Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Íslam og upplýsing

Viðbrögð hins íslamska heims við skopteikningunum sem birtust af spámanninum Múhameð í Jótlandspóstinum á síðasta ári vekja undrun margra Vesturlandabúa, en ef betur er að gáð eru þessi viðbrögð vel skiljanleg. Þegar þau eru sett í samhengi við þá staðreynd að fyrir nokkrum árum var pakistanskur kennari dæmdur til dauða fyrir að varpa þeirri hugmynd fram í kennslustofu sinni að Guð væri e.t.v. ekki til kemur í ljós að vestræn menning stendur þeirri íslömsku framar í einu grundvallaratriði: Hún hefur farið í gegnum upplýsingu.

Rætur þeirra lýðréttinda sem Vesturlandabúar njóta liggja í upplýsingahreyfingu 18. aldar. Skynsemishyggja hreyfingarinnar hafnaði yfirnáttúrulegum skýringum jafnt í efnisheiminum sem hinum félagslega og gróf þar með undan hefðarveldi kirkju og konunga með því að draga í efa tilvist þess guðs sem þessar stofnarnir sóttu vald sitt til. Barátta upplýsingarmanna gegn áhrifum guðfræðinnar á efnis- og félagsheiminn hélt áfram á 19. öld og má segja að árið 1859 hafi markað tímamót í þessari baráttu því þá komu út tvö rit sem hvort á sinn hátt vörðuðu leiðina að þeim skilningi sem Vesturlandabúar hafa í dag á umhverfi sínu og menningu. Ritin sem hér um ræðir eru Uppruni tegundanna eftir Charles Darwin, þar sem sýnt var fram á að lífið á jörðinni hafi orðið til án guðlegra afskipta, og Frelsið eftir John Stuart Mill, sem við skulum líta nánar á.

Mill taldi málfrelsi ófrávíkjanlegt "skilyrði andlegrar velferðar mannkynsins, en á andlegri velferð þess byggist öll önnur velferð". Til þess að færa rök fyrir þessari afstöðu tók hann "dæmi, sem kemur málstað mínum hvað verst, þar sem rökin gegn skoðanafrelsi virðast hvað öflugust, bæði hvað varðar sannleiksgildi og nytsemi", þ.e. efasemdin um tilvist Guðs. Eftir miklar bollaleggingar um þetta efni komst Mill að þeirri niðurstöðu að ættu menn "aðeins tveggja kosta völ, riði miklu meira á að verja trúleysið gegn svívirðilegum árásum en trúna" og að "í þessum efnum eiga hvorki þing né stjórn að hafa nein afskipti".

Vestræn menning hefur því síðan á 18. öld smátt og smátt lagað sig að kröfu Mills um málfrelsi og réttinn til að hafna tilvist guðs, meðan hinn íslamski heimur hefur ekki gengið í gegnum neina viðlíka þróun. Íslamska upplýsingin á enn eftir að eiga sér stað og er Tyrkland að ýmsu leyti undantekningin sem sannar regluna. Í þessu ljósi vekur furðu að myndbirting Jótlandspóstsins er að öllum líkindum ólögleg hér á landi. Þetta stafar af því að í 125. grein almennra hegningarlaga stendur að "hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum]". Tími er kominn til að þessari lagagrein verði hent út enda er hún eftirlegukind þess tíma þegar Þjóðkirkjan hafði næg ítök hér á landi til þess að standa í vegi fyrir hugsjónum upplýsingarinnar, sem kristallast í andófi hennar gegn réttindabaráttu samkynhneigðra.

Steindór J. Erlingsson 15.02.2006
Flokkað undir: ( Siðferði og trú , Íslam )

Viðbrögð


danskurinn - 15/02/06 10:50 #

"Mill taldi málfrelsi ófrávíkjanlegt "skilyrði andlegrar velferðar mannkynsins, en á andlegri velferð þess byggist öll önnur velferð".

Góð grein en smá athugasemd samt sem áður. "Andleg velferð" er vissulega undirstaða að góðu lífi. Festir munu geta tekið undir það. Samkvæmt mínum skilningi á viðhorfi vantrúarseggja getur ekkert verið til sem kallast "andlegt" í þeim skilningi að það skeri sig frá því sem er efnislegt. Enda mun samkvæmt þessu viðhorfi, ekkert vera til sem er andlegt. "Andleg velferð" er því villandi hugtak eða amk í mótsögn við þá skoðun að veröldin sé eingöngu efnisleg tímbundin hreyfing.

