Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ranghugmyndir Alisters McGraths

Hjalti Rúnar og Alister McGrath
Greinarhöfundur og McGrath á góðri stundu
Nýlega kom breski trúvarnarmaðurinn Alister McGrath til landsins. Í lok fyrirlesturs hans í hátíðarsal Háskóla Íslands flykktust guðfræðinemar, prestar og annað kirkjunnar fólk í kringum hann til þess að fá hann til að árita bók eftir hann sem er nýkomin út á íslensku, Ranghugmynd Richards Dawkins. Enn hefur enginn úr þessum hópi sagt frá áliti sínu á þessari bók, þrátt fyrir að það taki ekki langan tíma að lesa allar litlu hundraðogníu blaðsíðurnar. Ástæðan er ef til vill sú að þau hafa lítið gott að segja um bókina, enda inniheldur hún aðallega skrumskælingar, misskilninga og rangfærslur, fyrir utan afskaplega hrokafullan tón.

Til að byrja með er best að taka fram að ég er enginn aðdáandi Dawkins, ég hef að vísu lesið eina bók eftir hann, The God Delusion, en fannst hún ekkert sérstök. Ég hef lesið betri bækur um trúleysi og gagnrýni á trú og tel helsta kost Dawkins vera þann að hann er góður að vekja athygli á þessu málefni.

En bókinni er skipt niður í fjóra kafla, auk inngangs. Inngangurinn er lítið annað en allt of löng einræða án raka á því hve fordómafullur Dawkins er og hversu hræðilega slæm bókin er. Það er lítið hægt að segja gegn þeim annað en að þetta eru bara órökstuddar skoðanir McGraths sem verða afskaplega þreytandi til lengdar. Ég er viss um að kirkjufólk hafi gaman af þessu en ég hef meiri áhuga á rökunum. Í innganginum er sagt að trúað fólk sem læsi The God Delusion yrði „agndofa yfir yfirþyrmandi rangfærslum hans um skoðanir þess og lífshætti“ (bls. 14), „Dawkins eignar lesendum sínum þann vafasama heiður að vera eins fáfróðir og fordómafullir í garð trúarinnar og hann sjálfur“ (bls. 14), sjálfur „þolir [Dawkins] enga rannsókn eða gagnrýni á hugmyndir sínar“ (bls 15), bókin sjálf er „trúlaus útgáfa af fjálglegri vítislogapredikun“ (bls 12), „beiskjufull bók skrifuð af mælskuflaum“ (bls. 13), „[útúrsnúningar] á kristinni guðfræði einkenna þetta áróðursrit“ (bls 22).

Næst ætla ég að fara yfir nokkur af skrumskælingunum og rangfærslunum í hinum fjóru köflum bókarinnar. Það vill svo skemmtilega til að fyrsta efnisgreinin í öllum köflunum fjórum inniheldur gott dæmi um lélegan málflutning McGraths og því mun ég taka þær alltaf sem dæmi.

I Kafli: Ranghugmyndin um guð?

Guð er ranghugmynd – „sturlaður vandræðagemsi“ upp fundinn af rugluðu, ímyndunarveiku fólki. 7 Þetta er grundvallarboðskapur bókarinnar The God delusion (Ranghugmyndin um guð)(bls 17)

Svona byrjar McGrath bókina sína, á því að gerast sekur um afskaplega léleg og afar villandi vinnubrögð. Ef maður fylgir vísuninni sem McGrath gefur, þá endar maður á blaðsíðu í The God Delusion þar sem Dawkins segir einfaldlega að guð deista eins og Voltaire og Thomas Paine sé mikilfengleg vera í sambanburði við sturlaða vandræðagemsann Jahve úr Gamla testamentinu. (bls 38) Í upphafi kaflans tekur Dawkins meira að segja fram að guðinn sem hann ætlar að fjalla um í bókinni er einmitt ekki Jahve Gamla testamentisins (bls 31). Þá fullyrðingu að ruglað fólk og ímyndunarveikt fólk hafi fundið upp Jahve eða guð er hvergi að finna í bók Dawkins. Ekki nóg með að þetta sé ekki grundvallarboðskapur bókarainnar The God Delusion, þessu er ekki einu sinni haldið fram í henni.

