Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Séra Gunnar Jóhannesson í svaðinu

Því miður birtist grein þjóðkirkjuprestsins Gunnars Jóhannessonar, Af gefnu tilefni, ekki í Fréttablaðinu sjálfu, heldur bara á vefnum Vísir.is. Ég held nefnilega að það ættu sem flestir að lesa þessa grein til þess að sjá hversu lágt þjóðkirkjuprestar eru tilbúnir að leggjast í málflutningi sínum.

Í grein sinni svarar Gunnar grein vísindasagnfræðingsins Steindórs J. Erlingssonar, Sjálfhverfur þjóðkirkjuprestur, um ummæli annars þjóðkirkjuprests, Maríu Guðnadóttur, í predikun sinni Krafa Guðs. María sagði:

Að elskan til Guðs er undanfari, forsenda, elskunnar til náungans er hins vegar ljóst af bæði textanum úr 5. Mósebók og guðspjallinu, Mk 10.17-27. Við þekkjum öll tvöfalda kærleiksboðorðið, sem einmitt er byggt upp á þennan hátt. Jesús var reyndar ekki upphafsmaður þessarar hugsunar. Báðir liðir kærleiksboðorðsins eru sóttir til Gamla testamentisins (sjá 5M 6.5 og 3M 19.18), en Jesús leggur þetta svona upp fyrir okkur samkvæmt þeirri hefð sem ríkti á hans tíma. Málið er ekki “bara” að elska Guð eða “bara” náungann, heldur er hvort um sig háð hinu. Án elskunnar til Guðs er erfitt að koma fram við fólk af kærleika. Og ef við elskum ekki mennina er ástinni til Guðs augljóslega ábótavant.

Steindór bendir réttilega á að þarna sé María að gefa það í skyn að fólk sem trúir ekki á guð geti ekki elskað náungann og eigi erfitt með að koma fram við fólk af kærleika.

Gunnar er ekki sáttur við þessa eðlilegu ályktun og segir að Steindór „[snúi] gróflega og mjög svo ómálefnalega út úr efni hennar til þess eins að koma fordómum sínum gegn kristinni trú á framfæri.“ Torfi Stefánsson, guðfræðingur og fyrrverandi þjóðkirkjuprestur, er sammála gagnrýni Steindórs. Ætli Gunnar telji Torfa líka vera haldinn fordómum gagnvart kristinni trú? Það er auðvitað fráleitt, enda er fullyrðing Gunnars ekkert annað en léleg tilraun til þess að sverta andmælenda sinn í staðinn fyrir að ræða efni greinar Steindórs málefnalega. Kíkjum á tilraunir Gunnars til þess að rökstyðja þessa undarlegu fullyrðingu sína:

Steindór leggur Maríu freklega orð í munn þegar hann lýsir því yfir að hún „segi að lesa megi úr Biblíunni að ástin á guði kristinna manna sé forsenda þess að geta borið hlýhug til náungans". Hér fer Steindór hreinlega með rangt mál enda tók sr. María hvergi svo til orða í prédikun sinni.

Raunin er sú að í predikuninni sagði María:

Að elskan til Guðs er undanfari, forsenda, elskunnar til náungans er hins vegar ljóst af bæði textanum úr 5. Mósebók og guðspjallinu, Mk 10.17-27.

Telur Gunnar það kannski vera að „snúa gróflega og mjög svo ómálefnalega úr orðum einhvers“ að tala um „guð kristinna manna“ í staðinn fyrir „Guð“, „ást/hlýhug“ í staðinn fyrir „elsku“ og „biblíuna“ í staðinn fyrir „úr 5. Mósebók og guðspjallinu, Mk 10.17-27“? Því það er eini munurinn á setningunum. Ég á afar bágt með að trúa því að Gunnar hafi ekki tekið eftir þessari setningu í predikun Maríu, þar sem hann tekur það sérstaklega fram að María taki hvergi svona til orða í predikun sinni. Áfram heldur Gunnar:

Túlkun sinni til stuðnings vitnar Steindór samhengislaust í eftirfarandi orð sr. Maríu: „Málið er ekki ,bara' að elska Guð eða ,bara' náungann, heldur er hvort um sig háð hinu. Án elskunnar til Guðs er erfitt að koma fram við fólk af kærleika." Í krafti þessarar einu og samhengislausu tilvísunar í prédikun sr. Maríu gengur Steindór svo langt að gera henni upp þá skoðun að „allir þeir sem ekki hafi meðtekið kristna trú eigi erfitt með að koma fram við fólk af kærleika".

