Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Af trúarstarfi í skólum

Höskuldur Þór Þórhallsson alþingismaður skrifar grein undir titlinum “Kristilegt siðgæði og Mannréttindadómstóll Evrópu” í Mbl 12. mars síðastliðinn og fullyrðir að gildandi lög veiti heimild til undanþágu frá námi í kristinfræði. Þar er hann væntanlega að vísa til 8. og/eða 35. greinar grunnskólalaga.

Við nánari athugun sést að 8. greinin veitir ekki slíka undanþágu enda er eingöngu verið að veita tímabundna lausn frá skólasókn, vegna smalamennsku eða íþróttaferða samkvæmt greinargerð sem fylgdi frumvarpinu á sínum tíma.

Öðru máli gegnir með 35. greinina, þar væri hugsanlega hægt að veita undanþágu á borð við þá sem Höskuldur gerir. Hins vegar er það ljóst af greinargerð með frumvarpinu á sínum tíma að svo er alls ekki.

Í nýlegu frumvarpi menntamálaráðherra er það 15. greinin sem tekur á undanþágum frá námi. Enn er skýrt af greinargerðinni að ekki er gert ráð fyrir að börnum sé sleppt við námsþætti á grundvelli skoðana foreldra þeirra.

Loks má benda i á að námsgreinin “Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði” (KST) verður lögð niður í núverandi mynd samkvæmt frumvarpinu og vandséð hvernig veita eigi undanþágu frá kristinfræði eftir gildistöku nýrra laga.

Tíu prósent afslátt af námi?

Í gildandi aðalnámskrá er þess ekki getið að KST sé valfrjáls námsgrein. Fjallað er um viðbrögð við fjölmenningu á bls. 7 í kafla um KST: “Með auknum fjölda barna frá ólíkum menningarsvæðum þarf skólinn að huga að því, í samvinnu við heimilin, hvernig koma má til móts við óskir þeirra og þörf til að fá fræðslu um eigin trú og menningu. Nýta má þá möguleika sem blandaður nemendahópur felur í sér til að kynna nemendum ólíka trú, siði og lífsviðhorf.”

Hér er ekki gert ráð fyrir að kennt sé í aðskildum hópum enda væri þá aðeins til námskrá fyrir einn hópinn.

Í viðmiðunarstundarskrá fá samfélagsgreinar ásamt KST að meðaltali þrjár kennslustundir á viku. Ef skipt er til helminga situr hver nemandi í 400 kennslustundum í KST á námsferli sínum, um það bil hálft ár af tíu ára skyldunámi. Varla er ætlast til að börn sleppi hálfu ári úr námi vegna skoðana foreldra þeirra?

Sjötta hvert foreldri, gróft reiknað, er kaþólskt, íslamstrúar, búddísti eða trúlaust en borgar engu að síður jafn mikið til reksturs grunnskólans og aðrir foreldrar og á tilkall til jafngóðrar þjónustu börnum sínum til handa.

Nauðsynlegt nám

Nám í KST er nauðsynlegt enda trúarbrögð stór þáttur samfélagsins og mikilvæg í lífi fjölmargra. Kristni er stór hluti menningar okkar og meiri hluti þjóðarinnar er kristinn eða hliðhollur kristni. Það er því fullkomlega eðlilegt að kristnin hafi þyngst vægi í KST.

Á hvaða forsendum eigum við að sleppa nemendum við þessa kennslu, sem er svo nauðsynleg til að við getum skilið okkar eigin menningu og fengið innsýn í menningu annarra landa?

Eina ástæðan sem ég sé fyrir því að veita nemendum undanþágu frá KST er ef þar færi fram einhvers konar trúarinnræting. Sjálfur vildi ég ekki láta innræta börnum mínum kristni í skólanum og ég geri ráð fyrir því að Höskuldur vildi síður að börnum hans væri innrætt trúleysi. En innræting á auðvitað ekki heima í skólastarfi. “Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun...” segir í aðalnámskrá og það er því afgreitt mál trúarleg innræting í skólum er enda ekki í samræmi við lög.

Trúarstarf í skólum ótækt

Trúboð og annað trúarstarf á augljóslega ekki heima í skólum af ýmsum ástæðum. Ein þeirra er sú að allir hafa rétt á jafngóðri þjónustu en trúarstarf er aðeins ætlað afmörkuðum hópum. Hvorki námskrá né lög gera ráð fyrir skólastarfi þar sem sumum er sinnt en öðrum ekki og skólanum væri því vandi á höndum að sinna öllum nemendum jafnt eins og þeir eiga kröfu til.