Næst kvartar McGrath undan því að Dawkins noti orðið trú (e. faith) í merkingunni „blint traust“, fullvissa án raka og fleira í þeim dúr. McGrath segir að þessi skilgreining sé „[uppfundin] af Dawkins í ádeiluskyni“ og að með þessari skilgreiningu séu „þeir sem trúa á Guð sjálfkrafa flokkaðir sem veruleikafirrtir – fók sem haldið er ranghugmyndum.“ (bls 17) Þetta er afskaplega merkilegt í ljósi þess að í inngangsbók að guðfræði eftir McGrath skrifar hann að þessi skilgreining á trú hafi orðið algeng allt eftir tíma upplýsingarinanr.1 Það hljóta líka flestir að kannast við þessa notkun úr daglegu tali (til dæmis: „Ég get ekki rökstutt þetta, þetta er jú trú.“) Það vill líka svo skemmtilega til að þegar Dawkins kom til landsins fyrir tveimur árum síðan ásakaði þjóðkirkjuprestur Dawkins um að skilja ekki að trú væri einmitt órökstudd fullvissa.2 Varla er þessi meinta uppfinning Dawkins það áhrifamikil að jafnvel ríkiskirkjuprestar eru farnir að notast við hana?

II Kafli: Hafa vísindin afsannað guð?

Undir niðri í The God Delusion er sú bjargfasta trú að vísindin hafi afsannað Guð. (bls 35)

Þannig hljóðar fyrsta setningin í öðrum kafla McGrath. Í The God Delusion segir Dawkins hins vegar að það sé einmitt ekki hægt að afsanna tilvist guðs. Dawkins tekur hins vegar fram að það sem skipti máli sé hvort tilvist hans sé líkleg eða ekki. 3

McGrath heldur líka því fram að Dawkins sé haldinn þeirri „[kreddukenndua einstefnu] að allir „alvöru“ vísindamenn eigi að vera trúlausir“ (bls 47) og að það sé „grundvallarregla“ hans að „alvöru vísindamenn hljóti að vera trúlausir. Þeim getur einfaldlega ekki verið alvara ef þeir segjast vera trúaðir.“ (bls 49). En Dawkins nefnir Faraday, Maxvell, Kelvin og fleiri sem merkilega kristna vísindamenn fortíðarinnar og segir að þeir séu ekki sérstaklega fágætir (bls 98-99).

McGrath segir að það sé rauður þráður í verkum Dawkins að vísindunum séu engin takmörk sett og að þetta viðhorf fái byr undir báða vængi í The God Delusion (bls 38). Dawkins segir hins vegar að það séu ef til vill djúpar spurningar sem vísindin geta ekki svarað4 og nefnir siðferði sem dæmi. [5] Punkturinn sem Dawkins kemur síðan með, sem McGrath svarar ekki, er að ef vísindin geta ekki veitt okkur þessi svör, hvers vegna í ósköpunum myndi maður búast við því að trúarbrögðin geti veitt þau?

III Kafli: Hver er uppruni trúarinnar?

Þessi kafli er afar undarlegur vegna þess að McGrath virðist skilja tilraunir manna til þess að finna náttúrulegar (vísindalegar) skýringar á uppruna trúar og trúarbragða séu einhvers konar rök gegn sannleiksgildi trúar. En McGrath byrjar þennan kafla á því að misskilja hinn fræga teketil Bertrands Russells:

Undirstöðukenning vantrúar, sem ekki verður frá henni skilin, er sú að enginn Guð sé til. En hvers vegna trúir þá nokkur á hann? Að mati Dawkins er það gersamlega óvitræn skoðun – eins og að trúa því að teketill sé á sporbaug um sólu. 64 Ja, þetta er að vísu gölluð líking. Ekki þekki ég neinn sem trúir slíku. En Dawkins segir lesendum sínum það – að trú á Guð sé á sama plani og fljúgandi tekatlar. Þetta er enn ein endurunna líkingin sem hann notar í þeirri áætlun að ganga á röðina af öðrum heimsviðhorfum, hæða þau, rangtúlka, skrumskæla og lýsa ævinlega með eins kjánalegum hætti og mögulegt er. (bls 57)