Það er rangt hjá Gunnari að Steindór hafi vísað til þessara ummæla í tilvitnuninni sem ég ræddi hérna að ofan. Ef maður les greinina hans Steindórs er augljóst að hann er að tala um tvö mismunandi ummæli, eftir að hafa umorðað fyrri hlutann segir hann: „Síðan segir hún...“.

Það er líka rangt að Steindór sé að gera henni upp skoðun. Eini munurinn er sá að Steindór talar um að „meðtaka kristna trú“ í staðinn fyrir að „elsku til Guðs“. Þar sem ég geri ráð fyrir því að ríkiskirkjuprestur sé að tala um guð kristinna manna sé ég ekkert athugavert við þetta. María segir berum orðum að ef maður elski ekki guðinn hennar, að þá sé erfitt að koma fram við fólk af kærleika.

Gunnar heldur því líka fram að tilvitnunin hafi verið samhengislaus, en hann útskýrir auðvitað ekki hvað í samhenginu breyti merkingunni. Líklega af því að samhengið breytir engu í þessu tilviki. Steindór vísaði á heimasíðu kirkjunnar þar sem predikunina var að finna. Hvað vill Gunnar? Að Steindór birti alla predikuna í greininni sinni?

Þar næst segir Gunnar að Steindór hafi ekki túlkað predikunina rétt, af því að hún var að predika í guðsþjónustu en ekki „að tala á aðalfundi Siðmenntar“. Steindór horfir fram hjá því að „[p]rédikanir eru ávallt ofnar inn í og bornar uppi af samhengi guðsþjónustunnar og ber að skoða í því ljósi“. Hvað í ósköpunum þetta þýðir og hvernig þetta breytir merkingu orðanna er auðvitað ekki útskýrt.

Gunnar segir síðan að meginþráður predikunarinnar sé „ekki að fólk geti ekki elskað án þess að trúa á Guð, heldur að fólk getur ekki trúað á Guð án þess að elska.“ Hún heldur því vissulega fram að fólk geti ekki elskað guð án þess að elska fólk, en það skiptir einfaldlega ekki máli þar sem hún heldur því einnig fram að fólk geti ekki elskað án þess að trúa á guð. Samanber orð hennar:

Málið er ekki “bara” að elska Guð eða “bara” náungann, heldur er hvort um sig háð hinu.

Loks endar Gunnar greinina á því að skora sjálfsmark. Hann snýr út úr orðum Maríu, einmitt það sem hann ásakar Steindór um að gera. Ólíkt Gunnari, þá fylgir rökstuðningur þessari fullyrðingu minni. Gunnar segir:

Í huga kristins manns er „elskan til Guðs" eins og sr. María bendir réttilega á, „undanfari, forsenda, elskunnar til náungans". Enda þótt kristinn einstaklingur lýsi því yfir í krafti trúar sinnar hvaðan sér komi máttur til að ganga fram af kærleika felur sú yfirlýsing ekki í sér þá skoðun að guðlaus einstaklingur geti ekki auðsýnt kærleika á sínum forsendum.

Gunnar heldir því fram að María sé bara að lýsa því yfir hvers vegna hún sem einstaklingur komi fram af við aðra af kærleika. En María er augljóslega ekki að tala um það, hún segir:

Að elskan til Guðs er undanfari, forsenda, elskunnar til náungans er hins vegar ljóst af bæði textanum úr 5. Mósebók og guðspjallinu, Mk 10.17-27.

María segir sem sagt ekki að elska til guðs sé forsenda elsku til náungans fyrir hana, heldur segir hún að biblían boði það.

Það getur vel verið að María hafi orðað hlutina klaufalega í predikuninni sinni, en þá ætti hún að segja það. Samansuðu af mistúlkunum og innihaldslausum ásökunum eins og ríkiskirkjupresturinn Gunnar Jóhannesson býður okkur upp á er algjörlega óþarfa innlegg í umræðuna. Eftir stendur spurningin um það hvað hvetji prest Þjóðkirkjunnar til þess að koma með svona skrif.

Hjalti Rúnar Ómarsson 08.03.2008
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 08/03/08 15:07 #

Hann er enginn rottweiler, hann er púðluhundur.


Steindór J. Erlingsson - 08/03/08 15:20 #

Takk fyrir þetta Hjalti!


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 08/03/08 23:33 #

Þessi Gunnar er alveg merkilega valheimskur eins og þessi grein útlistar vel.

Annars hef ég engan áhuga á því að vita hvað þessum Gunnari finnst eða heldur - ég væri miklu meira til í að heyra frá Maríu verja þessi orð sín og útskýra þau.

Hefur hún gert það einhversstaðar???

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.