Væri kirkjuferð skipulögð á skólatíma, hvort sem það er á vegum skólans eða annarra, þá þyrfti skólinn einnig að sinna þeim nemendum sem ekki færu í kirkjuna. Eigi trúboð sér stað í skólum, til dæmis sem hluti af KST, þá þyrfti skólinn að bjóða upp á sömu þjónustu fyrir allar trúar- og lífsskoðanir. Allt skólastarf lýtur námskrá sem þyrfti þá að taka tillit til trúarlegra þátta með mismunandi námskrár fyrir mismunandi trúarbrögð og lífsskoðanir.

En það sem kemur endanlega í veg fyrir að trúarstarf geti átt sér stað innan veggja skólans er sú staðreynd að skólinn þarf þá jafnframt að hafa vitneskju um trúarafstöðu foreldra. Mannréttindadómstóllinn tekur af skarið með að slíkt gangi ekki og sama gera íslensk lög um verndun persónuuplýsinga.


Eftirmáli:

Eftir að hafa lokið við þessa grein var mér bent á að í Almenna hluta Aðalnámskrár væri að finna undanþáguklausu sem hljóðar svona:

"Með hliðsjón af sérstöðu þessara þátta, einkum hvað varðar trúfrelsi, er heimilt að veita einstökum nemendum undanþágu frá ákveðnum þáttum skyldunáms." (Aðalnámskrá grunnskóla 2006, almennur hluti, bls. 26)

Í kjölfarið ákvað ég að beina því til umboðsmanns Alþingis að hann kannaði lögmæti þessarar unanþáguklausu Aðalnámskrár. Bréf mitt til umboðsmanns, ásamt fleiri skjölum, eru talin upp hér fyrir neðan:

Ábendinging til umboðsmanns Alþingis

Dómur Mannréttindadómstólsins gegn Norska ríkinu

Skýrsla Reykavíkurborgar um samstarf skóla og trúfélaga

Brynjólfur Þorvarðarson 26.03.2008
Flokkað undir: ( Skólinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 26/03/08 08:41 #

Vandinn væri enginn ef námsefnið væri vandað og kennslan hlutlaus. Því er ekki að heilsa.

Námsefnið er samið af presti sem kýs að láta "kristnina tala fyrir sig". Það þýðir að goðsögurnar eru bornar á borð barnanna sem væru þær "heilagur sannleikur" (eins og biskup segir jólaguðspjallið vera).

Fólk er allt of grunlaust um þá innrætingu sem felst í þessu og jafnvel þótt það geri sér einhverja grein fyrir henni finnst því hún bara allt í lagi... því eins og við vitum er kristnin svo góð og falleg, með öllu sínu bulli og helvítisboðskap.


Árni Árnason - 26/03/08 16:39 #

Það er í raun furðulegt til þess að hugsa að enn, þegar komið er fram á 21. öldina, skulum við þurfa að kljást við þetta fornaldarskrímsli sem trúin er. Tvískinnungurinn í samfélögum vesturlanda er slíkur að jafnvel þó að enginn með rænu trúi lengur á þvæluna úr biblíunni er hún samt sem áður gerð að sjálfsögðum lið í uppfræðslu barna okkar eins og um staðreyndir væri að ræða. Frekjan í kirkjunnar liði er svo yfirgengileg að þeim finnst sjálfsagt að starfandi séu nefndir, þar sem kirkjan á að sjálfsögðu fulltrúa, til að fjalla um samstarf leik/grunnskóla og kirkjunnar. Það væri óskandi að bábiljuliðið gæti fjarlægt sig og sína hagsmuni út úr umræðunni og reynt að setja sig í þau spor að eitthvert annað trúfélag/ lífsskoðunarfélag fengi viðlíka aðgang að öllu ungviði landsins. Það kæmi líklega annað hljóð í strokkinn ef félag múslima ætti sæti í slíkri nefnd og ynni að fyrirkomulagi samstarfs við skólana. Ég veit reyndar alveg hvert svarið við þessu er.

Við eru kristin þjóð, 90 bla bla % í þjóðkirkjunni, hluti af arfleifð þjóðarinnar, óaðskiljanleg sögunni o.s.frv. o.s.frv.

Þá skulu menn hugleiða að hvorki aldur hefðar, eða fjöldi áhangenda gerir eina trú annarri æðri, réttari eða skynsamlegri og að friður fyrir ágangi trúarbragða er í dag hluti af viðurkenndum mannréttindum.

Varðandi hefðina má geta þess að amma mín bakaði hafragrautsklatta í yfir 50 ár, og þeir voru alltaf jafnvondir. Þá skulu menn einnig hugleiða að fjöldi kristinna í heiminum í dag er ekki tilkominn vegna þess að kristin trú sé á nokkurn hátt gáfulegri eða trúverðugri en hver önnur stokka og steinatrú sem er, heldur vegna þeirrar einföldu staðreyndar að einn rómarkeisari, einn einstaklingur, fékk þau óverðskulduðu völd að gera kristni að ríkistrú í öllu Rómarveldi. Í ljósi skertrar heilastarfsemi margra Rómarkeisara sökum þekkingarskorts, óhóflegrar áfengisdrykkju, syfilis og annarra sukksjúkdóma er í meira lagi hæpið að ætla þessa ákvörðun nokkuð vitrænni en hverja aðra.

