Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Íslamistar með afslætti

islamistarmedafslaetti.jpg Nýlega hafa tvær bækur um Íslam komið út hér á landi. Fyrir jól kom út bókin Íslamistar og naívistar og í janúar gaf Nýhil út bókina Íslam með afslætti.

Það mætti með dálítilli einföldun segja að bækurnar standi fyrir sitthvora hlið umræðunnar um Íslam, annars vegar hlið þeirra sem hafa efasemdir um ágæti Íslam og útbreiðslu þeirra trúarbragða á vesturlöndum og hins vegar sjónarmið fólks sem finnst umræðan um Íslam einkennast af fordómum og rangfærslum.

Hér mun ég fjalla frekar óformlega um þessar bækur. Ég las Íslamistar og Naívistar fyrst, þvínæst Íslam með afslætti áður en ég renndi aftur yfir fyrri bókina. Það er fróðlegt að lesa þessar bækur hvora á eftir annarri. Að vissu leyti kallast þær á, í bókunum koma fram fullyrðingar sem ekki er getið í hinni og í raun virka þær að mínu mati betur saman en einar sér. Þrátt fyrir það er að stórum hluta ekki verið að fjalla um sömu hugtök í þessum bókum og efni þeirra skarast ekki mjög mikið.

Íslamistar og naívistar

Bókin Íslamistar og naívistar kom út í Danmörku árið 2006 og er eftir hjónin Karen Jesperson og Ralf Pittelkow. Karen er ráðherra í ríkisstjórn Danmerkur og Ralf er pistlahöfundur. Bæði eru þau hjónin hægra megin í pólitík og ég held að ekki sé umdeilt að þau teljist íhaldssöm í innflytjendamálum. Bókin er skrifuð í kjölfar skopmyndamálsins fræga og er að hluta uppgjör þeirra hjóna við þá umræðu sem varð í Danmörku og Evrópu. Hægrimenn hér á landi tóku bókinni fagnandi og lofsamlegir dómar birtust um hana hjá ýmsum íhaldsmönnum.

Íslamistar og naívistar kom mér skemmtilega á óvart. Ég átti satt að segja von á því að hún væri einhliða og öfgafull en í raun finnst mér hún nokkuð hófsöm. Hugtakið Íslamisti mætti þó vera betur skilgreint, tilraunir til að skilgreina það eru ekki nægilega góðar að mínu mati þó lítið vanti upp á. Höfundar gera greinarmun á múslimum og íslamistum, íslamistar eru samkvæmt þeim öfgafullir múslimar sem vilja taka upp sharía lög auk þess að beita sér pólitískt. Höfundar taka sérstaklega fram að með hugtakinu eigi þeir ekki við þá öfgafullu múslima sem standa fyrir hryðjuverkjum heldur séu þeir að fjalla um hógværari (en þó öfgafullan) hóp. Enda er það svo að lítið er fjallað um hryðjuverk í bókinni.

Umfjöllun um skopmyndaumræðuna í Danmörku er að mínu mati sísti hluti bókarinnar. Ljóst er að höfundar eru þátttakendur í þeim leik og því finnst mér vanta veigamikil atriði í þá umfjöllun. Til að mynda er nær ekkert fjallað um pólitíska umræðu í Danmörku á árunum áður en það mál kom upp. Einnig er undarlegt að lítið sem ekkert er fjallað um yfirgang vesturlanda í miðausturöndum. Að mínu mati er vafasamt að skrifa heila bók um þetta efni án þess að fjalla um stríðið í Írak og Afganistan eða ástandið á hernumdu svæðunum og áhrif þess á múslima í Evrópu. Einnig er ákveðið ósamræmi í umfjöllun um slæður kvenna. Annars vegar er fjallað um þann þrýsting sem konur verða fyrir frá samfélaginu (og þá aðallega ungum ofsatrúuðum karlmönnum) til að bera blæjur en svo er á öðrum stað bent á að fjölmargar ungar múslimskar konur séu gagnrýnar á vesturlönd og kjósi því að bera slæðu. Í bókinni er ekki minnst á að ritstjórar Jótlandspóstsins höfðu áður neitað að birta skopmyndir af Jesús. Slík göt í umfjöllun eru frekar óheppileg, af hverju var þeim myndum hafnað og gerðust ritstjórar Jótlandspóstsins sekir um tvöfeldni?

Íslamistar og naívistar er að mínu mati ágæt þó frekar mikið af endurtekningum séu henni er bókin hlutlausari en ég átti von á miðað við lof hægrisinnaðra íhaldsmanna. Þ.e.a.s. höfundar virðast leggja sig fram um að beina málflutningi gegn öfgafullum íslamistum en ekki venjulegum múslimum. Lögð er áhersla á að barátta gegn íslamistum sé hógværum múslimum í hag - þetta sé líka þeirra barátta. Þeir hafi margir flúið heimalandið vegna ofstækisfullra trúarafla en séu nú að hitta þessu sömu öfl fyrir í Evrópu.