Margir vitna í Mill sem telst meðal mestu "andans manna". Það gæti verið valkvæm hugsun að velja úr skrifum hans það sem fólki líkar í dag en hafna öðru sem er ekki jafn andlega í samhljómi við tíðarandann. Mill var hlyntur dauðarefsingu og færði sterk rök fyrir nauðsyn hennar. Sú skoðun hans er í samhljómi við Íslam og upplýsingaskort.


Magnús - 15/02/06 11:08 #

Ég ætla að geta mér þess til að "andlegt" sé hér notað til aðgreiningar frá því líkamlega og að athugasemdin að ofan sé tilraun til útúrsnúnings.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 15/02/06 11:55 #

Mill var hlyntur dauðarefsingu og færði sterk rök fyrir nauðsyn hennar. Sú skoðun hans er í samhljómi við Íslam og upplýsingaskort.

Ólíkt þeim sem aðhyllast kristni og vilja öllum vel... hahahahaha!


Steindór J. Erlingsson - 15/02/06 12:43 #

Það gæti verið valkvæm hugsun að velja úr skrifum hans það sem fólki líkar í dag en hafna öðru sem er ekki jafn andlega í samhljómi við tíðarandann. Mill var hlyntur dauðarefsingu og færði sterk rök fyrir nauðsyn hennar. Sú skoðun hans er í samhljómi við Íslam og upplýsingaskort.

Danskur þú virðist ekki þekkja vel til verka Mills. Dauðarefsing þótti eðlileg í Bretlandi fram yfir miðja síðustu öld, en þá fyrir glæpi eins og morð, sem enn tíðkast í hinum kristnu Bandaríkjum. Til marks um hversu samkvæmur Mill var sjálfum sér í baráttunni fyrir auknu frelsi í samfélaginu skrifaði hann fyrsta feministarit sögunnar, sem nefnist Kúgun kvenna og var gefið út sem Lærdómsrit HIB fyrir nokkrum árum. Danskur tilraun þín til þess að snúa útúr er virðingarverð en gengur ekki upp!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/02/06 12:52 #

danskur, ég veigra mér ekkert við að nota orðið andlegur, ekki frekar en sál, hvort tveggja í skilningum hugarstarf. Eintal sálarinnar, andlegir þættir, andleg veila - allt saman gott og gilt.

Það er ekki fyrr en menn fara að tengja þetta hugtak yfirnáttúru (sem ég held reyndar að sé upprunalega merkgingin) að við tökum til við gagnrýni okkar. Hún beinist þó ekki að hugtakinu eða orðinu sem slíku, heldur þeirri merkingu sem haldið er á lofti.

Útúrsnúningur, já, því þetta áttu að vita, danskur.


danskurinn - 15/02/06 20:46 #

Gerð var athugasemd við eftirfarandi fullyrðingu: "...á andlegri velferð [mannkyns] byggist öll önnur velferð". Sú athugasemd var á engan hátt útúrsnúningur. Í heimi sem er efnislegur einvörðungu, eins og margir álíta, hlýtur allt ástand að vera efnislegt og efnislegt ástand því að vera grundvöllur tilveru okkar. Samkvæmt því er andleg velferð okkar algerlega háð efnislegu ástandi okkar. Ég skil ekki hvernig menn ætla bæði að eiga kökuna og éta hana.

Steindór skrifar: "Danskur þú virðist ekki þekkja vel til verka Mills. Dauðarefsing þótti eðlileg í Bretlandi fram yfir miðja síðustu öld, en þá fyrir glæpi eins og morð, sem enn tíðkast í hinum kristnu Bandaríkjum."

Auðvitað veist þú ekkert um hvort ég hef lesið Mill vel eða illa. Ábending mín um að Mill hefi verið fylgjandi dauðarefsingu er amk vísbending um að ég hafi lesið eitthvað. Dauðarefsingar í BNA eru í samhljómi við það sem gerist og gengur hjá Íslam og rökstuðning Mill um nauðsyn dauðarefsinga. Rökstuðningur Mill fyrir nauðsyn dauðarefsinga hefur ekkert með það að gera hvað þótti eðlilegt á Bretlandi á hans tíma. Ekki frekar en annað sem þótti eðlilegt á sama tíma og Mill skrifaði um.