Til að byrja með er auðvitað merkilegt að dæmið um teketilinn á sporbraut um sólu er ekki komið frá Dawkins sjálfum, heldur er þetta „endurvinnsla“ á þekktri líkingu frá einum merkasta heimspekingi tuttugustu aldarinnar. Því er afskaplega vafasamt, og í rauninni merki um að McGrath lætur óbeit sitt á Dawkins trufla dómgreind sína, að ætla að ástæðan fyrir því að Dawkins noti sama dæmið sé sú að hann vilji hæða, rangtúlka, skrumskæla og lýsa öðrum heimsviðhorfum með eins kjánalegum hætti og mögulegt er. Þetta er bara fín líking, og það er alls enginn galli á henni að enginn trúi á tilvist teketilsins, það eru bara kjánaleg mótmæli hjá McGrath. Punkturinn sem Dawkins kemur með í umfjöllun sinni (sem er sá sami og Russell kemur með) er sá að þó svo að við getum ekki afsannað tilvist þá hlýtur sönnunarbyrðin að vera á þeim sem heldur því fram að teketillinn (eða guð) sé til.

McGrath kemur síðan með enn eina skrumskælinguna:

Hans[Dawkins] greining [á trúarabrögðum] byggist á „almennum lögmálum“ um trúarbrögðin76 sem hann tekur úr bókinni The Golden Bough (Gullnu trjágreininni) eftir Sir James Frazer – sem var tilþrifamikið verk úr bernsku mannfræðinnar, fyrst útgefið 1890.77 Þetta er býsna skringileg leið. Hvers vegna í ósköpunum skyldi kenning Dawkins um uppruna trúarbragðanna hvíla svo mjög á grundvallarkenningum verks sem er meira en aldargamalt og nú úrelt að miklu leyti? (bls 64)

Já, hvers vegna í ósköpunum ætti hann að gera það? Hann gerir það auðvitað ekki. Hann nefnir rit Frazers eingöngu vegna þess að í því er hægt að lesa um fjölbreytileika órökréttra skoðana, ekkert bendir til þess að hann byggi skoðanir sínar sérstaklega á þeirri bók. Í staðinn fyrir að búa til þennan strámann (sem hann eyðir síðan fleiri blaðsíðum í að ráðast á) hefði verið gáfulegra og heiðarlegra af McGrath að ræða hugmyndir annarra manna sem Dawkins ræðir miklu meira um, svo sem Daniel Dennett eða Pascal Boyer.

IV Kafli: Er trúin af hinu illa?

McGrath byrjar síðasta kaflann á því að gera Dawkins upp skoðun:

Trúin er af hinu illa! Þegar hún er útlæg ger af yfirborði jarðar getum við lifað í friði! Þetta er kunnulegt stef. (bls 83)°

Síðar í kaflanum endurtekur hann þessa vitleysu:

Sú fljótfærnislega skoðun að hvarf trúarinnar myndi binda enda á ofbeldi, úlfúð eða mismunum er því félagsfræðileg einfeldni. (bls 92)

Hvorki Dakwins, né nokkur manneskja sem ég veit til, heldur því fram að endalok trúar myndi binda endi á allt ofbeldi og að þá myndi heimurinn lifa í friði. McGrath vísar auðvitað ekki á nein ummæli eftir Dawkins eða blaðsíðu í bókinni hans.

McGrath vitnar síðan rangt í Dawkins:

Sá Guð sem Dawkins trúir ekki á er „smámunasamur, óréttlátur, langrækinn og valdasjúkur; hann er hefni-gjarn, blóðþyrstur þjóðernishreinsari; hatar konur, samkynhneigða og suma kynþætti – styður þjóðarmorð og sonarmorð, útbreiðir farsóttir, er mikilmennskubrjálaður, sadómasókískur – duttlungafullur, illgjarn fantur“. 106 Ja, ef út í það er farið, trúi ég ekki heldur á slíkan Guð. Eiginlega þekki ég engan sem gerir það.

