Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Biblían er óhæfur grunnur siðferðis

Í 24 stundum þann 22. nóvember svarar Magnús nokkur Haraldsson grein sem ég skrifaði fyrir nokkru til að rökstyðja að biblían móti ekki siðferðisvitund samfélags okkar heldur hafi siðferðisvitund samfélagsins áhrif á það hvernig biblían er túlkuð*. Reyndar ákvað Magnús að nefna mig ekki á nafn í grein sinni. Hugsanlega er það af því að það væri óþægilegt fyrir hann ef einhver myndi bera saman það sem hann segir að ég hafi sagt við það sem ég raunverulega sagði.

Þó ég sé mikill áhugamaður um ættfræði þá kom það mér á óvart þegar Magnús tilkynnti það að forfeður mínir, og reyndar hans líka, hefðu ritað biblíuna og oft varðveitt með lífi sínu. Mér þóttu þetta ákaflega merkilegar fréttir. Ég hafði enga hugmynd um að ég ætti ættir mínar að rekja til Gyðinga og Grikkja. Ég er spenntur að fá að heyra meira um þessi ættmenni mín. Eini forfaðir minn sem ég veit að dó vegna trúarskoðanna sinna er Jón Arason Hólabiskup. Það er nú samt ekki hægt að segja að hann hafi dáið við að varðveita biblíuna, hann var aðallega að verja kaþólsku kirkjuna. Persónulega er ég þó á þeirri skoðun að engin bók sé þess virði að deyja fyrir.

En það gæti verið að þessi klausa Magnúsar hafi nú bara verið innantómt blaður eins og flest í grein hans. Magnús segir að líka að "[s]tofnendur vestrænnar menningar höfðu Biblíuna í brjóstvasanum þegar grunnur vestrænnar samfélagsgerðar var lagður, þar með talið grunnur laga, stjórnarskráa o.s.frv." Þarna færir Magnús uppruna vestrænnar menningar töluvert nær okkur í tíma en áður hefur verið gert. Yfirleitt telja menn elstu rætur vestrænnar menningar liggja í Grikklandi hinu forna.

En þó við hunsum þessa tímaskekkju Magnúsar þá stendur eftir að fullyrðing hans um að grunnur nútíma vestrænnar samfélagsgerðar, laga og stjórnarskráa séu nátengd biblíunni er röng. Lagakerfi nútímans og stjórnarskrár eru arfleið frjálslyndra strauma upplýsingarinnar og sú stefna er ekki þekkt fyrir að hafa verið jákvæð í garð trúar.

Magnús vill meina að áhrif biblíunnar séu meiri en ég held fram. Ég játa það vissulega að fólk vitnar í biblíuna til að styðja skoðanir sínar. Það er hins vegar þannig að það vandar sig við að velja klausur sem henta þeim. Það sem ekki hentar er hunsað (eða þýtt upp á nýtt). Þú getur fundið góðar klausur hér og þar en ef þú ætlar raunverulega að nota biblíuna til þess að móta siðferðisvitund þína þá mun þér mistakast.

Aðalástæðan fyrir því að biblían getur í raun ekki myndað siðferðislegan grundvöll fyrir einn né neinn er að í henni er ekki hægt að finna neinn samstæðan siðferðisboðskap. Flestir vita að það er ekkert samræmi í siðferðisboðskap nýja testamentisins og þess gamla. Það átta sig hins vegar færri á að það er enginn leið að byggja samhangandi siðferðiskenningu úr guðspjöllunum fjórum og hvað þá nýja testamentinu sem heild. Samfélögin sem mótuðu sögurnar höfðu ólíkar hugmyndir og þær endurspeglast í textanum sem við höfum núna. Það er kannski minni munur á samstofna guðspjöllunum en hann er þó til staðar. Það sem kemur samt aðallega í veg fyrir að við getum fundið einhvers konar siðferðisboðskap til að byggja samfélög á innan nýja testamentisins er sá að Jesús var ekki að reyna að búa til slíkar kenningar. Jesús bjóst einfaldlega við að dómsdagur væri í nánd og við þær aðstæður er engin ástæða til að búa til stórar siðfræðikenningar sem nýtast í framtíðinni.

Magnús notar sjálfur þá aðferð að velja góðu punktana og vitnar í kærleiksboðorðið (sem hann eignar Jesús þó það sé upprunalega úr þriðju Mósebók 19:18). Aldrei myndi ég neita að það er hægt að finna jákvæðan boðskap í biblíunni þó ég bendi á að þar sé hægt að finna mjög slæman boðskap þar líka. Hins vegar fer Magnús þarna langt með að undirstrika að ég hef rétt fyrir mér varðandi það biblían er ekki siðferðislegur grundvöllur samfélags okkar. Það er nefnilega þannig, því miður í raun, að fólk elskar náungann ekki eins og sjálft sig. Það að fólk fari ekki eftir þeim boðskap sem er hvað oftast endurtekinn úr biblíunni segir okkar einfaldlega að samfélag okkar byggir ekki á biblíulegum grunni. Það er annars kaldhæðnislegt að Magnús velji þessa tilvitnun í ljósi þess að tónninn í grein hans er ekkert sérstaklega elskulegur í minn garð.