Kristindómurinn er eins og önnur trúarbrögð byggður á afar hæpnum forsendum svo að ekki sé nú sterkar að orði kveðið, á sér ekki nokkra stoð í raunveruleikanum og á því alls engan tilverurétt í opinberu skólastarfi.

Hversu einstrengingslegir þurfa menn að vera til að skilja ekki svo einfaldar staðreyndir ?


Haraldur Gísli - 26/03/08 22:39 #

var það ekki örugglega hann Konstantínópel sem gerði kristnina að ríkistrú?


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 26/03/08 22:50 #

Hann hét reyndar Constantine og það var ekki hann sem gerði það. Hann hins vegar batt enda á skipulagðar ofsóknir á hendur kristnum í rómarveldi.

http://en.wikipedia.org/wiki/Constantine_I


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 26/03/08 23:02 #

Haukur, þetta er nú ekki alveg rétt hjá þér.

Konstantínus I. er almennt talinn hafa innleitt Kristni sem ríkistrú þótt hann hafi ekki gert það beinlínis með þeim hætti. En hann gaf út nokkur lög sem verndaði kirkjuna og gaf henni sérstaka stöðu, hann gerðist persónulega verndari hennar og með kirkjuþinginu í Níkeu 325 kom hann skipulagi kirkjunnar á fast form - sem hentaði ríkiskirkju. Niðurstaða Níkeuþingsins er í raun kaþólska kirkjan (ég var búinn að pósta annan póst, setti vitlaust netfang þ.a. hann birtist ekki strax.)

Konstantínus bannaði hins vegar ekki önnur trúarbörgð, og einn eftirmanna hans reyndi að banna kristnina aftur.

En stuðningur Konna við kirkju og kristni gerði hana í raun að ríkistrú - kristni hefði örugglega ekki horfið án hans, en hún hefði klofnað upp í endalausar undirdeildir.

það er annars merkilegt hvað kristni var fjöl-brotin strax frá upphafi, með dósetista og gnostíkera nánast á fyrstu öld. Síðan aríanisma sem var gríðarlega útbreiddur um alla evrópu, alls kyns sýrlenskar og koptískar kirkjur og gríðarleg flóra í mismunandi túlkunum - og gríðarlegum rifrildum.

Íslam hefur t.d. ekki farið í gegnum neitt í líkingu við þetta, eina alvarlegi klofningurinn er í sunní-sjía og sá snerist á sínum tíma ekki um trúarlegan skilning heldur hver ætti að vera leiðtogi - svipað og klofning í austur- og vesturkirkju hja kristnum.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 26/03/08 23:52 #

Ég hef náttúrulega ekkert í þig í þessum fræðum. :) Samt var kristni aðeins ríkistrú að því leiti að hann var kristinn og studdi kristna söfnuði með fé og stórum byggingum. Það var ekkert official.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 27/03/08 00:02 #

Já, það er í rauninni rétt - en að sama skapi má spyrja sig að hvaða marki eitthvað hafi verið "opinbert" í svona ríki. Þarna er engin stjórnarskrá og þótt keisarinn sé valdamikill þá ræður hann ekki hugsanahætti.

Svo verður að varast eftirá-upprunaskýringar, sem er nokkuð sem mönnum hættir mjög til. Kaþólska kirkjan vill skýra uppruna sinn, uppruna kristni sem ríkistrú og ríkjandi trú. Kannski var þróunin miklu minna áberandi fyrir þá sem tóku þátt í henni - ofsóknir færri og veigaminni (eins og margir hafa bent á), lagabreytingar sömuleiðis smærri skref í hugum manna á þeim tímum, þótt við viljum eftirá setja meiri merkingu í þær sem einhvers konar vendipunktar.

Við höfum tilhneigingu til að "segja sögur" í stað þess að segja söguna.


Árni Árnason - 27/03/08 01:50 #

Ég þakka þessar fróðlegu söguskýringar um keisarann Konstantín. Ef kjarninn er skilinn frá hisminu, er hann sá að trúarbrögðin, ekki síst kristnin er það sem hún er fyrir áhrif misviturra manna, á stundum einstaklinga, með óvíst samhengi vits og valda. Ekkert, segi og skrifa ekkert, gerir kristna trú á nokkurn hátt merkilegri en hverja aðra trú sem er ( trúin á Gurglebúbb og spaghetti-skrímslið ekki undanþegin ) Samt er henni gefin stimpill sannleika fyrir börnunum okkar. Svei því alla daga.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.