McGrath minnist auðvitað ekki á það að þetta er lýsing Dawkins á guði Gamla testamentisins og að á nákvæmlega sömu blaðsíðu segir Dawkins að guðinn sem hann trúir ekki á sé yfirnáttúruleg veru sem skapaði heiminn og allt í honum. Þetta er afar óheiðarlegt af McGrath. Það er samt svolítið merkilegt að McGrath segist ekki trúa á guð Gamla testamentisins. Í bók eftir McGrath (sem hann lýsir aftast í Ranghugmynd Richards Dawkins sem þeirri kennslubók „sem mest er notuð, og setur fram hverju kristnir trúa og af hverju, skýrt og óhlutdrægt“ (bls 122)) er einmitt sagt að höfundar rita Nýja testamentisins leggi áherslu á að guðinn sem þeir boða sé sami guð og hægt er að lesa um í Gamla testamentinu.

Á annarri öld kom einmitt fram kristinn maður sem hét Markíon sem hélt því fram að guð Gamla testamentisins væri óþokki sem ætti ekkert skylt við guð Nýja testamentisins. Hans skoðun varð ekki ríkjandi innan kristinnar trúar og síðustu tvö þúsund árin hafa kristnir menn trúað því að guð Gamla testamentisins sé guðinn þeirra. McGrath ætti því að þekkja nóg af fólki sem trúir á þann guð sem Dawkins lýsir.

McGrath segir að umfjöllun Dawkins á villimannslegum textum Gamla testamentisins sé „sérvalin“ af því að hann vitnar bara í Mósebækurnar fimm og Dómarabókina (bls 99). McGrath lætur eins og það sé einhver skortur á viðbjóði í hinum ritum Gamla testamentisins. En þegar hann reynir að benda á góðu hluta Mósebókanna, þá vill ekki betur til en svo en að hann bendir einmitt á slæma. Í upptalningu á góðum lögum skrifar hann: „[lög] sem banna þrælahald (Þriðja bók Móse 25)“. (bls 100) Hérna er kaflinn sem McGrath lýsir sem banni við þrælahald:

Þegar landi þinn lendir í kröggum og selur sig þér mátt þú ekki láta hann vinna þrælavinnu. Hann á að vera hjá þér eins og daglaunamaður eða gestur og vinna hjá þér til næsta fagnaðarárs. Þá skal hann fara frá þér frjáls maður ásamt börnum sínum og snúa aftur til ættmenna sinna og jarðeignar forfeðra sinna. Vegna þess að þeir eru þrælar mínir, sem ég leiddi út úr Egyptalandi, má ekki selja þá mansali. Þú skalt ekki beita þá valdi. Sýndu Guði þínum lotningu. Þetta gildir um þá þræla og ambáttir sem þú eignast. Þið megið kaupa þræla og ambáttir af þjóðunum sem eru umhverfis ykkur. Þið megið einnig kaupa börn af þeim aðkomumönnum sem dveljast hjá ykkur undir vernd og eru fædd í landi ykkar. Þau verða eign ykkar og þið getið látið þau ganga í arf til barna ykkar. Þið getið ævinlega látið þau vinna sem þræla. En landa ykkar, Ísraelsmenn, skuluð þið ekki beita valdi. (3Mós 25.39-46)

Lögin banna sem sagt það að Ísraelsmenn láti landa sína vera þræla, útlendinga má kaupa sem þræla. Þetta flokkar McGrath sem góðu hluta Mósebókanna.

Loks leggur McGrath mikla áherslu á að Jesús, fyrirmynd kristinna manna, sé alger friðarsinni og hafi aldrei beitt neinum manni ofbeldi: „Og eins og Dawkins veit, beitti Jesús frá Nasaret engan ofbeldi.“ (bls 84). Þegar ég spurði McGrath út í atvik sem við lesum um í guðspjöllunum, þar sem Jesús beitir ofbeldi, rekur fólk út úr hofinu í Jerúsalem með svipu, var vörnin hans meðal annars sú að hann drap að vísu engan og pyndaði engan.