Trúað fólk sem hefur ríka siðferðiskennd velur sér fallegan boðskap úr biblíunni til að fara eftir á meðan trúað fólk með slaka siðferðisvitund velur sér vondan boðskap úr biblíunni til að fara eftir. Biblían þjónar þarna engum mótunartilgangi heldur gefur fólki trúarlega réttlætingu fyrir skoðunum sínum. Biblían fellur þar af leiðandi um sjálfa sig sem rökstuðningur í deilum um siðferðislega álitamál. Hún er óþarfur milliliður. Í siðferðislegum álitamálum skiptir engu hverjir finna hentugustu tilvitnunina til að styðja sinn málstað.

Við þurfum að byggja siðferðiskennd okkar á sterkari og betri grunni.


*Er Grænsápubiblían siðferðilegur grunnur lífs okkar?

Óli Gneisti Sóleyjarson 08.01.2008
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Svanur Sigurbjörnsson - 08/01/08 12:03 #

Góður og þarfur pistill hjá þér Óli Gneisti. Sú söguafbökun sem á sér stað hjá ýmsum trúarleiðtogum er til skammar. Þeir vilja eigna Kristninni allar framfarir þegar í raun urðu þær þrátt fyrir hana. Upplýsingin og vísindin urðu sjálfsagt að hluta til fyrir tilstuðlan líffræðilegrar þróunar mannsins, en virðist eiga langt í land með að hafa skilað sér fyllilega - því miður.


Arnar - 08/01/08 13:52 #

Það sem mér finnst sorlegast er að fólk þurfi einhverja bók eins og biblínua eða trú yfirhöfuð til að öðlast siðferði. Heldur þetta fólk að heimurinn yrði algerlega siðlaus ef trúarinnar nyti ekki við?

Hvernig er það, þegar það finnst nýr ættbálkur einhverstaðar í fjarskanistan sem hefur aldrei heyrt neitt um boðorðin 10 eða annann utan að komandi siðferðisboðskap, er þetta fólk þá algerlega siðlaust og siðblint?


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 08/01/08 13:55 #

Neee - bara kallaðir "villimenn" þangað til það er orðið kristið!


Jói - 08/01/08 15:09 #

Er þessi Magnús Haraldsson ekki einmitt rugludallurinn sem kemur með heimsendaspádóm hérna þegar hann er að plögga plötuna sína?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 08/01/08 15:39 #

Hann titlaði sig allavega sem meðlim í einhverri hljómsveit sem ég hafði aldrei heyrt um. Líklega er þetta hann.


Haukur Ísleifsson - 08/01/08 22:55 #

"Heldur þetta fólk að heimurinn yrði algerlega siðlaus ef trúarinnar nyti ekki við?"

Félagsfræðikennarinn minn hefur gefið það í skyn.


ragnheidurg - 11/01/08 14:58 #

,,Trúað fólk sem hefur ríka siðferðiskennd velur sér fallegan boðskap úr biblíunni til að fara eftir á meðan trúað fólk með slaka siðferðisvitund velur sér vondan boðskap úr biblíunni til að fara eftir. Biblían þjónar þarna engum mótunartilgangi heldur gefur fólki trúarlega réttlætingu fyrir skoðunum sínum. Biblían fellur þar af leiðandi um sjálfa sig sem rökstuðningur í deilum um siðferðislega álitamál. Hún er óþarfur milliliður. Í siðferðislegum álitamálum skiptir engu hverjir finna hentugustu tilvitnunina til að styðja sinn málstað,,

Trúað fólk er eins og ég og þú. Trúað fólk er eins misjafnt og mennirnir eru margir. Boðskapur Biblíunnar er bara fallegur, en ég skil samt pínu hvert þú ert að fara af því að ég var einu sinni á svipuðum stað og þú. En í dag er ég þakklát fyrir að hafa gefið því tíma að lesa, stúdera og reyna að skilja Biblíuna og hennar boðskap. Manneskjan sjálf getur síðan mistúlkað margt, þar á meðal Biblíuna.

Því að það er manneskjan sjálf sem að er ófullkomin og mjög takmörkuð. Við náum aldrei að skilja allt og mín skoðun er sú að okkur er ekki ætlað að skilja allt

Við lifum í því ljósi sem að við eigum þar á meðal ég og þú.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 11/01/08 15:32 #

Boðskapur Biblíunnar er bara fallegur,...

Mér finnst að þú ættir að lesa eitthvað í biblíunni áður en þú kemur með svona augljósar vitleysur.


Haukur Ísleifsson - 11/01/08 16:35 #

And he said, Take now thy son, thine only son Isaac, whom thou lovest, and ... offer him there for a burnt offering. -- 22:2

And Abraham stretched forth his hand, and took the knife to slay his son. -- 22:10

And Er, Judah's firstborn, was wicked in the sight of the LORD; and the LORD slew him. -- 38:7

And the thing which he did displeased the LORD: wherefore he slew him also. -- 38:10

Gætiru verið svo væn að benda mér á fallega boðskapinn sem hefur farið fram hjá mér?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.