Steindór J. Erlingsson skrifar: "Til marks um hversu samkvæmur Mill var sjálfum sér í baráttunni fyrir auknu frelsi í samfélaginu skrifaði hann fyrsta feministarit sögunnar, sem nefnist Kúgun kvenna og var gefið út sem Lærdómsrit HIB fyrir nokkrum árum. Danskur tilraun þín til þess að snúa útúr er virðingarverð en gengur ekki upp!"

Ég hef ekki haldið því fram Mill væri ósamkvæmur sjálfum sér. Ég var að halda því fram að þú værir það. Tilraun þín til að leiða það hjá þér er misheppnuð.


Steindór J. Erlingsson - 15/02/06 21:36 #

Danskur ég fæ ekki séð hvernig þú getur sakað mig um ósamkvæmni í notkun minni á Mill. Þú getur ekki borið saman beitingu dauðrefsinga innan íslmanskrar menningar og þess sem gerðist á Bretlandi á 19. og 20. öld eða í Bandaríkjnum samtímans því þar hafa menn ekki verið líflátnir fyrir skoðanir sínar. Annars er ég ekkert fyrir að munnhöggvast við einstaklinga sem koma fram undir dulnefni.


danskurinn - 15/02/06 23:53 #

Steindór skrifar: "Danskur ég fæ ekki séð hvernig þú getur sakað mig um ósamkvæmni í notkun minni á Mill. Þú getur ekki borið saman beitingu dauðrefsinga innan íslmanskrar menningar og þess sem gerðist á Bretlandi á 19. og 20. öld eða í Bandaríkjnum samtímans því þar hafa menn ekki verið líflátnir fyrir skoðanir sínar."

Ég er ekkert að bera saman beitingu dauðarefsinga á mismunandi svæðum á mismunandi tíma. Alls ekki. Ég tel dauðarefsingar óréttlætanlegar og engan eðlismun mögulegan á beitingu þeirra. Í ágætri grein þinni um málfrelsi og upplýsingu nefnir þú dæmi um hvernig íslömsk menning stendur lakar en sú vestræna og heldur fram þeirri skoðun að vestræn menning hafi síðan á 18. öld smátt og smátt lagað sig að kröfu John Stuart Mill um málfrelsi og réttinn til að hafna tilvist guðs, meðan hinn íslamski heimur hefur ekki gengið í gegnum neina viðlíka þróun. Eflaust er það rétt, en dæmið um líflátsdóminn sem þú nefnir, er að mínu mati klaufalegt, því John Stuart Mill færði sterk rök fyrir beitingu dauðarefsinga og var hlyntur þeim á meðan margir samtímamenn hans voru á móti þeim. Ef ég man rétt þá var það einmitt afstaða Mill og hans pólitísku áhrif sem framlengdu tilvist dauðarefsinga á Englandi um marga áratugi. Mill taldi að óumflýjanlegir líflátsdómar yfir saklausum væru réttlætanlegur fórnarkostnaður.


Steindór J. Erlingsson - 16/02/06 00:38 #

Danskur ég er sammála þér um að dauðarefsingar séu aldrei réttlætanlegar en ég geri samt greinarmun á því að vera dæmdur til dauða fyrir að fremja morð og að fá viðlíka dóm fyrir að viðra skoðanir sínar. Þetta er kjarninn í boðskap Mills, þ.e. engin á að líða fyrir skoðanir sýnar. Annars þekki ég ekki til skoðana Mills á dauðarefsingum því ég hef einungis lesið vísindaheimspeki hans, Frelsið og Kúgun kvenna.


Kalli - 17/02/06 21:45 #

Algjört aukaatriði í þessu samhengi en get samt ekki stillt mig þegar Steindór segir í svari að Kúgun kvenna eftir Mill (hr. og/eða frú) sé fyrsta feministarit sögunnar. Steindór veit væntanlega fullvel af Mary Wollstonecraft og riti hennar A vindication of the rights of woman. Þetta er því vel meint aukaatriðis neðanmáls athugasemd.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.