Það er að vísu satt svo langt sem það nær, en Jesús guðspjallanna var enginn friðarsinni. McGrath virðist hafa gleymt öllu tali Jesú guðspjallanna um endurkomu sína og helvíti. Jesús er að vísu ekki búinn að beita því ofbeldi, því að hann hefur ekki staðið við loforð sitt um að koma aftur. En ég held að það sé alveg hægt að benda á þetta sem dæmi um hversu léleg fyrirmynd Jesú er. Við lesum það í guðspjöllunum að Jesús líkir helvíti við það að vera hent til pyntingameistara (Mt 18.32-35), hann líkti endurkomuu sinni við konungi sem skipar undirsátum sínum að drepa (Lk 19.27), hann líkti refsingunni sem hann myndi útdeila við endurkomu sína við þrælaeiganda sem ber þrælinn sinn (Lk 12.47-48).

Fyrirmynd kristinna manna er ekki góð fyrirmynd. Það að telja þá sem ekki eru kristna eiga skilið að kveljast að eilífu í helvíti er ekki friðvænlegur boðskapur.

Hvað segja kirkjunnar menn?

Sum þessara mistaka og strámanna McGraths eru ef til vill hægt að afsaka, en oft er McGrath að fullyrða að eitthvað sé grundvallarboðskapur Dawkins eða rauður þráður í bók hans, þegar einfaldur lestur á bók Dawkins sýnir fram á að þetta eru alls ekki skoðanir hans. Þess vegna er Ranghugmynd Richards Dawkins einfaldlega virkilega léleg bók og McGrath hefur ekki efni á því að tala illa um Dawkins eða bók hans.

Ég býst við því að fáir af þeim sem keyptu þessa skruddu og fóru á trúvarnarnámskeið hjá McGrath í Skálholti eigi eftir að lesa The God Delusion eftir Dawkins. Það er frekar sorglegt að þetta fólk muni fá þessa kolröngu mynd af málflutningi Dawkins, vegna þess að það á líklega eftir að endurtaka þessar vitleysur aftur og aftur. En þá verður örugglega auðvelta að svara þessu, sérstaklega ef bók Dawkins kæmi út á íslensku.


Sjá einnig: Forðast „nýju trúleysingjarnir“ „raunverulegu rökin“?

1. Christian theology, bls 181 „Since the time of the Enlightenment, the word „faith“ has come to mean something like „a lower form of knowledge.“ ...“Faith is thus seen as a firm commitment to a belief which is not adequately justified on the basis of the evidence available.“
2. „Trú er ekki hægt að rökstyðja með vísindalegum hætti. Ef það væri hægt að skjóta rökrænni kjölfestu undir trú þá er ekki lengur um trú að ræða heldur sannanlegar staðreyndir. En eðli þess „að trúa“ leyfir einfaldlega ekki slíkt. Það finnur engin trú eftir rökrænum leiðum.“
3. That you cannot prove God‘s nonexistence is accepted and trivial, if only in the sense that can never absolutely prove the non-existence of anything. What matters is not whether God is disprovable (he isn‘t) but whether his existence is probable. (bls 54)
4. “Perhaps there are some genuinely profound and meaningful questions that are forever beyond the reach of science. Maybe quantum theory is already knocking on the door of the unfathomable. But if science cannot answer some ultimate question, what makes anybody think that religion can?” (GD, p.56)
5. „Similarly, we can all agree that science‘s entitlement to advise us on moral values is problematic, to say the least. (bls 57)
6. 73 segir að kaflinn um uppruna trúarbragða sé „þungamiðja fræðilegra röksemda Dawkins gegn trúnni og mikilvlgasti kafli bókarinnar að því leyti“ (bls 115)

Hjalti Rúnar Ómarsson 08.10.2008
Flokkað undir: ( Bókadómur )

Viðbrögð


Sveinn - 08/10/08 14:20 #

Já ég á ekki von á öðru en hópur Íslendinga eiga eftir að endurtaka þessa auðhrekjanlegu vitleysu aftur og aftur eins og þú segir. Því miður verður seint hægt að koma þessu sama fólki í skilning um að þetta sé rangt, en þið þekkið það líklega flestir.

