Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ostur, trú og umburðarlyndi

Í Morgunblaðinu 23. febrúar s.l. svarar Gunnar Jóhannesson sóknarprestur grein minni frá 17. febrúar þar sem ég gagnrýni viðhorf biskups til trúlausra. Gunnar heldur því fram að guðlaus heimsskoðun geti ekki lagt okkur “siðferðislegar skyldur” á herðar. Enn og aftur koma fram sorgleg vantrú á manngildi og fordómar gagnvart trúlausum.

Gunnar grundvallar röksemdafærslu sína á því að við séum “sköpuð af kærleiksríkum Guði og í hans mynd”. Þess vegna sé kærleikurinn okkur eðlislægur. Er málið þá ekki útrætt? Ef einhver hefur þá óbifandi trú að tunglið sé úr osti þá er til lítils að rökræða við hann efnasamsetningu þess. Með því að gefa okkur ákveðnar forsendur getum við fært rök fyrir hvaða niðurstöðu sem er.

Hvað sem segja má um gildi trúarbragða þá skal fullyrt að niðurstaða um eðli mannsins fengin á grundvelli trúar er harla lítils virði. Ég frábið mér að Gunnar noti sína trúarlegu forsendu til að álykta um siðferðisstyrk þeirra sem ekki trúa. Því miður birtist þar algengur skortur á umburðarlyndi trúaðra. Vissan um sköpun Guðs virðist svo sterk að það er ekki hægt að samþykkja að þeir sem hafni þeirri kenningu séu jafn færir um að vera góðar manneskjur. Er til of mikils ætlast að fá samþykki þess að þeir sem hafa komist að þeirri niðurstöðu að kærleikurinn sé eftirsóknarverður í sjálfu sér, burtséð frá guðum, englum og djöflum, megni að greina á milli rétts og rangs, góðs og ills?

Í fyrrnefndri grein minni gagnrýni ég málflutning biskups og tel að viss orð hans hafi dregið úr umburðarlyndi og manngæsku. Það er til að mynda ekki óeðlilegt að álykta að svívirðingar og hótanir sem formaður Siðmenntar varð fyrir í sambandi við umræðu um aðskilnað trúar og skóla hafi einhver tengsl við það að biskup leyfði sér að kalla samtökin hatrömm. Biskup ber mikla ábyrgð og þess vegna hef ég séð ríka ástæðu til að bregðast við orðum hans. Undarleg viðhorf einstakra presta hef ég hins vegar ekki elt ólar við. Mér er þó ljúft að útskýra fyrir Gunnari hvers vegna trúlausir, ólíkt honum, telja siðferði ekki háð æðra máttarvaldi.

Gunnar telur það ógæfu guðleysingjans að geta ekki grundvallað siðferði sitt á öðru en eigin viðhorfum og persónulegu skoðunum. Það leiði til sjálfshyggju sem sé “mesta böl okkar daga” og muni “án efa gera út af við okkur”. Skoðum grundvöll siðferðiskenndar. Það er ágætlega útskýrt hvernig þróun mannsins hefur leitt til þess að í eðli okkar eru kenndir eins og umhyggja, ást og greiðasemi. Þetta skiptir samt ekki öllu máli. Í fyrsta lagi eru afurðir þróunar ekki endilega góðar, sbr. ofbeldiskennd. Í öðru lagi þá hefur þessi fortíð ekkert með þróun siðferðis í dag að gera. Við getum hafnað og barist gegn kenndum sem eru afurð þróunar og tileinkað okkur nýja siði. Samfélög þróast og ný viðmið í samskiptum verða til.

Hver grundvallar ekki siðferði sitt á eigin viðhorfum og persónulegu skoðunum? Ég á erfitt með að finna slíka menn. Kannski helst öfgafyllstu bókstafstrúarmenn, sem fylgja í blindni “algildu siðferði” trúarrita. Viðhorf flestra okkar mótast af margvíslegum þáttum (upplagi, uppeldi, samferðarmönnum, námi, lífsreynslu, heimspeki, list o.s.frv.). Hvort sem um er að ræða veraldlega þætti eða trúarkenningar þá hljótum við alltaf að vega og meta það sem er haldið að okkur. Þannig þróum við okkar eigin viðhorf og persónulegu skoðanir. Ég hygg að það gildi einnig um flesta kristna menn. Nema ef til vill þá sem geta sig hvergi hreyft með bókstaf biblíunnar sem myllustein um hálsinn.

Við öflum okkur þekkingar og sækjumst eftir skilningi, en fyrst og fremst leitum við hamingju. Það er auðvitað margt sem ræður hamingju okkar, meðal annars það sem við höfum enga stjórn á (góð gen, heppni o.s.frv.). Ég hygg þó að hver sem staða einstaklingsins er þá muni ástundun samúðar, tillitssemi og ástúðar venjulega auka hamingju hans. Þannig uppgötvum við í raun náungakærleikann í leit að eigin hamingju.

Ég veit ekki hvort Gunnar sér ekki að gott siðferði er eftirsóknarvert í sjálfu sér, eða hvort hann telur bara að aðrir eigi erfitt með að sjá það. Hvað sem því líður þá er það vægast sagt fordómafull afstaða að halda því fram að sá sem ekki trúir á Guð “fari villur vegar og skemmi fyrir sér”. Gunnar lastar trúleysingja vegna þess að “guðlaus heimskoðun geti ekki lagt okkur siðferðilegar skyldur á herðar”. Mér hefur vonandi tekist að útskýra að trúleysinginn gerist ekki siðaður af skyldurækni við einhvern guð, heldur vegna þess að þannig maður vill hann vera. Kannski að Gunnar ætti að velta því fyrir sér hvor sé guði hans þóknanlegri: sá sem metur kærleikann af eigin verðleikum, eða sá sem tileinkar sér hann af hlýðni eða hræðslu við Guð.

Gunnar sér fyrir sér fallegan heim þar sem hver og einn gengur fram í kærleiksboðskap Krists. Sóknarprestur sem vill útbreiða kærleik ætti að tileinka sér umburðarlyndi og hætta að krefjast einkaréttar á honum fyrir hönd trúarinnar. Kærleikurinn er trúarbrögðunum æðri.


Birtist áður í Morgunblaðinu þann 12. mars sl.

Viktor J. Vigfússon 16.03.2008
Flokkað undir: ( Aðsend grein )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.