Vel má vera að höfundar bókarinnar séu fordómafyllri en lesa má úr bókinni. Ég sé ekki betur en að vandamálin sem til umræðu eru í henni séu raunveruleg og þess virði að ræða. Uppgangur öfgafullra múslima á vissum svæðum Evrópu er staðreynd hvort sem okkur líkar betur eða verr. Er lausnin sú að búa til trúarríki í ríkinu, þar sem múslimar búa út af fyrir sig, mennta börn sín í múslímskum skólum og leysa deilumál í sérstökum dómstólum eða ættu Evrópulönd að leggja sig fram um að aðstoða múslima og aðra útlendinga í því að aðlagast og verða hluti af samfélaginu? Erum við að gera hófsömum múslimum greiða með lúffa fyrir þeim öfgafullu?

Að lokum vil ég taka fram að mér finnst það ekki góður leikur hjá höfundum að nota hugtakið naívistar í þessu samhengi.

Íslam með afslætti

Aðstandendum bókarinnar Íslam með afslætti þótti umræðan um Íslam vera yfirborðskennd og byggja á fordómum og því réðust þeir í það verk að gefa út þetta ritgerðasafn.

Bókin ber þess merki að vera unnin í hraði. Hún er samansafn stuttra pistla sem sumir hafa birst áður. Pistlarnir eru ekki tímasettir og því stingur t.d. í stúf að lesa grein sem fjallar um það hvort Bandaríkjamenn muni ráðast inn í Írak.

Það er enginn vafi á því að hluti umræðunnar um Íslam hér á landi byggist á vanþekkingu og bullandi fordómum. Það er því göfugt verkefni að reyna að uppfræða fólk um Íslam og eyða þeim fordómum sem vissulega eru til staðar.

Að mínu mati tekst það alls ekki í bókinni Íslam með afslætti. Í gríni hafa aðstandendur bókarinnar sagt að þau vilji flækja umræðuna og ég held það sé í raun ágætis lýsing á bókinni. Umræðan er flækt en ekki einfölduð.

Í bókinni eru nokkrar ansi góðar greinar, sérstaklega finnst mér grein Sigurðar Ólafssonar alþjóðastjórnmálafræðings, Skrímslið undir rúminu, gott innlegg í umræðuna í kjölfar útgáfu Íslamistar og naívistar. Í grein sinni fjallar Sigurður um pólitíkina í Danmörku á árunum fyrir skopmyndamálið. Nokkrar aðrar greinar eru fróðlegar en bæta litlu við, þeir Íslendingar sem telja alla múslima mögulega hryðjuverkamenn eru ólíklegir til að lesa þessa bók og láta sannfærast. Þeir eru reyndar ólíklegir til að lesa nokkra bók en það er önnur saga. Í bókinni koma fram nokkrir ágætir punktar, t.d. er sterkur leikur að benda á að flestir þeirra sem létust í óeirðum sem tengdust skopmyndamálinu voru múslimar sem voru að mótmæla og urðu fyrir barðinu á stjórnvöldum í heimalandi sínu. Annað mætti stundum halda af umræðunni um mótmælin gegn skopmyndunum.

Umfjöllun bókarinnar er að mínu mati óþarflega einhliða og umfjöllunarefnið of afmarkað við skopmyndamálið. Í þeirri umfjöllun er t.d. ekki fjallað um að fjölmargir múslimar sjá ekkert athugavert við að teikningar séu gerðar af spámanninum og að til er fjöldi teikninga af Múhameð eftir múslima. Einnig finnst mér tilhneiging til að afgreiða þá sem verja birtingu myndanna með frekar ódýrum hætti, sérstaklega gerist Viðar Þorsteinsson blaðamaður og heimspekingur sekur um þetta í greininni Skopmyndirnar sem afhjúpun sannleikans þar sem hann stillir þeim upp í tvo hópa sem varla má sjá hvor er verri eða einfaldari. Í viðtali sem Viðar tekur svo við Yousef Inga Tamini blasir við að Viðar hefur mun sterkari skoðanir á þessu máli en viðmælandi hans. Þarna hefði Viðar frekar mátt skrifa grein með eigin skoðunum í stað þess að blanda saklausum viðmælanda í málið.

Tilraun til að vekja viðbrögð með skopmyndum í lok bókarinnar er gjörsamlega misheppnuð. Skopmyndirnar ná hvorki að vekja bros né hneykslan og missa algjörlega marks.

Umfjöllun um umræðuna á Íslandi er ómarkviss. Tvær greinar fjalla beinlínis um það mál og eru báðar af ódýrari sortinni, Eiríkur Örn Norðdahl tekur saman fyrirsagnir af mbl.is og birtir í belg og biðu meðan Gísli Hvanndal birtir ummæli hlustenda Bylgjunnar. Helga Katrín Tryggvadóttir og Katla Ísaksdóttir vitna í tvær aðsendar blaðagreinar og snúa út úr efni beggja að mínu mati*. Ég skil ekki af hverju ritstjórar bókarinnar reyndu ekki að fá vandaða umfjöllun um þá umræðu sem átt hefur sér stað um þessi mál hér á landi síðustu ár, ég hefði haldið að það væri kjarni málsins.