Ég las líka the God Delusion og eins og þú segir þá er þetta ekki besta bók um trúleysi á markaðinum. Engu að síður vona ég að hún komi út á íslensku sem fyrst.

Segið mér samt, með hvaða bókum mæliði um trúleysi og gagnrýni á trú?


Ásta Elínardóttir - 08/10/08 17:54 #

Það er nú reyndar búið að koma í ljós óánægja með íslensku þýðinguna á meðal guðfræðinga og fleira fólks og veit ég að það er von á gagnrýni frá í að minnsta einum kennara við guðfræðideild Háskóla Íslands þar sem að hann "ræðst" á þýðandann.

Bara svona svo það fylgi með að ÍSLENSKA þýðingin er ekkert sérstaklega að vekja lukku meðal guðfræðinga og presta þó svo að þeir dásami allir upprunalega ENSKA ritið.


jogus - 08/10/08 18:08 #

Þetta má nú vera léleg þýðing ef þýðandinn gerir McGrath upp skoðanir...


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 08/10/08 20:58 #

Já, það er nú verið að ráðast á vitlausan mann, og að mínu léleg tilraun til gagnrýni, ef það á að kvarta yfir lélegri gagnrýni. Ég bar sumt saman við ensku þýðinguna og það passar allt.


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 08/10/08 23:21 #

Það sem Hjalti tekur fyrir í greininni finnst mér passa vel við það sem McGrath sagði í fyrirlestri sínum í Háskóla Íslands í byrjun september. Ég væri til í að vita hvað íslenskum guðfræðingum finnst ranglega þýtt.

Sveinn, ég mæli til dæmis með bókinni Irreligion eftir John Allen Paulos. Paulos er stærðfræðingur sem afbyggir með rökfræði helstu rök trúmanna fyrir því að guð sé til. Bókin er auðlesin og svo er Paulos líka mikill húmoristi.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 09/10/08 16:58 #

Atheism: The Case against God er í uppáhaldi hjá mér. En hvað varðar kristni sérstaklega, þá held ég að hvaða fræðilega inngangsbók sem er að Nýja testamentinu dugi.

En Ásta, mættum við vita hvaða tengsl þú hefur við guðfræðingastéttina?


gimbi - 09/10/08 21:30 #

Mikið eruð þið nú flottir saman, biflífræðingarnir.

:)


Ásta Elínardóttir - 09/10/08 21:43 #

Já Hjalti ég er semsagt að nema almenna trúarbragðafræði í HÍ og er það eiginlega bara guðfræði með smá mun á áföngum og flottara nafni.

Svo ég er nú bara að eyða meiri hluta af degi mínum með guðfræðingum.


Teitur Atlason - 10/10/08 04:31 #

Það væri til bóta að vita hvað guðfræðingum finnist ámælisvert við íslensku þýðinguna. Ég er að lesa þessa bók og satt best að segja finnst mér hún renna nokkuð lipurlega í gegn.

Málfarið er t.d oft og tíðum til fyrirmyndar.

Ég er nú nokkuð viss um að nú eins og áður þá fylgjast vantrúaðir betur með trúmálaumræðunni en trúaða fólkið. Mér er það til efs að nokkur trúmaður hafi í raun og veru lesið þessa bók McGraths þótt almenn ánægja ríki með útkomu hennar.

Staðreyndin er sú að trúaðir treysta sér ekkí í að verja trúnna sína. Enda kannski ekki skrýtið.


Sveinbjörn - 01/11/08 01:39 #

Guð, auðvitað er það til. Við getum valið um að kguðalla það óþekkjanlega, óþekkjanlegt eða guð. í hverju felst vandinn? Ég ráðlegg þessum ungu krökkum sem skrifa á þessa síðu að lesa. Lesið Nietzsche til hressa ykkur. Gefið skáldskapnum gaum. Gefið Jesaja séns.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 01/11/08 02:55 #

...ungu krökkum

Og hver er aldurinn á þessum krökkum sem skrifa hérna?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.