvort þú sért jafn ósammála.

☆ Þetta er fyndið vegna þess að ég er (írónískt) að gangast upp í titil pistilsins.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 27/01/12 14:28 #

Auðvitað er alltaf hægt að diskútera hvað er gert beinlínis vegna trúar og hvað er gert af öðrum orsökum. En þegar eitthvað er réttlætt með tilvísunum í trúarrit þá tel ég réttlætanlegt að tala um að það sé gert í nafni viðkomandi trúar og vegna hennar.

Svo ég útskýri nú í stuttu máli hvað ég meina með að þessar umræddu stefnur hafi ekkert með trúleysi að gera:

Kommúnisminn eins og ég sagði áður setti sjálfan sig í sæti trúarbragða með foringja- og flokksdýrkun sem skyldu fyrir alla þegna. Stalín tók sér m.a. titla á borð við Coryphaeus of Science, Father of Nations, Brilliant Genius of Humanity, Great Architect of Communism og Gardener of Human Happiness (tekið af Wikipedia). Það kalla ég ekki trúlausa stefnu, þú ræður svosem havð þú kallar það. Gamla yfirvaldið var kúgað og ofsótt, hvort sem það voru prestar, kapítalistar eða aðrar valdastéttir. Ég get ekki séð að yfirlýst ríkistrúleysi hafi haft nein áhrif á stefnu eða voðaverk kommúnismans.

Fasisminn var alls ekki trúlaus stefna. Allir helstu frammámenn hans voru Kaþólikkar og fasisminn var alls staðar í góðu samstarfi við kaþólsku kirkjuna. Nasistar tóku svo upp þýskar occult pælingar sem urðu að nokkurskonar trúarbrögðum líka. Trúleysis- og efahyggjufélög voru bönnuð á valdatíma Nasista. Hitler hamraði á því að hann væri að vinna verk guðs með því að útrýma gyðingaplágunni.

Sósíal Darwinismi hefur lítið með trúarbrögð almennt eða skort á þeim að gera og enn minna með raunverulegar kenningar Darwins. Miklu frekar tengist stefnan rasimsa og annars konar fordómum. Kenningar Darwins voru skrumskældar til að henta mun eldri hugmyndum.

Trúleysi hefur sögulega verið spyrt saman við flest það sem talið er slæmt. Allt frá almennum skorti á siðferðisgildum til helfararinnar. Það þýðir ekki að það sé alltaf raunhæft.

Frekari umræður um þetta ættu samt að fara fram á spjallinu


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 27/01/12 14:56 #

Gös: Já, Franska byltingin er nærtækara dæmi en kommúnisminn, það er rétt. Ef mér skjátlast ekki voru átökin milli byltingarsinna og kirkjunnar þó aðallega valdabarátta milli hins nýja borgaralega valds og kirkjunnar. Við skulum ekki gleyma því að konungurinn hafði fengið vald sitt beint frá Guði, samkvæmt kenningum kirkjunnar, og kirkjan því ein helsta undirstaða konungsvaldsins. Þannig að það var í raun óumflýanlegt að kirkjan yrði fyrir barðinu á byltingarsinnum. En trúaðir voru vissulega ofsóttir trúar sinnar vegna áður en yfir lauk.

Cult of Reason er mjög undarlegt fyrirbrigði. Mér skilst að rökhyggjan hafi verið þar gerð að hálfgildings yfirnáttúrulegu afli. En ég viðurkenni að ég þarf að kynna mér það betur.

Já, ég get fallist á það að trúleysisofstæki hafi verið við lýði í Frakklandi á þessum tíma, í ein tvö, þrjú ár.

Einhver önnur raunhæf dæmi, fyrr eða síðar?

Upphaflega snerist þessi umræða um almennt ofstæki, bæði trúaðra og trúlausra. Og því slengt fram að trúleysisofstæki væri alveg eins og trúarofstæki. Og álíka útbreitt ef ég misskil ekki athugasemdina.

Persónulega finnst mér franska byltingin ekki gott dæmi um almennt trúleysisofstæki í dag. Hvað þá kommúnisminn.


Rosa - 11/08/13 22:29 #

"Þröngsýni og hroki". Skítkast.

Þið lifið og hrærist í fortíðinni. Það vita allir að stríð og allskonar illvirki voru framin í nafni trúar, Guðs, eru það enn reyndar. Ég held það fáist aldrei niðurstaða með þessu móti. Ekki heldur með blindri trú á "nýjustu tækni og vísindi". Ég er hvorki trúlaus né trúuð, í þeirri merkingu sem þið leggið í trú. Maðurinn hefur sjálfur fundið upp aðferðir til að mæla tímann, línulegan tíma sem er bútaður niður. Ég held að það sé merkingarlaus tími. Eitt veit ég


Rosa - 11/08/13 22:40 #

... að okkur ber að sýna öllu sem á jörðu lifir og jörðinni sjálfri, ást og virðingu. Reyna að láta gott af okkur leiða. Jörðin, alheimurinn eru vissulega stórkostleg. En mig grunar að allt sé enn stórfenglegra en við getum nokkurntíma ímyndað okkur því skynfæri okkar eru mjög takmörkuð. Við ættum ekki að ofmetnast vegna eigin þekkingar því hún er lítil. Ég vel að draga allflesta hluti í efa.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.