Það er alls ekki verið að mælast fyrir takmörkun á tjáningarfrelsi í bókinni en þó er mikil áhersla lögð á að ekki sé réttlætanlegt að áreita minnihlutahópa. Vandinn við slíka umræðu er að þegar flestir eru sinnuleysingjar má halda því fram að nær allir sem hafa ákveðnar skoðanir séu í raun hluti af minnihlutahóp. Þannig eru þeir sem aðhyllast kristnar kenningar í raun frekar fáir á Íslandi og trúleysingjar með skoðanir jafnvel enn færri . Vissulega þarf að gæta að réttindum minnihlutahópa, Vantrú hefur svo sannarlega þurft að beita sér í þeirra umræðu þegar kemur að umræðu um trúmál hér á landi en minnihlutahópar geta ekki átt rétt á því að skoðanir þeirra njóti meiri verndar eingöngu út frá því. Trúleysingjar geta ekki gert þá kröfu að aðrir geri ekki grín að þeim en að sjálfsögðu svörum við því þegar okkur finnst gagnrýni á okkur ómakleg. Ég veit ekki til þess að margir setji út á að múslimar svari fyrir sig.

Því miður er umræðan um Íslam á vesturlöndum pólitísk og fólk skiptist í fylkingar út frá úreltum línum hægri og vinstri. Eitt skýrasta dæmið um það er hvernig Ayan Hirsi Ali er afgreidd í Íslam með afslætti. Hún er gerð ómarktæk vegna pólitískra skoðana meðan aðrir gagnrýnendur Íslam sem setja fram sömu fullyrðingar og Ali eru einfaldlega hundsaðir. Maryam Namazie sem kom til Íslands á sama tíma og Ali er ekki nefnd í bókinni. Hún er formaður félags fyrrum múslima í Bretlandi og eins og allir vita sem á hana hlýddu þegar hún heimsótti okkur – ákaflega harður gagnrýnandi Íslam. Kannski skiptir einhverju máli að Namazie er kommúnisti.

Íslam með afslætti bætir að mínu mati frekar litlu við umræðuna um Íslam. Skoðanir þeirra sem standa að bókinni virðast alveg jafn einstrengislegar og skoðanir þeirra sem þeir gagnrýna. Er íslamismi virkilega eitthvað sem vesturlandabúar þurfa að hafa áhyggjur af? Því er ekki svarað í þessari bók og af málflutningi aðstanda hennar í fjölmiðlum virðist svarið vera að íslamismi sé í raun mýta. Ef svo er finnst mér vanta betri rökstuðning fyrir því, ekki er nóg að afgreiða alla þá sem því halda fram á þeim forsendum að þeir séu fordómafullir hægrimenn því þessi umræða einskorðast ekki við þann hóp.

*Önnur þeirra er greinin Íslam og upplýsingin sem birtist m.a. sem aðsend grein hér á Vantrú.

Matthías Ásgeirsson 08.02.2008
Flokkað undir: ( Bókaskápur efahyggjunnar , Íslam )

Viðbrögð


Eva Hauksdóttir - 08/02/08 13:35 #

Ein athugasemd. Þú segir "Íslam með afslætti kom mér skemmtilega á óvart" en af samhenginu er helst að ráða að þú eigir við hina bókina. Er það rétt til getið?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/02/08 13:36 #

Það er rétt til getið hjá þér. Takk fyrir þessa leiðréttingu.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 08/02/08 13:50 #

Í samtali sem ég átti við Salmann Tamimi kvartaði hann einmitt undan að menn álitu alla múslima islamista. Fram að því hafði ég ekki áttað mig á muninum þar á.

íslamistar eru samkvæmt þeim öfgafullir múslimar sem vilja taka upp sharía lög auk þess að beita sér pólitískt.

Stjórnmál og trúmál eru banvæn blanda, og bannvæn.

Takk fyrir þessa úttekt.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 08/02/08 17:42 #

Þó ég verði að viðurkenna að ég hafi ekki lesið Íslam með afslætti. Þá held ég samt að það sem þeir eru að reyna að gera með henni sé virkilega verðugt starf sem (ef gert er almennilega)mun skila betra samfélagi fyrir alla.


óðinsmær - 08/02/08 20:11 #

mér finnst það æðislegt að þið takið þetta fyrir. Bara svona ef þið efist um að þemavika sé góð hugmynd þá er það óþarfi, ég er þegar orðin spennt að vita hvað verður í næstu!!!


Hildur - 10/02/08 11:38 #

Heil og sæl, Þetta er áhugaverð bókagagnrýni og umfjöllun um minnihlutahópa og Islam og langar mig í framhaldi af því að benda á bók sem heitir "Is Multiculturalism Bad For Women?" í ritstjórn Susan Moller Okin. Þessi bók tekur sterklega á stöðu kvenna innan trúahefða og minnihlutahópa og bætir að mínu mati heilmiklu inn í þá umræðu sem átt hefur sér stað um trúfrelsi, minnihlutahópa, Islam, kristni o.s.frv.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/04/08 14:01 #

Ég mæli með umfjöllun Ingólfs Gíslasonar um Íslamistar og Naívistar á Kistunni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.