Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sjálfhverfur þjóðkirkjuprestur

Á síðasta ári var talsverð umræða í samfélaginu um þátt kristinnar trúar í menntun barnanna okkar og aðkomu þjóna Þjóðkirkjunnar að grunnskólum landsins. Sjálfur er ég talsmaður þess að dregið verði úr vægi kristinnar „fræðslu“ í námi grunnskólabarna á kostnað veraldlegrar trúarbragðafræðslu. Einnig er ég eindregið á móti hinni svo kölluðu Vinaleið, þar sem talsmönnum Þjóðkirkjunnar er veittur beinn aðgangur að börnunum okkar innan veggja grunnskólans. Færð hafa verið ýmis rök gegn Vinaleiðinni en hér hyggst ég gera það með því að styðjast við nýlega prédikun sr. Maríu Ágústdóttur, „Krafa Guðs“, sem birtist á tru.is.

Í umræddri prédikun segir María m.a að lesa megi úr Biblíunni að ástin á guði kristinna manna sé forsenda þess að við getum borið hlýhug til náungans. Hún gefur í skyn að Jesú hafi verið ötull talsmaður þessa sjónarmiðs. Síðan segir hún: „Málið er ekki ‚bara‛ að elska Guð eða ‚bara‛ náungann, heldur er hvort um sig háð hinu. Án elskunnar til Guðs er erfitt að koma fram við fólk af kærleika“.

Lítum nánar á ummælin. Það sem fyrst blasir við er að María gefur hér í skyn að guð- og trúleysingjar séu nánast ófærir um að elska fjölskyldu sína og vini, sem endurspeglar álíka óupplýst ummæli biskups Íslands og annarra þjóna kirkjunnar um trúleysingja og trúleysi, er ég hef áður gert að umtalsefni á þessum síðum. Ummæli Maríu fela hins vegar í sér miklu breiðari skírskotun því hún segir blátt áfram að allir þeir sem ekki hafi meðtekið kristna trú eigi erfitt með „að koma fram við fólk af kærleika.“ Hér vegur María illilega að öllum þeim milljörðum einstaklinga sem ekki hafa meðtekið boðskap Biblíunnar; nokkuð sem sr. Birgir Ásgeirsson gerði með eftirminnilegum hætti þegar hann, nokkrum dögum eftir að Þjóðkirkjan hafði stofnað til Samráðsvettvangs trúfélaga í byrjun desember 2006, hélt því fram að allir þeir sem hafna meintri tilvist guðs kristinna manna séu „hluttakendur heimskunnar“.

Það er með ólíkindum að nokkur upplýstur einstaklingur geti haldið fram viðlíka sjónarmiðum og María gerði í umræddri prédikun, sem endurspeglar sjálfhverfuna sem innifalin er í flestum trúarbrögðum heimsins. Ekki dytti mér í huga að halda því fram að þar sem María byggir siðferði sitt á trú á yfirnáttúrulega veru, sem að öllum líkindum er ekki til, eigi hún erfitt með „að koma fram við fólk af kærleika.“ Ég amast ekki yfir því að María spúi þessu eitri óumburðarlyndis yfir söfnuð sinn en ég efast stórlega um að veita eigi henni og skoðanasystkinum hennar innan Þjóðkirkjunnar beinan aðgang að börnunum okkar innan veggja grunnskólans.


Styttri útgáfa af þessari grein birtist í Fréttablaðinu 5. febrúar

Steindór J. Erlingsson 11.02.2008
Flokkað undir: ( Aðsend grein )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/02/08 08:59 #

Vantrú fjallaði um prédikun Maríu á sínum tíma.

Gunnlaugur Þór Briem bloggaði um þetta.

Guðfræðingurinn Torfi Stefánsson skrifar pistil vegna greinar Steindórs


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 11/02/08 20:06 #

það er forvitnilegt að setja sig í spor Maríu þegar hún heldur þessari ógeðfeldu skoðun fram. Það er nefnilega svolítið furðulegt að halda því fram í alvöru að sumir geti ekki elskað vini sína, foreldra, börn eða maka án þess að trúa á sama guð og María trúir á.

Mig satt best að segja skortir orð til að lýsa þeirri yfirgengilegu forherðingu sem María virðist vera haldin.

-það er nefnilega oft þannig að fordómar svíða hvað sárast þegar þeir eru undir yfirskyni kærleikans.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/02/08 11:33 #

Í þessari prédikun er María hugsanlega að svara grein Steindórs undir rós.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 04/03/08 12:29 #

Þjóðkirkjupresturinn Gunnar Jóhannesson "svarar" greininni á visir.is.

Ég hvet alla til þess að lesa þá grein.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.